sunnudagur, júlí 10

æjá

Það er frekar skrýtin upplifun að vera án nettengingar eftir að hafa haft adsl í heilt ár. Sest niður á kvöldin og gríp lapptoppinn, ræsi hann og fatta svo að ég get ekki farið inn á netið. Legg þá bara kapal í staðinn, en það endist mér bara í ca. 5 mínútur. Þannig að ég er búinn að lesa meira undanfarnar vikur en ég hef gert lengi. Hálfnaður með Matters of Light and Depth (úrvalsbók um kvikmyndatöku), byrjaði á History of Western Philosophy e. Bertrand Russell sem reynist hin besta skemmtilesning. Þar áður lauk ég við Neverwhere e. Neil Gaiman (góð) og Deception Point e. Dan Brown (ágætis vitleysa þar) og svo mjatlast smátt á smátt á Vivir para contarla, sjálfsævisögu Gabriels Garcia Marques. Og svo byrjaði ég líka á Bob Moran bók sem ég fann uppi í hillu hjá mér og var búinn að gleyma að væri til, titillinn var eitthvað um "hina löngu hnífa". Merkilegt annars hvað andúð höfundar Bob Moran á asíubúum hefur rist djúpt, Guli Skugginn var jú mongóli ef ég man rétt (kemur reyndar ekki fyrir í þessari bók), og þarna bregður fyrir hinum ýmsu frumstæðu ættbálkunum sem eru illskan uppmáluð. Það sem mér fannst hins vegar skemmtilegast við B. Moran þegar ég var yngri voru fræðslukaflarnir aftast, þar sem maður lærði m.a. að búa til ósýnilegt blek og að greina á milli helstu tegunda eitraðra snáka.

Jæja, er þetta ekki dæmigert. Ég er að lesa fullt af merkum bókum og blaðra svo mest um Bob Moran. Já, og svo er ég orðinn aðeins duglegri við að skrifa. Sem er hið besta mál. Kannski maður haldi sér bara netlausum í einhvern tíma í viðbót...

Engin ummæli: