mánudagur, maí 2

fly away...Í Bókinni um hlátur og gleymsku e. Kundera segir frá því þegar englarnir heyra Kölska hlæja í fyrsta sinn. Hlátur hans vekur þeim ugg enda ætlað að grafa undan sköpunarverkinu. Það eina sem þeim dettur í hug til varnar er að hlæja á móti, nema hvað í þessum hlátri felst fögnuður yfir verki hins mikla skapara. Við að sjá engilinn hlæja verður skrattanum ennþá meira skemmt og hlær óstjórnlega, enda fátt eins fyndið og hlæjandi engill. Engillinn gefur í sinn hlátur, fagnar klukkuverkinu sem aldrei fyrr en nær þó aldrei að þagga niður í Kölska.

Tóta Pönk var eitthvað að amast við myndlist um daginn (20. apríl, nánar tiltekið). Myndlist smyndlist. Mér fannst alveg margt til í því sem Tóta sagði um að það væri alltof mikið snobbað fyrir myndlist, t.d. í Mósaík. Sérstaklega af því að myndlist er í tómu helvítis fokki þessa dagana, og búin að vera það nokkuð lengi. Alveg síðan, tja, flúxusinn tók af allan vafa um það að hvað sem er gæti verið listaverk. Heysáta = skúlptúr. Eftir það hafa myndlistarmenn bara hangið í einhverju tómarúmi og ekki vitað hvernig þeir ættu að snúa sér. Fyrir vikið eru þeir mest í því að fagna því að vera til, leyfa "sköpunarkraftinum að njóta sín", reyna að finna einhver smart konsept og dúlla sér með þau. Myndlist í dag skiptir fyrir vikið ekki nokkurn einasta mann máli, annan en listamanninn. Hún snertir engar taugar, umbyltir engum þjóðfélögum, kemur ekki við kaun. Stelpa lætur taka myndir af sér alsberri úti í bakaríi og fólk tekur ekki einu sinni eftir því. Já, þessir listakrakkar, þau eru nú alltaf eitthvað svo sniðug og skrýtin. Og ef þú nærð ekki listinni, then tough luck, þú færð ekki að vera með í hringdansinum. Tvö skref til hægri, eitt til vinstri. Já, það er gaman að vera til. Og englarnir líta með velþóknun á runkið. Það getur jú verið gaman af góðu runki, sérstaklega ef maður stundar það sjálfur.

Fútúristarnir, Dadaistarnir, Súrrealistarnir, Pollock, . Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að englarnir líti ekki með svo mikilli velþóknun á þeirra sköpunarverk. Enda var þeim ætlað að umbylta, nema ný lönd, rífa niður og byggja upp á nýtt. Þetta voru auðvitað byltingarsinnar upp til hópa, anarkistar, kommúnistar og égveitekkihvaðistar. Einhverjir þeirra gengu svo Stalín á vald (Elouard), aðrir kapítalistunum (Dali). Og mikið hlegið á himnum. En samt höfðu þeir tennur, þeir bitu frá sér, reyndu að bylta smáborgaralegri tilveru sinni eftir bestu getu. Og þrátt fyrir trúarhita Bosch er hætt við að englunum hafi ekki staðið á sama um þann ágæta mann og það sem hann hafði fram að færa. Ef þið eigið einhvern tímann leið um Madridarborg, er fátt gáfulegra en bregða sér á Pradosafnið og skoða Garden of Earthly Delights. Magnaður andskoti þar á ferð.

Og ekki bara myndlistin. Kvikmyndirnar eru í fokki líka, hjá Tarantino hefur ofbeldið enga merkingu og ekkert hlutverk nema fagurfræðilegt. Flott hvernig blóðið spýtist! Fyndið þegar hausinn splundraðist maður, þegar hann skaut hann í hausinn! Þetta er ekki einu sinni siðlaust eða siðblint, heldur ofbeldi án merkingar, sem hrein fagurfræði. Og leikstjórarnir finna að hvað sem þeir gera eða sýna, það breytir engu, markaðurinn gleypir allt. Sýndu hold og það er selt. Gagnrýndu samfélagið á beittan og slándi hátt og þú ert gerður að markaðsvöru, uppreisnarmanni, hinum nýja Bergmann. Þá er snútt sér að því að sýna hvað klám getur verið raunverulega subbulegt, og það er selt. Kvikmyndahátíð, umdeild mynd, missið ekki af henni! Kvikmyndaskoðun leyfir ekki almennar sýningar, þetta er svo svakalegt, gjörsemlega geggjað! Mættu í bíó og láttu ganga fram af þér! Láttu lemja þig í hausinn með sleggju, svona í leiðinni, þá finnurðu svo til þess hvað þú ert djöfull mikið lifandi!

Annars var einn af áhugaverðu punktunum í Guardian-greininni um eitíspoppið sá að þá voru poppstjörnurnar algjörlega self-made, svolítið bilað lið sem trúði því statt og stöðugt að hægt væri að uppgötva og búa til algjörlega nýja tónlist, að hægt væri að umbylta heiminum með tónlistinni einni, að eitthvað nýtt og frumlegt væri til sem aldrei hefði heyrst áður. Þeir vissu líka að sitthvoru megin við þá voru gamlir feitir kallar sem gátu sprengt hnöttinn í tætlur með því einu að ýta á takka. Það var nú angist í lagi. Nú er endurvinnslan í gangi, öll tónlist unnin upp úr og vísar í eldri tónlistarmenn og tímabil. Stundum er það vel gert, stundum ekki.

Þetta átti líka við um Grammið og Smekkleysugengið. DIY á fullu spani, heimsyfirráð eða dauði, góðum smekk sagt stríð á hendur, allt var hægt, allt var mögulegt, öllu hægt að umbylta. Núna eru krakkarnir bara svona að dúlla sér, ætluðu ekkert endilega að gera þetta, bara vinna í Nóa og Síríus og svona. Ef pabbi og mamma leyfa. Og svo gerum við mynd um krakkana okkar og köllum hana Gargandi snilld, gleðjumst yfir því hvað við erum frábær og klár og æðisleg, komum saman í hring og tökum um axlirnar á næsta manni, stígum eitt skref til vinstri og tvö til hægri, og þannig áfram. Og englarnir hlægja með. Þetta er svo gaman. Við erum eitthvað svo einstaklega Sæmundur Fróði, maður! Og kölski situr uppi á fjósbitanum, aldrei verið feitari og er bókstaflega að rifna af hlátri. Því hvað er fyndnara en fólk að reyna að gleyma dauða sínum.

Og er ég eitthvað skárri? Oneioneioneionei...

Engin ummæli: