föstudagur, október 29

spænskt popp #4

Já, meira popp. Gamalt og nýtt, nýtt og gamalt. Þetta eru reyndar tvær útgáfur á sama laginu. Lagið heitir "La bién pagá" ("Sú sem fær vel borgað" eða eitthvað í þá áttina), spænsk copla (hefðbundið spænskt dægurlagaform, vísar eiginlega til forms söngtextans, þ.e. fjórar línur þar sem 1. og 3. og svo 2. og 4. ríma. Sumsé ferskeytla) blandað með flamenco-áhrifum og var samin af þeim félögum Pereillo og Mostazo. Það hafa ýmsir sungið þetta lag í gegnum tíðina, en frægasta túlkunin kemur frá Miguel de Molina. Ég var að horfa á Qué he hecho yo para merecer esto e. Pedro Almodóvar um daginn (það er myndin þar sem Carmen Maura drepur tuddalegan eiginmann sinn með því að lemja hann í hausinn með kjötlæri), og þar kemur þessi útgáfa lagsins fyrir, reyndar mæmar Almodóvar það sjálfur í myndinni í svona plat-sjónvarpsuppfærslu. Og það er líklega engin tilviljun að Almodóvar velji þennan söngvara og þetta lag.


Miguel de Molina

Molina náði vinsældum á Spáni rétt áður en borgarastyrjöldin braust út 1936. Hann söng mikið flamenco, en tók þá hina hefðbundnu "macho" ímynd flamencosöngvarans og sneri henni á haus, kom iðulega fram í kjól og blandaði í þetta kabarettáhrifum. Skemmti hermönnum lýðveldissinna á meðan á stríðinu stóð við miklar vinsældir, en sætti ofsóknum eftir að Franco náði völdum vegna kvenlegrar ímyndar og þess að hann fór aldrei í felur með samkynhneigð sína. Á endanum flúði hann land og settist loks að í Argentínu undir verndarvæng Evu Perón og lést þar 1993 (Safndiskur til sölu hér)


Bebo Valdés og Diego el Cigala

Seinni útgáfan er frá því í fyrra. Þetta eru þeir kumpánar Bebo Valdés, kúbanskur píanósnillingur, og Diego el Cigala, einn fremsti flamencosöngvarinn á Spáni í dag. Þeir gáfu út diskinn Lágrimas Negras í fyrra þar sem þeir taka fyrir spænsk og suður-amerísk dægurlög og setja í nýjan búning þar sem blandað er saman flamencosöng og latínsku djassbíti. Snilldardiskur sem hægt er að nálgast hjá Amazon, auk þess sem hann hefur dúkkað upp í búðum hér á landi.

Miguel de Molina - La bién pagá
Bebo y Cigala - La bién pagá

Engin ummæli: