þriðjudagur, mars 22

ó reykjavík, ó reykjavík...


Þetta væntanlega niðurrif húsa á Laugaveginum er eitthvað að bögglast fyrir mér. Reyndar hef ég takmarkaðar skoðanir á húsunum sem slíkum. Sum hef ég aldrei spáð í né komið inn í, í öðrum hefur búið fólk sem ég þekki og hafa því talsvert tilfinningalegt gildi. Og svo framvegis og svo framvegis... Skiptir svo sem ekki öllu máli.

Það er samt einn punktur í þessu öllu sem enginn virðist hafa áhuga á að velta upp, og það er menningarlegt hlutverk Laugavegarins. Það er nefnilega eitt af einkennum Laugavegarins (og hliðargötum) að þar hefur náð að grassera alls kyns menning á einhverjum jaðri (mismikið þó) sem einmitt kemur til af því að þarna er talsvert af "kofaskriflum" og tiltölulega ódýru húsnæði. Nefni sem dæmi Grammið, verslanirnar Kjallarann og Spútnik, Vinnufatabúðina, Hljómalind, Dead-búð Jóns Sæmundar, allt staðir sem myndu aldrei spretta upp í Smáralind eða Kringlunni. Allar eru þessar búið tengdar íslenskri poppmenningu síðastliðinna 20-30 ára órjúfanlegum böndum. Eins mætti nefna Hjá Magna, sem er ein af skemmtilegri búðum bæjarins. Sé öllum þessum "kofum" kippt niður og reist dýrara húsnæði í staðinn hverfur sjálfsagt þessi menning af Laugaveginum. Sem er kannski eitthvað sem sumir vilja, en mér myndi allavega þykja missir af því. Eins má nefna að nýja kaffihúsið, Hljómalind, er einmitt hægt að reka sem "co-op" vegna ódýrs húsnæðis sem er óneitanlega ferskt innlegg í íslenskan verslunarheim. Það dettur einhvern veginn engum í hug að opna kaffihús öðruvísi en það sé stílíserað og sterílt og hannað eftir mínímalisma dauðans. Þetta eru steindauðir staðir. Kaffivagninn er og verður besta kaffihúsið í bænum, verst bara hvað kaffið þar er vont...

Og bílastæðavandinn? Jújú, gröfum heila hæð undir Laugaveginn eins og hann leggur sig þar sem er nóg af stæðum, má t.d. keyra inn frá Lækjargötu eða eitthvað þvíumlíkt. Svo getur fólk farið með lyftu eða rúllustiga upp á yfirborðið á nokkrum stöðum, svona eins og á neðanjarðarstöðvum í Evrópu. Er þetta eitthvað svo fáránlegt?

Engin ummæli: