miðvikudagur, ágúst 10

fiskidagur, segiði?

Já, fiskidagurinn var hinn indælasti. Við leikfélagar gistum í skíðaskálanum og höfðum það ansi gott. Við Gummarnir og sonur minn horfðum á Brim á föstudagskvöldið, sem var köld og góð skemmtun (og varla við barna hæfi, svo ég telst víst lítt ábyrgur faðir). Fiskisúpa var snædd í garði gegnt bensínstöðinni og bragðaðist hið besta. Svo hentum við upp tjaldi (reyndar tjölduðum við óvart fyrst tjaldinu hennar Höllu, pokinn var sko soldið svipaður, sko...) og sofnuðum sælir.

Laugardagurinn var heiðskír og fagur, logn og sól og hiti. Við héldum niður að höfn um hádegið þar sem var skipt um föt. Georg, Tómas, Bína og Rolli trúðar álpuðust á sviðið og gerðu einhvern óskunda. Ég veit aldrei hvern fjandann ég er að gera þegar ég er í trúðnum (eða hann í mér) og er alltaf jafnsannfærður um að ég eigi ekkert erindi í þetta. Og alltaf kvíður mig jafnmikið fyrir þessu. En þetta er bara svo mikið röss, maður! En aðstæður á sviðinu alls ekki góðar fyrir svona leiklistarbrölt. Svo eltum við sonur minn götudanshópinn og flæktumst fyrir þeim með vídeókameru á lofti. Það var mökkur af fólki á svæðinu og erfitt að komast leiðar sinnar. Sonur minn gladdist mjög þegar hann frétti að allt nammi væri ókeypis, hins vegar varð hann sorgmæddur þegar við sáum röðina í kandíflossið, ekki lögðum við í það helvíti. Vegna nammileiðangursins mættum við aðeins of seint til að vera með í stompinu, en skemmtum okkur við að horfa og hlusta í staðinn. Ekki minnkaði kátínan þegar við áttuðum okkur á því að Árni Johnsen sat spölkorn frá og spelaði og söng og færðust stomparar allir í aukana við þá fögru sjón. Hann kom svo yfir og kýldi alla kalda... neinei, þorði því auðvitað ekki. Um kvöldið var svo skemmt sér yfir öðlingsdrengjunum Snorra og Gunna í Dauða og jarðarberjum. Að því loknu héldum við Gummar og sonur minn í skíðaskálann og höfðum til grillið meðan aðrir kláruðu leiksýningarrúntinn (sem við vorum búnir með). Ég og minn son fórum svo snemma í háttinn (snemma fyrir mig, seint fyrir hann). Aðrir héldu uppí sínu stuði fram eftir morgni. Mikið var ég feginn daginn eftir þegar sumir veltust um í þynnkunni.

Á sunnudeginum var ég svo samferða Hrund inn í Skíðadal, því miður gat Bernd ekki tekið á móti okkur en dalurinn er íðilfagur og kvenfélagskaffið sem við lentum óvart í sveik ekki. Mæli alveg með fiskidegi á Dalvík, sem heitir jú reyndar "Fiskidagurinn Mikli". Ekki fyrir rembingi að fara í þessum dalvíkingum, neinei...

Engin ummæli: