fimmtudagur, nóvember 25

æjá...

Kaffi er miklu nauðsynlegra en nokkur hugsjón.
(Jóhamar)
Biðröðin að kassanum gengur hægt. Allir í röðinni eru með troðfullar körfur nema ungi maðurinn sem er aftastur, hann er með eina af þessum litlu gulu handkörfum sem stendur á Bónus og búinn að setja ofan í mjólk, þvottefni, sjampó og spagettísósu. Strákurinn á kassanum ekki eldri en 12 ára og hefur greinilega aldrei gert þetta áður. Til að drepa tímann fer ungi maðurinn að leita að einhverju til að lesa á. Tímaritin öll í plasti, bölvað hallæri. DV í rekka við hinn kassann og ekki innan seilingar. Þegar hann nálgast kassann sér hann sælgætisumbúðirnar sem hanga þar í röðum. Þær eru flestar á skandinavísku. Les þær samt gaumgæfilega, fátt annað að gera í stöðunni. Röðin kemur loks að konunni á undan honum, hún þrælar mánaðarbirgðum upp á færibandið og strákurinn á kassanum hamast við, rauður í kinnum. Ungi maðurinn lítur eftir einhverjum umbúðum til að lesa. Smokkapakki blasir við. Það vekur athygli hans að umbúðirnar eru á íslensku. Svo fer hann að lesa: "Gagnlegt við getnaði, HIV og öðrum kynsjúkdómum". Hann flissar hljóðlega. Konan, sem er búin að koma öllu upp úr körfunni, lítur á hann og svo á smokkapakkann. Ungi maðurinn ákveður að það sé ekki góð hugmynd að útskýra brandarann og fer að lesa utan á tyggjópakkana, eins kæruleysislega og hann getur.

Engin ummæli: