miðvikudagur, september 29

afgrunn

Það er undarleg tómleikatilfinning sem kemur yfir mann þegar maður er búinn að fletta í gegnum öll helstu bloggin og vafra um merkilegustu bókamerkin. Svo situr maður og horfir á skjáinn og reynir að upphugsa einhverja heimasíðu sem gæti verið gaman að skoða. Ætli þetta sé normalt?

þriðjudagur, september 28

fimmtudagur, september 23

á hjólabretti skemmt'ég mér tralalala...

Einn af fylgifiskum kennaraverkfallsins er sá að það er ekki þverfótandi fyrir grislingum á götum borgarinnar sem leggja sjálfa sig og aðra vegfarendur í stórhættu með því að renna sér á hjólabretti af vafasamri færni. Ég er búinn að keyra niður nokkra í dag (eða svona næstum því), um daginn þegar ég beygði niður Stýrimannastíginn á leið heim voru ca. 6 búnir að koma sér fyrir í röð efst í brekkunni, sitjandi á hjólabrettum og hugðust láta sig gossa niður. Gaman hjá þeim. Það dreifðist þó úr hópnum þegar ég lét hvína í flautunni, og nokkrar löngutangir sáust á lofti. Ég tók það auðvitað óskaplega nærri mér. Eða þannig. Af einhverjum ástæðum hef ég bara séð stráka úti við. Stelpurnar virðast skynsamari og gera eitthvað vitrænna, svosem ekki í fyrsta sinn í sögunni. Hvaða hálfvitagen er þetta sem bara strákar virðast fá við fæðingu? Sem betur fer er minn sonur ekki svona, hann vill helst vera inni og teikna eða vera í pleisteisjon og kvartar hástöfum ef maður reynir að hvetja hann til hreyfingar. Hluti af skýringunni er sú að hann er með vott af ilsigi og fær stundum þreytuverki við áreynslu. Hins vegar gruna ég hann um að nýta sér þessa fötlun sem afsökun fyrir því að hreyfa sig aldrei. En nú er hann kominn með innlegg þannig að nú er engin miskunn. Reyndar ætti ég ekki að segja mikið, sjálfur með krónískt ilsig og hreyfi mig ekki spönn. Nema til að hvetja strákinn, en þá get ég ímyndað mér að mínir stirðlegu tilburðir hafi bara öfug áhrif. En nú þarf ég að fara að keyra drenginn og vin hans í fimleika. Það gæti kostað einhverjar fortölur.

þriðjudagur, september 21

spögelse i slagelse

Mér hefur alltaf þótt þöglar myndir heillandi. Sérstaklega ef þær eru þöglar. Hljóðlausar. Fór einu sinni í bíó í Madrid að sjá þögla rússneska mynd eftir Dziga Vertov, sem á ensku kallast "Man with að movie camera". Hún var þögul. Algjörlega. Ekki einu sinni tónlist. Einn kennari minn í kvikmyndafræðum ráðlagði okkur að skrúfa niður hljóðið þegar við horfðum á bíómyndir heima í stofu, til að geta betur einbeitt okkur að myndmálinu. Og það virkar svosem heima í stofu. En ekki í bíósal fullum af fólki. Af einhverjum ástæðum er mjög óþægilegt að sitja í bíói undir bíómynd án hljóðs. Fólk fer að aka sér í sætum. Maður nokkrum sætum aftar fær skyndilegt hóstakast. Garnir byrja að gaula á konunni sem situr tveimur sætum til vinstri við mann. Sjálfur þarf maður að leysa vind, en getur ekki hugsað sér að trufla þögnina með aftansöng. Svo maður heldur í sér af bestu getu. Fyrir vikið er maður upptekinn af öllu sem fram fer í bíósalnum og heyrist venjulega ekki fyrir látunum í myndinni, það að sitja í bíó og horfa á mynd innan um hóp af fólki verður aðalatriðið. Myndin gleymist. Þess vegna man ég betur eftir því hvað þetta var undarleg reynsla heldur en hvað mér fannst um myndina sjálfa.

Og það er líklega þess vegna sem menn fóru að hafa þó ekki væri nema píanóundirleik undir myndum. Til að hjálpa fólki að gleyma sér. Árið 1921 var gerð þögul mynd í Madrid, sem hét La verbena de la paloma og var byggð á geysivinsælli spænskri zarzuelu (söngleikjaform sem vinsælt var á Spáni í denn, ekki ólíkt að formi og söngleikir Gilberts og Sullivans). Nú var þetta þögul mynd. Meikaði þá nokkurn sens að vera að gera mynd eftir söngleik? Leikstjórinn, José Buchs, leysti það vandamál með glans. Hann lét leikarana syngja línurnar í söngleiknum meðan á upptökum stóð. Við frumsýninguna sáu áhorfendur leikarana syngja en heyrðu auðvitað ekkert í þeim. Svo var hljómsveit í salnum sem spilaði tónlistina úr söngleiknum í takt við leikarana á tjaldinu, og áhorfendur, sem kunnu þetta allt aftur á bak og áfram, sungu með af innlifun. Mikið hefði ég viljað vera á þeirri sýningu. Og þá vaknar auðvitað spurningin: fyrst áhorfendur voru mest í því að syngja á sýningunni, ætli þeir hafi munað eitthvað eftir myndinni sjálfri á eftir? Þeir þekktu söngleikinn og söguna, svo það má hugsa sér að þeir hafi ekkert verið að einbeita sér mikið að kvikmyndatökunni eða klippingunni. Enda gera það ekki nema nördar eins og ég. En þetta var semsé fyrsta karaókí sögunnar.

mánudagur, september 20

sunnudagshækan

hækan er ljóðrænt símskeyti
(Ramón Gómez de la Serna)


hún nálgast mig hægt
lyftir óstyrkri hendi
og strýkur hár mittblonde...

vaaaaáááááá......og mómentið þegar Kazu snerti Amedeo.....
laugardagur, september 18

trönubíó

Ágætu lesendur, þetta er bloggið sem veit ekki hvað það vill vera. Eins og eigandinn kannski. Hver veit? Svo farið sé áfram úr einu í annað án samhengis snýst þessi nýja færsla um bíó. Sá nefnilega áðan að Mír ætlar að sýna Trönurnar fljúga, snilldarmynd úr Krústsjof-þýðunni sem vann gullpálmann í Cannes 1958. Þetta er hið indælasta melódrama, en gert með miklum tilþrifum, myndatakan er eiginlega mest í ætt við Martin Scorsese. Enda er Martin kallinn hrifinn af þessum leikstjóra, Kalatozov, sérstaklega af mynd sem sá gerði á Kúbu rétt eftir byltingu og heitir Soy Cuba, svona Riefenstahl áróðursmynd gerð með stæl. Þar fann Martin víst fyrirmyndina af barskotinu fræga í Goodfellas, þar sem skotið gengur í eitthvað 10 mínútur um allan barinn. En allavega, mæli með Trönunum, hún er betri en þið búist við. Myndavélin stoppar varla allan tímann, og sum skot er að því er virðist ómöguleg, gerð fyrir tíma Steadycam og svoleiðis dóts. Já, og það er frítt inn. Á morgun, sunnudag, kl. 15:00. Ef þið komist ekki verður hún sýnd í Bæjarbíói í Hafnarfirði eftir áramót á vegum Kvikmyndasafns Íslands.

Allavega, hér eru nokkrir linkar sem tengjast trönunum:

Færslan á IMDB
Umfjöllun á Deus Ex Cinema

föstudagur, september 17

skóstara

Zúri gæinn er að rifja upp skóstöruna (e. shoegazer), tónlistartegund sem náði vinsældum um og uppúr 1990. Þetta var skemmtilegt tímabil, draumkennt popprokk, melódíur í felum á bakvið fídbakk og gítarvegg. Fallegur hávaði. Snilldin náði auðvitað hæst með My Bloody Valentine, og fátt sem nær að toppa þá sveit. En það er ekki nóg með að diskópönkið sé að ganga aftur, heldur er eins og skóstaran sé að byrja að smita út frá sér á ný. Reyndar fer þetta allt laumulega fram, engar vinsældasveitir, litlir spámenn að pukra í sínum hornum. Hér koma svo tóndæmi um þetta. Áður hefur verið minnst á Olé, og ekki úr vegi að linka aftur á lagið þeirra fallega:
Olé - The Love Between Us
Önnur sveit rær á svipuð mið, amrísk líka og heitir Sway. Þeir hafa gefið út tvær EP plötur og nýbúnir að koma frá sér smáskífunni Us Girls. Þessi útgáfa lagsins er hins vegar af fyrri ep-plötunni þeirra:
Sway - Us Girls
Þriðja dæmið kemur frá New York eins og fleira gott. Þessi sveit heitir Asobi Seksu, söngkonan er japönsk eða af japönskum ættum og syngur stundum á því fallega máli. Þau er nýbúin að gefa út disk sem heitir sama nafni og hljómsveitin. Hér er tóndæmi, andi My Bloody Valentine svífur hér þungt yfir vötnum:
Asobi Seksu - Sooner

fimmtudagur, september 16

lorca - dali - buñuel

"Ég heimsótti Spán nokkrum sinnum á milli 1925 og 1929 og hitti vini mína á Garði. Í einni þessara ferða kom Dalí til mín og tilkynnti mér hrifinn að Lorca hefði skrifað frábært verk, Ástir don Perlimplín og Belísu í garði hans.
- Ég verð að lesa það fyrir þig.
Federico reyndist ekki viljugur til þess. Honum fannst oft, og ekki af ástæðulausu, að ég væri of frumstæður, of grófur, til að kunna að meta hina fíngerðari þætti leikverka sinna. Dag einn neitaði hann mér jafnvel um að koma með sér í heimsókn til einhverra aristókrata. Hvað um það, vegna þrábeiðni Dalís lét Lorca undan og samþykkti að lesa fyrir mig verkið. Við þrír hittumst á bar í kjallara "Hotel Nacional" þar sem sett höfðu verið upp viðarskilrúm sem mynduðu bása, líkt og í sumum bjórkrám í Mið-Evrópu.
Lorca hóf lesturinn. Hann var frábær lesari eins og ég hef sagt áður. Þrátt fyrir það var eitthvað sem vakti mér ógleði í sögunni um gamla manninn og stúlkuna sem í lok fyrsta þáttar enda saman uppi í himnasæng. Á þeirri stundu kemur dvergur upp úr hvíslarastúkunni og segir: "Gott og vel, ágætu áhorfendur, don Perlimplín og Belísa ..."
Ég stöðva lesturinn með því að slá lófanum í borðið og segi:
- Þetta er nóg, Federico. Þetta er ömurlegt.
Hann fölnar, lokar handritinu og lítur á Dalí. Sá tekur undir með sinni rámu rödd:
- Það er rétt hjá Buñuel, þetta er ömurlegt."
(Úr sjálfsævisögu Buñuels)


Jájá, svona eiga vinir að vera.

miðvikudagur, september 15

ekki fyndið - fyndið

Hver fékk þá brilljant hugmynd að setja baggalút í útvarpið? Þeir eru fyndnir á prenti, stundum meir að segja mjög fyndnir. En í útvarpi? Svo gjörsamlega ófyndnir að það er ekki einu sinni fyndið. Eða þannig.

En þótt baggalútur séu fyndnir á prenti, þá slá þeir ekki út japani. T.d. verður að segjast að þetta er heillandi speki.

þriðjudagur, september 14

bókmenntagetraun...

Getraunatími. Þessi er reyndar svo fáránlega létt að það hálfa væri nóg:

"Aaaah! Það svíkur engan sódavatnið á Akureyri!"
Hver sagði þetta, í hvaða verki og af hvaða tilefni? Verðlaunahafinn má eiga haustlaufin í garði mínum. Rómantísk verðlaun það.

tíví oll ðe tæm

Eina serían sem ég missi ekki af þessa dagana er One Tree Hill. Ekki spyrja afhverju, ég bara festist í þessu í sumar og má ekki missa af neinu nú orðið. Var afar spenntur að sjá hvað Lúkas gerði í kærustumálunum, yrði það Brúkk eða Peiton? Ég var mjög áfram um að hann héldi sig við Brúkk, enda er hún sætari. Svo nottlega klúðraði drengurinn þessu af aðdáunarlega fyrirsjánlegri list. En ég get nú glatt ykkur með því að piltúngurinn sem leikur Lúkas og hnátan sem leikur Brúkk voru víst að trúlofa sig um daginn, svona í arvölunni. Drengurinn poppaði bara á hana hringnum á ferðalagi í Ástralíu. Þetta er nú skemmtilegt líf hjá þessum leikurum, ójá. En ég bíð spenntur eftir næsta þætti. Verst hvað skjár einn sést illa hjá mér...

mánudagur, september 13

laugardagur, september 11

oj...

Ég stend uppi á kolli inni í svefnherbergi og hengi upp nýfaldaðar gardínur,* sonur minn 8 ára og vinur hans sitja inni í stofu og teikna. Allt í einu heyrist í öðrum þeirra: "Oj!!! Hún er á nærbuxunum!!" Ég kíki inn og á sjónvarpið. Viti menn, Crossroads byrjuð og Britney beib að hoppa uppi í rúmi á nærfötunum. Mér segir svo hugur að það séu ekki mörg ár þangað til þeir félagar missi þessa smekkvísi sína í hyldýpi gelgjunnar.


*áður en fólk tekur andköf yfir dugnaði mínum skal þess getið að gardínurnar eru búnar að lafa inn á mitt svefnherbergisfólf og safna ryki í tvo mánuði áður en ég hafði döngun í mér að falda þær (þökk sé Ikea þurfti ég ekki saumavél til).

sunnudagur, september 5

sunnudagshækan

Jæja, best að koma einhverju skikki á þetta blogg. Er þá kynntur til sögunnar nýr dagskrárliður, sunnudagshækan. Fólk getur þá haft eitthvað til að hlakka til í hverri viku. Reyndar er ég þegar búinn að birta eina frekar lítið stolna hæku áður og hér kemur önnur:


saltbragð á vörum
stíg ég keikur ölduna
eftir nótt með þérHmm, dónaskapur er þetta...

fimmtudagur, september 2

svo þreyttur...

Búinn að eyða deginum í að sofa eftir næturvakt dauðans. Nú skal glápt á mynddiska í allt kvöld, með tilheyrandi gosi, súkkulaði. Sykursjokk dauðans. Fátt betra eftir að hafa orðið vitni að mannlegri eymd eins og í nótt. Jamm og já.