sunnudagur, maí 15

screaming masterpiece

Endaði á því að fara á Gargandi snilld í gær. Sem gefur auðvitað tilefni til einhverra misgáfulegra pælinga:

Visúalt er myndin oft vel hugsuð og flott. Sérstaklega í innslögunum og viðtölunum og í sviðsettu tónlistaratriðunum (Mugison í kirkjunni, o.s.frv.) þar sem römmunin og myndvinnslan er úthugsuð. Þar sést líka tengingin við vídeólist, þar sem rætur Ara Alexander liggja, rammarnir oft á skjön, mikið speis og viðfangsefnið stundum varla innan rammans. Kannski ekkert yfirmáta frumlegt, en kom samt vel út. Það er líka stór kostur að sá sem gerir hana á rætur sínar í vídeólist, ef einhver auglýsingaleikstjórinn hefði gert þetta hefði myndin sjálfsagt öll verið í þessum kaldbláa "bleach bypass" stíl sem íslenskir auglýsingagerðarmenn virðast elska út af lífinu.

Flottustu innslögin voru tvímælalaust loftmyndirnar af höfuðborginni um nótt. Draumkennd og óvenjuleg. Hins vegar eru myndir af snjóþrungnum fjöllum og ám í klakaböndum orðin frekar þreytt, jafnvel þótt myndræna útfærslan væri venju fremur frumleg. Það var líka í innslögunum sem kvikmyndagerðarmennirnir náðu að nýta sér áferð vídeósins sér til framdráttar. Hins vegar voru upptökur af tónleikum síðri, enda hefur leikstjórinn minna kontról og myndatakan varð stundum frekar týpisk og lúkkið dalaði mjög.

Hljóðið var mjög gott, sem hjálpaði mikið upp á upplifunina. Það átti kannski sérstaklega við tónleika Bjarkar og Sigur Rósar í New York, sem bæði voru gæsahúðarhvetjandi móment.

Viðmælendur voru flestir ágætlega valdir og höfðu sitthvað að segja. Barði í Bang Gang átti þó bestu línuna: "Íslensk tónlist er bara leiðinleg". Ágætt að fá smá pessimisma inn í allt hallelújaið. Aðrir voru bara krúttlegir og höfðu annars lítið fram að færa annað en tónlist, t.d. var viðtalið við Múm, sem ég hef áður vitnað í, frekar rýrt. En þau voru sæt þannig að það bjargaði svolitlu. Og þá er það kannski pointið með myndinni: Henni er auðvitað fyrst og fremst ætlað að kynna og selja íslenska tónlist erlendis, þess vegna voru þeir sem komu fram tónlistarmenn sem hafa gert það gott erlendis eða hafa vakið athygli. Fyrir vikið saknar maður ýmissa hljómsveita og tónlistin sem flutt var fellur mestöll undir að vera "quirky", semielektrónísk popptónlist. Sem er alveg í fínu lagi og allt gott um það að segja. Hins vegar kemur þetta fram í myndinni eins og það sé voða lítið annað að gerast, Mínus er nánast eina rokksveitin sem kemur fram. Harðkjarnasenan, sem er kannski ein sú athyglisverðasta hér, kemur hvergi við sögu og fleira mætti telja. Auðvitað er það rétt að það er ekki hægt að taka allt með í svona mynd, og mér skilst að Ari og kó eigi helling af efni sem þeir ætli að hrúga á DVD diskinn. Það verður áhugavert. En ég efast um að miklu verði bætt við efnislega úrvinnslu, þetta verður áfram sama hallelújahjalið, engin gagnrýni né neitt af því taginu.

Sú hlið myndarinnar sem fór verst í mig (og Haukur Már hefur meðal annars skrifað um) er þetta dæmigerða grobb og þjóðernishyggja sem alltaf birtist þegar verið er að tala um íslenska list og menningu. Við erum svo sérstök og frábær af því að hér voru víkingar og íslendingasögur og rímur og blablabla. Það er eins og tónlistarmönnunum sé ekki treyst til þess að standa á eigin fótum, þetta er allt svo sérstakt af því við (íslendingar) erum svo sérstök, ekki af því að tónlistarmennirnir séu hæfileikaríkir. Nei nei, þetta er allt í genunum og kemur úr Eddukvæðunum. Og þessi tilraun þeirra til að tengja íslenska samtímatónlist við rímurnar og íslenskan kveðskap gengur ekki upp. Íslensk rímnahefð hefur ekki haft nein áhrif svo heitið geti á íslenska tónlist. Þetta er sætt og skemmtilegt að reyna að finna samhengið í íslenskri tónlist í 1000 ár, og kannski óþarfi að vera eitthvað að agnúast út í það en auðvitað er þetta bara bullshit. Og fyrst verið var að tala um rímnahefðina og íslenskan kveðskap, hvar var þá Megas, sem er líklega sá tónlistarmaður íslenskur sem hvað mest hefur sótt í þann brunn? En myndin á auðvitað ekki að vera einhver fræðileg úttekt, þetta er skemmtun og í því samhengi virkar þetta kannski. En er rétt að setja svona fram ef það á svo ekki að taka það alvarlega? Þá þyrfti að koma aðvörunartexti eins og fyrir neðan stjörnuspána í mogganum: "Einungis dægradvöl". Og myndin er skemmtileg, hún tekur sig þrátt fyrir allt ekki of hátíðlega, tónlistaratriðin eru mörg hver frábær, hljómurinn góður og í það heila mæli ég með myndinni fyrir áhugamenn um íslenska tónlist. Ég skemmti mér allavega konunglega. Kannski er það svolítill galli að maður hefur heyrt alla þessa tónlist áður, en myndin er líka greinilega gerð fyrir erlendan markað miklu fremur en íslenskan.

Hælætin:
  • Viðtalið við Barða
  • Björk að syngja All is Full of Love á tónleikum var verulega gæsahúðarhvetjandi. Sömuleiðis Sigur Rós með Ágætis byrjun. Þar hjálpaði góður hljómur verulega.
  • Björk átti sömuleiðis góða hugleiðingu um tónlist og þjóðerniskennd, þar sem hún í raun gerði lítið úr þjóðerniskenndinni og að tónlist væri ekki bundin við þjóðerni. Ari var nógu ósvífinn að klippa beint úr þessu yfir í wagnerískan flutning á Hrafnagaldri Óðins. Svolítið tvisted húmor þar.
  • Trabant á Bessastöðum. Óborganlegt atriði.

Engin ummæli: