sunnudagur, febrúar 20

lasni asninnEinstaklega gáfulegt að eyða helginni í að vera lasinn. Sem betur fer var ég forsjáll og tók mér þrjá dvd-diska, allt myndir frá spænskumælandi löndum, tvær frá Argentínu og eina spænska.

Málið með Argentínu er að þeir eru ekki bara góðir í fótbolta heldur eru argentínskar kvikmyndir einhverjar þær bestu sem völ er á. Og það merkilega er að þegar efnahagslífið svo gott sem hrundi í landinu fyrir þetta 3-4 árum, þá gerðu þeir bíómyndir í gríð og erg sem aldrei fyrr. Myndirnar sem ég var að horfa á eru einmitt frá þessum tíma.

Sú fyrri heitir "El hijo de la novia" (Sonur brúðarinnar), súrsætt fjölskyldudrama um miðaldra mann í krísu, móður hans með alzheimer o.s.frv. Betri en hún hljómar, því get ég lofað ykkur. Þessa mynd má finna á einhverjum vídeóleigum í borginni.

Hin, "Historias mínimas" (Smásögur) gerist í Patagóníu og fylgst er með nokkrum persónum, gömlum manni (sjá mynd) sem fer að leita að hundi sínum Ljótafési, ungri konu af indíánaættum sem fer til borgarinnar til að taka þátt í spurningakeppni í sjónvarpi, og svo sölumanni sem ætlar að gleðja barn ástkonu sinnar á afmælinu með köku, en lendir í vandræðum þar sem hann er ekki viss hvort um strák eða stelpu er að ræða. Frábær mynd sem allir ættu að sjá, og það sem meira er, hún gæti vel gerst á Íslandi, landslagið í Patagóníu ekki ólíkt okkar landslagi auk þess sem mannfólkinu svipar saman. Leikstjórinn heitir Carlos Sorín, og kannski kannast einhverjir við frekar sérstaka mynd sem hann gerði 1989, "Eversmile, New Jersey", þar sem Daniel Day Lewis lék tannlækni sem ferðaðist um Argentínu á mótorhjóli. Var sýnd hér á kvikmyndahátíð ef ég man rétt.

Er Unnur Jökulsdóttir annars íslenskasta kona í heimi? Það held ég bara, svei mér þá. Falleg kona, hún Unnur.

Engin ummæli: