sunnudagur, janúar 30

spænskt popp #6

Eitísið, maður, eitísið!

Aðalsöguhetjan í dag kallar sig Alaska, réttu nafni Olvido Gara, fædd árið 1963 í Mexíkóborg (sem mexíkanar kalla venjulega "De effe", stytting fyrir Distrito Federal). En áður en að því kemur er hér smá forsaga.


Alaska (t.h.) y Los Pegamoides í Pepi, Luci, Bom.

La movida

Einræðisherrann Francisco Franco hrökk loks uppaf 1975. Sagt er að skothljóð hafi bergmálað um alla Madrid þegar fréttin barst, því fólk opnaði loks kampavínsflöskurnar sem það var búið að geyma sérstaklega fyrir þetta tilefni. Í kjölfarið fylgdi tímabil gerjunar í spænsku þjóðfélagi, ekki síst í menningarlífinu.

Frjálslyndi 7. áratugarins í öðrum löndum Evrópu náði eðlilega ekki til Spánar, yfirvöld sáu til þess að fólk væri kýlt hæfilega mikið niður til að hippalingar næðu ekki að grassera að neinu marki. Samt náðu áhrifin að seytla inn, sænskir túristar sem hrúguðust á Costa del sol höfðu t.d. frjálslegri hugmyndir um lífið og tilveruna, kvikmyndir og tónlist höfðu sín áhrif og svo mætti áfram telja. Fyrir vikið var mikið líf í alls kyns neðanjarðarkúltúr og þegar Franco hvarf á braut var fólk við það að springa. Upp á yfirborðið spruttu hópar tónlistarmanna og listamanna, samkynhneigðir, femínistar, klæðskiptingar, pönkið hélt innreið sína og svo síðpönkið. Allt þetta grautaðist saman og náði hámarki (sér í lagi í Madrid) um 1980, og þótt þeir sem tóku þátt í þessum hræringum segi að aldrei hafi verið um neina sérstaka hreyfingu að ræða er venjulega talað um Madridarnýbylgjuna eða spænsku nýbylgjuna, La movida madrileña (eða bara La movida) þegar vísað er í þennan tíma. Spánverjar í dag tala um þennan tíma með rómantískan bjarma í augum enda þótti Madrid einhver skemmtilegasta djammborgin í Evrópu langt fram eftir 9. áratugnum. Á Spáni einkenndist sá áratugur enda af mun meiri hedónisma og gleði en tíðkaðist í öðrum evrópulöndum, þar sem tómhyggja pönksins og kalda stríðsins grasseraði.

Þekktasta afsprengi þessarar hreyfingar er auðvitað Pedro Almodóvar, og það má segja að í fyrstu mynd hans í fullri lengd, Pepi, Luci, Bom y otras chicas del montón (1980), springi þessi hreyfing út í fyrsta skipti í fullum skrúða. Og ein leikkonan í þeirri mynd er einmitt okkar kona, Alaska.

Alaska y Los Pegamoides
Alaska birtist í rokksenunni í Madrid þegar hún stofnaði ásamt Nacho Canut og Carlos Berlanga pönkhljómsveitina Kaka de Luxe árið 1978. 1980 bættust Ana Curra og Eduardo Benavente í hópinn og nafninu var breytt í Alaska y Los Pegamoides. Sú hljómsveit sá einmitt um mikið af tónlistinni í áðurnefndri mynd Almodóvars auk þess sem Alaska lék stórt hlutverk í henni og var í kjölfarið kölluð "la reina de la movida" (drottning spænsku nýbylgjunnar).

Tónlist Alaska y Los Pegamoides var einhvers konar gleðipönk og stutt í húmorinn, ólíkt t.d. ensku senunni á svipuðum tíma, sem var frekar húmorslaus. Hljómsveitin gaf út eina plötu, "Otra dimensión" og fyrsta smáskífa þeirra, "Horror en el hipermercado" ("Hryllingur í súpermarkaðinum") náði miklum vinsældum á Spáni. Óhætt er að mæla með safnplötunni "Simplemente lo mejor".
Alaska y Los Pegamoides - Horror en el hipermercado
Alaska y Dinarama


Þegar Ana Curra og Eduardo Benavente yfirgáfu sveitina 1982 breyttu þau sem eftir voru nafninu í Alaska y Dinarama. Þau hölluðu sér meira að tölvuskotnu júrópoppi og önnur breiðskífa þeirra, "Deseo Carnal", naut mikilla vinsælda. Alaska var á sama tíma gerð að umsjónarmanni barnaþáttarins La bola de cristal í spænska ríkissjónvarpinu, og hljómsveitin hennar sá að mestu um tónlistina í þeim (meira um það í næstu installasjón). Tónlist þeirra er júrópopp af bestu gerð og dimm rödd Alaska myndar skemmtilega andstæðu við undirleikinn. Fyrra lagið sem ég set hér er eitt af þeirra þekktari lögum, "Mi novio es un zombi" ("kærastinn minn er sombí", hefði passað ágætlega í Shaun of the Dead). Seinna lagið, "A quien le importa" ("hverjum er ekki sama hvað ég geri / hverjum er ekki sama hvað ég segi / ég er eins og ég er og ætla aldrei að breytast") var samið af Carlos Berlanga, sem lést 2002, og hefur orðið að eins konar einkennislagi samkynhneigðra á Spáni.
Alaska y Dinarama - Mi novio es un zombi
Alaska y Dinarama - A quién le importa
Fangoria


Alaska er enn að í dag. Hún og Nacho Canut stofnuðu hljómsveitina Fangoria uppúr 1990 og hafa gefið út nokkrar plötur, þá síðustu í fyrra, "Arquitectura Efímera". Tónlist Fangoria er afar fjölbreytt, þau hafa gert ýmsar tilraunir í tónlistinni en nýja platan er eðal tölvupopp. Hér kemur ein af smáskífunum af nýju plötunni. (Eitthvað af plötum þeirra er hægt að fá á Amazon).
Fangoria - Miro la vida pasar


P.S. Gema, ¿sabes si hay algún sitio en el web donde se puede comprar música española? Fnac no sirve...

Engin ummæli: