sunnudagur, nóvember 7

spænskt popp #5


¡Ay que mona! Barnastjarnan Marisol

Hún kallaði sig Marisol, en rétt nafn hennar er Josefa Flores Gonzáles, fædd 1948 í Málaga á Suður-Spáni. Dans og tónlist voru henni í blóð borin og hún hóf feril sinn sem dansari aðeins 6 ára gömul. Hún var uppgötvuð í spænska sjónvarpinu 1959 og í framhaldi af því tók framleiðandinn Manuel Goyanes hana upp á arma sína og gerði hana að barnastjörnu. Hún sló fyrst í gegn í kvikmyndinni Un rayo de luz ("Ljósgeisli") sem gerð var 1960. Marisol varð stjarna, fyrirmynd ungra stúlkna sem söng eins og engill og heillaði alla með geislandi brosi. Hún gekk að eiga Carlos, son Manuels Goyanes, árið 1969 og lífið brosti við henni.En barnastjarnan Marisol áttaði sig brátt á því að hún var í raun þræll Goyanes. Hún vildi ekki vera Marisol alla ævi. Hún rifti öllum samningum við Goyanes eldri og skildi við Goyanes yngri 1972 og kaus upp frá því að vera þekkt sem Pepa Flores þó hún hafi notað Marisol-nafnið eftir sem áður. Hún kynntist danshöfundinum Antonio Gades og þau gengu í hjónaband á Kúbu og Castro sjálfur var svaramaður (Pepa var þá orðin sannfærður kommúnisti). Marisol/Pepa Flores hélt þó áfram að gefa út tónlist og leika í bíómyndum, m.a. má sjá henni bregða fyrir í Carmen e. Carlos Saura (þar var Gades danshöfundur).Síðasta myndin sem hún lék í var gerð 1985 og þau Gades skildu 1986. Í dag býr Marisol/Pepa Flores í Málaga, hætt að syngja og leika í bíómyndum og vill ekki einu sinni koma fram í viðtölum. Einu tengslin sem hún hefur við skemmtaniðnaðinn er þegar hún heimsækir dóttur sína, Maríu Esteve leikkonu.

Og hér koma tvö lög með Marisol. Það fyrra, Tómbola, er úr samnefndri kvikmynd sem gerð var 1962 og er líklega þekktasta lag hennar og oftar en ekki er þetta lag nefnt í sömu andrá og nafn Marisol. Inntakið er eins og segir í viðlaginu:
La vida es una tómbola, ton-ton tómbola
Mætti útleggja "Lífið er lotterí, já það er lotterí". (Neinei, ekki sama lagið).

Marisol - Tómbola

Seinna lagið, La tarara úr myndinni Las 4 bodas de Marisol frá árinu 1967. Væri ekkert út úr kú í Tarantino-mynd.
Marisol - La tarara

P.S. Stenst ekki að bæta við öðru lagi með Marisol. Þetta er af plötu sem heitir "Galería de perpetuas" og kom út 1980. Sérstaklega er útsetningin skemmtileg, klavinetið á fullu spítti. Gunni Þórðar hefði ekki gert betur:
Marisol - Ay Rosa

Engin ummæli: