föstudagur, október 29

spænskt popp #4

Já, meira popp. Gamalt og nýtt, nýtt og gamalt. Þetta eru reyndar tvær útgáfur á sama laginu. Lagið heitir "La bién pagá" ("Sú sem fær vel borgað" eða eitthvað í þá áttina), spænsk copla (hefðbundið spænskt dægurlagaform, vísar eiginlega til forms söngtextans, þ.e. fjórar línur þar sem 1. og 3. og svo 2. og 4. ríma. Sumsé ferskeytla) blandað með flamenco-áhrifum og var samin af þeim félögum Pereillo og Mostazo. Það hafa ýmsir sungið þetta lag í gegnum tíðina, en frægasta túlkunin kemur frá Miguel de Molina. Ég var að horfa á Qué he hecho yo para merecer esto e. Pedro Almodóvar um daginn (það er myndin þar sem Carmen Maura drepur tuddalegan eiginmann sinn með því að lemja hann í hausinn með kjötlæri), og þar kemur þessi útgáfa lagsins fyrir, reyndar mæmar Almodóvar það sjálfur í myndinni í svona plat-sjónvarpsuppfærslu. Og það er líklega engin tilviljun að Almodóvar velji þennan söngvara og þetta lag.


Miguel de Molina

Molina náði vinsældum á Spáni rétt áður en borgarastyrjöldin braust út 1936. Hann söng mikið flamenco, en tók þá hina hefðbundnu "macho" ímynd flamencosöngvarans og sneri henni á haus, kom iðulega fram í kjól og blandaði í þetta kabarettáhrifum. Skemmti hermönnum lýðveldissinna á meðan á stríðinu stóð við miklar vinsældir, en sætti ofsóknum eftir að Franco náði völdum vegna kvenlegrar ímyndar og þess að hann fór aldrei í felur með samkynhneigð sína. Á endanum flúði hann land og settist loks að í Argentínu undir verndarvæng Evu Perón og lést þar 1993 (Safndiskur til sölu hér)


Bebo Valdés og Diego el Cigala

Seinni útgáfan er frá því í fyrra. Þetta eru þeir kumpánar Bebo Valdés, kúbanskur píanósnillingur, og Diego el Cigala, einn fremsti flamencosöngvarinn á Spáni í dag. Þeir gáfu út diskinn Lágrimas Negras í fyrra þar sem þeir taka fyrir spænsk og suður-amerísk dægurlög og setja í nýjan búning þar sem blandað er saman flamencosöng og latínsku djassbíti. Snilldardiskur sem hægt er að nálgast hjá Amazon, auk þess sem hann hefur dúkkað upp í búðum hér á landi.

Miguel de Molina - La bién pagá
Bebo y Cigala - La bién pagá

blogger

blogger er hreinlega að skíta á sig þessa dagana, seinn í vöfum og leiðinlegur. Í gærkvöldi eyddi ég löngum tíma í að föndra stóra færslu með myndum og vottnott, en þegar ég smellti á "send" fór allt til fjandans, allt glatað og gröllurum gefið. Andskotinn. Maður ætti kannski að fylgja Hreini yfir á typepad? Nei, vil ekki herma... Set bráðum inn meira spænskt popp, alltaf gaman af því.

þriðjudagur, október 26

blessuð sé minning hans...

Þá er John Peel víst horfinn úr þessum heimi. Það var fúlt. Hérna er uppáhaldslagið hans, svona til minningar:

Undertones - Teenage Kicks

Ég veit ekki hvernig á að túlka það, en allavega fannst mér það viðeigandi að einn þeirra sem skrifa á minningarsíðuna hjá BBC heitir Ian Curtis.

laugardagur, október 23

Stefán Máni revisited

Ég fann þess grein eftir Stefán Mána sem heitir Þar sem Hallærisplanið rís..., og ég verð að segja að hann óx pínkulítið í áliti hjá mér. Aðallega fyrir þennan bút:

... og ég í árlegri stórborgarheimsókn í Litlu-Berlín, henni Reykjavík, Rokk í Reykjavík, tólf eða þrettán ára landsbyggðarlúði, skíthræddur, tvístígandi á Laugaveginum og ennþá minni að innan en ég var að utan, klæddur í allt of nýjan og of lítið snjáðan gallajakka, búinn að þora inn í Þúsund og eina nótt, með magann í hnút og hraðan hjartslátt, að kaupa gaddaól, bol með hauskúpumynd og nokkur merki til að sauma á jakkann, anarkí og deþþ og god seif ðe kvín, nýkominn úr Gramminu, frá Kidda og Ása, með troðfullan plastpoka af glansandi vínil, Stranglers, EGÓ, Clash, Spliff, meiri Stranglers + fyrsta Nina Hagen platan, og þá kemur engin önnur en sjálf nýbylgjupönkdrottningin Björk askvaðandi yfir götuna, þá söngkona í Tappa Tíkarrassi eða Kukli - ég elskaði Tappa Tíkarrass, klædd í sjálflýsandi neongrænt frá toppi til táar, grænt hár, græn gleraugu, græn peysa og/eða skyrta, grænt pils, grænar sokkabuxur, grænir skór, allt voða fríkað og út í loftið og æðislega smart og mikið útpælt, og hún alveg kúl, orðin heimsfræg inni í höfðinu á sér, og ég fraus í Adidas TopTen strigaskónum, varð ástfanginn á augabragði, lamaður af ást, gleymdi því meira að segja í fáeinar mínútur að ég var búinn að giftast Ninu Hagen í huganum, en það var leyndó.


Ég fæ svona á tilfinninguna að Stefán Máni hafi fylgst með mér í Reykjavík á unglingsárunum, því þetta var nákvæmlega svona þegar ég skrapp í bæinn, oftast í skólaferðalagi. Vestfjarðaleið. BSÍ. Nema hvað þegar ég sá Björk var hún á bakvið afgreiðsluborðið í Gramminu og afgreiddi mig þegar ég keypti einhverja plötuna og eintak af Race Today því mér fannst Linton Kwesi Johnson eitthvað svo kúl og var klæddur í skræpótta hermannajakkann sem ég var nýbúinn að þora að kaupa í Vinnufatabúðinni og núna er ég farinn að skrifa eins og Stefán Máni og verð að hætta því núna punktur... Svo man ég líka aumingjahrollinn sem fór um mig þegar ég frumsýndi hermannajakkann á Hallærisplaninu á föstudagskvöldi, 13 ára rindill sem náði ekki að fylla upp í jakkann og barnslegt andlitið sjálfsagt í hrópandi ósamræmi við umgjörðina og barmmerkin, allavega komu tveir stórir strákar að mér og ýttu við mér spurðu hvort ég vildi slást, fannst sniðugt að pína aðeins litla pönkarann. Sem betur fer voru bekkjarsystur mínar með mér og björguðu litla sveitalubbanum úr klípunni.

Annars fjallar grein Stefáns Mána mest um bækur Páls Kr. Pálssonar, Hallærisplanið og Beðið eftir strætó, sem ég sjálfur las af áfergju á milli mjalta eða á heimavistinni, ég man ekki alveg. Svo las ég líka Sjáðu sæta naflann minn, allavega einn kafla aftarlega í bókinni. Svo var Ekkert mál mikil upplifun, en hún kom reyndar soldið seinna. Þá var ég farinn úr sveitinni í fiskinn á Hornafirði og þá lá ég mest í unglingabömmer og hlustaði á Smiths og Violent Femmes af því ég þekkti engan og sá fram á að verða hreinn sveinn alla ævi.
----

En fyrst maður er kominn í nostalgíuna þá verð ég að segja að ég er nú bara soldið spenntur yfir að sjá the Fall í nóvember. Dr. Gunni linkar í grein úr Melody Maker um heimsókn þeirra 1981. Bráðskemmtilegt alveg:

Mark E. Smith, lead singer with the Fall, spent the night drinking schnaps until it come out of his ears, repaired to a disco called Hollywood that looked like a Thirties nightclub in Berlin, bopped alone on the dance floor, loudly abused the disc-jockey for repeatedly playing "Stars On 45" and their ilk, and collapsed, fully-clothed, into a coma at the Hotel Esjna. It was a good first night.


Reyndar er ég ennþá spenntari fyrir að sjá Vonbrigði, sem var ein af uppáhaldshljómsveitunum mínum á þeim tíma. Þeir voru víst frábærir á tónleikum, en ég sá það auðvitað aldrei, hangandi úti í sveit eins og hálfviti.
----

Annars vona ég Nino Bravo hafi skemmt ykkur. Megið alveg skilja eftir komment ef ykkur líkar tónlistin. Æi, nú er ég orðinn húkkt á þessum kommentum...

miðvikudagur, október 20

spænskt popp #3


Hann fæddist 1944 í Aielo de Malferit, litlu þorpi nálægt Valensíu á Spáni og var gefið nafnið Luis Manuel Ferri Llopis. Þegar hann er eins árs flytur fjölskylda hans til borgarinnar í leit að betri framtíð. Luis þurfti að byrja að vinna snemma þar sem fjölskyldan var fátæk en hafði alla tíð mikinn áhuga á tónlist og uppúr 1960 stofnar hann sína fyrstu hljómsveit, Los Hispanicos. Sú sveit stoppar stutt við og 1962 gerist hann söngvari Los Superson's sem nær nokkrum vinsældum og spila mikið á Benidorm sem þá er á uppleið sem sumardvalarstaður. Hann er kallaður í herinn 1964 og lýkur þá tíma hans í tónlistinni um skeið. 1968 ákveður hann að nú sé rétti tíminn til að reyna fyrir sér í tónlistinni á nýjan leik og hefur samband við þekktan umboðsmann í Valensíu. Sá ráðleggur honum að finna sér þjálla nafn, og fyrir valinu verður Nino Bravo. Nino færir sig til Madridar og baslast við að ná einhverjum árangri í tónlistarheiminum. 1970 gefur hann loks út sína fyrstu stóru plötu, Te quiero, te quiero sem nær miklum vinsældum á Spáni.

Loks virðist lukkan brosa við Nino. Hann giftist söngkonunni Maríu Amparo 1971 og ári síðar fæðist dóttirin Amparo. Vinsældir hans aukast með hverri plötunni, jafnt á Spáni sem í Suður Ameríku, auk þess sem orðspor hans breiðist út til annarra evrópulanda. Seinni dóttir hans, Eva, fæðist 1973. Nino nær þó ekki að kynnast dóttur sinni, því hann lætur lífið í bílslysi á leið til Madrid frá Valensíu síðar sama ár.

Og hér koma tvö sýnishorn af söng Nino. Þetta er silkimjúkur barítónn, minnir óneitanlega svolítið á Scott Walker í sínum poppaðri gír. Hægt er að kaupa góðan safndisk með lögum hans hjá Amazon.

Nino Bravo - Un beso y una flor

Nino Bravo - Amanecer

sunnudagur, október 17

jamm

Rithöfundur í dulargervi? Hvað ætli hann hafi gert, sett á sig gerviskegg og gleraugu? Klætt sig eins og Diana Ómel? Þetta er fallegt, minnir á soldáninn í 1001 nótt, sem gekk um götur klæddur sem förumaður svo enginn þekkti hann. Hins vegar þekki ég ekki Stefán Mána og myndi því ekki þekkja hann, með dulargervi eða án. Kannski þekkir hann enginn. Þá hefur dulargervið verið óþarfa fyrirhöfn. Nema hann hafi gaman af svona hlutverkaleikjum. Ég bíð allavega spenntur eftir þættinum. Og kannski er þess virði að lesa þessa bók. Hefur einhver lesið eitthvað eftir hann? Ég nenni ekki að lesa bækur nema einhver mæli sérstaklega með þeim.

Hins vegar leiðist mér þegar opnunartími veitingastaða er gagnrýndur. Eitthvað fasískt við þetta. Er þetta ekki bara eins og bárujárnið og tannskemmdirnar? Er ekki skýringin á aukinni dópneyslu og glæpum frekar sú að félagsleg fyrring hafi aukist í beinu samhengi við setu ríkisstjórnarinnar? Með meiri frjálshyggju minnkar félagslegt aðhald, hver verður sjálfum sér næstur og allir hugsa um að græða og er sama þótt gróðinn komi illa niður á einhverjum öðrum. Ég mundi allavega vilja frekar sjá fréttaskýringu um það. Opnunartími veitingastaða finnst mér ódýrt plott, og að rithöfundurinn skuli taka þátt í því veldur því að ég missi trú á honum. Listamenn eiga að kafa dýpra, ekki bara grípa þægilegustu skýringuna. En best að horfa á fréttaskýringuna fyrst áður en maður fer að grýta grjóti.

P.S. Þeir sem ekki skilja um hvað verið er að tala ættu að horfa á viðtal við Stefán Mána í fréttum sjónvarps, sunnudaginn 17. okt. Hægt að nálgast á www.ruv.is

laugardagur, október 16

stolið

Þetta fann ég á blogginu hans Más. Ég veit það er ljótt að krosslinka, en ég stenst það ekki í þetta sinn. Þetta er einkar glæsilegur og sannfærandi úrdráttur frá flokksþingi repúblikana.

miðvikudagur, október 13

pælingar

Ætli heyrnarlausir finni á sér þegar frétt kemur í sjónvarpið um málefni heyrnarlausra? Afhverju er settur texti á þessar fréttir (þá sjaldan sem þær birtast) en aldrei annars? Eða er ég of heimskur til að fatta plottið?

spænskt popp #2

Í tilefni af lokum spænskrar viku í Kópavogi læt ég hér flakka eitt spænskt popp til viðbótar. Lagið ættu allir að þekkja. Þetta er ættjarðarlag sem fjallar um söknuð hins brottflutta spánverja eftir móðurjörðinni.Glöggir hlustendur átta sig líklega á að söngvarinn syngur með andalúsískum hreim. Sá heitir Manolo Escobar og er frægur í sínu landi. Fæddur nálægt Almeríu í Andalúsíu 1932, og varð geysivinsæll á Spáni uppúr 1960. Lék einnig í fjölda kvikmynda og oftast var hans hlutverk þar að ganga um í polyester-skyrtu á ströndum Suður-Spánar og heilla sænskar ljóskur sem voru a.m.k. höfðinu hærri en hann. Gengur enn um syngjandi en er hættur að eltast við sænskar ljóskur. Alltént, hér kemur lagið. Og allir saman nú...

Manolo Escobar - Qué viva España

slint...

Slint eru að koma saman aftur! Það er semsagt möguleiki á að fá að berja þessa goðumlíku póstrokkara augum, því þeir ætla að spila á All Tomorrows Parties í London í febrúar. Nú verð ég að setja trukk í atvinnuleitina...

mánudagur, október 11

one tree hill

One Tree Hill prittí möts sökkaði í kvöld. Þetta var nú meiri grátþátturinn, og ekki bætti úr skák þegar í endinn var skellt á mann ömurlegri útgáfu af "Everybody hurts". Meir að segja Dan, sem venjulega hefur getað skemmt manni með skepnuskap og almennum kúkalabbahætti var bara frekar melló og næs. Svo var þessi endalausi skírlífis áróður alveg að drepa mann. Verða að bæta sig ef ég á að nenna að horfa á þetta áfram.

laugardagur, október 9

runni

Bush var víst í góðu sambandi á fyrstu kappræðunum. Spurning hvort Þórhallur miðill geti fundið út hvaðan röddin kom. Hann (Bush) á víst einhvern tímann að hafa sagt að gvuð sjálfur talaði í gegnum sig. Það er auðvitað spurning.

fimmtudagur, október 7

stststststam

Langi einhvern til að hlusta á mig stama í útvarpi má hlusta á Víðsjá á morgun, milli 5 og 6. Svo má líka koma á málþing í Salnum í Kópavogi á laugardagsmorgun kl. 10, þar stama ég í tíu mínútur um spænska kvikmyndagerð. Ahem...

draugur í skel

Ghost in the Shell heitir ein japönsk teiknimynd. Hún tilheyrir þeirri tegund sem kölluð er anime, sem ég svosem er enginn sérfræðingur í. Í þessum flokki teiknimynd má finna hörmungar eins og Pokemon og Yu Gi Oh, en einnig snilldarverk eins og Mononoke prinsessu og Síðustu ferð Chihiro. Ghost in the Shell er einnig ansi mögnuð, nokkurs konar Blade Runner í teiknimyndaformi. Það sem gerir svo útslagið er ótrúleg tónlist í myndinni. Tónskáldið heitir Kenji Kawai og hefur m.a. samið tónlistina við hrollvekjurnar Ringu, Ringu 2 og Dark Water. Læt hér fljóta með eitt sýnishorn úr Ghost in the Shell. Þetta er nú með því flottara sem ég hef heyrt.

Ghost in the Shell - Making of Cyborg

miðvikudagur, október 6

í múmíndalnum

Víðsjárspekingar gera því í skóna að næsti nóbelshafi í bókmenntum verði kona. Allavega þykja einhverjar líkur til þess. Ég geri ráð fyrir að það sé of seint að veita Tove Janson verðlaunin. Það var leitt.

mánudagur, október 4

sunnudagshækjan.... hækan meina ég

æ, ég nenn'ekki
að semja nýja hæku
fæ mér bara bjór(Þetta andleysi er nú farið að verða vandræðalegt.)

laugardagur, október 2

skemmtun

Októberfest á háskólalóðinni er góð skemmtun (þ.e. þar til allt fyllist af fólki). Að dansa á 22 er góð skemmtun (þó að djeinn sökki). Að dansa á Hressó við Prince og Missy Elliot er líka góð skemmtun. Að dansa á Kaffibarnum er ekki síðri skemmtun, sérstaklega eftir svona mikinn bjór og þegar Egó og Madness eru á pleilistanum. Að dansa aftur á 22 er ekki síðri skemmtun (djeinn sökkaði aðeins minna í þetta sinn). Ég viðurkenni samt að þegar vinkona mín benti mér á að ég væri að dansa rass við rass við Juliu Stiles, þá varð ég pínu meðvitaður um sjálfan mig. Hún lítur út fyrir að vera jafn ung og hún er.


P.S. Um daginn gengum við Forrest Whitaker hlið við hlið inn í Landsbankann í Austurstræti, ég til að bjarga visakortinu frá lögfræðingum og hann til að hliðra til auðlegðinni, býst ég við. My brush with fame. Balti, ég elska þig!

föstudagur, október 1

spænskt popp #1

Ég var að horfa á myndina Cría Cuervos e. Carlos Saura í gær, frábært spænskt drama frá 1975. Myndin ber þess merki frá hvaða tíma hún er, fjallar um stúlkuna Önu sem hefur misst móður sína, og eitrar (að því er hún telur sjálf) fyrir föður sínum. Þarna má sjá alls kyns freudiskar og feminískar pælingar í gangi, auk þess sem lítið mál er að heimfæra myndina upp á spænskt samfélag síns tíma. Slíkar tengingar eru þó ekki nauðsynlegar til að maður njóti myndarinnar, þetta er einfaldlega mjög góð mynd.

Flestir þekkja Saura fyrir flamenco-myndirnar sínar (Carmen líklega sú frægasta), sem hann gerði á öndverðum 8. áratugnum, en þessi mynd er frá gjöfulasta tímabilinu hans, frá ca. 1960-1980. Hann semsagt átti sitt blómatímabil á síð-frankótímanum, og eins og virðist eiga við marga listamenn sem vinna undir slíku oki, er eins og hann hafi aðeins tapað áttum eftir að lýðræði komst á á Spáni. Hann hefur samt gert gæðamyndir inn á milli og svíkur engan. Annars verður myndin sýnd mánudaginn 11. október í Lögbergi, stofu 101, kl. 17:00, hafi einhver áhuga. Frítt inn.

Allavega, þá er komið að poppinu í titlinum. Jeanette heitir söngkona, fædd í Bretlandi og uppalinn í Bandaríkjunum. Hún flutti til Spánar 1963 og gekk fljótlega til liðs við hljómsveitina Pic-Nic. Síðar reyndi hún fyrir sér á eigin spýtur og náði miklum vinsældum á Spáni. Saura notar lag hennar, "Porqué te vas" sem nokkurs konar þema í Cría Cuervos, og virkar bara vel. Þetta er skemmtilegt lag og barn síns tíma, sem gerir það kannski enn skemmtilegra:

Jeanette - Porque te vas


það messar enginn mit Mackie

Já, hér má hlusta á Bertold Brecht sjálfan syngja "Moritat von Mackie Messer" úr eigin leikriti, Túskildingsóperunni, við undirleik (að því er virðist) lýrukassa. Skemmtilegt, skemmtilegt.

Bertolt Brecht - Moritat von Mackie Messer


dauður

Þegar einhver á að vera dauður í bíómynd horfi ég alltaf eftir því hvernig leikaranum gangi að halda niðri í sér andanum. Þess vegna hættir ítalska atriðið í Night on Earth að vera fyndið um leið og presturinn drepst, því hann er svo greinilega ekki dauður að það er hreinlega pirrandi.