miðvikudagur, ágúst 24

sögur

Hugsuninni er stundum skipt í þrennt: gagnrýna eða rökhugsun, tilfinningahugsun og skapandi hugsun. Ef menn setja þetta upp myndrænt væru rökhugsunin og tilfinningahugsunin stök mengi sem skarast ekki eða lítið, skapandi hugsun skarar þau bæði og tengir þau saman. Ég tek það fram að þessi hugtök eru ekki endilega fræðilega rétt sett fram, ég er bara að reyna að muna samtal á kaffihúsi í sumar.

Það má reyna að setja þetta í einhvers konar samhengi, svona kannski: tilfinningahugsunin er anarkí, tekur við impúlsum frá skynfærum og tilfinningalegum upplifunum án þess að leggja í þær merkingu. Rökhugsunin tekur alla impúlsa og greinir þá eftir orsakasamhengi, hvað kom á undan og hvað á eftir, hvað olli hverju (olli er skemmtileg orðmynd) og hvurs er hvað. Skapandi hugsunin setur þetta allt svo í skiljanlegt samhengi, býr til sögu sem við skiljum úr herlegheitunum, gefur því upphaf, miðju og endi, fablan (eða var það faflan?) með sínu risi. Við vitum öll innst inni að tilgangur með þessu lífi í þessum geysistóra alheimi er enginn. En við viljum trúa því og þess vegna búum við til sögur, hvort sem þær eru í formi trúarbragða, stjörnuspeki eða hvað það nú allt heitir. Þegar við hugsum um líf okkar búum við ósjálfrátt til úr því margar mislangar sögur sem skarast mismikið (menntaskólaárin, háskólanámið, sambúðin, sumarið sem afi dó).

Þegar fólk lendir í hremmingum og áföllum segir það gjarnan eftir á að guð hafi verið að kenna því eitthvað. Þetta er auðvitað bull og þvaður. Í fyrsta lagi af því að guð er ekki til, og í öðru lagi er fáránlegt að kaffæra Indónesíu og Tælandi til að kenna fólki, tja, hvað? Hins vegar er þetta til marks um magnaða aðlögunarhæfni mannshugans og sköpunarmátt, sem er miklu merkilegri en nokkur guð. Hugurinn tekur við upplifunum af harmleiknum og sköpunarmættinum til að búa til úr því heilsteypta rökrétta sögu sem gerir upplifunina skiljanlegri og þolanlegri og vinsar jafnvel sjálfkrafa það út sem ekki er hollt að muna. Það er auðvitað stórkostlega magnað að fólk geti lent í hamförum og misst allt sitt og alla sína, og samt er enn heil brú í hausnum á þeim.

Sköpunarmátturinn er því hið guðlega í huga okkar, eða það sem kemst næst því.

Engin ummæli: