sunnudagur, janúar 30

spænskt popp #6

Eitísið, maður, eitísið!

Aðalsöguhetjan í dag kallar sig Alaska, réttu nafni Olvido Gara, fædd árið 1963 í Mexíkóborg (sem mexíkanar kalla venjulega "De effe", stytting fyrir Distrito Federal). En áður en að því kemur er hér smá forsaga.


Alaska (t.h.) y Los Pegamoides í Pepi, Luci, Bom.

La movida

Einræðisherrann Francisco Franco hrökk loks uppaf 1975. Sagt er að skothljóð hafi bergmálað um alla Madrid þegar fréttin barst, því fólk opnaði loks kampavínsflöskurnar sem það var búið að geyma sérstaklega fyrir þetta tilefni. Í kjölfarið fylgdi tímabil gerjunar í spænsku þjóðfélagi, ekki síst í menningarlífinu.

Frjálslyndi 7. áratugarins í öðrum löndum Evrópu náði eðlilega ekki til Spánar, yfirvöld sáu til þess að fólk væri kýlt hæfilega mikið niður til að hippalingar næðu ekki að grassera að neinu marki. Samt náðu áhrifin að seytla inn, sænskir túristar sem hrúguðust á Costa del sol höfðu t.d. frjálslegri hugmyndir um lífið og tilveruna, kvikmyndir og tónlist höfðu sín áhrif og svo mætti áfram telja. Fyrir vikið var mikið líf í alls kyns neðanjarðarkúltúr og þegar Franco hvarf á braut var fólk við það að springa. Upp á yfirborðið spruttu hópar tónlistarmanna og listamanna, samkynhneigðir, femínistar, klæðskiptingar, pönkið hélt innreið sína og svo síðpönkið. Allt þetta grautaðist saman og náði hámarki (sér í lagi í Madrid) um 1980, og þótt þeir sem tóku þátt í þessum hræringum segi að aldrei hafi verið um neina sérstaka hreyfingu að ræða er venjulega talað um Madridarnýbylgjuna eða spænsku nýbylgjuna, La movida madrileña (eða bara La movida) þegar vísað er í þennan tíma. Spánverjar í dag tala um þennan tíma með rómantískan bjarma í augum enda þótti Madrid einhver skemmtilegasta djammborgin í Evrópu langt fram eftir 9. áratugnum. Á Spáni einkenndist sá áratugur enda af mun meiri hedónisma og gleði en tíðkaðist í öðrum evrópulöndum, þar sem tómhyggja pönksins og kalda stríðsins grasseraði.

Þekktasta afsprengi þessarar hreyfingar er auðvitað Pedro Almodóvar, og það má segja að í fyrstu mynd hans í fullri lengd, Pepi, Luci, Bom y otras chicas del montón (1980), springi þessi hreyfing út í fyrsta skipti í fullum skrúða. Og ein leikkonan í þeirri mynd er einmitt okkar kona, Alaska.

Alaska y Los Pegamoides
Alaska birtist í rokksenunni í Madrid þegar hún stofnaði ásamt Nacho Canut og Carlos Berlanga pönkhljómsveitina Kaka de Luxe árið 1978. 1980 bættust Ana Curra og Eduardo Benavente í hópinn og nafninu var breytt í Alaska y Los Pegamoides. Sú hljómsveit sá einmitt um mikið af tónlistinni í áðurnefndri mynd Almodóvars auk þess sem Alaska lék stórt hlutverk í henni og var í kjölfarið kölluð "la reina de la movida" (drottning spænsku nýbylgjunnar).

Tónlist Alaska y Los Pegamoides var einhvers konar gleðipönk og stutt í húmorinn, ólíkt t.d. ensku senunni á svipuðum tíma, sem var frekar húmorslaus. Hljómsveitin gaf út eina plötu, "Otra dimensión" og fyrsta smáskífa þeirra, "Horror en el hipermercado" ("Hryllingur í súpermarkaðinum") náði miklum vinsældum á Spáni. Óhætt er að mæla með safnplötunni "Simplemente lo mejor".
Alaska y Los Pegamoides - Horror en el hipermercado
Alaska y Dinarama


Þegar Ana Curra og Eduardo Benavente yfirgáfu sveitina 1982 breyttu þau sem eftir voru nafninu í Alaska y Dinarama. Þau hölluðu sér meira að tölvuskotnu júrópoppi og önnur breiðskífa þeirra, "Deseo Carnal", naut mikilla vinsælda. Alaska var á sama tíma gerð að umsjónarmanni barnaþáttarins La bola de cristal í spænska ríkissjónvarpinu, og hljómsveitin hennar sá að mestu um tónlistina í þeim (meira um það í næstu installasjón). Tónlist þeirra er júrópopp af bestu gerð og dimm rödd Alaska myndar skemmtilega andstæðu við undirleikinn. Fyrra lagið sem ég set hér er eitt af þeirra þekktari lögum, "Mi novio es un zombi" ("kærastinn minn er sombí", hefði passað ágætlega í Shaun of the Dead). Seinna lagið, "A quien le importa" ("hverjum er ekki sama hvað ég geri / hverjum er ekki sama hvað ég segi / ég er eins og ég er og ætla aldrei að breytast") var samið af Carlos Berlanga, sem lést 2002, og hefur orðið að eins konar einkennislagi samkynhneigðra á Spáni.
Alaska y Dinarama - Mi novio es un zombi
Alaska y Dinarama - A quién le importa
Fangoria


Alaska er enn að í dag. Hún og Nacho Canut stofnuðu hljómsveitina Fangoria uppúr 1990 og hafa gefið út nokkrar plötur, þá síðustu í fyrra, "Arquitectura Efímera". Tónlist Fangoria er afar fjölbreytt, þau hafa gert ýmsar tilraunir í tónlistinni en nýja platan er eðal tölvupopp. Hér kemur ein af smáskífunum af nýju plötunni. (Eitthvað af plötum þeirra er hægt að fá á Amazon).
Fangoria - Miro la vida pasar


P.S. Gema, ¿sabes si hay algún sitio en el web donde se puede comprar música española? Fnac no sirve...

fimmtudagur, janúar 27

dagurinn í dag

Low er að fá slappa dóma í Pitchfork, bara 5.5. Veit ekki alveg hvernig maður á að taka þessu, ég hef heyrt tvö lög af nýju plötunni, Great Destroyer og þau eru vægast sagt mögnuð. Fínir dómar á allmusic.com. Ég held ég taki bara ekkert mark á Pitchforkurum í þetta sinn, enda snobbhænsn hin verstu. Svo er ég viss um að platan á eftir að birtast á árslistanum þeirra um næstu áramót. Aldrei neitt að marka þetta lið.

Svo snjóaði víst á Mallorca í dag. Fínn hiti í Reykjavík. Ætli golfstraumurinn hafi eitthvað hugsað sér til hreyfings í dag?

Svo hef ég hef svosem enga samúð með Steingrími Njálssyni, en samt er eitthvað öfugsnúið við það að það megi alveg ganga í skrokk á honum en fá á sig dóm fyrir að sparka í hurð.

Og þessar kristal plús auglýsingar eru mig alveg lifandi að drepa. Það hafa oft verið gerðar vondar auglýsingar á Íslandi, en þessar eru að toppa öll vondheit.

Já, bara að blása aðeins, jájá...

mánudagur, janúar 24

hitto'hetta

Nokkrir gleðigjafar fyrir ykkur.


Smoosh er hljómsveit frá Seattle. Það útaf fyrir sig er ekkert nýtt. Meðlimir hljómsveitarinnar eru tvær systur, Chloe níu ára sem spilar á trommur og Asya 11 ára, sem spilar á hljómborð og syngur. Þær vonast til að geta bráðum bætt Mayu, 8 ára systur sinni, í hljómsveitina á bassa. Þær gáfu út plötuna She Like Electric í fyrra sem þær tóku upp heima hjá sér og gefa út sjálfar. Það er hægt að hlusta á meira með þeim á heimasíðu KEXP 90.3 FM, og svo er viðtal á Rolling Stone. Fylgist með frá upphafi, ómengaðra gerist það varla.
Smoosh - Massive Cure


Ég minntist á heimspekinginn Penny Lim hérna um daginn, og því kannski ekki úr vegi að uppljóstra um hverja er að ræða. Singapúrsk stúlkukind sem tætti allt og tryllti á sjöunda áratugnum, skilst mér. Þetta lag er víst einhvers konar nýárslag (þá líklega í tengslum við kínverska nýárið), og þar kemur fyrir þessi líka fína speki, "happiness is so much fun". Auðvitað. Við leitum hamingjunnar af því að það er svo gaman að vera hamingjusamur. Að manni skuli ekki hafa dottið það í hug fyrr.
Penny Lim and the Silverstones - Kung See, Kung See, Let's be Happy

Svo er mikið talað um nýjasta myndband Bjarkar og kattarins Mura. Það er víst hægt að nálgast það á heimasíðu Bjarkar. Getið tékkað á því hversu marga þið þekkið í Sirkus-atriðinu.

(Hvað eru annars margir að sækja lög hjá mér? Óformleg könnun: ef þið sækið lag, skiljið þá eftir komment, þarf ekkert að vera undir nafni. Þarf ég kannski að hafa áhyggjur...?)

sunnudagur, janúar 23

popppunktur...

Popppunkturinn gekk vel, það var ekkert talað um fótbolta nema þegar tveir vinir mínir reyndu að muna hvað ár það hefði verið sem einn þeirra fékk að fara inná í leik með ÍA (þetta eru allt skagamenn) og rifjuðu upp sögur frá því þeir spiluðu með Skallagrími í Borgarnesi. Ég var þægilega utanveltu í þeirri umræðu og lagði lítið til málanna.

Spilið gekk vel, ég var einu sinni í tapliði, einu sinni í öðru sæti og einu sinni í sigurliði, sem er alveg þokkalegur árangur. Spilið er líka skemmtilegt, nema þegar óþarfa villur höfðu af manni stig (Gunni minn, ef þú lest þetta, Sigga Beinteins söng í hljómsveitinni Kikk, ekki Klikk. Hafðir þarna af mér dýrmætt stig...). Það skemmtilegasta var þó að Valdi vinur minn hafði tekið sig til og búið til svona lagabútaseríur, þannig að í auglýsingahléum hlustuðum við á 5 15-sekúndna lagabúta og giskuðum á flytjanda. Alveg eins og í arvölu popppunkti, og langskemmtilegasti hlutinn. Merkilegt hvað maður gat mikið, en dugði þó lítið þar sem flestir aðrir en ég þarna inni vinna í plötubúðum borgarinnar og vita því allt t.d. um íslenska sumarpoppið sem ég hef aldrei haft áhuga á að leggja á minnið.

laugardagur, janúar 22

Lífið er fúlt...

Og Liverpool að tapa fyrir Southampton. Helvítis djöfull. Og ég að fara að spila popppunkt við (næstum því) eintóma United-hausa. Eintóma og galtóma.

leiðindi

Það er nú meira hvað síðustu bloggfærslur hafa verið yfirmáta leiðinlegar. Held það fari nú bara að bresta á með spænsku poppi bráðum. Þaldénú.

laugardagsmorgun

Mikil dásemd er kaffið! Fyrsti kaffibollinn á morgnana er hrein hamingja (með mjólk). Og eins og heimspekingurinn Penny Lim segir: "happiness is so much fun".

Annars er íranska bylgjan í sjónvarpinu einstaklega kærkomin, sem kvikmyndafrík hefur maður lesið svo mikið um íranska kvikmyndagerð en haft lítil tækifæri til að kynna sér hana. Ætli Sigga Kvika eigi heiðurinn að þessu? Myndin í gær var hrikaleg í einfaldleika sínum, og ótrúlegt að hægt sé að gera kvikmynd við þær aðstæður sem birtust í myndinni. Eitt helsta einkenni íranskra mynd sást líka í gær, þessi nálægð við heimildarmyndina og í raun grunar manni að mörg atriðin hafi verið raunveruleg og vélin hafi bara verið látin ganga. Og mikið voðalega verður þetta drasl sem maður er að horfa á dags daglega yfirborðskennt og tilgerðarlegt í samanburði við svona mynd. Og á morgun er það Kiorastami. Ég hef reyndar séð eina mynd eftir hann, Taste of Cherry, sem mér fannst frekar leiðinleg, vona að þessi sé betri.

Annars er eina af uppsprettum íranskrar kvikmyndagerðar að finna á Spáni. Leikstjórinn Victor Erice er einn af betri leikstjórum Spánar, þótt hann hafi bara gert 3 myndir í fullri lengd, eina á tíu ára fresti eða svo. Fyrsta myndin hans, Espíritu de la colmena (sem hægt er að finna allavega á Aðalvídeóleigunni) hafði mikil áhrif á íranska kvikmyndagerðarmenn. Hún var gerð í lok Frankótímans og hægt að sjá í henni ádeilu á spænskt þjóðfélag, en þar sem sagan var sögð frá sjónarhóli barns var líka auðvelt að missa af þessari ádeilu. Stíllinn var einnig hægur og ljóðrænn og á köflum nálægt því að vera í heimildarmyndastíl. Kiorastami og félagar hans tóku þessari mynd opnum örmum og hafa einmitt gert mikið af myndum um börn, þar sem þá er auðveldara að fela ádeiluna.

Jájá, þá er að drífa sig á leikæfingu. Og svo popppunktur með plötuvinafélaginu í kvöld. Það held ég nú.

föstudagur, janúar 21

California's Lower Abdominal Area

I was alive to the glorys of Faraday and Newton; the aura of the Lord Kelvin was palpable in this varnished woody chamber. Equations jumped around, but I found that I spoke too the language of the equation, that these complex sentences of Maths that the lecturer spoke to me were perfectly comprehendible. In fact they were as sweet to me as hearing an unheard hour long Smiths' opus, or a poem by Coleridge when you're just in the mood for Coleridge.

Ég hef yfirleitt bætt við krækjum á annarra manna blogg þegjandi og hljóðalaust. Það virðist samt vera einhver hefð fyrir því, allavega hjá sumum, að tilkynna það sérstaklega. Þannig að nú ætla ég að tilkynna það sérstaklega hvað bloggum ég bætti við í vikunni.

Stuart Murdoch er jafngóður bloggari og hann er textahöfundur. Fyrir þá sem ekki vita er hann sólin í sólkerfinu sem heitir Belle and Sebastian. Hann heldur dagbók sem er mjög skemmtileg aflestrar, og tilvitnunin hér uppi er frá honum komin. Got a way with words, that lad. Hin bloggin eru blogg þeirra hjónakorna Auju og Tóta. Nei, ég þekki þau ekki neitt, þetta hljómar bara svo vel. Auja er semsagt Auður Jónsdóttir sem er í hópi fremstu rithöfunda þjóðarinnar. Tóti er Þórarinn Leifsson, myndlistarmaður og líka snillingur. Jámm. Þið finnið krækjurnar hérna til hliðar.

Annars lítil hvöt til að blogga þessa dagana, þeir eru líka fullir af annaðhvort leiklist eða atvinnuleit. Ég fæ útrás fyrir leiklistarpælingar í æfingadagbókinni, og atvinnuleit er alveg einstaklega leiðinlegt og óáhugavert bloggefni, þannig að ég hlífi sjálfum mér og öðrum við því.

Rétt gjóaði augum á fréttir í dag og það sem birtist mér var Bush. Maðurinn stingur í augu, hann er andlegur piparúði.

Yfir og út, það er nótt og ég er andvaka. Það stendur ennþá lítið gervijólatré úti í horni í stofunni minni. Ég var satt að segja hættur að taka eftir því. Bráðum stend ég upp og fæ mér rúgbrauðssneið og reyni svo aftur að sofna. Á morgun vakna ég aftur.P.S. Ég er ekki frá því að ég haldi upp á þetta um helgina.

miðvikudagur, janúar 19

2046


"Í lífi okkar erum við föst í gildru tímans, sem stjórnar tilvist okkar. Í raunveruleikanum er ekki hægt að spóla til baka. Þú veist ekki hvort þú verður á réttum tíma með rangri manneskju, eða öfugt, og öllum leikur okkur forvitni á að vita hvað hefði gerst ef í stað þess að fara á einn stað hefðum við farið á annan. Þrátt fyrir þetta get ég sem leikstjóri leikið mér með tímann að vild, ég get látið tíu ár líða á einni sekúndu eða látið eitt augnablik virðast heil eilífð. Það er afar heillandi að leika sér með þetta. Kvikmyndin gerir mér kleift að kanna þáskildagatíðina, möguleikann á að leika sér með það sem hefði gerst ef... Þetta gerir mér kleift að rannsaka hið mögulega og hið hugsanlega og setja það fram í mynd."
(Wong Kar-wai)Maður snýr aftur hótelið til að skrifa. Hann situr í herbergi 2047 og skrifar sögur úr framtíðinni, þótt í rauninni komi þær úr fortíðinni. Í herbergi 2046, þar sem hann áður hafði fundið ástina, býr kona. Það er ekki alltaf sama konan, þegar ein fer tekur önnur við. Hann á í ástarsambandi við þær, kannski að reyna að finna glataða ást úr herbergi 2046. Í sögunum hans ferðast fólk með lest inn í framtíðina, til ársins 2046, til að endurheimta minningar.Þetta er víst óbeint framhald af In the Mood for Love. Tony Leung snýr aftur, Gong Li, Zhang Ziyi og Faye Wong konurnar í herbergi 2046. Allt saman óskaplega fallegt fólk. Og enn sama yrkisefnið, afturhvarf, minningar, glataður tími, hvað ef... Sumum finnst myndir Wong Kar-wais leiðinlegar. Líklega hefur það eitthvað með það að gera að yrkisefnið er tíminn. Þegar manni leiðist er maður meðvitaður um tímann, lærði ég í Víðsjá um daginn. Og öfugt, líklega. Spurning hvort þessi mynd rati í bíó hér á klakanum. Hugsanlega einhverja kvikmyndahátíðina. Vonandi.

Annars á næsta mynd kappans að heita "The Lady from Shanghai", og Nicole Kidman í aðalhlutverki. Og þetta á víst ekki að vera endurgerð á Orson Welles myndinni.Annars er Faye Wong vinsæl poppsöngkona í Hong Kong, og víðar í Asíu líklega. Hún hefur verið að leggja fyrir sig kvikmyndaleik upp á síðkastið, eins og títt er um poppstjörnur, lék m.a. í Chungking Express e. Wong Kar-wai, lék stúlkuna sem hlustaði sífellt á California Dreaming. Skemmtilegt dæmi um hennar söng má finna hér fyrir neðan, lag sem kom einmitt fyrir í Chungking Express. Þetta er útgáfa á lagi sem flestir ættu að kannast við.
Faye Wong - Dream Person

þarf endilega að hafa titil á öllum færslum?

Það er eins og að þessi mp3-törn hafi rænt mig allri blöggdöngun sem ég átti til í mínum viðkvæmu taugum. Ójá, í kolli mínum geymi ég gullið, og náði loksins að spreða því á blað sem var svo skilað í handritsformi í kvikmyndamiðstöðina. Þar var því stungið ofan í skúffu. En mér er sama, þá þarf ég allavega ekki að endurgreiða handritsstyrkinn, svo nú er bara að snúa sér að næsta skrefi sem er frekari fjármögnun. Verst að ég virðist ekki hafa fengið eitt einasta markaðssetningargen í vöggugjöf, þannig að þessi hluti finnst mér óbærilega leiðinlegur. Og þar sem ég vil bara gera það sem er skemmtilegt fresta ég þessu endalaust. Óska hérmeð eftir duglegri markaðssetningarmanneskju sem vill vinna frítt fyrir mig. Má reykja. Og þar sem ég reyki ekki þarf hann/hún ekki að hafa áhyggjur af því að ég sníki af honum/henni sígarettur. Annars hefur handritsskriftatörnin um helgina gert það að verkum að sólarhringnum er snúið á hvolf, ég blogga á nóttunni og sef frameftir degi.

Já og svo er ég orðinn leikari. Af áhuga. Semsé, fór á æfingu hjá Hugleik og var valinn í hlutverk. Reyndar er sá sem ég á að leika illa haldinn af örvisku og einhverfu, þannig að ég veit ekki hvort ég á að taka þessu sem hóli. Kosturinn er að ég get þá líklega bara verið ég sjálfur á sviðinu. Minni áreynsla. Já, og svo held ég æfingadagbók.

Annars er dögunum eytti í atvinnuleit (þegar ég er ekki sofandi). Gengur... ekki neitt. Sem er ansi skítt. Þannig að ég verð að muna eftir að kaupa víkingalottó á morgun. Ákvörðun morgundagsins verður því: sjálfval, eða treysti ég á spádómsgáfu mína?

laugardagur, janúar 15

rúgg end rúll

Ég veit ekki hvort það er ellin en ég virðist vera hallast meira að melló poppi og endurhvarfselektrói, allavega ef mið er tekið af liðnu ári. Það voru nú samt nokkur rokklög sem læddust inn í hlustir mínar svona endrum og eins, og hér koma sýnidæmi:


Mahjongg er sveit frá Chicago, alveg þokkalega í þessum póst-pönk fíling sem svo mjög var að gera sig í fyrra. Þeir eru samt rokkaðri en margir á þessum kantinum, það eru fleiri áhrif í gangi en bara Gang of Four. Þeir gáfu út EP-plötu/disk í fyrra sem kallast Machinegong, sem óhætt er að mæla með. Og hér kemur tóndæmi:
Mahjongg - Aluminum (Kaupa hér)Oxford Collapse eru drengir frá Brooklyn. Ég veit svosem ekkert óskaplega mikið um þá, nema hvað þeir eru fjári skemmtilegir og gáfu út prýðisgóða plötu í fyrra, Some Wilderness.
Oxford Collapse - 1991 KidsMae Shi eru rugludallar frá LA, sem eru kannski á svipaðri bylgjulengd og Liars. Þeim finnst greinilega gaman að öskra og vera með læti, og ekkert nema gott eitt um það að segja. Gáfu líka út plötu í fyrra, Terrorbird, sem er svolítið ójöfn, en þó nokkrar matarholur eins og þessi hér:
Mae Shi - Power to the Power Bite 2

miðvikudagur, janúar 12

kúlið

Þetta fer nú að vera orðið gott, ég kannski set inn einn eða tvo svona pósta í viðbót.

Það er sitthvað að kokkast í Króatíu, allavega virðist tónlistarlífið blómstra þar. No Name No Fame var ein af litlu uppgötvununum á árinu, þau gefa út á Egoboobitsmerkinu, sem er útgáfa sem gefur út frjálsa tónlist (sbr. frjáls hugbúnaður). Það er því hægt að nálgast tónlist hljómsveitanna sem gefa út hjá þeim á heimasíðu útgáfunnar. Þetta lag með No Name No Fame sunkaði inn í kollinn á mér og fór ekki þaðan út. Leynir á sér.

No Name No Fame - Winter Poem (For lost souls)


Það drýpur líka kúlið af stöllunum í Electrelane í þessu lagi. Rataði meir að segja inn í OC. Þær gáfu út sína aðra plötu, Power Out, á árinu, sem svíkur ekki.
Electrelane - On Parade (kaupa hér)


Mus koma frá Astúríuhéraði á Spáni. Þau hafa verið starfandi frá 2000-2001 og hafa róið svolítið á svipuð mið og Low upp á síðkastið. Þetta lag er reyndar frá upphafsárum hljómsveitarinnar þegar elektróníkin var meira áberandi, en ekki verra fyrir það.
Mus - Duerme, nenu duermete


mánudagur, janúar 10

englarnir

Englatónlistin í eyrum mínum á liðnu árinu.

Það er til ógrynni af frábærum hljómsveitum og tónlistarmönnum í heiminum. En það er ekki oft sem maður rambar á tónlistarmann sem er búinn snilligáfu. Devandra Banhart er tvímælalaust einn af þeim. Þetta er á yfirborðinu einföld trúbadúratónlist, gaur með gítar, en undir niðri leynast fleiri hlutir. Eða eins og hann segir sjálfur: "I'd say I sound more like INXS, Rush, ELO, Emerson Lake & Palmer or Joan Armatrading. When I look in the mirror I visualise old men, old women, alligators, bark, soap dish dispensers, pieces of glass...I'm pretty happy where I am right now." Jebb. Séní, ekki spurning. Hann er líka með ritræpu og gaf út heila tvo diska 2004, Rejoicing in the Hands og Niño Rojo. Þeir hafa líka fengist í Skífunni.
Devandra Banhart - The Body Breaks

Engilstitillinn á kannski betur við Jóönnu Newsom en marga aðra, af því að hún spilar nú einu sinni á hörpu (já, ég veit, þessi var góður). Og syngur eins og (barnslegur) engill. Reyndar fer röddin í taugarnar á mörgum, en þeir sem ná að komast yfir þann þröskuld fá ýmislegt fyrir sinn snúð. Svo eru textarnir hennar nett súrrealískir: "There are some mornings when the sky looks like a road / There are some dragons that were built to have and hold / And some machines are dropped from great heights lovingly / And some great bellys ache with many bumblebees". Já, skil ekki bofs, en fallegt er það.
Joanna Newsom - Clam, Crab, Cockle, Cowrie (kaupa hér)

Áfram með barnslegar raddir. Þetta er reyndar diskur frá 2003, en ég er svo seinn til. Og þetta er búið að vera á rípít hjá mér ansi lengi þannig að það flýtur með. Innocence Mission eru gömul í hettunni, gáfu fyrst út plötu 1989. Draumkennt, akústík ballöðupopp og nær oft einhverjum galdri sem erfitt er að lýsa. Kannski er það bara ég.
Innocence Mission - Tomorrow on the Runway (kaupa hér)

föstudagur, janúar 7

tölvupoppið

Áfram með smjerið. Hér verða sett örfá góð tölvupopplög frá liðnu ári. Elektróið tröllreið auðvitað öllu og útgangspunktarnir voru Numan og Moroder. Hvað um það, eftirfarandi lög voru hvað mest á ripít hjá mér:

And Björk of course... (þessi er nú orðinn soldið þreyttur). Björk gaf út greitest hits plötuna sína snemma á árinu, og þar á milli gamalla slagara leyndist þessi perla, It's in our Hands. Það voru gefnar út tvær smáskífur með tveimur ólíkum útgáfum af laginu, og það var seinni útgáfan sem stoppaði ekki hjá mér. Þetta er endurgerð frá Soft Pink Truth, sem er hliðarverkefni Drew Daniels, annars félaga í Matmos dúettinum. Elektróstuð og læti. Mæli annars með vídeóinu við upprunalega lagið, Spike Jonze er snillingur. And Björk of course (æi, ekki aftur...).
Björk - It's in our Hands (Soft Pink Truth Remix) (kaupa hér)


Tree Wave var ein af uppgötvunum ársins hjá mér. Þetta eru krakkar frá Dallas í Texas sem hafa bara gefið út eina EP plötu, og þegar hljóðfæralistinn þeirra er skoðaður lítur þetta nú út fyrir að vera bara einhver nördaskapur: Commodore 64 tölva, Atari 2600 leikjatölva, Compaq Portable II einkatölva og, síðast en ekki síst, Epson LQ500 dot matrix prentari. En merkilegt nokk, hér fer saman tæknidella og smekkvísi. Þetta er úrvalspopp, svolítið í anda Stereolab eða Lali Puna. Fylgist vel með þessum.
Tree Wave - Sleep (fleiri lög að finna á heimasíðunni þeirra)


M83 heitir frönsk sveit (nefnd eftir vetrarbrautinni á myndinni) og er kannski á svolítið svipuðum slóðum og orgelkvartettinn Apparat, þó undir meiri áhrifum frá hljómsveitum eins og My Bloody Valentine o.fl. Þetta er reyndar lag frá 2003, en ég fann það ekki fyrr en í fyrra svo ég leyfi því að fljóta með. Platan sem þetta kemur af, Dead Cities, Red Seas & Lost Ghosts, er alveg afbragð og óvenju fjölbreytt miðað við hljóðfæraskipan.
M83 - Slowly (kaupa hér)

miðvikudagur, janúar 5

skemmtilegu lögin

Nú er tími ársuppgjöra. Bestu lögin, bestu myndir, besta hitt og besta þetta. Ég ætla reyndar ekki að gera neina lista heldur setja hérna nokkur lög sem ég hef hlustað mest á á árinu, flokkuð á frekar tilviljanakenndan hátt í engri sérstakri röð. Set kannski tvö-þrjú lög í hvert skipti, eftir því sem ég nenni. Þannig að bloggið mitt breytist í mp3-blogg í smátíma (hefur nú haft annan fótinn þar svosem). Ef ykkur líst á lögin hvet ég ykkur til að kaupa plöturnar. Allavega, fyrst koma skemmtilegustu lögin. Lög sem koma manni til að flissa eins og bjáni og hoppa eins og fífl (þegar aðstæður leyfa). Allavega mér.

Animal Collective eru tveir sólbrenndir sýruhausar sem glamra á kassagítar. Tónlistin eftir því, svona eins og ef Jibbið hefðu alist upp í eyðimörkinni, bryðjandi sýru og með Beach Boys í eyrunum (það er allavega einn sem les þetta blogg sem skilur þetta). Þetta lag, af plötunni Sung Tongs, er bókstaflega að bresta af gleði, óreiðan á næsta leyti og félagar og vinir banka á nærliggjandi hluti. Sexstrengja...
Animal Collective - Who Could Win A Rabbit (Kaupið plötuna hér)


Melt Banana er japönsk "noise rock"-sveit. Litlu frændur Boredoms og alltaf í miklu stuði, spila eins og þau eiga lífið að leysa og söngkonan Yasuko O gjammar yfir af listfengi. Allt að springa bara.
Melt Banana - Lost Parts Stinging Me So Cold (Kaupa hér)

The Go! Team eru táningar frá Bristol Brighton í Englandi. Gáfu út plötuna Thunder Lightning Strike sem er alveg bjánalega skemmtileg samsuða. Magnum PI, klappstýrur, breikdans í Bronx, BMX, amerískar drossíur, Mr. T, The A Team, dass af Sonic Youth, óldskúl hip hop. Ómótstæðilegt.
The Go! Team - Huddle Formation (Kaupa hér)

mánudagur, janúar 3

fyrir hrein

Hreinn er með stærðfræðibrandara á blogginu sínu í dag. Þetta Monty Python skets rímar ágætlega við hann:
Monty Python - Logic vs. Sex

Annars er það ágæt hugmynd að ná af sér jólakílóunum, en guð mín góð, þessi gubbupest var nú alveg óþarfi!