föstudagur, ágúst 26

dagurinn

Kóræfing hjá leynilega kammerkórnum (sem ég veit ekki hversu leynilegur er nú orðið), þar sem við ætlum að syngja hin og þessi ættjarðalög og annað skemmtilegt, m.a. eitt lag e. Hildigunni, en við komumst reyndar ekki til að æfa það í kvöld.

Svo sótti ég son minn í afmæli hjá skólafélaga sínum, og mætti þar engum öðrum en Rannsóknarskipinu. Kemur þá ekki í ljós að nýi strákurinn í bekknum sem sonur minn sagði mér frá í gær er enginn annar en Smábáturinn. Er þá komin alveg extra ástæða til að kíkja í kaffi á Tryggvagötuna.

miðvikudagur, ágúst 24

sögur

Hugsuninni er stundum skipt í þrennt: gagnrýna eða rökhugsun, tilfinningahugsun og skapandi hugsun. Ef menn setja þetta upp myndrænt væru rökhugsunin og tilfinningahugsunin stök mengi sem skarast ekki eða lítið, skapandi hugsun skarar þau bæði og tengir þau saman. Ég tek það fram að þessi hugtök eru ekki endilega fræðilega rétt sett fram, ég er bara að reyna að muna samtal á kaffihúsi í sumar.

Það má reyna að setja þetta í einhvers konar samhengi, svona kannski: tilfinningahugsunin er anarkí, tekur við impúlsum frá skynfærum og tilfinningalegum upplifunum án þess að leggja í þær merkingu. Rökhugsunin tekur alla impúlsa og greinir þá eftir orsakasamhengi, hvað kom á undan og hvað á eftir, hvað olli hverju (olli er skemmtileg orðmynd) og hvurs er hvað. Skapandi hugsunin setur þetta allt svo í skiljanlegt samhengi, býr til sögu sem við skiljum úr herlegheitunum, gefur því upphaf, miðju og endi, fablan (eða var það faflan?) með sínu risi. Við vitum öll innst inni að tilgangur með þessu lífi í þessum geysistóra alheimi er enginn. En við viljum trúa því og þess vegna búum við til sögur, hvort sem þær eru í formi trúarbragða, stjörnuspeki eða hvað það nú allt heitir. Þegar við hugsum um líf okkar búum við ósjálfrátt til úr því margar mislangar sögur sem skarast mismikið (menntaskólaárin, háskólanámið, sambúðin, sumarið sem afi dó).

Þegar fólk lendir í hremmingum og áföllum segir það gjarnan eftir á að guð hafi verið að kenna því eitthvað. Þetta er auðvitað bull og þvaður. Í fyrsta lagi af því að guð er ekki til, og í öðru lagi er fáránlegt að kaffæra Indónesíu og Tælandi til að kenna fólki, tja, hvað? Hins vegar er þetta til marks um magnaða aðlögunarhæfni mannshugans og sköpunarmátt, sem er miklu merkilegri en nokkur guð. Hugurinn tekur við upplifunum af harmleiknum og sköpunarmættinum til að búa til úr því heilsteypta rökrétta sögu sem gerir upplifunina skiljanlegri og þolanlegri og vinsar jafnvel sjálfkrafa það út sem ekki er hollt að muna. Það er auðvitað stórkostlega magnað að fólk geti lent í hamförum og misst allt sitt og alla sína, og samt er enn heil brú í hausnum á þeim.

Sköpunarmátturinn er því hið guðlega í huga okkar, eða það sem kemst næst því.

sunnudagur, ágúst 21

drit

Eftir að hafa pælt í gegnum hálfblóðsprinsinn hef ég komist að þeirri niðurstöðu að J.K. Rowling sé sérstaklega hrifinn af þessum orðum:

beam, so. Sérstaklega lh.nt. "beaming". Dæmi: Hermione was beaming. Persónurnar í bókinni eru aldrei "smiling" eða "happy", heldur "beaming".

bird droppings. Stundum kemur fyrir afbrigðið owl droppings. Kemur svo sem ekki á óvart miðað við þann fjölda af uglum sem býr í galdraheimum Potters. Samt held ég að "bird droppings" sé mun algengara í nýju bókinni en hinum eldri. Af hverju veit ég ekki.

Ég hef ekki talið það sérstaklega, en það kæmi mér ekki á óvart ef þessi orð kæmu a.m.k. einu sinni fyrir í hverjum kafla.

fimmtudagur, ágúst 18

ósegjanleikinn

Til að ríma við Hrein og kommentið frá Erni Úlfari, þá kemur hér bragur í flutningi Mauro Antero Numminen:


Pedro Hietanen og M.A. Numminen
Mauro Antero Numminen - Wovon mann nicht sprechen kann
Þetta lag er síðasta lagið á plötu Numminens, The Tractatus Suite, þar sem hann færir heimspekirit Wittgensteins, Tractatus Logico Philosophicus, í tóna. Hingað til Íslands kom hann einhvern tímann í kringum miðjan 10. áratuginn og hélt stórkostlega tónleika ásamt nikkaranum Pedro Hietanen í Norræna húsinu, þar sem mér áskotnaðist áritað plakat sem ég er reyndar búinn að týna fyrir löngu. Hugsanlega tóku þeir þennan tangó:

Mauro Antero Numminen - Hastarna och jag
Þekktasta lagið hans er líklega þessi útgáfa hans á lagi Baccara, þótt hann af einhverjum ástæðum snúi því upp á þýsku:
M.A. Numminen - Yes Sir , Ich Kann Boogie

föstudagur, ágúst 12

miðvikudagur, ágúst 10

fiskidagur, segiði?

Já, fiskidagurinn var hinn indælasti. Við leikfélagar gistum í skíðaskálanum og höfðum það ansi gott. Við Gummarnir og sonur minn horfðum á Brim á föstudagskvöldið, sem var köld og góð skemmtun (og varla við barna hæfi, svo ég telst víst lítt ábyrgur faðir). Fiskisúpa var snædd í garði gegnt bensínstöðinni og bragðaðist hið besta. Svo hentum við upp tjaldi (reyndar tjölduðum við óvart fyrst tjaldinu hennar Höllu, pokinn var sko soldið svipaður, sko...) og sofnuðum sælir.

Laugardagurinn var heiðskír og fagur, logn og sól og hiti. Við héldum niður að höfn um hádegið þar sem var skipt um föt. Georg, Tómas, Bína og Rolli trúðar álpuðust á sviðið og gerðu einhvern óskunda. Ég veit aldrei hvern fjandann ég er að gera þegar ég er í trúðnum (eða hann í mér) og er alltaf jafnsannfærður um að ég eigi ekkert erindi í þetta. Og alltaf kvíður mig jafnmikið fyrir þessu. En þetta er bara svo mikið röss, maður! En aðstæður á sviðinu alls ekki góðar fyrir svona leiklistarbrölt. Svo eltum við sonur minn götudanshópinn og flæktumst fyrir þeim með vídeókameru á lofti. Það var mökkur af fólki á svæðinu og erfitt að komast leiðar sinnar. Sonur minn gladdist mjög þegar hann frétti að allt nammi væri ókeypis, hins vegar varð hann sorgmæddur þegar við sáum röðina í kandíflossið, ekki lögðum við í það helvíti. Vegna nammileiðangursins mættum við aðeins of seint til að vera með í stompinu, en skemmtum okkur við að horfa og hlusta í staðinn. Ekki minnkaði kátínan þegar við áttuðum okkur á því að Árni Johnsen sat spölkorn frá og spelaði og söng og færðust stomparar allir í aukana við þá fögru sjón. Hann kom svo yfir og kýldi alla kalda... neinei, þorði því auðvitað ekki. Um kvöldið var svo skemmt sér yfir öðlingsdrengjunum Snorra og Gunna í Dauða og jarðarberjum. Að því loknu héldum við Gummar og sonur minn í skíðaskálann og höfðum til grillið meðan aðrir kláruðu leiksýningarrúntinn (sem við vorum búnir með). Ég og minn son fórum svo snemma í háttinn (snemma fyrir mig, seint fyrir hann). Aðrir héldu uppí sínu stuði fram eftir morgni. Mikið var ég feginn daginn eftir þegar sumir veltust um í þynnkunni.

Á sunnudeginum var ég svo samferða Hrund inn í Skíðadal, því miður gat Bernd ekki tekið á móti okkur en dalurinn er íðilfagur og kvenfélagskaffið sem við lentum óvart í sveik ekki. Mæli alveg með fiskidegi á Dalvík, sem heitir jú reyndar "Fiskidagurinn Mikli". Ekki fyrir rembingi að fara í þessum dalvíkingum, neinei...

fimmtudagur, ágúst 4

fiskidagur

Fékk áðan boð sem ég get ekki neitað. Þannig að ég og minn son erum á leið til Dalvíkur að halda upp á Fiskidaginn með ofursnillingnum Júlla. Og ég fæ að sýna mig með Sýnum/Sýni/vottever. Hef grun um að þetta verði gaman. Vona bara að veðrið verði þolanlegt.

mánudagur, ágúst 1

su doku

Ég er ennþá í sumarfríi, en vildi bara benda á að ég er orðinn forfallinn sudoku-nöttari. Þökk sé Blaðinu. Og svo fann ég þessa síðu og sé fram á að eyða því sem eftir er mánaðarins fyrir framan tölvuskjáinn.