laugardagur, apríl 30

tónleikar


Skrapp á útgáfutónleika Úlpu á Nasa í gær. Býsna gaman. Þegar við komum inn var eitthvað retro-dansband að spila fyrir frekar tómum sal, þetta var eins og að detta inn í stemninguna í kringum 1992-3, gamaldags danstónlist og ekki mjög skemmtileg svona við fyrstu hlustun. Næstir komu hljómsveitin Sofandi. Þeir áttu skemmtilegustu kynningu kvöldsins: "Við erum Sofandi og ætlum að spila nokkur lög". Þeir voru fínir alveg, piltarnir. Næstur kom Frank Murder með idm-ið sitt. Spilaði fyrst nokkur vídeó sem voru ansi flott. Man ekki nafnið á snillingnum sem gerði þau. Svo kom hann sjálfur á svið og spilaði nokkur lög í viðbót. Ég var frekar hrifinn af hans framlagi, þótt þessi dæmigerði idm-/skrjáfhljómur sé kannski ekkert sérlega frumlegur lengur.

Svo steig Úlpa á svið. Ég hafði ekki séð þá læf síðan frá því þeir voru rétt að byrja, og þeir hafa breyst talsvert síðan þá. Orðnir alveg skelfilega þéttir og rokkandi, tónlistin ber meiri dám af hljómsveitum eins og Joy Division, meira um syntha og svoleiðis skemmtilegt. Stundum fannst mér vanta upp á rokkið í nýju lögunum, aðeins of kontrólerað á köflum. Magnús Leifur er alveg fantasöngvari og er að auki með indílúkkið alveg á hreinu. Í lokin tóku þeir lög af fyrstu plötunni, t.d. Dinzl sem er alveg jafnmikil snilld og það hefur alltaf verið.

Annars er hægt að nálgast fleiri lög á heimasíðu þeirra (undir "Dótarí"). M.a. á að vera hægt að sækja nýja lagið, "Attempted Flight", en linkurinn virkar reyndar ekki.

Engin ummæli: