þriðjudagur, desember 27

jólaskap

Það náðist ágætis jólastemning um jólin, þrátt fyrir grátt og guggið veður. Þorláksmessa var kannski einna jólalegust, við feðgar röltum niður í bæ í góða veðrinu og kíktum í Nexus þar sem pilturinn fékk forskot á sæluna með peningunum sem afi hans gaf honum. Og keypti auðvitað King Kong dót. Svo fórum við í friðargönguna og slettum á okkur vaxi (aðallega þó ég). Svo hittir maður alltaf fólk á Laugaveginum sem maður sér kannski ekki á hverjum degi, það var næstum fagnaðarfundur á hverju götuhorni. Keyptum okkur svo belgískar vöfflur á Lækjartorgi og röltum heim. Á meðan drengurinn sorteraði pakkana undir jólatrénu og lét King Kong lumbra á einhverri aumingjans risaeðlu, steikti ég laufabrauð og hlustaði á jólakveðjurnar á rás 1. Um kvöldið lásum við í bók Árna Björnssonar um jólin, m.a. kaflann um dauða Þorláks helga, sem drengurinn lét sig hafa að hlusta á.

Hafði hamborgarhrygg í matinn á aðfangadag sem bragðaðist hreint afbragðsvel. Barnsmóðir mín kom í mat til okkar, dauðfegin að sleppa við jólavesenið og lét mig stjana við sig. Pakkarnir rötuðu flestir til drengsins og ég fékk frekar fáa, þó fékk ég forláta geisladisk með kór eldri borgara á Hornafirði og kaffibrúsa. Barnsmóður minni gaf ég fávitafælu úr Nornabúðinni, af gefnum tilefnum. Það má auðvitað alltaf deila um hversu viðeigandi það var af mér að gefa minni fyrrverandi svona gjöf (fyrir nú utan það að með því er ég að útiloka með öllu að ég eigi nokkurn séns í hana aftur), en hún hafði alveg húmor fyrir því. Restinni af jólahelginni var eytt í afslappelsi. Sonurinn heimtaði að ég vekti sig eldsnemma alla daga til að sjá barnatímann, sem ég og gerði. Svo skreið ég aftur upp í rúm og hann kom af og til og kúrði hjá mér. Það fannst mér indælt. Svo dúlluðum við okkur, lékum okkur með dótið hans, borðuðum og höfðum það náðugt. Engin jólaboð, fórum ekkert í heimsóknir heldur slöppuðum af eins og við gátum. Já og kláruðum laufabrauðið. Dæs dæs dæs og klapp á bumbu. En mikið var erfitt að vakna í morgun.

laugardagur, desember 24

Limgerði 33

Bið eg yður, góð systkin, að ér þiggið vel áminning mína á hátíð þessi, er upphaf má kalla alls þrifnaðar vors og svo mikill kraftur veitist, að ótrúir geta iðrun, en grimmir vorkunnlæti, vættir líknar grátandi og heimkomu hertekinn, en sár fýsist lækningar.

Á þessi tíð var borinn sá Guðs gymbill, er á braut tók mein heimsins. Í þess burðartíð á að fagna, sá er hreinan hug hefir, en óast syndugur. Sá er góður er, biðji af öllum hug fyr sér og öðrum, en syndugur gerist þarflátur í bæn sinni. Blíður dagur og öllum iðröndum líknsamur. Heit eg yður, synir mínir, og víst veit eg, að á þessum degi mun þiggja það, er biður, sá er iðrast í hugnum og eigi hverfur allt til leiðinda syndarinnar og er efalaust í trúnni.

Í dag er á braut tekin örvilnun syndanna.
(Úr Íslenskri hómilíubók)


Gvendarbrunnur óskar yður öllum gleðilegra jóla, árs og friðar, magapínu og sykursjokks og langra vökunátta yfir ógrynni af skemmtilegum bókum. Megi vinnuveitendur yðar gefa yður frí á millum jóla og nýárs og einnig millum nýárs og þrettánda. Amen.

P.s. Og Ármann minn, það þýðir lítið að vera með getraun um Limgerði 33 þegar ekkert er kommentakerfið. En þetta var heimilisfangið sem Skrámur (as in: "æ æ, er Glámur með skrámur?") gaf jólasveininum, en sá taldi sig vera í Hellisgerði 3 (og hafði reyndar rétt fyrir sér því auðvitað var hann pantaður þangað).

miðvikudagur, desember 21

Varríus er með gáfaðri mönnum og hefur að auki skoðanir á mörgu. Umfjöllun hans um biffflíuna er alveg þess virði að lesa, og svo hefur hann ritað snilldarpistil um jólasveininn og Flóka.

Talandi um dv og jólasveininn. Leiðari Jónasar í gær var alveg ótrúlega hálfvitalegur. Alveg furðulegt að maðurinn skuli komast upp með að þykjast vera greindur. Hvernig hann kemst t.d. að þeirri niðurstöðu að þetta jólsveinaskógjafakjaftæði sé starfsfólki á leikskólum að kenna is beyond me. Og það er greinilegt að hann hefur eitthvað ruglast á fjölda jólasveinanna ef hann heldur að fólk gefi börnum í skóinn í heilar fjórar vikur. En alltaf gaman þegar menn gera sig að fífli út af einhverju jafn ómerkilegu.

sunnudagur, desember 18

bonnie lad


Færsla dagsins er tileinkuð manninum sem ég hitti inni á klósetti á Nasa í gærkvöldi. Hérna er lag með honum. Og hérna er vídeó með nýjasta prójektinu hans, Superwolf (svolítið stórt og lengi að hlaðast niður, en þess virði).

föstudagur, desember 16

jólin jólin bókstaflega alls staðar

Það eru ekki bara Hraun sem gefa út jólaplötur fyrir vini og vandamenn. Sufjan Stevens hefur bæst í hópinn og jólalagasafn hans má m.a. sækja hér. Og hér eru þrjú sýnishorn, tvö þeirra eru ægifögur jólalög með banjóundirleik. Einhvern veginn hef ég aldrei tengt banjó við jólin, en kannski verður nú breyting á. Síðasta lagið er lítill laglegur bjöllukór. Jájá, jólastemning, jólastuð. Þetta er nú engin hemja.
Sufjan Stevens - O Come O Come Emmanuel
Sufjan Stevens - O Holy Night
Sufjan Stevens - Angels We Have On High

fimmtudagur, desember 15

rulluf

Þetta léttir lundina í skammdeginu: Farið á Vef TV, og horfið á Ísland í bítið. Þegar þátturinn byrjar að spilast skuluð þið hægrismella á myndina og velja Play speed > Slow. (Biggi á heiðurinn að þessari uppgötvun)

... og brosi í gegnum tárin


Kannski það skemmtilegasta við þennan alheimsfegurðarkeppnissigur er að ólíklegustu bloggarar gripu andann á lofti og sömdu skemmtilega pistla. Mér dettur aldrei neitt í hug, þannig að ég linka bara á alla hina:

Parísardaman

Eyja
Málbeinið
El ojo eléctrico uno y dos

miðvikudagur, desember 14

sunrise

Var að fá þetta sent:

*Filmabend / Filmnight*

* *

Samstag, 17. Dezember 2005, 20.00 Uhr (Sat. Dec. 17; 8 pm)
Loftkastallinn, Seljavegur
Eintritt frei (Free admission)

Die deutsche und die französische Botschaft haben zwei Stummfilme ausgewählt (The German and the French Embassy selected two silent films):

Rien que des heures
Wurde 1926 von Alberto Cavalanti gedreht (Directed 1926 by A.C.) Er zeigt das Leben in der großen Stadt Paris (Shows life in a big city like Paris)

Sunrise
1927 gedreht von Friedrich Wilhelm Murnau in den USA
Eine Dreiecksgeschichte mit mörderischen Absichten.
(1927 - directed by F.W. Murnau in the US. Triangle storyline with dreadful intensions.)

Begleitet werden die Stummfilme von einem isländischen Quartett. Die Musik hat ANGIL aus Frankreich speziell für diese Aufführung komponiert.
(Silent films are accompanied by an Icelandic quartet. The music was composed by ANGIL from France especially for this performance.)

Anschließend sind Sie alle herzlich eingeladen zu französischem Wein sowie deutschem Wein und Bier.
(After the perfomance everybody is invited to French wine and German wine and beer.)


Nú veit ég ekkert um þessa frönsku mynd, en Sunrise er æði! Ef þið hafið einhvern snefil af áhuga á kvikmyndum þá megið þið ekki missa af þessu. Svo er hún líka eitthvað svo jólaleg. Og þetta er ekki einhver sérviskuleg mynd sem bara sérvitringar fíla, ónei. Hún er æði. Segi og skrifa. Og frítt inn og vín í lok sýningar. Verst að ég kemst ekki...

laugardagur, desember 10

dagurinn

Dagurinn hófst á snjórnarfundi Hugleiks. "Ert þú í stjórn Hugleiks?" spurði sonur minn þegar ég útskýrði fyrir honum hvert ég þyrfti að fara. "Er það svona eins og Jedi Council?" "Já, eiginlega eitthvað í þá áttina" svaraði ég. Annars var stjórnarfundurinn hinn skemmtilegasti, Silja útbjó bakkelsi af stakri snilld og líflegar umræður um framtíð og nútíð. Þetta verður allt alveg djöfull spennandi, hvað sem verður.

Og svo sýning. Ein sú besta hingað til, held ég bara. Kraftur í fólki og salurinn í góðu stuði. Og einhverjir gagnrýnendur, mér skilst að allavega einn þeirra hafi lyppast niður í gólfið af hlátri svo við eigum bara von á góðu. Og tónskáldið heilsaði upp á mig eftir sýningu, svona hitta-manneskjuna-á-bakvið-bloggið stund. Afar skemmtilegt. Hvet bloggvini eindregið til að heilsa ef þeir villast á sýningu.

miðvikudagur, desember 7

jájájá

Lasinn heima og nenni engu. Ekki einu sinni að blogga. Tók samt til í tenglunum hérna til hliðar, bætti við nokkrum snillingum, þeim Bibba, Nönnu og Jenný. Jájá, og svo má hér sjá myndir frá því strákgemlingurinn minn hélt upp á afmælið sitt fyrir réttum mánuði. Þetta myndarlega bakkelsi sem sjá má á einni myndinni bauk ég allt sjálfur og skreytti af mesta myndarskap. Þetta getur maður.

laugardagur, desember 3

3. vísbending

Smásagan (og myndin) er byggð á minni úr íslenskum þjóðsögum, en fært til stríðsáranna á Íslandi. Og nú hlýtur einhver að kveikja.

föstudagur, desember 2

2. vísbending

Myndin er byggð á smásögu eftir þekktan, núlifandi íslenskan höfund, sem er þekktur bæði fyrir smásögur sínar og ljóð.

fimmtudagur, desember 1

og sjöunda

Og yfir í eitthvað íslenskt. Í hvaða íslensku sjónvarpsmynd kemur þessi setning fyrir, hvaða persóna sagði hana og hver lék þessa persónu?
"You can put it in your pipe and smoke it."

miðvikudagur, nóvember 30

og sjötta spurning

Spurt er um leikstjóra og kvikmynd. Hann vakti fyrst athygli á Vesturlöndum með þessari mynd sinni á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 1950. Hann var þó búinn að gera allnokkrar myndir fram að því í heimalandi sínu. Myndin er byggð á sögu sem var þekkt í heimalandi leikstjórans, og hefur leikrit byggt á þessari sömu sögu verið sett á svið í Þjóðleikhúsinu. Fyrir nokkrum árum var einnig gerð kvikmynd í Hollywood sem byggði á kvikmyndinni. Og nú ætti einhver að kveikja...

þriðjudagur, nóvember 29

spurt er um leikstjóra

Já, nenni ekki að finna neitt annað blogga um. Svo áfram með getraunir.

Og spurt er um leikstjóra: Hann lék í og leikstýrði fjöldanum öllum af þöglum myndum. Lék líka í nokkrum talmyndum, en leikstýrði ekki neinni slíkri.

sunnudagur, nóvember 27

og svona til að halda sér inni í gáfulegu umræðunni

Ég þekkti Geirlaug Magnússon ekki neitt, sá hann aldrei nema á myndum og hef lesið í mesta lagi eitt ljóð eftir hann. Og man ekki einu sinni hvernig það var. Svona er maður mikill búri.

föstudagur, nóvember 25

barfly

Jájájá. Sigga þorskaþjálfi hafði það rétt. Snjöll stelpa. Og Skarpi minn, ég hef fulla trú á þér. Þetta var semsagt auðvitað og vitaskuld Barfly. Mikil snilldarmynd. Önnur eftirminnileg setning úr þeirri mynd: "To all my friends...!", sem kom fyrir ansi oft.

Og ég er Gandálfur

Which Fantasy/SciFi Character Are You?

3. vísbending

Sú síðasta var frekar obskjúr, svo hér kemur eitthvað sem allir ættu að þekkja sem hafa séð myndina. Í myndinni kemur m.a. fyrir þetta samtalsbrot:
"Don't you just hate people?"
"Oh, I don't know, but I seem to feel better when they're not around"

Og hvað heitir svo myndin?

2. vísbending

Og enn er spurt um kvikmynd. Leikstjóri myndarinnar fæddist í Íran og hefur gert kvikmynd í Kólombíu.

fimmtudagur, nóvember 24

og fjórða spurning

Spurt er um kvikmynd. Hún var byggð á smásögu eftir þekktan rithöfund, og er sagt að sagan, ásamt flestum sögum þess höfundar, sé meira eða minna byggð á hans eigin lífi. Það mætti reyndar líka halda að leikari myndarinnar hafi að einhverju leyti tekið persónuna sem hann lék til fyrirmyndar í lífi sínu.

meira bíó

Jæja, við skulum sjá hvert við komumst með bíógetraunina.

3. spurning: Spurt er um mynd og leikstjóra. Þegar myndin var frumsýnd fyllti leikstjórinn vasa sína af grjóti (að eigin sögn) og beið bak við tjaldið, tilbúinn til að grýta áhorfendur ef þeir skyldu gera aðsúg að honum.

þriðjudagur, nóvember 22

önnur spurning

Arngrímur kominn með stig, þannig að það er best að halda áfram. Nú höldum við Evrópumegin við Atlantsála.

Spurt er um kvikmynd og leikstjóra.

1. vísbending: Í myndinni drepur kona eiginmann sinn með því að berja hann í hausinn með kjötlæri.

í getraunum að gamna sér

Allir með getraunir í gangi, og ekki má ég minni maður vera. Sjá hvort maður fær einhver viðbrögð. Það er ofgnótt af bókagetraunum, ég veit ekkert um orkusögu, en eitthvað um bíómyndir, svo hér er bíómyndagetraun.

1. spurning

Í hvaða mynd koma þessi samskipti fyrir?
"You can see now?"
"Yes. I can see now"


Þetta er reyndar alltof létt.

mánudagur, nóvember 21

ahbú

já, leikritið frumsýnt og maður í einhverju limbói þessa dagana. Skásta við þetta er að nú gefst tími til að sinna því sem hefur þurft að sitja á hakanum að undanförnu, eins og að fara yfir verkefni nemenda minna (ekki seinna vænna) og annað eftir því. Jólaævintýrið heldur samt áfram til áramóta og þar sem ég er ekki enn búinn að fá mig sullfaddan af því leikriti og fólkinu í hópnum, þá hugsa ég bara til þess með tilhlökkun. Fyrir nú utan það að ég held ég geti örugglega leikið betur en ég hef verið að gera hingað til (sem er engin afsökun fyrir því að sjá ekki leikritið, það er hreint ótrúlega skemmtilegt og þið getið alveg þolað smá aulahroll þessar fáu mínútur sem ég er á sviðinu. Fyrir nú utan það að það fer að verða uppselt á helling af sýningum). Og nú er komin gagnrýni, bæði í mogganum og á netinu og alveg erum við í skýjunum með þetta allt saman.

Mest fannst mér þó gaman að fá viðbrögð frá syni mínum. Ég er nú búinn að drösla honum með mér á ófáar æfingarnar þannig að hann hefur fengið að sjá verkið verða til smátt og smátt (og þurft að sitja undir löngum söngæfingum, af ótrúlegri þolinmæði). Hann var að raula vikivakann með sjálfum sér í dag þegar hann sat og teiknaði, og trúði mér fyrir því að hann væri kominn með æði fyrir sænsku! Svona fer þegar sænskir prímadonnudraugar fá að fara sínu fram.

föstudagur, nóvember 18

koppakerling

Jólaævintýrið heldur áfram, frumsýning á morgun og spenningur í mannskapnum (það eru enn lausir miðar á frumsýningu! ). Diskurinn er í þann veginn að koma út og lög farin að heyrast í útvarpi meir að segja. Öðruvísi mér áður brá. Og hér kemur sýnishorn:

Ebeneser "Skröggur" Friðriksson, stórbóndi á Grafarbakka í ónefndri sveit, vaknar upp við vondan draum í lokrekkju sinni. Til hans er komin Ragnheiður, sem áður var ráðskona hans og stundum hjásvæfa. Sem væri ekki skrýtið nema vegna þess að 7 árum áður lasnaðist hún svo heiftarlega að hún dó. Og hún varar Ebeneser við og segir að til hans komi 3 draugar sem ætli að sýna honum... æi, ég nenni ekki að útskýra þetta. Komiði bara að sjá sýninguna.
Söngur Ragnheiðar

fimmtudagur, nóvember 10

nú er kominn tími til að plögga, Ebenezer...

Já, plöggtíminn er upprunninn. Eftir rétt rúma viku verður Jólaævintýri Hugleiks frumsýnt, nánar tiltekið laugardaginn 19. nóvember kl. 20 í Tjarnarbíó. Sýningar verða svo fram að áramótum. Fyrir alla fjölskylduna, og frítt fyrir börn á grunnskólaaldri í fylgd með fullorðnum. Smellið á myndina hérna fyrir neðan! Lesið dagbókina! Og bráðum verður hægt að kaupa diskinn! Jibbíkóla...


fimmtudagur, nóvember 3

svo er nú það

Ég tek voða sjaldan þátt í gáfulegum umræðum á netinu, eins og hjá Hreini og Norðanáttinni og svona hér og þar. Þótt ég hafi ég alveg óskaplegan áhuga á svona speki. Og ég var að uppgötva ástæðuna: ég er bara aðeins of hallærislegur í smekk og hugsun til að passa inn í svona kreðsur. Dæmi: sá auglýsingu í dag um að nú ætti að fara að gefa Ísfólksbækurnar út í nýrri þýðingu Snjólaugar Bragadóttur frá Skáldalæk (sem er auðvitað flottasta skáldkonuheiti evver), og ég hugsa að ég kaupi alla vega nokkrar. Ég var nefnilega húkkt á Ísfólkinu og las þær allar. Allavega tvisvar, ef ég man rétt. En þýðingarnar voru hræðilegar. Og nú, af því að skáldalækurinn fær að renna um lindir lífsins (eða hvað þetta hét) þá verður gaman að sjá hvernig útkoman verður. Jájá.

Og svo kíkti ég á batsjélorinn í fyrsta sinn um daginn. Bjóst við hinu versta, en eiginlega, sko, fannst mér þetta nú bara soldið sætt. Það sem var hallærislegt og vont var öll umgjörðin, en fólkið sjálft var bara... svona fólk. Sem var fínt. Eins með Ástarfleyið. Glápti á það áðan og fannst strax jákvætt að þetta var allt frekar eðlilegt fólk, sumir soldið þybbnir og svona. Og fannst þetta eiginlega bara sætt. Eða þangað til Valdimar Örn opnaði munninn. Hann mætti gera meira af því að leika sterku þöglu týpuna.

Og talandi um Ástarfleyið. Eitt af inntökuskilyrðunum var að vera hress. Hvers eigum við feimna og félagsfælna fólkið að gjalda? Hvernig væri nú að hafa Ástarfley fyrir félagsfælna og feimna? Í umsjá Aki Kaurismaki.

mánudagur, október 31

hríðtepptur...

Mér finnst "hríðtepptur" skemmtilegt orð. Verður Siggalára þá kannski hríðteppt einhvern tímann í janúar?

sunnudagur, október 23

laugardagur, október 22

nagg og nöldur

RÚV var alveg að toppa það í kvöld með þessari fasísku áróðursmynd úr rassgati Disney. Meira helvítið sem þessir amríkanar geta blygðunarlaust borið svona áróður á borð, og það í líki barnamyndar! Æjá, það er svo frábært að fara í herinn og læra að hlýða og skjóta fólk.
---
Annars eru blöðin einhvern veginn að fyllast af fréttum af barnaníðingum og dómum yfir þeim. Þetta er nóg til að fyllast þunglyndi. Sérstaklega var ein frétt, af einhverjum dela sem hafði misnotað stjúpdóttur sína margoft á margra ára tímabili. Og hver haldið að hafi skilað séráliti í Hæstarétti og taldi málið ósannað? Eru hæstaréttardómarar nokkuð æviráðnir? Er ekki örugglega hægt að bola svona skoffíni burt einhvern tímann?
---
En líka jákvætt. Mér tókst að koma drengnum mínum á bragðið með Monty Python, einhvern tímann þegar hann fann ekkert til að horfa á sótti ég gamlar python-spólur upp í hillu og honum fannst þetta mikið fyndið. Sem er ekki skrýtið. Og við horfðum saman á Meaning of Life, sú mynd versnar ekkert með árunum, þvert á móti. Ég var samt búinn að gleyma því að hún er nú þokkalega gróf á köflum, en ég held að piltinum hafi ekki orðið neitt meint af (hann er níu ára). Og við hlógum mikið. Honum fannst gubbuatriðið sérstaklega fyndið.

föstudagur, október 21

jæja

Ekki mikið á mér að græða þessa dagana, allur tíminn fer í æfingar á Jólaævintýrinu og svo í hitt bloggið mitt. Svo fer ég ekki neitt á Airwaves, læt mig bara dreyma. Já og geri svo eitthvað svona:
You Should Get a MFA (Masters of Fine Arts)

You're a blooming artistic talent, even if you aren't quite convinced.
You'd make an incredible artist, photographer, or film maker.

mánudagur, október 17

15 ára

Ásamt þessari og þessari er IMDb sú vefþjónusta sem ég nota mest. Ég held ég fari örugglega a.m.k. einu sinni á dag þarna inn og leita upplýsinga. Hvar væri ég án þeirra? Og nú er IMDb 15 ára, eldri en
Veraldarvefurinn. Til hamingju segi ég nú barasta. Og takk fyrir mig.

sunnudagur, október 16

anna karina...

Anna Karina. Ædol ungra gáfumanna á sjöunda áratugnum. Fædd í Kaupmannahöfn en freistaði gæfunnar í París, þar sem hún kynntist Godard og þau urðu par. Hún lék í slatta af myndunum hans, m.a. annars þeirri sem ég er að horfa á núna í Rúv, Une femme est une femme. Reyndar segja margir að myndir Godard með Önnu Karinu séu að einhverju marki ástaróðar hans til hennar, og líklega má lýsa Une femme... þannig líka. Myndin er alveg fín, kannski ekki besta Godard-myndin en ein af þeim skemmtilegri. Sagan er óttalegt bull, myndin er aðallega Godard að leika sér með formið og myndmálið með aðstoð Raoul Coutards, kvikmyndatökumanns. Lúkkar æðislega, leikur sér mikið með grunnlitina, sérstaklega bláan og rauðan. Mjög sixtís. Og svo er hann að sýna kærustuna sína. Og Anna Karina stendur alveg undir því. Hún gerði reyndar fleira en að vera kærasta Godards, vann sem módel og söngkona, telst til hinna svokölluðu "ye-ye" söngkvenna. Hér er m.a. eitt lag þar sem Anna Karina syngur dúett með Jean Claude Rialy, sem leikur einmitt kærastann hennar í Une femme... Lagið er eftir Serge Gainsbourg.

Jean-Claude Brialy et Anna Karina - Ne dis rien

upprifjun

Upp skaltu á kjöl klífa,
köld er sjávar drífa,
kostaðu huginn að herða,
hér muntu lífið verða.
Skafl beygjattu skalli,
þótt skúr á þig falli.
Ást hafðir þú meyja.
Eitt sinn skal hver deyja.

föstudagur, október 14

hlandbrunnið helvíti

Þetta er andskotanum til skammar. Þessi fína spænska mynd í sjónrappinu og þá er eintakið rammfalskt. Svo falskt að Javier Bardem, sem hefur annars þessa líka fallegu djúpu rödd, talar eins og strumpur.

miðvikudagur, október 12

loveboat to china...Ég neyðist til að hryggja þau ykkar sem voruð að vonast til að sjá mig í Ástarfleyinu, því ég hef ákveðið að taka ekki þátt í því. Ástæðan er sú að í auglýsingunni segir að til að geta verið með þurfi maður að vera x) á lausu og 69) hress. Nú er ég á lausu, en mér leiðist yfirmáta hresst fólk. Því fer sem fer. I'm so sorry.

sunnudagur, október 9

kvikmyndahátíð

Á endanum komst ég ekki á nema 4 myndir, en allar fínar. Við feðgar sáum Töfrakastala Howls í gær og var hún ekkert nema snilldin eins og búast mátti við úr þeirri áttinni. Hins vegar sá ég minnst af þessum myndum sem voru í keppninni svo ég get lítið sagt um úrslitin.

Þetta minnti mig samt á eitt sem mér var einu sinni bent á í náminu. Hver svo sem ástæðan er þá fúnkera kvikmyndahátíðir aldrei að því er virðist í höfuðborgum landa. Hefur einhver heyrt um kvikmyndahátíðina í London? Eða hátíðina í Róm, eða Madrid, eða Bonn? Af einhverjum ástæðum eru allar stærstu kvikmyndahátíðirnar haldnar utan höfuðborganna, jafnvel í litlum bæjum (eins og Cannes). Það er engin ein skýring á þessu en nokkrar tilgátur. Ein er sú að stærstu blöðin eru oft með aðsetur í höfuðborgum, því þar er pólítískur miðpunktur landsins. Þegar kvikmyndahátíð er í öðrum bæ eru blaðamenn sendir þangað og hafa því ekkert annað að gera en sækja hátíðina og skrifa um hana. Ef hún er hins vegar haldin á heimaslóðum hafa þeir um nóg annað að hugsa og hátíðin fær minni umfjöllun en ella. Hvort þetta eigi líka við um Reykjavík veit ég ekki, en mér fyndist það góð hugmynd að setja á stofn alþjóðlega kvikmyndahátíð á Akureyri. Nú eða Ísafirði. Spurning hvort það er nóg af bíóhúsum.

laugardagur, október 8

djöfull gæti ég notað þetta

Ig Nóbellinn í Hagfræði fór til Gauri Nanda í MIT sem fann upp vekjaraklukku sem hleypur burt og felur sig til að tryggja að fólki drulli sér fram úr. Ég þarf virkilega á svona hlut að halda. Ég snúsa stundum í klukkutíma áður en ég ulla mér framúr.

föstudagur, október 7

gregeríur

Varríus bað (kurteislega?) um skýringar á þessum gregeríum um daginn. Þetta er bókmenntategund fundin upp af spænska rithöfundinum Ramón Gómez de la Serna. Fæddur í Madrid 1888, samtíðarmaður Dali, Buñuel og Lorca og flæktist í sömu kreðsum. Serna fann þetta upp í einhverju fikti snemma á síðustu öld og birti gregeríur m.a. í dagblöðum og bókum fram eftir öldinni. Oftast skilgreindar sem "húmorískar metafórur" og svipar oft til súrrealisma, t.d. í frjálslegum og óvæntum tengingum og myndmáli. Serna kom þó á undan súrrealismanum og hafði áhrif á m.a. Buñuel. Margar af þessum gregeríum byggja á orðaleikjum sem er ómögulegt að þýða.

Annars hafa hlið helvítis verið opnuð aftur, og fagna því allar góðar vættir.
Einn sit ég og baka
í litlu eldhúsi
ein gin kemur að sjá mig
og þá verður nú stuð


Þá er komið að því. Morgundagurinn verður síðasti vinnudagurinn á leikskólanum. Á mánudag tekst ég á við nýja vinnu. Þar verða engin börn. Hugurinn er blendinn, bæði saknar maður barnanna og svo er frábært starfsfólk að vinna þarna. Og þetta er djammglaðasti vinnustaður sem ég hef unnið á. Og skemmtileg djömm, mikið drukkið og skemmt sér, enginn fer á trúnó eða úthúðar neinum, bara stuð og læti. En af því að ég er að hætta sit ég sveittur og baka þetta gúmmelaði hér sem samstarfsfólkinu bráðum fyrrverandi verður boðið upp á á morgun. Eins óhollt, sykursýkishvetjandi, kólesterólaukandi og magapínuvaldandi og mögulegt er. Annars er magnað hvernig tvö fremur ógeðfelld element svona ein og sér verða bragðgóð þegar þeim er blandað saman. Eins og smjör og flórsykur. Það er nú heimspeki dagsins.

miðvikudagur, október 5

greguerías

Fiðluboginn saumar, eins og nál með tvinna, nótur og sálir, sálir og nótur

* * *

Skáldið nærir sig á tunglkökum

* * *

Hækur eru ljóðræn símskeyti

* * *

Það mikilvægasta við lífið er að hafa ekki dáið

* * *

Tunglið og sandurinn elskast af ofsa

* * *

Byggingarlist snævarins er alltaf í gotneskum stíl

* * *

Hjólreiðamaðurinn er blóðsuga hraðans

* * *

{}
Kossinn er ekkert innan slaufusviga

* * *

Skáldið horfði svo mikið í himininn að hann fékk ský í augað

* * *

Þetta var einn af þessum dögum þegar vindurinn vildi tala

* * *

Svefninn er lítið sýnishorn sem dauðinn gefur okkur svo við eigum auðveldara með að lifa

* * *

Óperan er sannleikur lyginnar og kvikmyndin lygi sannleikans

* * *

Gíraffinn er hestur sem lengdist af forvitni

* * *

Eru draumarnir nýir, eða höfum við átt þá frá fornu fari?

* * *

Feimnin er eins og illa saumuð jakkaföt

* * *

Hálft tungl setur nóttina innan sviga

* * *

Hann var bitinn af ufsagrýlu og dó í framhaldi af því

* * *

Síminn er vekjaraklukka hinna vakandi

* * *

Þegar við höfum dæmt fluguna til dauða er eins og hún taki eftir því og hverfi

* * *

Kvöldskýin nota tækifærið og þerra upp blóð sitt og detta eins og notaðir bómullarhnoðrar í ruslafötuna hinum megin á jarðarhvelinu

* * *

Súpan er bað lystarinnar

* * *

Blöðrur barnanna líða um göturnar dauðar úr hræðslu

* * *

Hart brauð er eins og nýfæddur steingerfingur

* * *

Skaparinn geymir lyklana að öllum nöflunum

* * *

Bensínið er reykelsi menningarinnar

* * *

Pannan er spegill spældra eggja

* * *

Læknisfræðin býðst til að finna lækningu innan tíu ára fyrir þá sem eru að deyja þessa stundina

* * *

Snjórinn slokknar í vatninu

* * *

Rykið er fullt af gömlum og gleymdum hnerrum

* * *

Að láta sér leiðast er að kyssa dauðann

* * *

Kossinn er hungur í ódauðleikann

* * *

Fiskurinn er alltaf séður frá hlið

* * *

Náttúran er sorgleg. Hefurðu séð einhvern hlægja að tré?

* * *

Sekkjapípan syngur með nefinu

* * *

Koss er aldrei í eintölu


(Ramón Gómez de la Serna)

þriðjudagur, október 4

bækur gefins bækur

Ferð í þjóðarbókhlöðuna getur margborgað sig því stundum eru einhverjar afdankaðar bækur settar fram á borð og fólki boðið að hirða það sem það vill. Ég gekk út með mikinn fjársjóð: Ástmey konungsins eftir Lion Feuchtwanger, "sem var einn bezti rithöfundur sinnar samtíðar, gerir efninu skil á snilldarlegan hátt, sem verður öllum ógleymanlegur" eins og segir á kápunni. Fjallar í stuttu máli um einhvern kristin kóng sem berst hetjulegri baráttu gegn "móhameðstrúarmönnum" á Spáni, en lætur glepjast af fegurð ungrar gyðingastúlku og gleymir ríki sínu og "skyldunum við hinn kristna heim". Á ekki von á neinu öðru en fáfengilegum kristilegum hroka og fordómum á hverri síðu.

Svo stóðst ég ekki einhverja bók um einhvern Hornblower skipstjóra, e. C.C. Forester sem "er allra skálda liprastur í frásögn, og kann jafnframt að lýsa persónum með þeim hætti að þær líða seint úr minni."

Og síðast en ekki síst Bítlar eða bláklukkureftir Jennu og Hreiðar Stefánsson. Er til flottari titill? "Unglingsstúlka flyzt með foreldrum sínum úr litlu þorpi til höfuðborgarinnar. Hún sér hættur borgarlífsins og kemst í þann vanda að velja sér nýja vini. Undirbúningurinn að fermingunni hjálpar henni og hún yfirstígur hættuna." Bojóboj á ég von á góðu. Eðvarð Ingólfs hvað, ha?

laugardagur, október 1

setning dagsins

"They're havin' a born-again bingo or somethin', so I tough' I migh' jus' bob ou'"
Fór semsagt í bíó í gær. "My Summer of Love", sem var sæt og skemmtileg mynd um ástarsamband tveggja unglingsstúlkna í Jórvíkurskíri. Bróðir annarrar þeirra er trúarnöttari og hefur breytt barnum sem þau erfðu eftir foreldra sína í "spiritual center", hence the sentence above. Fór líka á austurríska mynd um lúser með spilafíkn. Hún var ekkert að grípa mig neitt rosalega, en það voru samt góðir punktar. Já, kvikmyndahátíð í garð gengin og aldrei þessu vant á ég pjening til að eyða í hana. Gaman gaman. Í kvöld ætla ég á Tarnation, og svo reyni ég að mjatla mig inn á nokkrar í viðbót í vikunni, svona inn á milli jólaævintýrisæfinga og þýðinga.

miðvikudagur, september 28

baugsmálið

Þetta er eins og með fimmuklukkið. Allir sannir plebbabloggarar verða að tjá sig um baugsmálið. Og niðurstaðan: eftir að hafa rekið augun óviljandi í fréttir og forsíður blaða undanfarna viku hef ég komist að raun um það að allir sem tengjast þessu baugsmáli eru nú meiri helvítis bölvuðu hálfvitarnir. Og að þetta lið skuli hafa öll þessi völd (peningaleg og pólitísk) í þessu guðsvolaða landi er hreint og beint skerí! DV tókst reyndar nokkuð sem ég hélt að myndi aldrei gerast: ég fékk samúð með Stymma. En bara í smástund. Svo hugsaði ég: fokkit!

Og núna geri ég mitt besta til að opna ekki blöð og horfa ekki á fréttir. BBC í útvarpinu, DVD í sjónvarpinu, Börnin í Húmdölum á náttborðinu og samlestur á Jólaævintýri Hugleix í kvöld. Það verður fyndið stykki. Dickens with two k's and a silent 'q'.

laugardagur, september 24

five songs

Enginn ætlar að klukka mig, en þar sem ég er extra plebbi og vil vera með öllum hinum extra plebbunum þá ætla ég að taka almenna klukkið hennar Hugrúnar nágrönnu til mín og blaðra um fimm ætem um mig. Og til að standa við stóru orðin er best að hafa þetta sem vandræðalegast:
  1. Ég féll á bílprófinu þegar ég tók það fyrst. Reyndar náði ég bóklega hlutanum með glæsibrag, og verklega hlutanum reyndar líka. Nema einu smáatriði. Ég tók prófið á Ísafirði og þar eru (eða voru, allavega) svolítið lúmsk gatnamót. Þau líta út eins og aðalbraut með hliðargötu, en þar sem engin skilti voru gilti hægri réttur. Hins vegar keyrðu flestir þarna eins og um aðalgötu. Það gerði ég líka á ökuprófinu, en akkúrat þegar ég kem að gatnamótunum kemur aðvífandi bíll á hliðargötunni, frá hægri og því með réttinn. Hann hægir á sér og ég held hiklaust áfram. Þegar við beygjum inn á Aðalstræti segir prófdómarinn, eldri maður með yfirvaraskegg og gleraugu: "Æ æ, þarna lentirðu nú í því, þú svínaðir á bílinn þarna". Mér brá auðvitað og hann útskýrði fyrir mér hvers vegna og hélt svo áfram: "Ég hefði sleppt þér með þetta, en þetta var nú sýslumaðurinn sem þú svínaðir á svo mér er ekki stætt á öðru en að fella þig". Tók svo prófið nokkrum dögum seinna og náði.

  2. Ég er haldinn félagsfælni, sem lýsir sér helst í því að mér líður frekar illa í fólksfjölda þar sem hlutverk fólks er ekki afmarkað, t.d. á börum og partíum þar sem maður þarf að flakka á milli fólks og mingla, sem er m.a. ástæðan fyrir því að ég sést ekki oft á Ölstofunni. Mér finnst t.d. mjög óþægilegt að ganga að fólki sem ég þekki og heilsa því ef það er með öðrum sem ég þekki ekki (fer þó eftir dögum og ölvunarstigi). Þetta er auðvitað svolítið bagalegt (og barnalegt), og fólk hefur vænt um mig um hroka þar sem ég hef ekki komið blaðskellandi og heilsað því með látum. Þetta hefur reyndar farið skánandi með árunum. Þegar ég var unglingur kvað svo rammt að þessu að ég gat varla gengið niður Laugarveginn af því ég var svo sannfærður um að fólki sem gekk á eftir mér væri starsýnt á mig af því að því fyndist ég labba svo asnalega. Held samt að ég hafi labbað alveg eðlilega, en ég er þó úr sveit svo maður veit aldrei.

  3. Ég hef látið mig dreyma um að standa uppi á sviði og þakka öllu og öllum fyrir óskarsverðlaunin sem ég var nýbúinn að taka við. Reyndar svolítið langt síðan ég lét það eftir mér að fantasera um þetta. Reyndar hafa dagdraumar stundum hlaupið með mig í gönur, kannski ekki eins oft nú og áður. Svo lengist lærið sem lífið.

  4. Ég hræddist fyrst dauðann þegar ég var 10 ára. Ég var að lesa "Drengirnir í Mafeking" e. Baden Powell, bók um drengi í Suður-Afríku. Einn drengjanna deyr eftir byssuskot og ég man enn hvernig hræðsluhrollurinn læstist um mig þegar ég áttaði mig á því að ég ætti líka eftir að deyja. Ég gat ekki á heilum mér tekið í marga daga á eftir. Svo fattaði ég að líklega væri langt þangað til ég dræpist og þá hætti ég þessari vitleysu.

  5. Ég er haldinn óstjórnlegri frestunaráráttu. Sem fer alveg rosalega í taugarnar á mér.
Klukka þá bara Varríus og Siggu Árna, ég held að það sé ekki búið að klukka þau.

jarðaberjamojitos

(að beiðni Ljúfu)
Fersk jarðaber
Romm
Lime-safi
Hrásykur
Hellingur af klökum
Allt sett í matvinnsluvél og hrært í góðan graut. Jömmí.

P.S. Sjitt, gleymdi, það á að vera sódavatn líka.

fimmtudagur, september 22

bíllaus

Ég er ekki alveg búinn að venjast því að eiga ekki bíl lengur. Case in point: fór eftir vinnu að sækja son minn og vin hans í fimleika. Til að nálgast heimili okkar þurftum við auðvitað að taka strætó, og eftir smá labb var komið í skýlið. Þar tók við bið í kulda og trekki, þar til piltarnir ákváðu að við skyldum nú bara labba af stað í áttina, það væri hvort sem er annað strætóskýli aðeins lengra. Ég benti þessum saklausu sálum á það, af bitri reynslu, að þegar maður gengur burt frá strætóskýli kemur strætó alltaf skömmu seinna. Þeir vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessu, en ákváðu samt að labba af stað. Örskömmu seinna kom strætó, en þá vorum við komnir of langt til að ná honum. Og fyrir vikið gengum við alla leið heim. Sem var ekkert óskaplega langt og bara frábær æfing fyrir okkur, en setti samt kvöldið nægilega mikið úr skorðum til að ég missti á endanum af aukaaðalfundi Hugleiks. Bráðum verður mér sparkað úr þessu leikfélagi. Sem hefði líklega ekki gerst ef ég hefði verið á bíl.

miðvikudagur, september 21

titlar eru fyrir aumingja...

Bætti við blogglinkum, á þær systur Lóu og Hryssu (sem heitir víst Maja), og svo hana Ljúfu. Þær eru bara svo skemmtilegar. Annars lítið í gangi nema vinna vinna vinna vinna. Leikskóli á daginn, þýðingar kvöld og helgar, og með einhverjum herkjum (og andvökum) hefur mér tekist að undirbúa kennslu einu sinni í viku. Varð meir að segja að sleppa stjórnarfundi hugleiks um daginn vegna anna og missti þar af leiðandi af fyrsta upplestri á Jólaævintýrinu. Sem mér þykir vel skítt. Og, jú, svo var Kvikmyndamiðstöðin að veita mér styrk. Hvernig svo sem ég á að fitta því inn í líka er annað mál. En það þýðir að ég verð að fara að betla pjening frá pétri og páli til að fá styrkinn í hendurnar.

Já og svo opnaði ég nýtt blogg. Einhvern veginn verður maður að fá útrás fyrir sýniþörfina. Þetta blogg verður reyndar á spænsku (öllu má nú nafn gefa), og ég ætla að kynna þar íslenska tónlist. Jámm. Ekkert komið inn ennþá (hvernig á ég að hafa tíma til þess annars?) en ef þið viljið kíkja þá er það hér. Sá/sú sem fattar tilvitnunina í titlinum, tja, kann líklega eitthvað í spænsku.

Og enginn búinn að klukka mig ennþá. Eins gott, ég væri vís til að setja inn vandræðalega persónulega hluti og sjá eftir því það sem eftir er ævinnar.

Annars finnst mér ansi skemmtilegt að geymslan mín er smátt og smátt að fyllast af hinu og þessu misnytsamlega dóti. Mest á ég það að þakka föður mínum sem er að taka til heima í sveitinni og kemur af og til færandi hendi með eitthvað sem hann telur mig geta notað. Mesti fengurinn var auðvitað heiðblátt Clairol fótanuddtæki. Now, that brought back some memories.

Úff, ég er alveg að sobbna. Kannski ætti maður að fara að sofa, þessar andvökunætur setja mann soldið úr skorðum...

laugardagur, september 17

þunnur

Ég er svo óskaplega þunnur í dag. Stóð ásamt tveimur dásemdarstúlkum fyrir óvissudegi fyrir samstarfsfólk á leikskólanum. Eða óvissukvöldi, þar sem þetta fór auðvitað allt fram að vinnu lokinni. Eldaði meir að segja matinn oní liðið og tók þar blaðsíðu úr kokkabók bandalagsins, kjúklingur í barbikjú. Og svo var drukkið. Mikið. Og ýmsar tegundir. Bíðum nú við, þetta var: slatti af bjór, mojito, tvö staup (minnir mig) af tekíla, jarðaberjamojito. Já, og nokkrir eplasnafsar. Góð æfing fyrir magann minn. Ef foreldrar hefðu séð til okkar hefðu runnið á þá nokkuð margar grímur. Eina sem skugga setur á þessa kvöldstund er að ég er svo óskaplega hrifinn af einni stúlku, sem virðist ekki hafa mikinn áhuga á mér. Oh well, you can't have it all, I guess...

miðvikudagur, september 14

ljóð

she arms filled bad
teach fascinate already
she fly thus explain sandwich is

You Are Fat! Reduce You Weiight now!
Fast Shiiping
Place 0rder Herre beautiful

Já, ruslpóstur lífgar upp á daginn.

þriðjudagur, september 13

á boltoninum, úa...

Yfirlýsing mín um að fara kannski á Boltoninn var tekið með algerri þögn. Þá eru þrír möguleikar: fólk var ekki að fatta hvað ég var að fara, því finnst bara allt í lagi að fara á Boltoninn eða því er slétt sama um sálarheill mína. Lýsi því yfir hér og nú að ég var að grínast (svona er nú minn húmor skrýtinn). Ég ætla ekki á Boltoninn. Og mér finnst fólk ekkert í lagi sem ætlar á Boltoninn, það er versta tegund tónlistar sem hugsast getur. Og svo maður opinberi fordóma sína í eitt skipti fyrir öll, Boltoninn er bara fyrir kellingar á Barnalandi.is. Og þá meina ég kellingar.

Og kennslan gengur alveg þokkalega, nema ég hef ekki talað spænsku núna í eitt ár og hálfskammast mín að standa þarna fyrir framan nemendurna og böggla út úr mér óhroðanum. Fyrir utan það að spænskan mín er óttalegt götumál, ég reyni mitt besta til að segja ekki joder, de putísima madre, hostia og coño í öðru hverju orði. En ef þau skilja mig þá er þetta nú í lagi kannski. Og ég hef ekki minnst aftur á Foucault, en því meira á Buñuel.

þriðjudagur, september 6

tjamm

Jæja, kenndi fyrsta tímann í kúrsinum mínum eldsnemma í morgun. Gekk bara vel, mér tókst að blaðra heilan helling og vitnaði meir að segja í Michel Foucault. Annars held ég að ég hljóti að vera fyrsti kennarinn við Háskóla Íslands sem jafnframt vinn á leikskóla. Þessi tvö skólastig eiga sitthvað sameiginlegt, nema hvað ég vitna ekki í Foucault í leikskólanum og stúdentar fara ekki út að róla í frímínútum. Og leikskólabörn er meiri krútt en stúdentar.

laugardagur, september 3

draumaborgin

New Orleans er ein af þessum draumaborgum sem mig hefur alltaf langað að heimsækja. Nú er það líklega of seint, í það minnsta ekki þeirri mynd sem hún er þekktust fyrir. Það veit auðvitað enginn hvernig borgin kemur til með að líta út eftir hreinsanir og enduruppbyggingu. En hér eru nokkrir linkar:

fimmtudagur, september 1

svei ... mér ... þá!

Já, svei mér þá. Ef hún Svandís hefur ekki bara gert útslagið hérna megin. Ég sem ætlaði ekki einu sinni að hugsa um borgarstjórnarkosningarnar eina agnarögn, en nú verð ég eiginlega að kjósa VG. Svandís er ekki bara frábær, heldur líka einhver skemmtilegasta og yndælasta manneskja sem ég man eftir að hafa kynnst. Svandísi sem borgarstjóra og hana nú!

---

Inngangurinn að kastljósi kvöldsins þrýsti ælunni upp í háls. "Börn eru vinnuafl framtíðarinnar." Já, við erum vinnuþrælar og útséð með að börnin okkar verði það líka. Kýlum þau endilega niður sem fyrst svo þau geri þetta almenninlega. Annars nennti ég ekki að horfa á umræðuna heldur leyfði syninum að kveikja á teiknimynd, það held ég komi okkur báðum að meira gagni en kallar að röfla. Og miklu skemmtilegra.

---

Svo er hellingur af linkum sem þarf að bæta hér inn til hliðar. En ég nenni því ekki núna. Og þið getið nagað neglur, þau ykkar sem ekki hafa enn ratað inn, og beðið þess í ofvæni að sjá hvort ég linka á ykkur eða ekki. Hinir síðustu verða frystir.

P.S. Efist nokkur um að forysta KSÍ sé alveg í lagi í kollinum ætti þetta að sannfæra þau. Og stóra spurningin: Ef Eiður verður maður leiksins gegn Króötum á laugardag, fær hann þá "forláta ryksugu"?
P.S.S. Og þó, svona til að hafa alla fyrirvara í lagi, kannski voru þetta svíadulurnar sem gáfu ryksuguna. Það kemur ekki fram í fréttinni. En ég mæli samt með því að Eiður fái ryksugu.

föstudagur, ágúst 26

dagurinn

Kóræfing hjá leynilega kammerkórnum (sem ég veit ekki hversu leynilegur er nú orðið), þar sem við ætlum að syngja hin og þessi ættjarðalög og annað skemmtilegt, m.a. eitt lag e. Hildigunni, en við komumst reyndar ekki til að æfa það í kvöld.

Svo sótti ég son minn í afmæli hjá skólafélaga sínum, og mætti þar engum öðrum en Rannsóknarskipinu. Kemur þá ekki í ljós að nýi strákurinn í bekknum sem sonur minn sagði mér frá í gær er enginn annar en Smábáturinn. Er þá komin alveg extra ástæða til að kíkja í kaffi á Tryggvagötuna.

miðvikudagur, ágúst 24

sögur

Hugsuninni er stundum skipt í þrennt: gagnrýna eða rökhugsun, tilfinningahugsun og skapandi hugsun. Ef menn setja þetta upp myndrænt væru rökhugsunin og tilfinningahugsunin stök mengi sem skarast ekki eða lítið, skapandi hugsun skarar þau bæði og tengir þau saman. Ég tek það fram að þessi hugtök eru ekki endilega fræðilega rétt sett fram, ég er bara að reyna að muna samtal á kaffihúsi í sumar.

Það má reyna að setja þetta í einhvers konar samhengi, svona kannski: tilfinningahugsunin er anarkí, tekur við impúlsum frá skynfærum og tilfinningalegum upplifunum án þess að leggja í þær merkingu. Rökhugsunin tekur alla impúlsa og greinir þá eftir orsakasamhengi, hvað kom á undan og hvað á eftir, hvað olli hverju (olli er skemmtileg orðmynd) og hvurs er hvað. Skapandi hugsunin setur þetta allt svo í skiljanlegt samhengi, býr til sögu sem við skiljum úr herlegheitunum, gefur því upphaf, miðju og endi, fablan (eða var það faflan?) með sínu risi. Við vitum öll innst inni að tilgangur með þessu lífi í þessum geysistóra alheimi er enginn. En við viljum trúa því og þess vegna búum við til sögur, hvort sem þær eru í formi trúarbragða, stjörnuspeki eða hvað það nú allt heitir. Þegar við hugsum um líf okkar búum við ósjálfrátt til úr því margar mislangar sögur sem skarast mismikið (menntaskólaárin, háskólanámið, sambúðin, sumarið sem afi dó).

Þegar fólk lendir í hremmingum og áföllum segir það gjarnan eftir á að guð hafi verið að kenna því eitthvað. Þetta er auðvitað bull og þvaður. Í fyrsta lagi af því að guð er ekki til, og í öðru lagi er fáránlegt að kaffæra Indónesíu og Tælandi til að kenna fólki, tja, hvað? Hins vegar er þetta til marks um magnaða aðlögunarhæfni mannshugans og sköpunarmátt, sem er miklu merkilegri en nokkur guð. Hugurinn tekur við upplifunum af harmleiknum og sköpunarmættinum til að búa til úr því heilsteypta rökrétta sögu sem gerir upplifunina skiljanlegri og þolanlegri og vinsar jafnvel sjálfkrafa það út sem ekki er hollt að muna. Það er auðvitað stórkostlega magnað að fólk geti lent í hamförum og misst allt sitt og alla sína, og samt er enn heil brú í hausnum á þeim.

Sköpunarmátturinn er því hið guðlega í huga okkar, eða það sem kemst næst því.

sunnudagur, ágúst 21

drit

Eftir að hafa pælt í gegnum hálfblóðsprinsinn hef ég komist að þeirri niðurstöðu að J.K. Rowling sé sérstaklega hrifinn af þessum orðum:

beam, so. Sérstaklega lh.nt. "beaming". Dæmi: Hermione was beaming. Persónurnar í bókinni eru aldrei "smiling" eða "happy", heldur "beaming".

bird droppings. Stundum kemur fyrir afbrigðið owl droppings. Kemur svo sem ekki á óvart miðað við þann fjölda af uglum sem býr í galdraheimum Potters. Samt held ég að "bird droppings" sé mun algengara í nýju bókinni en hinum eldri. Af hverju veit ég ekki.

Ég hef ekki talið það sérstaklega, en það kæmi mér ekki á óvart ef þessi orð kæmu a.m.k. einu sinni fyrir í hverjum kafla.

fimmtudagur, ágúst 18

ósegjanleikinn

Til að ríma við Hrein og kommentið frá Erni Úlfari, þá kemur hér bragur í flutningi Mauro Antero Numminen:


Pedro Hietanen og M.A. Numminen
Mauro Antero Numminen - Wovon mann nicht sprechen kann
Þetta lag er síðasta lagið á plötu Numminens, The Tractatus Suite, þar sem hann færir heimspekirit Wittgensteins, Tractatus Logico Philosophicus, í tóna. Hingað til Íslands kom hann einhvern tímann í kringum miðjan 10. áratuginn og hélt stórkostlega tónleika ásamt nikkaranum Pedro Hietanen í Norræna húsinu, þar sem mér áskotnaðist áritað plakat sem ég er reyndar búinn að týna fyrir löngu. Hugsanlega tóku þeir þennan tangó:

Mauro Antero Numminen - Hastarna och jag
Þekktasta lagið hans er líklega þessi útgáfa hans á lagi Baccara, þótt hann af einhverjum ástæðum snúi því upp á þýsku:
M.A. Numminen - Yes Sir , Ich Kann Boogie

föstudagur, ágúst 12

miðvikudagur, ágúst 10

fiskidagur, segiði?

Já, fiskidagurinn var hinn indælasti. Við leikfélagar gistum í skíðaskálanum og höfðum það ansi gott. Við Gummarnir og sonur minn horfðum á Brim á föstudagskvöldið, sem var köld og góð skemmtun (og varla við barna hæfi, svo ég telst víst lítt ábyrgur faðir). Fiskisúpa var snædd í garði gegnt bensínstöðinni og bragðaðist hið besta. Svo hentum við upp tjaldi (reyndar tjölduðum við óvart fyrst tjaldinu hennar Höllu, pokinn var sko soldið svipaður, sko...) og sofnuðum sælir.

Laugardagurinn var heiðskír og fagur, logn og sól og hiti. Við héldum niður að höfn um hádegið þar sem var skipt um föt. Georg, Tómas, Bína og Rolli trúðar álpuðust á sviðið og gerðu einhvern óskunda. Ég veit aldrei hvern fjandann ég er að gera þegar ég er í trúðnum (eða hann í mér) og er alltaf jafnsannfærður um að ég eigi ekkert erindi í þetta. Og alltaf kvíður mig jafnmikið fyrir þessu. En þetta er bara svo mikið röss, maður! En aðstæður á sviðinu alls ekki góðar fyrir svona leiklistarbrölt. Svo eltum við sonur minn götudanshópinn og flæktumst fyrir þeim með vídeókameru á lofti. Það var mökkur af fólki á svæðinu og erfitt að komast leiðar sinnar. Sonur minn gladdist mjög þegar hann frétti að allt nammi væri ókeypis, hins vegar varð hann sorgmæddur þegar við sáum röðina í kandíflossið, ekki lögðum við í það helvíti. Vegna nammileiðangursins mættum við aðeins of seint til að vera með í stompinu, en skemmtum okkur við að horfa og hlusta í staðinn. Ekki minnkaði kátínan þegar við áttuðum okkur á því að Árni Johnsen sat spölkorn frá og spelaði og söng og færðust stomparar allir í aukana við þá fögru sjón. Hann kom svo yfir og kýldi alla kalda... neinei, þorði því auðvitað ekki. Um kvöldið var svo skemmt sér yfir öðlingsdrengjunum Snorra og Gunna í Dauða og jarðarberjum. Að því loknu héldum við Gummar og sonur minn í skíðaskálann og höfðum til grillið meðan aðrir kláruðu leiksýningarrúntinn (sem við vorum búnir með). Ég og minn son fórum svo snemma í háttinn (snemma fyrir mig, seint fyrir hann). Aðrir héldu uppí sínu stuði fram eftir morgni. Mikið var ég feginn daginn eftir þegar sumir veltust um í þynnkunni.

Á sunnudeginum var ég svo samferða Hrund inn í Skíðadal, því miður gat Bernd ekki tekið á móti okkur en dalurinn er íðilfagur og kvenfélagskaffið sem við lentum óvart í sveik ekki. Mæli alveg með fiskidegi á Dalvík, sem heitir jú reyndar "Fiskidagurinn Mikli". Ekki fyrir rembingi að fara í þessum dalvíkingum, neinei...

fimmtudagur, ágúst 4

fiskidagur

Fékk áðan boð sem ég get ekki neitað. Þannig að ég og minn son erum á leið til Dalvíkur að halda upp á Fiskidaginn með ofursnillingnum Júlla. Og ég fæ að sýna mig með Sýnum/Sýni/vottever. Hef grun um að þetta verði gaman. Vona bara að veðrið verði þolanlegt.

mánudagur, ágúst 1

su doku

Ég er ennþá í sumarfríi, en vildi bara benda á að ég er orðinn forfallinn sudoku-nöttari. Þökk sé Blaðinu. Og svo fann ég þessa síðu og sé fram á að eyða því sem eftir er mánaðarins fyrir framan tölvuskjáinn.

fimmtudagur, júlí 28

sumarfrí...

Já, ég held það verði lítið bloggað hér af viti næstu vikurnar, þetta sumar er einhvern veginn að flækjast fyrir manni. Og kannski svosem ekki af neinu að missa heldur, allavega hafa síðustu færslur verið fremur heimskulegar. Annars er ég líka alltaf opinn fyrir að hitta ykkur á kaffihúsum, lesendur góðir. Endilega hafa samband.

þriðjudagur, júlí 26

vestræn gildi mæ ass...

Ég held ég geti ekkert tjáð mig neitt gáfulega um "vestræn gildi" (sjá Varríus og Siggu Láru og Hrein). Alltaf þegar ég heyri einhvern minnast á "vestræn gildi" rifjast upp fyrir mér Silfur Egils þátturinn, þegar sá þáttur var enn að slíta barnsskóm á Skjá 1. Þar sat Björgvin Guðmundsson, susari, ásamt fleirum í spjalli um barnaþrælkun í þriðja heiminum. Björgvin fann auðvitað lausnina: "Við verðum auðvitað að kenna þessu fólki vestrænt siðferði!" Ef ég hefði haft hamar við höndina væri sjónvarp fyrrv. tengdó ekki lengur til frásagnar. Það versta er að þeir sem tala hæst um "vestræn gildi" e. árásirnar í London nota nákvæmlega þennan tón, og þá langar mig mest til að hafa hamar við höndina og gáfulegar hugsanir fjúka út í veður og vind. Ofangreindir bloggarar gera þetta ágætlega.

mánudagur, júlí 25

úff...

Ég þorði og ég gat og ég gerði. Viðbrögðin voru jákvæð. Ekki furða þótt maður geti lítið hugsað af viti um vestræn gildi þessa dagana.

miðvikudagur, júlí 20

þannig er nú í Potterinn búið

Talandi um samkeppni Guardian, þá er mikið fjör í kommentakerfi Varríusar þar sem dauðastríð Dumbeldores hefur fengið búning hinna og þessara íslensku rithöfunda. Ekki leiðinlegt.

laugardagur, júlí 16

Aye, Volders is fuckin psycho, like

Eins og lesendur Varríusar hafa tekið eftir var Guardian með samkeppni í tilefni af nýju Potter bókinni, þar sem fólki var boðið að skrifa dauðastund ********** í anda hinna og þessara rithöfunda. Só far finnst mér Irvin Welsh fyndnastur, en ég er líka með nett skosku-fetish:
Big Albie stood up. - Tom, he sais, aw reasonable, wi that wee twinkle in his eye.

- Ah'm gonnae fuckin do ye, ye doss cunt! Volders shouted.

Thir wis this toatally massive green flash, n aw of a sudden the bearded boay's slumped forwards over his gear. Ye jist cannae reason wi Voldie when he's in that kindae mood. Now he wis glarin aboot the room, darin one eh us tae say sumhing. Sometimes that cunt really gits oan ma nerves.

- Whit? It wis fuckin obvious thit that cunt wis gonnae fuck some cunt! Ah wis daein us aw a favour! Eh?

ógn og skelfing

"Afi minn, Tsao Li, var á þeim tímum einn af foringjum hinnar almáttugu Þríeiningar, sem var leynifélagsskapur, er náði um allt Kínaveldi og var deild boxara eða sveðjumanna ein af aðalgreinum hennar. [...] Þótt boxararnir væru sigraðir, var þeim samt ekki útrýmt, og Þríeiningin hélt öllu veldi sínu allt fram á okkar daga. Fyrir um það bil tuttugu árum tóku þeir, sem eftir voru, upp nafnið Sveðjur til minningar um boxarana, sem þeir litu á sem hetjur, og það ekki aðeins í sjálfu Kína, heldur í öllum kínverskum byggðum í útlöndum. Þannig varð Sveðjuklúbburinn til eða öllu heldur endurvakinn. ...Takmark hans? Sama og boxaranna: Barátta gegn útlendingum, en nú um allan heim."
(úr Bob Moran og Leynifélag löngu hnífanna, e. Henri Vernes)
Alltaf skal okkur takast að finna ógnir sem steðja að frá framandi menningarsvæðum. Merkileg árátta. Fyrir nú utan það að við vesturlandabúar erum nú oftast í hlutverki þeirra sem berjast við "útlendinga" á þeirra heimaslóðum.

sunnudagur, júlí 10

æjá

Það er frekar skrýtin upplifun að vera án nettengingar eftir að hafa haft adsl í heilt ár. Sest niður á kvöldin og gríp lapptoppinn, ræsi hann og fatta svo að ég get ekki farið inn á netið. Legg þá bara kapal í staðinn, en það endist mér bara í ca. 5 mínútur. Þannig að ég er búinn að lesa meira undanfarnar vikur en ég hef gert lengi. Hálfnaður með Matters of Light and Depth (úrvalsbók um kvikmyndatöku), byrjaði á History of Western Philosophy e. Bertrand Russell sem reynist hin besta skemmtilesning. Þar áður lauk ég við Neverwhere e. Neil Gaiman (góð) og Deception Point e. Dan Brown (ágætis vitleysa þar) og svo mjatlast smátt á smátt á Vivir para contarla, sjálfsævisögu Gabriels Garcia Marques. Og svo byrjaði ég líka á Bob Moran bók sem ég fann uppi í hillu hjá mér og var búinn að gleyma að væri til, titillinn var eitthvað um "hina löngu hnífa". Merkilegt annars hvað andúð höfundar Bob Moran á asíubúum hefur rist djúpt, Guli Skugginn var jú mongóli ef ég man rétt (kemur reyndar ekki fyrir í þessari bók), og þarna bregður fyrir hinum ýmsu frumstæðu ættbálkunum sem eru illskan uppmáluð. Það sem mér fannst hins vegar skemmtilegast við B. Moran þegar ég var yngri voru fræðslukaflarnir aftast, þar sem maður lærði m.a. að búa til ósýnilegt blek og að greina á milli helstu tegunda eitraðra snáka.

Jæja, er þetta ekki dæmigert. Ég er að lesa fullt af merkum bókum og blaðra svo mest um Bob Moran. Já, og svo er ég orðinn aðeins duglegri við að skrifa. Sem er hið besta mál. Kannski maður haldi sér bara netlausum í einhvern tíma í viðbót...

miðvikudagur, júlí 6

sögur úr leikskólanum

Einn drengjanna var búinn að koma sér fyrir hátt upp í tré og annar byrjaði að klifra upp til hans. Við það hristist tréð talsvert og sá efri varð skelkaður: "Ekki klifra upp, tréð gæti hrunið!"
Hinn hugsaði sig um og svaraði: "Einu sinni voru fjórir í trénu og það hran ekki!"

mánudagur, júní 27

ég er einskis dóttir, ég er einskis son...

Leiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga var helvítis fokkings gargandi snilld í alla staði. Það var hreint og beint ógeeeðððsssslega gaman! Kannski skrifa ég kálf um þessa snilld seinna. Kynntist einhverjum mekki af frábæru fólki og bæti hér við linka til hliðar á tvö þeirra: Þórunni Grétu, þokkadís og snillingi og svo honum Guðmundi nafna mínum. Bæði koma úr Leikfélagi Hafnarfjarðar, og það leikfélag fær einnig hrós frá stílista bloggsíðunnar. Hreinn elegans þar á ferð á öllum tímum sólarhrings. Útskýri þetta kannski nánar síðar. Og margt í gangi, hellingur af leikhúsi, leiksigrar úr ólíklegum og líklegum áttum, heilu leikfélögin umturnuðust í sleikfélög þegar aðstæður buðu upp á slíkt og allir undu glaðir við sitt. Leikfélagið mitt mátti annars vel við una, báðar sýningarnar okkar, Patataz og Memento Mori (sú síðarnefnda í samvinnu við Leikf. Kópavogs), fengu mikið hrós frá gagnrýnendum hátíðarinnar sem og öðrum áhorfendum, fyrir nú utan það að Memento Mori fékk verðlaun sem besta leiksýningin í lok hátíðar, og átti það fyllilega skilið. Málið var að allar leiksýningarnar voru í háum gæðaflokki, en Memento er bara svo mikil snilld að það hálfa væri nóg. En ég skrifa kannski greinarbetri kálf um þetta seinna.

mánudagur, júní 20

piensa en mí, entonces, pensaré en ti...Það er fleirum en mér hugsað til Manuel Fraga Iribarne þessa dagana. Grey kallinn er enn að, kominn vel yfir áttrætt. Og hvað er svona merkilegt við þennan karlfausk? Jú, þetta er síðasti dínósárinn, síðasti þráðurinn sem tengir saman stjórnmál nútímans á Spáni og fortíðina í draumaríki Francos. Og kannski síðasti þráðurinn sem tengir saman Evrópu nútímans og Evrópu fasismans. En hann tórir enn. Hann varð ráðherra í stjórn Francos seint á 7. áratugnum (reyndar einn sá frjálslyndasti í þeim hópi, enda þurfti ekki mikið til). Þegar Franco var allur stofnaði Fraga Allianza Popular, sem síðar varð að Partido Popular, Þjóðarflokkurinn (hægri flokkur, sé einhver í vafa). Hann leiddi þann flokk lengi vel en lét völdin í hendurnar á José María Aznar og hélt heim í Galisíu og tók við forystunni þar, og hefur haldið henni síðan. Í síðustu héraðskosningum náði Fraga og PP hreinum meirihluta í Galisíu (Galisíumenn virðast haldnir einhverri íhaldspest, Franco var t.a.m. Galisíumaður). Og nú eru aftur kosningar og eftir að öll atkvæði hafa verið talin vantar PP eitt þingsæti upp á að ná hreinum meirihluta. Sem þýðir að vinstri samsteypustjórn gæti tekið við völdum á næsta kjörtímabili. Nema... enn á eftir að telja atkvæði útlendinga, þ.e. Galisíumanna og kvenna sem búa utan Spánar (eða utan héraðs, er ekki alveg með mörkin á tæru). Því verður ekki lokið fyrr en 27. júní. Og þau atkvæði geta gefið PP eitt þingsæti í viðbót og því hreinan meirihluta. Og þá er að sjá hvort þessi þráður slitnar loksins, eða hvort hann sé enn sterkur á velli.

Annars eru þessi atkvæði útlendinga nokkuð á reiki. Svo virðist sem ólíklegasta fólk geti kosið. Einhvers staðar sá ég fullyrt að Fídel Castro væri á kjörskrá, þar sem hann foreldrar hans voru brottfluttir Galisíubúar og hann því skráður sem slíkur. Hvort hann sé búinn að kjósa fylgir ekki sögunni.

Annars er stundum talað um "las dos Españas" ("Tveir Spánir (Spænir?) á sama hátt og talað er um "the two Americas"), hægri Spán og vinstri Spán. Eða íhaldssama Spán og frjálslynda Spán. Og ein birtingarmynd þessa klofnings má sjá á myndinni hér fyrir neðan. 18. júní sl. stóðu samtök sem kalla sig "Foro Español de la Familia" fyrir mótmælagöngu í Madrid, með stuðningi kaþólsku kirkjunnar og ýmissa forkólfa í PP, hægriflokki Aznars og Fraga, þar sem kallað var eftir stuðningi við "fjölskylduna" og kristileg gildi og hjónabandi samkynhneigðra mótmælt (það er hitamál núna á Spáni, því sósjalistarnir vilja lögleiða rétt samkynhneigðra til að ganga í hjónaband). Þar sáust ýmis spjöld á lofti með misskemmtilegur áletrunum, m.a. "Ekkert án Guðs", og "Í Guðs bænum, lokið skápnum strax!". Í Barcelona var haldin mótmælaganga homma og lesbía til höfuðs þessum íhaldskurfum. Myndirnar hér fyrir neðan birtust á netsíðunni escolar.net, og yfirskriftin var: "Spánirnir tveir. Veldu þann sem þú vilt tilheyra."Og í tilefni af öllu þessu er hér óskalag með geggjuðum ástar og saknaðar stuðkveðjum til Fraga með von um að hann hætti þessu brölti.
Jeanette - Porque te vas

miðvikudagur, júní 15

la noche tiene ojos como la mosca

það er gott veður (no shit!?).
hermann stefánsson er byrjaður að blogga (nei, ég stilli mig um að brandarann, geri því bara í skóna að þetta sé í alvörunni hermann stefánsson).
bráðum fer ég til akureyrar. eins gott að það snúi til sunnanáttar um eða uppúr helginni.
ég nenni ekki meiru.
jú, helga og sigurjón koma bráðum til landsins. En ég fer að öllum líkindum sama dag til akureyrar.
ég veit ekki til hvers ég er að þessu bloggeríi annars.

Jú, kannski þetta líka hérna. Kláraði Kafka on the Shore. Svolítil vonbrigði. Verð ég að segja. Oft verið betri kallinn, kannski ætti hann að hætta þessu skokki og fara að reka jazzkaffihús og skrifa á nóttunni eins og í fyrstu bókunum. Kannski er hann í transisjón. Og kannski er ég búinn að lesa of margar skammarræður David Walsh um skort nútímalistamanna á félagslegri tengingu og hollustu við Trotsky.

Já, og kannski líka þetta hérna. já, sá semsagt Episode III og mér leiddist. Satt að segja leiddist mér ekki á Phantom Menace og Attack of the Clones, en mér leiddist á þessari. Samt segja allir að hún sé betri. Þetta eru samt allt arfavondar myndir, mun verri en fyrstu þrjár. Og afhverju? It's the economy, stupid:
Ástarvella úr Revenge of the Sith:
Anakin: You're so beautiful.
Padmé: That's because I'm so much in love.
Anakin: No, it's because I love you so much.
Padmé: You mean, love has blinded you?
Anakin: No, that's not what I mean...

Ástarvella úr Empire Strikes Back:
Leia: I love you
Han Solo: I know
Já, og svo er handbragðs Jims Hensonar sárt saknað.

þriðjudagur, júní 7

tiny tim


Tiny Tim Dickensson (bróðir Bruce?) kom til tals á fundi stjórnar Hugleiks áðan. Og af því að ég er í svo tremmagóðu skapi í dag þá er best að setja hér inn glaðlegasta söngvara sem til er og heitir einmitt.... Tiny Tim. Hann hafði eitt það myndarlegasta nef sem um getur og var auk þess snillingur í úkúlele-spileríi. Þetta kemur örgustu fýlupokum til að brosa (Kaupa t.d. hér).
Tiny Tim - Living in the Sunlight, Loving in the Moonlight
Tiny Tim - Tip-Toe Through the Tulips

fimmtudagur, júní 2

nýjasta nýtt

Bætti við tveimur bloggurum á tenglalistann: Hjalta stórmeistara sem ég fékk að leikstýra um daginn. Og Ástu, sem virðist þekkja einhverja af sömu áhugaleikarunum og ég auk þess sem hún lætur glepjast af tónlistinni sem ég set hér inn.

Annars allt of mikið að gera. Lauk við að leikstýra einþáttungi fyrir Hugleik og gekk bara líka svona glimrandi vel, enda einvalalið leikara og áhorfendur mesta sómafólk. Lét svo plata mig í stjórn Hugleiks. Reyndar varastjórn svo það ætti ekki að vera neitt svo alvarlegt. Plús það að ég tók óumbeðinn að mér það verkefni að grisja aðeins úr myndbandafjalli leikfélagsins, en það eru víst til óklipptar upptökur af heilum helling af leiksýningum sem fólk vill fá að sjá. Svo er að sjá hvernig mér gengur að efna það allt saman. Júní ætlar svo að verða bissíastur mánaða, undirbúningur undir leiklistarhátíð á Agureyri og umsókn í kvikmyndasjóð og allt bara á fúllsvíng. Og á sama tíma er ég að drepast úr þreytu, geispa daginn út og daginn inn. Ætti kannski að drattast fyrr í háttinn...

laugardagur, maí 28

ævintýri á gönguför

1.Skellti mér í Smekkleysubúðina kl. 15 í dag. Þar spilaði bandaríska söngkonan Nina Nastasia ásamt Huun Huur Tu í rétt að giska hálftíma. Mögnuð upplifun, enda um magnaða tónlistarmenn að ræða þó ólíkir séu. Nina er auk þess einstaklega fögur kona sem var ekki að skemma fyrir. Tónlist hennar hefur verið lýst sem "train ride through a rustic southern town", sem segir eitthvað en þó ekki mikið. Fyrir þá sem misstu af uppákomunni og misstu þarafleiðandi af miklu, er hér lag með Ninu svona í sárabætur. Þetta er af annarri plötu hennar, Run to Ruin, en alls hefur hún gefið út þrjár plötur.
Nina Nastasia - Superstar

2.Erfiðustu sölumennirnir eru þeir sem maður þekkir vel. Ekki vegna þess að það sé erfitt að segja nei við vini sína, heldur vegna þess að þeir vita hvað maður vill. Eins og í dag. Ég gekk inn í verslun Skífunnar á Laugarveginum til að heilsa upp á Hjálmar vin minn. Hann byrjar á því að setja í hendurnar á mér nýútkominn disk með Yann Tiersen. "Þetta áttirðu ekki að gera!" hrópaði ég í örvæntingu. "Nú, afhverju?" spyr hann. "Af því að þú veist að núna get ég ekki sleppt honum." Og það var eins og við manninn mælt, ég gekk út með spánnýjan Yann Tiersen disk, "Les retrouvailles". Og nokkrum þúsundköllum fátækari. Mæli með honum, í þessari útgáfu fylgir dvd diskur með myndinni "La traversée" sem ég veit ekki hvað er, því ég hef ekki haft tíma til að kíkja á hana ennþá. En hér koma dæmi af diskinum. Fyrra lagið syngur Elizabeth Fraser, söngkona Cocteau Twins. Ótrúleg rödd þar á ferð. Seinna lagið syngur Stuart A. Staples úr Tindersticks.
Yann Tiersen - Kala
Yann Tiersen - A Secret Place

hei, einmitt ein af mínum uppáhaldsmyndum

fimmtudagur, maí 26


Dudek: "Before the penalties when we were waiting for the order to be decided, Jamie Carragher came over to me and grabbed me by the shoulders and said: 'Whatever you do, don't forget Bruce Grobbelaar and his spaghetti legs,'" he said. "He said I just had to try and put them off, like Bruce did in the penalty shoot-out against Roma in 1984. I just tried to make them lose their concentration and I guess it worked."
Á einhvern undarlegan hátt tókst Bruce Grobbelaar að vera hetja Liverpool-manna eina ferðina enn. Ekki illa af sér vikið, enda einhver stórkostlegasti markvörður sem um getur. Og ef Liverpool asnast til að selja Gerrard mæli ég með að þeir kaupi Kaka.

þriðjudagur, maí 24

júróvisjón


Hvað getur maður nú sagt. Gundrandri sagði þetta alveg fínt í fréttablaðinu um daginn. Þetta væl um austurevrópuþjóðir er bara pjúra rasismi og ekkert annað.

Annars var júróvisjón einu sinni gjaldgeng. Þá gat maður gengið að góðri tónlist vísri. Þá riðu hetjur um héruð og stúlkur þurftu ekki að sýna cleavage og vera með stór brjóst til að vinna. Og menn eins og Serge Gainsbourg sömdu vinningslögin. Og ég var ekki einu sinni fæddur svo hvað er ég svo sem að röfla. Árið 1965 sigraði franska fljóðið France Gall í júróvisjón með held ég bara allra besta júróvisjónlagi sem til er. Serge Gainsbourg samdi, Belle and Sebastian hafa gert kover. Þetta verður aldrei toppað.
France Gall - Poupee de cire, poupee de son

laugardagur, maí 21

leið rétting

Ég miskvótaði víst Barða í pistlinum um Gargandi snilld. Hann sagði ekki að íslensk tónlist væri leiðinleg, heldur að hún væri léleg. Svo útskýrir hann nánar hvað hann á við með því, en til að heyra þá útskýringu verðið þið að sjá myndina. Hjálmar fær þakkir fyrir að benda mér á vitleysuna.

miðvikudagur, maí 18

krufið til mergjarVegna einþáttungar sem ég ætla að rembast við að leikstýra hef ég verið að glugga svolítið í upplýsingar um þá heillandi list, krufningar. Það er til talsvert af heimasíðum á netinu um þetta eins og við er að búast. T.d. má alveg mæla með þessari interaktívu krufningu og svo er þessi síða hin besta skemmtun, þar sem limlestingunum er lýst með hjálp afar glaðlegra tölvuteikninga. Ekki slæmt það.

sunnudagur, maí 15

screaming masterpiece

Endaði á því að fara á Gargandi snilld í gær. Sem gefur auðvitað tilefni til einhverra misgáfulegra pælinga:

Visúalt er myndin oft vel hugsuð og flott. Sérstaklega í innslögunum og viðtölunum og í sviðsettu tónlistaratriðunum (Mugison í kirkjunni, o.s.frv.) þar sem römmunin og myndvinnslan er úthugsuð. Þar sést líka tengingin við vídeólist, þar sem rætur Ara Alexander liggja, rammarnir oft á skjön, mikið speis og viðfangsefnið stundum varla innan rammans. Kannski ekkert yfirmáta frumlegt, en kom samt vel út. Það er líka stór kostur að sá sem gerir hana á rætur sínar í vídeólist, ef einhver auglýsingaleikstjórinn hefði gert þetta hefði myndin sjálfsagt öll verið í þessum kaldbláa "bleach bypass" stíl sem íslenskir auglýsingagerðarmenn virðast elska út af lífinu.

Flottustu innslögin voru tvímælalaust loftmyndirnar af höfuðborginni um nótt. Draumkennd og óvenjuleg. Hins vegar eru myndir af snjóþrungnum fjöllum og ám í klakaböndum orðin frekar þreytt, jafnvel þótt myndræna útfærslan væri venju fremur frumleg. Það var líka í innslögunum sem kvikmyndagerðarmennirnir náðu að nýta sér áferð vídeósins sér til framdráttar. Hins vegar voru upptökur af tónleikum síðri, enda hefur leikstjórinn minna kontról og myndatakan varð stundum frekar týpisk og lúkkið dalaði mjög.

Hljóðið var mjög gott, sem hjálpaði mikið upp á upplifunina. Það átti kannski sérstaklega við tónleika Bjarkar og Sigur Rósar í New York, sem bæði voru gæsahúðarhvetjandi móment.

Viðmælendur voru flestir ágætlega valdir og höfðu sitthvað að segja. Barði í Bang Gang átti þó bestu línuna: "Íslensk tónlist er bara leiðinleg". Ágætt að fá smá pessimisma inn í allt hallelújaið. Aðrir voru bara krúttlegir og höfðu annars lítið fram að færa annað en tónlist, t.d. var viðtalið við Múm, sem ég hef áður vitnað í, frekar rýrt. En þau voru sæt þannig að það bjargaði svolitlu. Og þá er það kannski pointið með myndinni: Henni er auðvitað fyrst og fremst ætlað að kynna og selja íslenska tónlist erlendis, þess vegna voru þeir sem komu fram tónlistarmenn sem hafa gert það gott erlendis eða hafa vakið athygli. Fyrir vikið saknar maður ýmissa hljómsveita og tónlistin sem flutt var fellur mestöll undir að vera "quirky", semielektrónísk popptónlist. Sem er alveg í fínu lagi og allt gott um það að segja. Hins vegar kemur þetta fram í myndinni eins og það sé voða lítið annað að gerast, Mínus er nánast eina rokksveitin sem kemur fram. Harðkjarnasenan, sem er kannski ein sú athyglisverðasta hér, kemur hvergi við sögu og fleira mætti telja. Auðvitað er það rétt að það er ekki hægt að taka allt með í svona mynd, og mér skilst að Ari og kó eigi helling af efni sem þeir ætli að hrúga á DVD diskinn. Það verður áhugavert. En ég efast um að miklu verði bætt við efnislega úrvinnslu, þetta verður áfram sama hallelújahjalið, engin gagnrýni né neitt af því taginu.

Sú hlið myndarinnar sem fór verst í mig (og Haukur Már hefur meðal annars skrifað um) er þetta dæmigerða grobb og þjóðernishyggja sem alltaf birtist þegar verið er að tala um íslenska list og menningu. Við erum svo sérstök og frábær af því að hér voru víkingar og íslendingasögur og rímur og blablabla. Það er eins og tónlistarmönnunum sé ekki treyst til þess að standa á eigin fótum, þetta er allt svo sérstakt af því við (íslendingar) erum svo sérstök, ekki af því að tónlistarmennirnir séu hæfileikaríkir. Nei nei, þetta er allt í genunum og kemur úr Eddukvæðunum. Og þessi tilraun þeirra til að tengja íslenska samtímatónlist við rímurnar og íslenskan kveðskap gengur ekki upp. Íslensk rímnahefð hefur ekki haft nein áhrif svo heitið geti á íslenska tónlist. Þetta er sætt og skemmtilegt að reyna að finna samhengið í íslenskri tónlist í 1000 ár, og kannski óþarfi að vera eitthvað að agnúast út í það en auðvitað er þetta bara bullshit. Og fyrst verið var að tala um rímnahefðina og íslenskan kveðskap, hvar var þá Megas, sem er líklega sá tónlistarmaður íslenskur sem hvað mest hefur sótt í þann brunn? En myndin á auðvitað ekki að vera einhver fræðileg úttekt, þetta er skemmtun og í því samhengi virkar þetta kannski. En er rétt að setja svona fram ef það á svo ekki að taka það alvarlega? Þá þyrfti að koma aðvörunartexti eins og fyrir neðan stjörnuspána í mogganum: "Einungis dægradvöl". Og myndin er skemmtileg, hún tekur sig þrátt fyrir allt ekki of hátíðlega, tónlistaratriðin eru mörg hver frábær, hljómurinn góður og í það heila mæli ég með myndinni fyrir áhugamenn um íslenska tónlist. Ég skemmti mér allavega konunglega. Kannski er það svolítill galli að maður hefur heyrt alla þessa tónlist áður, en myndin er líka greinilega gerð fyrir erlendan markað miklu fremur en íslenskan.

Hælætin:
  • Viðtalið við Barða
  • Björk að syngja All is Full of Love á tónleikum var verulega gæsahúðarhvetjandi. Sömuleiðis Sigur Rós með Ágætis byrjun. Þar hjálpaði góður hljómur verulega.
  • Björk átti sömuleiðis góða hugleiðingu um tónlist og þjóðerniskennd, þar sem hún í raun gerði lítið úr þjóðerniskenndinni og að tónlist væri ekki bundin við þjóðerni. Ari var nógu ósvífinn að klippa beint úr þessu yfir í wagnerískan flutning á Hrafnagaldri Óðins. Svolítið tvisted húmor þar.
  • Trabant á Bessastöðum. Óborganlegt atriði.

föstudagur, maí 13

Oh freddled gruntbuggly, thy micturations are to me
As plurdled gabbleblotchits on a lurgid bee.
Groop I implore thee, my foonting turlingdromes.
And hooptiously drangle me with crinkly bindlewurdles,
Or I will rend thee in the gobberwarts with my blurglecruncheon, see if I don't.

Ég hugsa að ég fari í bíó um helgina. Þeir/þær/þau sem vilja koma með mega hafa samband.

fimmtudagur, maí 12

blogghermiblogg

Ekki fyrr er maður búinn að lykla inn einhverja spekiþvælu í bloggerinn um list og ekkilist en Grapevine berst manni í hendur, og þar grein eftir Hauk um sama efni. Nema bara miklu betur skrifað, hugsað og spáð. Liggur þetta í loftinu? Tja, sjaldnast er nú ein báran stök og ekki leiðum að líkjast. Nælið ykkur annars í nýjasta Grapevine ef þið hafið ekki lesið það ennþá. Besta blaðið í bænum held ég bara.

Annars er gleði í borg og bæ, orlofið komið inn á sparisjóðsbók, Kafka on the Shore á náttborðinu, trúðurinn minn búinn að fæðast og fá að anda nokkrum sinnum og ég held ég skundi nú bara niður í bæ og kaupi mér eitthvað meira sem ég þarf ekkert sérstaklega á að halda. Þaldénúbarastabeibí.

miðvikudagur, maí 4

blanda landa upp til stranda


Að flétta saman tveimur aðskildum þáttum á óvæntan hátt. Fyrra dæmið löglegt, hið seinna örugglega gert í leyfisleysi (og þá líklega ólöglegt). Hið fyrra ný hljóðblöndun, gefin út af hljómsveitinni sjálfri. Hið seinna svokallað "mashup", þar sem tveimur lögum er nappað og þeim blandað saman. Stundum eru svona mashup ekkert spes, en í þetta skiptið er útkoman hreinn brilljans. Hörðustu Cure-aðdáendum verður kannski um og ó.
Svo mæli ég með Sonic Youth upprifjuninni hjá Zúra. Ég fékk fiðring í magann þegar ég frétti af fyrirhuguðum tónleikum þeirra í sumar. Svona þarf nú lítið til að gleðja mann. Svo legg ég til að Yo La Tengo verði fengin næst.

mánudagur, maí 2

fly away...Í Bókinni um hlátur og gleymsku e. Kundera segir frá því þegar englarnir heyra Kölska hlæja í fyrsta sinn. Hlátur hans vekur þeim ugg enda ætlað að grafa undan sköpunarverkinu. Það eina sem þeim dettur í hug til varnar er að hlæja á móti, nema hvað í þessum hlátri felst fögnuður yfir verki hins mikla skapara. Við að sjá engilinn hlæja verður skrattanum ennþá meira skemmt og hlær óstjórnlega, enda fátt eins fyndið og hlæjandi engill. Engillinn gefur í sinn hlátur, fagnar klukkuverkinu sem aldrei fyrr en nær þó aldrei að þagga niður í Kölska.

Tóta Pönk var eitthvað að amast við myndlist um daginn (20. apríl, nánar tiltekið). Myndlist smyndlist. Mér fannst alveg margt til í því sem Tóta sagði um að það væri alltof mikið snobbað fyrir myndlist, t.d. í Mósaík. Sérstaklega af því að myndlist er í tómu helvítis fokki þessa dagana, og búin að vera það nokkuð lengi. Alveg síðan, tja, flúxusinn tók af allan vafa um það að hvað sem er gæti verið listaverk. Heysáta = skúlptúr. Eftir það hafa myndlistarmenn bara hangið í einhverju tómarúmi og ekki vitað hvernig þeir ættu að snúa sér. Fyrir vikið eru þeir mest í því að fagna því að vera til, leyfa "sköpunarkraftinum að njóta sín", reyna að finna einhver smart konsept og dúlla sér með þau. Myndlist í dag skiptir fyrir vikið ekki nokkurn einasta mann máli, annan en listamanninn. Hún snertir engar taugar, umbyltir engum þjóðfélögum, kemur ekki við kaun. Stelpa lætur taka myndir af sér alsberri úti í bakaríi og fólk tekur ekki einu sinni eftir því. Já, þessir listakrakkar, þau eru nú alltaf eitthvað svo sniðug og skrýtin. Og ef þú nærð ekki listinni, then tough luck, þú færð ekki að vera með í hringdansinum. Tvö skref til hægri, eitt til vinstri. Já, það er gaman að vera til. Og englarnir líta með velþóknun á runkið. Það getur jú verið gaman af góðu runki, sérstaklega ef maður stundar það sjálfur.

Fútúristarnir, Dadaistarnir, Súrrealistarnir, Pollock, . Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að englarnir líti ekki með svo mikilli velþóknun á þeirra sköpunarverk. Enda var þeim ætlað að umbylta, nema ný lönd, rífa niður og byggja upp á nýtt. Þetta voru auðvitað byltingarsinnar upp til hópa, anarkistar, kommúnistar og égveitekkihvaðistar. Einhverjir þeirra gengu svo Stalín á vald (Elouard), aðrir kapítalistunum (Dali). Og mikið hlegið á himnum. En samt höfðu þeir tennur, þeir bitu frá sér, reyndu að bylta smáborgaralegri tilveru sinni eftir bestu getu. Og þrátt fyrir trúarhita Bosch er hætt við að englunum hafi ekki staðið á sama um þann ágæta mann og það sem hann hafði fram að færa. Ef þið eigið einhvern tímann leið um Madridarborg, er fátt gáfulegra en bregða sér á Pradosafnið og skoða Garden of Earthly Delights. Magnaður andskoti þar á ferð.

Og ekki bara myndlistin. Kvikmyndirnar eru í fokki líka, hjá Tarantino hefur ofbeldið enga merkingu og ekkert hlutverk nema fagurfræðilegt. Flott hvernig blóðið spýtist! Fyndið þegar hausinn splundraðist maður, þegar hann skaut hann í hausinn! Þetta er ekki einu sinni siðlaust eða siðblint, heldur ofbeldi án merkingar, sem hrein fagurfræði. Og leikstjórarnir finna að hvað sem þeir gera eða sýna, það breytir engu, markaðurinn gleypir allt. Sýndu hold og það er selt. Gagnrýndu samfélagið á beittan og slándi hátt og þú ert gerður að markaðsvöru, uppreisnarmanni, hinum nýja Bergmann. Þá er snútt sér að því að sýna hvað klám getur verið raunverulega subbulegt, og það er selt. Kvikmyndahátíð, umdeild mynd, missið ekki af henni! Kvikmyndaskoðun leyfir ekki almennar sýningar, þetta er svo svakalegt, gjörsemlega geggjað! Mættu í bíó og láttu ganga fram af þér! Láttu lemja þig í hausinn með sleggju, svona í leiðinni, þá finnurðu svo til þess hvað þú ert djöfull mikið lifandi!

Annars var einn af áhugaverðu punktunum í Guardian-greininni um eitíspoppið sá að þá voru poppstjörnurnar algjörlega self-made, svolítið bilað lið sem trúði því statt og stöðugt að hægt væri að uppgötva og búa til algjörlega nýja tónlist, að hægt væri að umbylta heiminum með tónlistinni einni, að eitthvað nýtt og frumlegt væri til sem aldrei hefði heyrst áður. Þeir vissu líka að sitthvoru megin við þá voru gamlir feitir kallar sem gátu sprengt hnöttinn í tætlur með því einu að ýta á takka. Það var nú angist í lagi. Nú er endurvinnslan í gangi, öll tónlist unnin upp úr og vísar í eldri tónlistarmenn og tímabil. Stundum er það vel gert, stundum ekki.

Þetta átti líka við um Grammið og Smekkleysugengið. DIY á fullu spani, heimsyfirráð eða dauði, góðum smekk sagt stríð á hendur, allt var hægt, allt var mögulegt, öllu hægt að umbylta. Núna eru krakkarnir bara svona að dúlla sér, ætluðu ekkert endilega að gera þetta, bara vinna í Nóa og Síríus og svona. Ef pabbi og mamma leyfa. Og svo gerum við mynd um krakkana okkar og köllum hana Gargandi snilld, gleðjumst yfir því hvað við erum frábær og klár og æðisleg, komum saman í hring og tökum um axlirnar á næsta manni, stígum eitt skref til vinstri og tvö til hægri, og þannig áfram. Og englarnir hlægja með. Þetta er svo gaman. Við erum eitthvað svo einstaklega Sæmundur Fróði, maður! Og kölski situr uppi á fjósbitanum, aldrei verið feitari og er bókstaflega að rifna af hlátri. Því hvað er fyndnara en fólk að reyna að gleyma dauða sínum.

Og er ég eitthvað skárri? Oneioneioneionei...

laugardagur, apríl 30

tónleikar


Skrapp á útgáfutónleika Úlpu á Nasa í gær. Býsna gaman. Þegar við komum inn var eitthvað retro-dansband að spila fyrir frekar tómum sal, þetta var eins og að detta inn í stemninguna í kringum 1992-3, gamaldags danstónlist og ekki mjög skemmtileg svona við fyrstu hlustun. Næstir komu hljómsveitin Sofandi. Þeir áttu skemmtilegustu kynningu kvöldsins: "Við erum Sofandi og ætlum að spila nokkur lög". Þeir voru fínir alveg, piltarnir. Næstur kom Frank Murder með idm-ið sitt. Spilaði fyrst nokkur vídeó sem voru ansi flott. Man ekki nafnið á snillingnum sem gerði þau. Svo kom hann sjálfur á svið og spilaði nokkur lög í viðbót. Ég var frekar hrifinn af hans framlagi, þótt þessi dæmigerði idm-/skrjáfhljómur sé kannski ekkert sérlega frumlegur lengur.

Svo steig Úlpa á svið. Ég hafði ekki séð þá læf síðan frá því þeir voru rétt að byrja, og þeir hafa breyst talsvert síðan þá. Orðnir alveg skelfilega þéttir og rokkandi, tónlistin ber meiri dám af hljómsveitum eins og Joy Division, meira um syntha og svoleiðis skemmtilegt. Stundum fannst mér vanta upp á rokkið í nýju lögunum, aðeins of kontrólerað á köflum. Magnús Leifur er alveg fantasöngvari og er að auki með indílúkkið alveg á hreinu. Í lokin tóku þeir lög af fyrstu plötunni, t.d. Dinzl sem er alveg jafnmikil snilld og það hefur alltaf verið.

Annars er hægt að nálgast fleiri lög á heimasíðu þeirra (undir "Dótarí"). M.a. á að vera hægt að sækja nýja lagið, "Attempted Flight", en linkurinn virkar reyndar ekki.

sunnudagur, apríl 24

eitísið

Huxy fór að rifja upp eitísið, og það er grein í Guardian þar sem því er haldið fram að þetta hafi verið gullöldin í bresku poppi. Hmm, það skyldi þó aldrei vera. Ég allavega á því að Adam Ant sé snillingur.

Mér finnst Litla Bretland fyndið.

Fleira var það ekki í bili. Lifið heil.

miðvikudagur, apríl 20

pop.fo

Fyrir þau sem vilja vita hvað er að gerast í færeysku popplífi er margt vitlausara en kíkja á pop.fo. Þar má finna helstu fréttir úr færeysku tónlistarlífi, m.a. lærir maður að Shakin' Stevens muni spila á Summar Festivalinum í sumar, "...og hann hevur eina ørgrynnu av kendum sangum, sum føroyingar eisini kenna væl."

Einnig segir af tónleikum norsku sveitarinnar Gåte í Fuglafirði, sem mun hafa verið mikið fjör, því "...takið mundi rokið av mentanarhúsinum í Fuglafirði, tá Gåte fingu allan salin at hoppa.".

Æ, allt í einu langar mig til Færeyja...

fimmtudagur, apríl 14

Ísland er land þitt...

Þetta er eitthvað það heimskulegasta sem ég hef lesið nýlega:
"Myrkur, kuldi og niðurnídd hús á hjara veraldar, að ógleymdum persónum sem minna helst á úrkynjað "hill-billies"-lið, er ekki þess eðlis að vekja áhuga útlendinga á landinu. En það er jú tilgangurinn, er það ekki? Að komast á kortið."
(Edda Jóhannsdóttir að tala um íslenskar bíómyndir í pistli í Fréttablaðinu. Skáletrun mín)

Kannski ætti ég að skrifa pistil, en ég nenni því ekki. Þessi heimska er svo sláandi að það hálfa væri nóg. Ef ég einhvern tímann næ að gera bíómynd vona ég að hún veki athygli, því maður vill jú að fólk sjái það sem maður gerir. Að hún veki athygli á sjálfri sér. Og mér. Mér er hins vegar alveg sama hvort hún veki athygli á landinu eða ekki.

Við ættum kannski að snúa aftur til þess tíma þegar íslenskir kvikmyndagerðarmenn báðust afsökunar á tilvist sinni með því að hrúga Dimmuborgum, Þingvöllum, Gullfossi og Geysi með sápu í myndirnar sínar þótt þessir staðir kæmu sögunni nákvæmlega ekkert við. Mikið væri það nú dásamleg lyftistöng fyrir íslenska kvikmyndagerð. Að maður tali nú ekki um ferðamannaiðnaðinn. Og mikið andskotans frat að ekki sé hægt lengur að láta Egil Ólafs teyma systur sína yfir steinbrúna (andskotann sem ég man hvað sprænan heitir). Og mikið helvítis andskotans sem blót er nú skemmtileg tjáning.

miðvikudagur, apríl 13

agi, æi...

Ég er alltaf að lemja sjálfan mig í hausinn fyrir að hafa ekki yfir að ráða meiri sjálfsaga og dugnaði. En svo las ég þetta, núna líður mér mun betur:
One of the most dangerous illusions you get from school is the idea that doing great things requires a lot of discipline. Most subjects are taught in such a boring way that it's only by discipline that you can flog yourself through them. So I was surprised when, early in college, I read a quote by Wittgenstein saying that he had no self-discipline and had never been able to deny himself anything, not even a cup of coffee.

Now I know a number of people who do great work, and it's the same with all of them. They have little discipline. They're all terrible procrastinators and find it almost impossible to make themselves do anything they're not interested in. One still hasn't sent out his half of the thank-you notes from his wedding, four years ago. Another has 26,000 emails in her inbox.

I'm not saying you can get away with zero self-discipline. You probably need about the amount you need to go running. I'm often reluctant to go running, but once I do, I enjoy it. And if I don't run for several days, I feel ill. It's the same with people who do great things. They know they'll feel bad if they don't work, and they have enough discipline to get themselves to their desks to start working. But once they get started, interest takes over, and discipline is no longer necessary.

Do you think Shakespeare was gritting his teeth and diligently trying to write Great Literature? Of course not. He was having fun. That's why he's so good.

laugardagur, apríl 9

Ný bloggfærsla. Og lesandinn spyr sig: ætlar manngerpið að demba á okkur enn einu laginu? Dettur honum engin frumleg hugsun í hug? Svarið við fyrri spurningunni er "já" og við þeirri seinni "nei". Annars ætlaði ég bara að auglýsa lokasýningu í kvöld (laugardaginn 9. apríl) á Patataz, leikriti Björns Margeirs Sigurjónssonar, í leikstjórn Bergs Ingólfssonar, Hugleikur setur upp, í Stúdíó 4, Vatnagörðum 4. Dómar hafa verið glimrandi, og allt það. Það verður enginn svikinn af þessari sýningu, þeir sem vettlingi geta valdið og tittlingi haldið (eða hinu, þið vitið..., kvenkyns, hérna..., æi, tussu) skyldu nú af sínum rassi rísa og á skúuspil skeiða. Set hérna líka upphafslag sýningarinnar, svona ef það skyldi verða til að freista einhvers. Þetta er eitthvað obskjúr lag úr einhverri ítalskri bíómynd sem ég kann ekki að nefna. En fallegt er það.
Upphafslag Patataz

sunnudagur, apríl 3

cassetteboyCassetteboy eru reyndar tveir, Mike og Simon sem koma frá Brighton. Þeir leggja það í vana sinn að tæta í sundur upptökur af hinu og þessu og setja saman aftur á óvæntan hátt. Sem reyndar einkennist af einstöku smekkleysi og barnalegum húmor. Og er býsna skemmtilegt. Eða eins og þeir segja sjálfir: "Basically we record famous people and make it sound like they're talking about sex or drugs. It's a winning formula." Í meðförum þeirra lýsir Tony Blair því hvað breski verkamannaflokkurinn ætlar að gera við 11 ára börn, Jamie Oliver verður svolítið sækó, David Bowie syngur einhvern dónaskap og svo leyfa gerpin sér að gera grín að 11. september í "fly me to new york", þar sem Frank Sinatra syngur fyrir munn hryðjuverkamannanna: "Let's fly, let's fly into buildings, let's turn to ashes". Og svo hafa þeir eitthvað að athuga við Big Brother þættina. Já já, það má hafa gaman af þessu.
cassetteboy - we are new labour
cassetteboy - joliver
cassetteboy - space oddity
cassetteboy - fly me to new york
cassetteboy - don't brother

föstudagur, apríl 1

1. apríl


Hefur líklega ekki farið framhjá neinum hvaða dagur er í dag. Ég náði að láta börnin á leikskólanum hlaupa apríl, sagði þeim að það yrði hafragrautur í morgunmat. Viðbrögðin ollu mér vonbrigðum, "namm!" sögðu þau einum rómi. Börn í dag eru nefnilega svo stútfull af seríósi og kókópöffsi að hafragrautur verður hátíðarmatur.

fimmtudagur, mars 31

leiðtognun

Það er ráðist að manni á götum úti og maður yfirheyrður um það hvort maður ætli nú ekki örglega að taka þátt í leiðtogaslagnum. Eins og mér sé ekki sama um leiðtognanir í Samflykkingunni. Kíkti samt á nýju síðuna hennar Ingibjargar, þar er fullt af liði að segja voða fallega hluti um hana: fæddur leiðtogi, besti leiðtoginn, algjört æði, creme de la creme (það segir það reyndar enginn en mér finnst gaman að slá um mig). Einn reynir meir að segja að sannfæra sjálfan sig: "leiðtogar skipta máli" segir hann. Við þetta lið vil ég segja: Leiðtogar skipta máli. Verið leiðtogarnir í ykkar eigin lífi og hættið að reyna að finna einhverja plebba til að dýrka og dá. Jamm, þetta var pólitíska innlitið inn í hausinn á mér. Eða eins og krakkarnir á leikskólanum segja þegar maður byrjar að nöldra: bla bla bla bla...

Kannski ég djoíni Siggu Láru bara í snarrótinni.