þriðjudagur, febrúar 22

people are strange...

gangandi í þokunni sé ekki handa minna skil sé ekki húsin hinum megin tjarnarinnar sé ekki þokuna öll tilveran orðin nærsýn með -7 á báðum ljósin ormagöng í gráan massan sum hreyfast bílar geri ég ráð fyrir en ég heyri það ekki því í eyrum mínum hljómar stína ég er ekki einn í hljómskálagarðinum þústir færast nær mér sé ekki handa minna skil sé ekki hverjir nálgast allt er svo óskýrt ekki neitt hald jú ég sé ég sé að þetta er ung kona nei þau eru tvö kona gengur hratt framúr manni hann er útlendingur horfir á eftir konunni glottandi mér sýnist hann horfa á rassinn á henni kann ekki við að snúa mér við til að sjá hvort hann sé eitthvað rosalegur of meðvitaður útlendingurinn sér mig horfa á hann og ýtir við mér mér skrikar fótur er yst á bakkanum og lendi í vatninu ég reyni að ná taki á bakkanum en hann er sleipur og eitthvað segir mér að það sé skófar á handarbaki mínu en ég sé það ekki vatnið fyllir vitin heyri garg í öndum færast nær finn goggana á höfði mínu halda að ég sé brauð og tryllast þegar þær komast að því að ég er ekki brauð önd mín hverfur í endur

Soundtrack: Stina Nordenstam - People are Strange (U.N.K.L.E. remix)

sunnudagur, febrúar 20

lasni asninnEinstaklega gáfulegt að eyða helginni í að vera lasinn. Sem betur fer var ég forsjáll og tók mér þrjá dvd-diska, allt myndir frá spænskumælandi löndum, tvær frá Argentínu og eina spænska.

Málið með Argentínu er að þeir eru ekki bara góðir í fótbolta heldur eru argentínskar kvikmyndir einhverjar þær bestu sem völ er á. Og það merkilega er að þegar efnahagslífið svo gott sem hrundi í landinu fyrir þetta 3-4 árum, þá gerðu þeir bíómyndir í gríð og erg sem aldrei fyrr. Myndirnar sem ég var að horfa á eru einmitt frá þessum tíma.

Sú fyrri heitir "El hijo de la novia" (Sonur brúðarinnar), súrsætt fjölskyldudrama um miðaldra mann í krísu, móður hans með alzheimer o.s.frv. Betri en hún hljómar, því get ég lofað ykkur. Þessa mynd má finna á einhverjum vídeóleigum í borginni.

Hin, "Historias mínimas" (Smásögur) gerist í Patagóníu og fylgst er með nokkrum persónum, gömlum manni (sjá mynd) sem fer að leita að hundi sínum Ljótafési, ungri konu af indíánaættum sem fer til borgarinnar til að taka þátt í spurningakeppni í sjónvarpi, og svo sölumanni sem ætlar að gleðja barn ástkonu sinnar á afmælinu með köku, en lendir í vandræðum þar sem hann er ekki viss hvort um strák eða stelpu er að ræða. Frábær mynd sem allir ættu að sjá, og það sem meira er, hún gæti vel gerst á Íslandi, landslagið í Patagóníu ekki ólíkt okkar landslagi auk þess sem mannfólkinu svipar saman. Leikstjórinn heitir Carlos Sorín, og kannski kannast einhverjir við frekar sérstaka mynd sem hann gerði 1989, "Eversmile, New Jersey", þar sem Daniel Day Lewis lék tannlækni sem ferðaðist um Argentínu á mótorhjóli. Var sýnd hér á kvikmyndahátíð ef ég man rétt.

Er Unnur Jökulsdóttir annars íslenskasta kona í heimi? Það held ég bara, svei mér þá. Falleg kona, hún Unnur.

mánudagur, febrúar 14

love to make loveValentínusardagur. Um að gera að halda upp á þennan leiðinda ameríska sið með viðeigandi hætti. Hér er einn fegursti ástaróður sem framinn hefur verið, vinir vorir í King Missile. Takið sérstaklega eftir snilldarlegu flautusólóinu.
King Missile - Gary and Melissa

laugardagur, febrúar 12

bloggþurrð

Bloggþurrð í gangi, já. Það er bara aðeins of mikið að gera, netflakk mætir afgangi þessa dagana. Vinna á daginn, leikæfingar á kvöldin. Og verður þannig áfram, þar sem brátt líður að frumsýningu. Mér gengur meir að segja illa að halda við leiklistarblogginu, á eftir að setja inn tvær færslur þar. Svona er þetta.

Allavega, nýja vinnan er á leikskóla. Það er gaman og skemmtilegt, börnin eru dúllur og finnst ég frábær og allt í góðu með það. Ég ætla ekkert að tjá mig um launin. Leikstarfsemin er eitthvað það besta sem ég hef gert sjálfum mér í langan tíma, meðleikararnir og leikstjórinn og asstleikstjórinn eru öll alveg æðislegt fólk sem auðgar líf manns til muna. Tjámm.

Annars veit ég ekkert hvert þetta blogg stefnir. Þetta átti aldrei að verða neitt mp3-blogg, ekkert frekar sko, en síðustu færslur hafa allar verið í þá átt. Og kemur örugglega meira af því. Svo dettur manni alltaf í hug einhver spekin, en gengur lítið að böggla henni saman í setningar. Læt Hreini og Hvelinu það eftir. Ég er líka orðinn leiður á skoðunum, það eru allir með skoðanir og reyna sitt besta að troða þeim að manni. Þá nenni ég ekkert að troða mínum skoðunum að líka, enda eru þær ekkert gáfulegri en gengur og gerist. Reyndar ætlaði ég alltaf að segja eitthvað fleira (mis)gáfulegt um kvikmyndir, ef mér dettur eitthvað í hug geri ég það, annars ekki. Svo set ég kannski fleiri vídeó inn. Svona ef það dettur í mig. Kannski verður þetta bara vídeóblogg, hmmmm, þá þarf ég ekki að hafa fyrir því að böggla saman setningum...

Semst, þetta blogg stefnir hvorki eitt né neitt sem er nú bara ágætt. Best líður manni þegar maður veit ekkert í sinn haus.

Og jú, svo ætla ég að pósta hérna lagi á Valentínusardaginn (er það ekki á mánudag?), stay tuned...

sunnudagur, febrúar 6

micah p. hinson

Mæli með nýjustu færslu Árna Zúra, þar fjallar hann um plötu Micah P. Hinsons og gefur tóndæmi. Svo ættu allir að kaupa plötuna, hún er helber snilld.

jessica lange...

Jessica Lange með svarta hárkollu verður oft alveg ótrúlega lík John Malkovich. Aldrei tekið eftir því fyrr.

fimmtudagur, febrúar 3

neðanmáls

Ég fann Bláu bókina eftir Wittgenstein í kassa inni í geymslu (ég var satt að segja búinn að gleyma því að ég ætti hana) svo ég fór eitthvað að myndast við að lesa hana. Byrjaði auðvitað á innganginum sem Þorsteinn Gylfason skrifar. Og eins og allir góðir fræðimenn setur Þorsteinn það sem mestu máli skiptir í neðanmálsgreinarnar (Wittgeinstein notar hvorki neðanmálsgreinar né heimildir). Og þar er m.a. þessi neðanmálsgrein:
"Hér styðst ég við óprentuð drög að ævisögu Wittgensteins eftir hagfræðinginn víðkunna Friedrich A. Hayek. W. Mays háskólakennari í Manchester lét mér ljósrit af þeim í té fyrir milligöngu vinar míns, Ólafs Ragnars Grímssonar."
Ég er ekki frá því að hér leynist sneið.

Þetta minnir mig á það, af hverju halda sagnfræðingar í þann leiðinda ósið að nota eftirmálsgreinar í stað neðanmálsgreina eins og almenninlegt fólk? Ekkert eins leiðinlegt að lesa sagnfræðidoðrant og fletta fram og til baka endalaust.

miðvikudagur, febrúar 2

falskur fugl

Pitchfork var að velja 100 bestu lög áranna 2000-2004. Fréttablaðið gerir mikið úr því í dag að Sigur Rós náði 44. sæti með "Svefn-G-englar". Svo vitnar blaðamaðurinn í umfjöllun Pitchfork:
"Hver einasta hlustun á lagið er tilraun til þess að fanga hrollinn sem fæst við fyrstu upplifun af falska tóninum í rödd Jóns Þórs Birgissonar sem er of tær og himnesk fyrir þennan heim."
Hmmm, eitthvað virkar þetta nú skrýtið. Svo maður gluggar í Pitchfork, og þar segir:
"Every subsequent listen to "Svefn-G-Englar" is an attempt to recapture the spine-tingling awe that came with first hearing Jon Thor Birgisson's androgynous falsetto-- too pure and angelic for this debased world"
Sem sýnir bara að hálfvitar sem kunna ekki á orðabók ættu kannski að fá sér einhverja aðra vinnu. (Æ hvað það er gaman að vera besservisser...)