miðvikudagur, janúar 19

2046


"Í lífi okkar erum við föst í gildru tímans, sem stjórnar tilvist okkar. Í raunveruleikanum er ekki hægt að spóla til baka. Þú veist ekki hvort þú verður á réttum tíma með rangri manneskju, eða öfugt, og öllum leikur okkur forvitni á að vita hvað hefði gerst ef í stað þess að fara á einn stað hefðum við farið á annan. Þrátt fyrir þetta get ég sem leikstjóri leikið mér með tímann að vild, ég get látið tíu ár líða á einni sekúndu eða látið eitt augnablik virðast heil eilífð. Það er afar heillandi að leika sér með þetta. Kvikmyndin gerir mér kleift að kanna þáskildagatíðina, möguleikann á að leika sér með það sem hefði gerst ef... Þetta gerir mér kleift að rannsaka hið mögulega og hið hugsanlega og setja það fram í mynd."
(Wong Kar-wai)Maður snýr aftur hótelið til að skrifa. Hann situr í herbergi 2047 og skrifar sögur úr framtíðinni, þótt í rauninni komi þær úr fortíðinni. Í herbergi 2046, þar sem hann áður hafði fundið ástina, býr kona. Það er ekki alltaf sama konan, þegar ein fer tekur önnur við. Hann á í ástarsambandi við þær, kannski að reyna að finna glataða ást úr herbergi 2046. Í sögunum hans ferðast fólk með lest inn í framtíðina, til ársins 2046, til að endurheimta minningar.Þetta er víst óbeint framhald af In the Mood for Love. Tony Leung snýr aftur, Gong Li, Zhang Ziyi og Faye Wong konurnar í herbergi 2046. Allt saman óskaplega fallegt fólk. Og enn sama yrkisefnið, afturhvarf, minningar, glataður tími, hvað ef... Sumum finnst myndir Wong Kar-wais leiðinlegar. Líklega hefur það eitthvað með það að gera að yrkisefnið er tíminn. Þegar manni leiðist er maður meðvitaður um tímann, lærði ég í Víðsjá um daginn. Og öfugt, líklega. Spurning hvort þessi mynd rati í bíó hér á klakanum. Hugsanlega einhverja kvikmyndahátíðina. Vonandi.

Annars á næsta mynd kappans að heita "The Lady from Shanghai", og Nicole Kidman í aðalhlutverki. Og þetta á víst ekki að vera endurgerð á Orson Welles myndinni.Annars er Faye Wong vinsæl poppsöngkona í Hong Kong, og víðar í Asíu líklega. Hún hefur verið að leggja fyrir sig kvikmyndaleik upp á síðkastið, eins og títt er um poppstjörnur, lék m.a. í Chungking Express e. Wong Kar-wai, lék stúlkuna sem hlustaði sífellt á California Dreaming. Skemmtilegt dæmi um hennar söng má finna hér fyrir neðan, lag sem kom einmitt fyrir í Chungking Express. Þetta er útgáfa á lagi sem flestir ættu að kannast við.
Faye Wong - Dream Person

Engin ummæli: