laugardagur, maí 28

ævintýri á gönguför

1.Skellti mér í Smekkleysubúðina kl. 15 í dag. Þar spilaði bandaríska söngkonan Nina Nastasia ásamt Huun Huur Tu í rétt að giska hálftíma. Mögnuð upplifun, enda um magnaða tónlistarmenn að ræða þó ólíkir séu. Nina er auk þess einstaklega fögur kona sem var ekki að skemma fyrir. Tónlist hennar hefur verið lýst sem "train ride through a rustic southern town", sem segir eitthvað en þó ekki mikið. Fyrir þá sem misstu af uppákomunni og misstu þarafleiðandi af miklu, er hér lag með Ninu svona í sárabætur. Þetta er af annarri plötu hennar, Run to Ruin, en alls hefur hún gefið út þrjár plötur.
Nina Nastasia - Superstar

2.Erfiðustu sölumennirnir eru þeir sem maður þekkir vel. Ekki vegna þess að það sé erfitt að segja nei við vini sína, heldur vegna þess að þeir vita hvað maður vill. Eins og í dag. Ég gekk inn í verslun Skífunnar á Laugarveginum til að heilsa upp á Hjálmar vin minn. Hann byrjar á því að setja í hendurnar á mér nýútkominn disk með Yann Tiersen. "Þetta áttirðu ekki að gera!" hrópaði ég í örvæntingu. "Nú, afhverju?" spyr hann. "Af því að þú veist að núna get ég ekki sleppt honum." Og það var eins og við manninn mælt, ég gekk út með spánnýjan Yann Tiersen disk, "Les retrouvailles". Og nokkrum þúsundköllum fátækari. Mæli með honum, í þessari útgáfu fylgir dvd diskur með myndinni "La traversée" sem ég veit ekki hvað er, því ég hef ekki haft tíma til að kíkja á hana ennþá. En hér koma dæmi af diskinum. Fyrra lagið syngur Elizabeth Fraser, söngkona Cocteau Twins. Ótrúleg rödd þar á ferð. Seinna lagið syngur Stuart A. Staples úr Tindersticks.
Yann Tiersen - Kala
Yann Tiersen - A Secret Place

Engin ummæli: