laugardagur, maí 28

ævintýri á gönguför

1.Skellti mér í Smekkleysubúðina kl. 15 í dag. Þar spilaði bandaríska söngkonan Nina Nastasia ásamt Huun Huur Tu í rétt að giska hálftíma. Mögnuð upplifun, enda um magnaða tónlistarmenn að ræða þó ólíkir séu. Nina er auk þess einstaklega fögur kona sem var ekki að skemma fyrir. Tónlist hennar hefur verið lýst sem "train ride through a rustic southern town", sem segir eitthvað en þó ekki mikið. Fyrir þá sem misstu af uppákomunni og misstu þarafleiðandi af miklu, er hér lag með Ninu svona í sárabætur. Þetta er af annarri plötu hennar, Run to Ruin, en alls hefur hún gefið út þrjár plötur.
Nina Nastasia - Superstar

2.Erfiðustu sölumennirnir eru þeir sem maður þekkir vel. Ekki vegna þess að það sé erfitt að segja nei við vini sína, heldur vegna þess að þeir vita hvað maður vill. Eins og í dag. Ég gekk inn í verslun Skífunnar á Laugarveginum til að heilsa upp á Hjálmar vin minn. Hann byrjar á því að setja í hendurnar á mér nýútkominn disk með Yann Tiersen. "Þetta áttirðu ekki að gera!" hrópaði ég í örvæntingu. "Nú, afhverju?" spyr hann. "Af því að þú veist að núna get ég ekki sleppt honum." Og það var eins og við manninn mælt, ég gekk út með spánnýjan Yann Tiersen disk, "Les retrouvailles". Og nokkrum þúsundköllum fátækari. Mæli með honum, í þessari útgáfu fylgir dvd diskur með myndinni "La traversée" sem ég veit ekki hvað er, því ég hef ekki haft tíma til að kíkja á hana ennþá. En hér koma dæmi af diskinum. Fyrra lagið syngur Elizabeth Fraser, söngkona Cocteau Twins. Ótrúleg rödd þar á ferð. Seinna lagið syngur Stuart A. Staples úr Tindersticks.
Yann Tiersen - Kala
Yann Tiersen - A Secret Place

hei, einmitt ein af mínum uppáhaldsmyndum

fimmtudagur, maí 26


Dudek: "Before the penalties when we were waiting for the order to be decided, Jamie Carragher came over to me and grabbed me by the shoulders and said: 'Whatever you do, don't forget Bruce Grobbelaar and his spaghetti legs,'" he said. "He said I just had to try and put them off, like Bruce did in the penalty shoot-out against Roma in 1984. I just tried to make them lose their concentration and I guess it worked."
Á einhvern undarlegan hátt tókst Bruce Grobbelaar að vera hetja Liverpool-manna eina ferðina enn. Ekki illa af sér vikið, enda einhver stórkostlegasti markvörður sem um getur. Og ef Liverpool asnast til að selja Gerrard mæli ég með að þeir kaupi Kaka.

þriðjudagur, maí 24

júróvisjón


Hvað getur maður nú sagt. Gundrandri sagði þetta alveg fínt í fréttablaðinu um daginn. Þetta væl um austurevrópuþjóðir er bara pjúra rasismi og ekkert annað.

Annars var júróvisjón einu sinni gjaldgeng. Þá gat maður gengið að góðri tónlist vísri. Þá riðu hetjur um héruð og stúlkur þurftu ekki að sýna cleavage og vera með stór brjóst til að vinna. Og menn eins og Serge Gainsbourg sömdu vinningslögin. Og ég var ekki einu sinni fæddur svo hvað er ég svo sem að röfla. Árið 1965 sigraði franska fljóðið France Gall í júróvisjón með held ég bara allra besta júróvisjónlagi sem til er. Serge Gainsbourg samdi, Belle and Sebastian hafa gert kover. Þetta verður aldrei toppað.
France Gall - Poupee de cire, poupee de son

laugardagur, maí 21

leið rétting

Ég miskvótaði víst Barða í pistlinum um Gargandi snilld. Hann sagði ekki að íslensk tónlist væri leiðinleg, heldur að hún væri léleg. Svo útskýrir hann nánar hvað hann á við með því, en til að heyra þá útskýringu verðið þið að sjá myndina. Hjálmar fær þakkir fyrir að benda mér á vitleysuna.

miðvikudagur, maí 18

krufið til mergjarVegna einþáttungar sem ég ætla að rembast við að leikstýra hef ég verið að glugga svolítið í upplýsingar um þá heillandi list, krufningar. Það er til talsvert af heimasíðum á netinu um þetta eins og við er að búast. T.d. má alveg mæla með þessari interaktívu krufningu og svo er þessi síða hin besta skemmtun, þar sem limlestingunum er lýst með hjálp afar glaðlegra tölvuteikninga. Ekki slæmt það.

sunnudagur, maí 15

screaming masterpiece

Endaði á því að fara á Gargandi snilld í gær. Sem gefur auðvitað tilefni til einhverra misgáfulegra pælinga:

Visúalt er myndin oft vel hugsuð og flott. Sérstaklega í innslögunum og viðtölunum og í sviðsettu tónlistaratriðunum (Mugison í kirkjunni, o.s.frv.) þar sem römmunin og myndvinnslan er úthugsuð. Þar sést líka tengingin við vídeólist, þar sem rætur Ara Alexander liggja, rammarnir oft á skjön, mikið speis og viðfangsefnið stundum varla innan rammans. Kannski ekkert yfirmáta frumlegt, en kom samt vel út. Það er líka stór kostur að sá sem gerir hana á rætur sínar í vídeólist, ef einhver auglýsingaleikstjórinn hefði gert þetta hefði myndin sjálfsagt öll verið í þessum kaldbláa "bleach bypass" stíl sem íslenskir auglýsingagerðarmenn virðast elska út af lífinu.

Flottustu innslögin voru tvímælalaust loftmyndirnar af höfuðborginni um nótt. Draumkennd og óvenjuleg. Hins vegar eru myndir af snjóþrungnum fjöllum og ám í klakaböndum orðin frekar þreytt, jafnvel þótt myndræna útfærslan væri venju fremur frumleg. Það var líka í innslögunum sem kvikmyndagerðarmennirnir náðu að nýta sér áferð vídeósins sér til framdráttar. Hins vegar voru upptökur af tónleikum síðri, enda hefur leikstjórinn minna kontról og myndatakan varð stundum frekar týpisk og lúkkið dalaði mjög.

Hljóðið var mjög gott, sem hjálpaði mikið upp á upplifunina. Það átti kannski sérstaklega við tónleika Bjarkar og Sigur Rósar í New York, sem bæði voru gæsahúðarhvetjandi móment.

Viðmælendur voru flestir ágætlega valdir og höfðu sitthvað að segja. Barði í Bang Gang átti þó bestu línuna: "Íslensk tónlist er bara leiðinleg". Ágætt að fá smá pessimisma inn í allt hallelújaið. Aðrir voru bara krúttlegir og höfðu annars lítið fram að færa annað en tónlist, t.d. var viðtalið við Múm, sem ég hef áður vitnað í, frekar rýrt. En þau voru sæt þannig að það bjargaði svolitlu. Og þá er það kannski pointið með myndinni: Henni er auðvitað fyrst og fremst ætlað að kynna og selja íslenska tónlist erlendis, þess vegna voru þeir sem komu fram tónlistarmenn sem hafa gert það gott erlendis eða hafa vakið athygli. Fyrir vikið saknar maður ýmissa hljómsveita og tónlistin sem flutt var fellur mestöll undir að vera "quirky", semielektrónísk popptónlist. Sem er alveg í fínu lagi og allt gott um það að segja. Hins vegar kemur þetta fram í myndinni eins og það sé voða lítið annað að gerast, Mínus er nánast eina rokksveitin sem kemur fram. Harðkjarnasenan, sem er kannski ein sú athyglisverðasta hér, kemur hvergi við sögu og fleira mætti telja. Auðvitað er það rétt að það er ekki hægt að taka allt með í svona mynd, og mér skilst að Ari og kó eigi helling af efni sem þeir ætli að hrúga á DVD diskinn. Það verður áhugavert. En ég efast um að miklu verði bætt við efnislega úrvinnslu, þetta verður áfram sama hallelújahjalið, engin gagnrýni né neitt af því taginu.

Sú hlið myndarinnar sem fór verst í mig (og Haukur Már hefur meðal annars skrifað um) er þetta dæmigerða grobb og þjóðernishyggja sem alltaf birtist þegar verið er að tala um íslenska list og menningu. Við erum svo sérstök og frábær af því að hér voru víkingar og íslendingasögur og rímur og blablabla. Það er eins og tónlistarmönnunum sé ekki treyst til þess að standa á eigin fótum, þetta er allt svo sérstakt af því við (íslendingar) erum svo sérstök, ekki af því að tónlistarmennirnir séu hæfileikaríkir. Nei nei, þetta er allt í genunum og kemur úr Eddukvæðunum. Og þessi tilraun þeirra til að tengja íslenska samtímatónlist við rímurnar og íslenskan kveðskap gengur ekki upp. Íslensk rímnahefð hefur ekki haft nein áhrif svo heitið geti á íslenska tónlist. Þetta er sætt og skemmtilegt að reyna að finna samhengið í íslenskri tónlist í 1000 ár, og kannski óþarfi að vera eitthvað að agnúast út í það en auðvitað er þetta bara bullshit. Og fyrst verið var að tala um rímnahefðina og íslenskan kveðskap, hvar var þá Megas, sem er líklega sá tónlistarmaður íslenskur sem hvað mest hefur sótt í þann brunn? En myndin á auðvitað ekki að vera einhver fræðileg úttekt, þetta er skemmtun og í því samhengi virkar þetta kannski. En er rétt að setja svona fram ef það á svo ekki að taka það alvarlega? Þá þyrfti að koma aðvörunartexti eins og fyrir neðan stjörnuspána í mogganum: "Einungis dægradvöl". Og myndin er skemmtileg, hún tekur sig þrátt fyrir allt ekki of hátíðlega, tónlistaratriðin eru mörg hver frábær, hljómurinn góður og í það heila mæli ég með myndinni fyrir áhugamenn um íslenska tónlist. Ég skemmti mér allavega konunglega. Kannski er það svolítill galli að maður hefur heyrt alla þessa tónlist áður, en myndin er líka greinilega gerð fyrir erlendan markað miklu fremur en íslenskan.

Hælætin:
  • Viðtalið við Barða
  • Björk að syngja All is Full of Love á tónleikum var verulega gæsahúðarhvetjandi. Sömuleiðis Sigur Rós með Ágætis byrjun. Þar hjálpaði góður hljómur verulega.
  • Björk átti sömuleiðis góða hugleiðingu um tónlist og þjóðerniskennd, þar sem hún í raun gerði lítið úr þjóðerniskenndinni og að tónlist væri ekki bundin við þjóðerni. Ari var nógu ósvífinn að klippa beint úr þessu yfir í wagnerískan flutning á Hrafnagaldri Óðins. Svolítið tvisted húmor þar.
  • Trabant á Bessastöðum. Óborganlegt atriði.

föstudagur, maí 13

Oh freddled gruntbuggly, thy micturations are to me
As plurdled gabbleblotchits on a lurgid bee.
Groop I implore thee, my foonting turlingdromes.
And hooptiously drangle me with crinkly bindlewurdles,
Or I will rend thee in the gobberwarts with my blurglecruncheon, see if I don't.

Ég hugsa að ég fari í bíó um helgina. Þeir/þær/þau sem vilja koma með mega hafa samband.

fimmtudagur, maí 12

blogghermiblogg

Ekki fyrr er maður búinn að lykla inn einhverja spekiþvælu í bloggerinn um list og ekkilist en Grapevine berst manni í hendur, og þar grein eftir Hauk um sama efni. Nema bara miklu betur skrifað, hugsað og spáð. Liggur þetta í loftinu? Tja, sjaldnast er nú ein báran stök og ekki leiðum að líkjast. Nælið ykkur annars í nýjasta Grapevine ef þið hafið ekki lesið það ennþá. Besta blaðið í bænum held ég bara.

Annars er gleði í borg og bæ, orlofið komið inn á sparisjóðsbók, Kafka on the Shore á náttborðinu, trúðurinn minn búinn að fæðast og fá að anda nokkrum sinnum og ég held ég skundi nú bara niður í bæ og kaupi mér eitthvað meira sem ég þarf ekkert sérstaklega á að halda. Þaldénúbarastabeibí.

miðvikudagur, maí 4

blanda landa upp til stranda


Að flétta saman tveimur aðskildum þáttum á óvæntan hátt. Fyrra dæmið löglegt, hið seinna örugglega gert í leyfisleysi (og þá líklega ólöglegt). Hið fyrra ný hljóðblöndun, gefin út af hljómsveitinni sjálfri. Hið seinna svokallað "mashup", þar sem tveimur lögum er nappað og þeim blandað saman. Stundum eru svona mashup ekkert spes, en í þetta skiptið er útkoman hreinn brilljans. Hörðustu Cure-aðdáendum verður kannski um og ó.
Svo mæli ég með Sonic Youth upprifjuninni hjá Zúra. Ég fékk fiðring í magann þegar ég frétti af fyrirhuguðum tónleikum þeirra í sumar. Svona þarf nú lítið til að gleðja mann. Svo legg ég til að Yo La Tengo verði fengin næst.

mánudagur, maí 2

fly away...Í Bókinni um hlátur og gleymsku e. Kundera segir frá því þegar englarnir heyra Kölska hlæja í fyrsta sinn. Hlátur hans vekur þeim ugg enda ætlað að grafa undan sköpunarverkinu. Það eina sem þeim dettur í hug til varnar er að hlæja á móti, nema hvað í þessum hlátri felst fögnuður yfir verki hins mikla skapara. Við að sjá engilinn hlæja verður skrattanum ennþá meira skemmt og hlær óstjórnlega, enda fátt eins fyndið og hlæjandi engill. Engillinn gefur í sinn hlátur, fagnar klukkuverkinu sem aldrei fyrr en nær þó aldrei að þagga niður í Kölska.

Tóta Pönk var eitthvað að amast við myndlist um daginn (20. apríl, nánar tiltekið). Myndlist smyndlist. Mér fannst alveg margt til í því sem Tóta sagði um að það væri alltof mikið snobbað fyrir myndlist, t.d. í Mósaík. Sérstaklega af því að myndlist er í tómu helvítis fokki þessa dagana, og búin að vera það nokkuð lengi. Alveg síðan, tja, flúxusinn tók af allan vafa um það að hvað sem er gæti verið listaverk. Heysáta = skúlptúr. Eftir það hafa myndlistarmenn bara hangið í einhverju tómarúmi og ekki vitað hvernig þeir ættu að snúa sér. Fyrir vikið eru þeir mest í því að fagna því að vera til, leyfa "sköpunarkraftinum að njóta sín", reyna að finna einhver smart konsept og dúlla sér með þau. Myndlist í dag skiptir fyrir vikið ekki nokkurn einasta mann máli, annan en listamanninn. Hún snertir engar taugar, umbyltir engum þjóðfélögum, kemur ekki við kaun. Stelpa lætur taka myndir af sér alsberri úti í bakaríi og fólk tekur ekki einu sinni eftir því. Já, þessir listakrakkar, þau eru nú alltaf eitthvað svo sniðug og skrýtin. Og ef þú nærð ekki listinni, then tough luck, þú færð ekki að vera með í hringdansinum. Tvö skref til hægri, eitt til vinstri. Já, það er gaman að vera til. Og englarnir líta með velþóknun á runkið. Það getur jú verið gaman af góðu runki, sérstaklega ef maður stundar það sjálfur.

Fútúristarnir, Dadaistarnir, Súrrealistarnir, Pollock, . Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að englarnir líti ekki með svo mikilli velþóknun á þeirra sköpunarverk. Enda var þeim ætlað að umbylta, nema ný lönd, rífa niður og byggja upp á nýtt. Þetta voru auðvitað byltingarsinnar upp til hópa, anarkistar, kommúnistar og égveitekkihvaðistar. Einhverjir þeirra gengu svo Stalín á vald (Elouard), aðrir kapítalistunum (Dali). Og mikið hlegið á himnum. En samt höfðu þeir tennur, þeir bitu frá sér, reyndu að bylta smáborgaralegri tilveru sinni eftir bestu getu. Og þrátt fyrir trúarhita Bosch er hætt við að englunum hafi ekki staðið á sama um þann ágæta mann og það sem hann hafði fram að færa. Ef þið eigið einhvern tímann leið um Madridarborg, er fátt gáfulegra en bregða sér á Pradosafnið og skoða Garden of Earthly Delights. Magnaður andskoti þar á ferð.

Og ekki bara myndlistin. Kvikmyndirnar eru í fokki líka, hjá Tarantino hefur ofbeldið enga merkingu og ekkert hlutverk nema fagurfræðilegt. Flott hvernig blóðið spýtist! Fyndið þegar hausinn splundraðist maður, þegar hann skaut hann í hausinn! Þetta er ekki einu sinni siðlaust eða siðblint, heldur ofbeldi án merkingar, sem hrein fagurfræði. Og leikstjórarnir finna að hvað sem þeir gera eða sýna, það breytir engu, markaðurinn gleypir allt. Sýndu hold og það er selt. Gagnrýndu samfélagið á beittan og slándi hátt og þú ert gerður að markaðsvöru, uppreisnarmanni, hinum nýja Bergmann. Þá er snútt sér að því að sýna hvað klám getur verið raunverulega subbulegt, og það er selt. Kvikmyndahátíð, umdeild mynd, missið ekki af henni! Kvikmyndaskoðun leyfir ekki almennar sýningar, þetta er svo svakalegt, gjörsemlega geggjað! Mættu í bíó og láttu ganga fram af þér! Láttu lemja þig í hausinn með sleggju, svona í leiðinni, þá finnurðu svo til þess hvað þú ert djöfull mikið lifandi!

Annars var einn af áhugaverðu punktunum í Guardian-greininni um eitíspoppið sá að þá voru poppstjörnurnar algjörlega self-made, svolítið bilað lið sem trúði því statt og stöðugt að hægt væri að uppgötva og búa til algjörlega nýja tónlist, að hægt væri að umbylta heiminum með tónlistinni einni, að eitthvað nýtt og frumlegt væri til sem aldrei hefði heyrst áður. Þeir vissu líka að sitthvoru megin við þá voru gamlir feitir kallar sem gátu sprengt hnöttinn í tætlur með því einu að ýta á takka. Það var nú angist í lagi. Nú er endurvinnslan í gangi, öll tónlist unnin upp úr og vísar í eldri tónlistarmenn og tímabil. Stundum er það vel gert, stundum ekki.

Þetta átti líka við um Grammið og Smekkleysugengið. DIY á fullu spani, heimsyfirráð eða dauði, góðum smekk sagt stríð á hendur, allt var hægt, allt var mögulegt, öllu hægt að umbylta. Núna eru krakkarnir bara svona að dúlla sér, ætluðu ekkert endilega að gera þetta, bara vinna í Nóa og Síríus og svona. Ef pabbi og mamma leyfa. Og svo gerum við mynd um krakkana okkar og köllum hana Gargandi snilld, gleðjumst yfir því hvað við erum frábær og klár og æðisleg, komum saman í hring og tökum um axlirnar á næsta manni, stígum eitt skref til vinstri og tvö til hægri, og þannig áfram. Og englarnir hlægja með. Þetta er svo gaman. Við erum eitthvað svo einstaklega Sæmundur Fróði, maður! Og kölski situr uppi á fjósbitanum, aldrei verið feitari og er bókstaflega að rifna af hlátri. Því hvað er fyndnara en fólk að reyna að gleyma dauða sínum.

Og er ég eitthvað skárri? Oneioneioneionei...