mánudagur, nóvember 22

kvikmyndir í kviksyndi

Ég var að uppgötva greinar á vefsíðu LogS, tímariti Félags kvikmyndagerðarmanna, það var svolítið langt um liðið síðan ég kíkti síðast og svona. En allavega, ég ætla að reyna að hugsa upphátt um eitthvað af því sem ég fann þarna. Sérstaklega grein Hávars Sigurjónssonar, sem birtist víst fyrst í Mogganum 6. nóvember, en ég missti af þar, Mogginn kemur aldrei hér innum lúgu. Svo var líka mjög góð grein eftir hann Hauk Má, sem ég held að stundi líka hvalveiðar. Ég tala kannski um hana seinna, ef ég gefst ekki upp eftir þetta bull hérna.

Allavega, Hávar skrifar góða grein þar sem hann leggur út af spurningunni af hverju íslenskar bíómyndir fái svona lélega aðsókn. Reyndar talar hann mest um af hverju og að hvaða leyti íslensk kvikmyndahandrit séu svona slöpp. Sem hann skrifar aðallega á leti og áhugaleysi, ekki vankunnáttu. Mmmm, kannski. Allavega, hann tínir til þrjár punkta:
  • Söguþráður í íslenskum kvikmyndum er oftast veikur og lítið á honum að græða, reynt að gera of mikið úr of litlu
  • Það vantar alla dramatíska vigt í íslensk kvikmyndahandrit, samtöl eru illa skrifuð og hugsuð, lögð of mikil áhersla á myndræna þáttinn og allt sem heitir persónusköpun fer út í veður og vind
  • Svo eiga íslenskar myndir lítið erindi við samtíma sinn, að mati Hávars, íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafi ekkert að segja (á mannamáli má segja að þetta sé mest bara prívatrúnk til þess að komast á Edduverðlaunaafhendinguna (ekki orðalag Hávars!)).
Já, það má alveg vera sammála mörgu hérna. Þetta með leti og áhugaleysi er kannski rétt, ég veit það ekki, allavega finnst manni hlutirnir ganga alltof oft út á það að vera kúl og komast í blöðin. En það á ekki bara við um kvikmyndagerð, þetta er einkenni á íslensku samfélagi eins og það leggur sig. Er Ísland kannski póstmódernískasta land í heimi?

En hvað á Hávar eiginlega við með þessu spjalli um veikan söguþráð og skort á dramatík? Vill hann fá leikrit á filmu? Fólk að rífast í eldhúsum? Nei, það held ég ekki, en þetta orð, dramatík, er kannski of aðeins of merkingarhlaðið til að henta vel í svona umræðu (nema maður hafi sama bakgrunn og Hávar og viti um hvað hann er að tala).

Sko, (og nú er ég að hugsa upphátt) í góðri kvikmynd kemur bæði fyrir frásögn (narrative) og dramatík. Eins í leikhúsi, nema þar er dramatíkin í hávegum höfð og frásögnin styður aðeins við ef á þarf að halda (já ég veit, mikil einföldun) og í skáldsögum er frásögnin aðalmálið, þó dramatísk element birtast líka oft í formi samtala, en eru sjaldnast aðalmálið (já, líka einföldun, en...). Í kvikmyndum ætti þetta að vera þokkalega balanserað, ljósasta dæmið um frásögn er þegar sögumaður leiðir áhorfandann í gegnum söguna, en oftast er frásögnin myndræn, við sjáum umhverfi og athafnir persónanna sem leiða áhorfandann frá einni senu til annarrar auk þess sem upplýsingar koma fram í samtölum persónanna og þetta skapar frásagnarlegan þráð myndarinnar. Dramatíkin felst auðvitað í samskiptum persónanna og þá helst í samtölum, en getur líka verið myndræn. Dramatíska uppbyggingu má útskýra á eftirfarandi hátt (með skelfilega mikilli einföldun): Í hverri sögu er aðalpersóna (protagonist) sem vill ná einhverju marki, t.d. James Bond, sem vill bjarga heiminum frá glötun, (og komast yfir allt kvenfólk sem á vegi hans verður, en það er annað mál) og svo andstæðingur (antagonist) sem leggur stein í götu hans og geta verið fleiri en einn, hjá Bond er það vondi kallinn sem er að byggja leiserbyssu sem splundrar tunglinu og allt vonda fólkið sem vinnur fyrir hann og er alltaf eitthvað að stríða Bond og koma í veg fyrir að hann nái í skottið á vonda kallinum.

Gott og vel, dramatíkin í samtölum kemur einnig fram í þessum andstæðuleik, þ.e. einhver segir eitthvað og annar setur sig upp á móti honum. Þá þarf fólk ekki endilega að vera að rífast, en með svona dramatískri uppbyggingu myndast dramatísk spenna og í vel skrifuðum samtölum er spenna á milli allra setninga. Spennan getur verið góðlátlegt, fjandsamleg, pirrandi, vottever, allt eftir þörfum sögunnar. Þannig að frásögnin og dramatíkin mynda saman vel heppnað handrit. Svo maður noti nú kléna og hallærislega myndlíkingu, þá er frásögnin eins og raflögn og dramatíkin straumurinn. Það er gott og blessað að hafa góða raflögn, en ef enginn er straumurinn kviknar ekkert ljós.

T.d. senan í byrjun Fargo, þar sem Jerry Lundegaard kemur og hittir tilvonandi mannræningja. Það hefði verið hægt að skrifa hana þannig að Lundegard kæmi inn, kynnti sig, mannræningjarnir kynntu sig, hann segði hvað hann vildi, þeir segðu já, og svo væri allt klappað og klárt. Öllum upplýsingum komið til skila, en ekkert sérlega áhugavert samtal, ládautt. En svona gerðu Coen bræður það:
JERRY: I'm, uh, Jerry Lundegaard -
CARL: You're Jerry Lundegaard?
JERRY: Yah, Shep Proudfoot said -
CARL: Shep said you'd be here at 7:30. What gives, man?
JERRY: Shep said 8:30.
CARL: We been sitting here an hour. I've peed three times already.
JERRY: I'm sure sorry. I - Shep told me 8:30. It was a mix-up, I guess.
CARL: Ya got the car?
JERRY: Yah, you bet. It's in the lot there. Brand-new burnt umber Ciera.
CARL: Yeah, okay. Well, siddown then. I'm Carl Showalter and this is my associate Gaear Grimsrud.
JERRY: Yah, how ya doin'. So, uh, we all set on this thing, then?
CARL: Sure, Jerry, we're all set. Why wouldn't we be?
JERRY: Yah, no, I'm sure you are. Shep vouched for you and all. I got every confidence in you fellas.
They stare at him. An awkward pause.
JERRY: ... So I guess that's it, then. Here's the keys -
CARL: No, that's not it, Jerry.
JERRY: Huh?
CARL: The new vehicle, plus forty thousand dollars.
JERRY: Yah, but the deal was, the car first, see, then the forty thousand, like as if it was the ransom. I thought Shep told you -
CARL: Shep didn't tell us much, Jerry.
Strax eftir fyrstu setningu er komin spenna í dæmið, sem um leið skilgreinir persónurnar og samskipti þeirra. Og heldur áhuga áhorfandans.

Annað dæmi er fjölskyldudinnerinn í byrjun Donnie Darko:
Elizabeth Darko: I'm voting for Dukakis
Eddie Darko: Hmm, well. Maybe when you have children of your own and they need braces, and you can't afford them because half of your husbands pay check goes to the federal government, you will regret that decision...
Elizabeth Darko: My husbands pay cheque?
Rose Darko: (Chuckles).
Elizabeth Darko: Anyway, I'm not going to squeeze one out till I'm, like, 30.
Donnie Darko: Will you still be working at the Yarn Barn? Because I hear that's a really great place to raise children.
Elizabeth Darko: That's really funny
Rose Darko: No, I think a year of partying is enough. She'll be going to Harvard next fall.
Elizabeth Darko: Mom, I haven't even gotten in yet.
Rose Darko: Do you honestly think Michael Dukakis will provide for this country till you're ready to squeeze one out?
Elizabeth Darko: Yeah, I do.
Samantha Darko: When can I squeeze one out?
Donnie Darko: Not until 8th grade.
Rose Darko: Excuse me?
Elizabeth Darko: Donnie, you're such a dick.
Donnie Darko: Whoa, Elizabeth! A little hostile there. Maybe you should be the one in therapy. Then Mom and Dad can pay someone $200 an hour to listen to your thoughts so we don't have to.
Elizabeth Darko: OK, you want to tell Mom and Dad why you stopped taking your medication?
Donnie Darko: You're such a fuck-ass!
Elizabeth Darko: What?!
Rose Darko: Please.
Elizabeth Darko: Did you just call me a 'fuck-ass'?
Rose Darko: Elizabeth, that's enough.
Elizabeth Darko: You can go suck a fuck.
Donnie Darko: Oh please tell me, Elizabeth, how exactly does one suck a fuck?
Elizabeth Darko: You want me to tell you?
Donnie Darko: Please, tell me.
Rose Darko: We will not have this at the dinner table. Stop.
Elizabeth Darko: Fuck.
Samantha Darko: What's a fuck-ass?
Sumsé, dramatík frá fyrstu setningu, en um leið komið til skila hvenær myndin gerist, að Donnie sé á geðlyfjum sem hann er hættur að taka, að Elizabeth sé að útskrifast og búin að ná kosningaaldri. Dramatíkin gerir líka dýnamíkina í samskiptum fjölskyldumeðlima greinilega. Og áhugi manns dvínar aldrei. Jamm, mjög gott. Man einhver eftir íslenskum samtölum sem virka svona vel? Man ekki eftir neinu í svipinn, kannski Sódómu Reykjavík.

Það leiðir einmitt að einu vandamáli við íslenska handritsgerð, sem er sú að oft og tíðum eru íslenskir skáldsagnahöfundar fengnir til að skrifa handritin. Málið er með skáldsagnahöfunda að þeir kunna vel að segja sögu, þ.e. segja frá. Þeir kunna ekkert endilega að meðhöndla dramatíkina, því hún er svolítið fjarri þeirra hugsunarhætti. Gott dæmi um þetta er Gabriel Garcia Marques. Einn besti skáldsagnahöfundur sem fæðst hefur í þessum heimi. Kann svo sannarlega að segja sögu. Það vita það hins vegar færri að hann hefur skrifað eitthvað af kvikmyndahandritum sem hafa verið gerðar myndir eftir, en engin þeirra hefur náð nokkurri frægð að ráði. Hvers vegna skyldi Marques ganga svona illa með kvikmyndahandritin sín, því nú kann maðurinn svo sannarlega að skrifa? Af því að hann skrifar handritin eins og hann sé að segja sögu (eða svo er mér sagt af fróðum manni), það vantar alla dramatík. Þess vegna vekja myndirnar ekki áhuga áhorfenda. Ég held svosem að leikskáld væru ekkert endilega betri, þá væri bara farið út í hinar öfgarnar, þ.e. samtöl út í eitt (eins og sumar fyrstu myndir David Mamets bera svolítið merki). Þeir sem kunna á miðilinn og hafa eitthvað að segja og kunna að koma því frá sér skrifa góð handrit. Punktur og basta barasta.

Annars virðist hugmynd íslenskra handritshöfunda að samtölum vera orðin einhvern veginn sú að því hversdagslegri sem þau séu því betri verði þau:
Kona1: Sko, svo ef, þú veist, hérna, ef maður, hérna, tekur upp á því að, þú veist deyja. Nei, ég meina, sko, maður, hérna, veit aldrei,...
Kona2: Nei, einmitt, sko, rosa sniðugt, ha..
Kona1: Já, einmitt, sko, þá, hérna, heldur fjölskyldan mín, þú veist, þau fá alveg, sko, svona 70% af laununum mínum, hérna, alveg í 7 ár.
Kona2: já, vá, hérna, rosa sniðugt
Kona3: (á innsoginu) hjáh...
Íslenskur díalógur í hnotskurn? Þekkið þið einhverja sem tala svona? Enda er þetta bara búllsjitt, góður leikari getur tekið nokkurn veginn hvaða díalóg sem er og flutt hann af sannfæringu. Það er hægt að gera tilraun með þetta. Taka af handahófi einhverja spólu úr safni BBC á uppfærslum leikrita Shakespeares, kíkja á atriði af handahófi og það bregst ekki að þar er breskur leikari að fara með íambískan pentametra á þann hátt að maður trúir því að hann sé að hugsa þennan andskota upp á staðnum.

Hávar segir líka:
Vel skrifuð samtöl segja yfirleitt mun meira en orðin sjálf, undirtexti heitir það og er allt að því óþekkt í íslenskum kvikmyndum.
Þetta er náttúrlega rétt, en kannski ekki öll sagan sögð. Það er hægt að skrifa mjög plein samtal sem virðist ósköp hreint og klárt og túlkunin eftir orðanna hljóðan:
LIANE: Please don't wash your hands in the sink.
WIGAND: Where should I wash them?
LIANE: Use the bathroom.
WIGAND: What's the difference...
LIANE: That's for food.
But he ignores her, washing his hands... And she turns the water off. He turns it back on. He thinks, then turns it off. Then she turns it on.
LIANE: (cont'd) Leave it on! Just leave it on, okay?!
(Úr The Insider). Þetta virðast bara vera hjón að kýta, eins og þau hafa gert hundrað sinnum. En eins og það er leikið og framsett í myndinni, og í samhengi með því sem kemur á undan og á eftir er ljóst að við erum að horfa á hjónaband að sigla í strand, þau eru að brotna undan farginu. Undirtextinn er semsagt ekki bara hvernig samtölin eru skrifuð, heldur líka hvernig þau eru túlkuð af leikurum og leikstjóra. Ef tvær manneskjur tala um veðrið og strjúka yfir hendi hvers annars um leið og enda samtalið á ástríðufullum kossi, er ljóst að samtalið segir eitt en túlkun leikaranna segir eitthvað allt annað. Þarna held ég að sé eitt af stóru vandamálunum. Ekki endilega í handritinu, heldur að íslenskir leikstjórar vita ekkert hvað þeir eiga að gera með þessa leikara og vilja ekki/nenna ekki/þora ekki að taka afstöðu til textans. Þegar Keith Carradine lék í Fálkum kom hann til Friðriks Þórs og vildi tala um persónusköpun. Friðrik umlaði: "persónusköpun? Hehe..." og sneri sér svo við og fór að gera eitthvað annað, og það var ekki rætt meir. Þetta er ekkert annað en hræðsla við að eiga við leikara, hvað sem Friðrik vill kalla það. Hann er reyndar það klár að velja sér leikara sem fitta í týpuna, eins og Gísla Halldórsson, en allir fínni núansar hverfa. Þessi "beini" leikstíll sem kemur út úr þessu er það sem fer mest í taugarnar á mér, þar sem allar setningar eru leiknar nokkurn veginn hástöfum (takk varríus), og ekki er pláss fyrir neina túlkun, engin tvíræðni, enginn undirtexti. Og það er leikstjórunum að kenna. Það er alltof oft kvartað yfir ofleik íslenskra leikara í kvikmyndum, en það er ekki þeim að kenna, þegar leikarar fá ekki leiðsögn heldur eru skildir eftir í lausu lofti er kannski kraftaverk að það sé eftir allt saman hægt að finna góðan leik í íslenskum myndum. Þetta hefur reyndar farið skánandi og komnir leikstjórar sem nenna að vinna með leikurunum. Íslenskir leikarar eru líka að verða vanari miðlinum, hafa kannski horft á sjálfa sig á tjaldinu og eru því í betri aðstöðu til að leikstýra sjálfum sér en áður. Sem er samt ekkert jákvætt, bara minna pirrandi.

Reyndar er pirringur Hávars á hinum myndræna þætti í kvikmyndum kannski fullmikill. Það eru til fullt af dæmum þar sem myndræn framsetning virkar vel. T.d. er varla sagt orð í Paris Texas, en er samt ein af betri myndum sem gerð hefur verið. Þar er myndræn framsetning aðalmálið, sagan er sögð í löngum tökum, þar sem hádramatískar samræður hefðu verið alveg út úr kú. En þar er samt drama, því dramatík þarf ekki endilega að vera í samtölum, heldur líka í því hvernig persónur horfa og horfa ekki á hverja aðra, hvernig og hvenær þær þegja, o.s.frv. Svo er myndræn framsetning stundum best til þess fallin að koma sögunni á framfæri. Tökum t.d. atriðið úr Close Encounters of the Third Kind. Richard Dreyfuss er að keyra um nótt á trukknum sínum. Hann er villtur og stöðvar bílinn til að skoða kort. Í gegnum afturrúðuna sjáum við bílljós nálgast. Allt í einu lyftast ljósin frá jörðu og svífa hratt upp í himininn. Segir meira en þúsund orð. En það er auðvitað rétt hjá Hávari, ef myndin er ekki um neitt mikið bjarga fallegar myndir engu.

Þetta með innihaldsleysið... Já, það eru ekki margar íslenskar myndir sem virðast snerta við kvikuna í manni. Fáar reyndar. Ef nokkrar. Hér er enginn Ken Loach eða Mike Leigh. Enginn Charlie Kaufmann eða Lars Von Trier. Einhver sem hefur svo mikinn og brennandi áhuga á einhverju og svo mikla þörf til að segja frá því að stundum þyki manni nóg um. Einhver sem getur smitað mann með ástríðunni. Ég get nefnt nokkrar erlendar myndir sem hafa haft slík áhrif á mig að ég hef gengið um í vímu á eftir, en engin íslensk kemst þar inn. Sem er mjög leitt.

Það sagði einhver ítalskur kvikmyndaleikstjóri að ítölsk kvikmyndagerð hefði byrjað að hnigna þegar ítalskir leikstjórar hættu að ferðast um með almenningssamgöngum. Kannski þetta sé vandamálið, strætókerfið í Reykjavík er svo lélegt að leikstjórum dettur ekki í hug að taka strætó. Ef þeir tækju strætó sæju þeir rónana á hlemmi, manninn frá Costa Rica sem er á leið í fiskvinnu út á granda, austurlensku stúlkurnar sem spjalla saman á sínu hvella tónamáli á leið sinni í ræstingarnar, gamla fólkið sem eru korter að komast út úr vagninum, unglingana sem setja lappirnar upp á sætin og fá skammir frá bílstjóranum. Lífið í borginni. Eða eitthvað

Og ég er ekki að segja að ég geti gert betur. En kannski vil ég trúa ég því innst inni? Hmmm. Allavega nú er nóg komið. Hvalurinn bíður betri tíma.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mjög góð grein.

kv kk