miðvikudagur, september 28

baugsmálið

Þetta er eins og með fimmuklukkið. Allir sannir plebbabloggarar verða að tjá sig um baugsmálið. Og niðurstaðan: eftir að hafa rekið augun óviljandi í fréttir og forsíður blaða undanfarna viku hef ég komist að raun um það að allir sem tengjast þessu baugsmáli eru nú meiri helvítis bölvuðu hálfvitarnir. Og að þetta lið skuli hafa öll þessi völd (peningaleg og pólitísk) í þessu guðsvolaða landi er hreint og beint skerí! DV tókst reyndar nokkuð sem ég hélt að myndi aldrei gerast: ég fékk samúð með Stymma. En bara í smástund. Svo hugsaði ég: fokkit!

Og núna geri ég mitt besta til að opna ekki blöð og horfa ekki á fréttir. BBC í útvarpinu, DVD í sjónvarpinu, Börnin í Húmdölum á náttborðinu og samlestur á Jólaævintýri Hugleix í kvöld. Það verður fyndið stykki. Dickens with two k's and a silent 'q'.

laugardagur, september 24

five songs

Enginn ætlar að klukka mig, en þar sem ég er extra plebbi og vil vera með öllum hinum extra plebbunum þá ætla ég að taka almenna klukkið hennar Hugrúnar nágrönnu til mín og blaðra um fimm ætem um mig. Og til að standa við stóru orðin er best að hafa þetta sem vandræðalegast:
  1. Ég féll á bílprófinu þegar ég tók það fyrst. Reyndar náði ég bóklega hlutanum með glæsibrag, og verklega hlutanum reyndar líka. Nema einu smáatriði. Ég tók prófið á Ísafirði og þar eru (eða voru, allavega) svolítið lúmsk gatnamót. Þau líta út eins og aðalbraut með hliðargötu, en þar sem engin skilti voru gilti hægri réttur. Hins vegar keyrðu flestir þarna eins og um aðalgötu. Það gerði ég líka á ökuprófinu, en akkúrat þegar ég kem að gatnamótunum kemur aðvífandi bíll á hliðargötunni, frá hægri og því með réttinn. Hann hægir á sér og ég held hiklaust áfram. Þegar við beygjum inn á Aðalstræti segir prófdómarinn, eldri maður með yfirvaraskegg og gleraugu: "Æ æ, þarna lentirðu nú í því, þú svínaðir á bílinn þarna". Mér brá auðvitað og hann útskýrði fyrir mér hvers vegna og hélt svo áfram: "Ég hefði sleppt þér með þetta, en þetta var nú sýslumaðurinn sem þú svínaðir á svo mér er ekki stætt á öðru en að fella þig". Tók svo prófið nokkrum dögum seinna og náði.

  2. Ég er haldinn félagsfælni, sem lýsir sér helst í því að mér líður frekar illa í fólksfjölda þar sem hlutverk fólks er ekki afmarkað, t.d. á börum og partíum þar sem maður þarf að flakka á milli fólks og mingla, sem er m.a. ástæðan fyrir því að ég sést ekki oft á Ölstofunni. Mér finnst t.d. mjög óþægilegt að ganga að fólki sem ég þekki og heilsa því ef það er með öðrum sem ég þekki ekki (fer þó eftir dögum og ölvunarstigi). Þetta er auðvitað svolítið bagalegt (og barnalegt), og fólk hefur vænt um mig um hroka þar sem ég hef ekki komið blaðskellandi og heilsað því með látum. Þetta hefur reyndar farið skánandi með árunum. Þegar ég var unglingur kvað svo rammt að þessu að ég gat varla gengið niður Laugarveginn af því ég var svo sannfærður um að fólki sem gekk á eftir mér væri starsýnt á mig af því að því fyndist ég labba svo asnalega. Held samt að ég hafi labbað alveg eðlilega, en ég er þó úr sveit svo maður veit aldrei.

  3. Ég hef látið mig dreyma um að standa uppi á sviði og þakka öllu og öllum fyrir óskarsverðlaunin sem ég var nýbúinn að taka við. Reyndar svolítið langt síðan ég lét það eftir mér að fantasera um þetta. Reyndar hafa dagdraumar stundum hlaupið með mig í gönur, kannski ekki eins oft nú og áður. Svo lengist lærið sem lífið.

  4. Ég hræddist fyrst dauðann þegar ég var 10 ára. Ég var að lesa "Drengirnir í Mafeking" e. Baden Powell, bók um drengi í Suður-Afríku. Einn drengjanna deyr eftir byssuskot og ég man enn hvernig hræðsluhrollurinn læstist um mig þegar ég áttaði mig á því að ég ætti líka eftir að deyja. Ég gat ekki á heilum mér tekið í marga daga á eftir. Svo fattaði ég að líklega væri langt þangað til ég dræpist og þá hætti ég þessari vitleysu.

  5. Ég er haldinn óstjórnlegri frestunaráráttu. Sem fer alveg rosalega í taugarnar á mér.
Klukka þá bara Varríus og Siggu Árna, ég held að það sé ekki búið að klukka þau.

jarðaberjamojitos

(að beiðni Ljúfu)
Fersk jarðaber
Romm
Lime-safi
Hrásykur
Hellingur af klökum
Allt sett í matvinnsluvél og hrært í góðan graut. Jömmí.

P.S. Sjitt, gleymdi, það á að vera sódavatn líka.

fimmtudagur, september 22

bíllaus

Ég er ekki alveg búinn að venjast því að eiga ekki bíl lengur. Case in point: fór eftir vinnu að sækja son minn og vin hans í fimleika. Til að nálgast heimili okkar þurftum við auðvitað að taka strætó, og eftir smá labb var komið í skýlið. Þar tók við bið í kulda og trekki, þar til piltarnir ákváðu að við skyldum nú bara labba af stað í áttina, það væri hvort sem er annað strætóskýli aðeins lengra. Ég benti þessum saklausu sálum á það, af bitri reynslu, að þegar maður gengur burt frá strætóskýli kemur strætó alltaf skömmu seinna. Þeir vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessu, en ákváðu samt að labba af stað. Örskömmu seinna kom strætó, en þá vorum við komnir of langt til að ná honum. Og fyrir vikið gengum við alla leið heim. Sem var ekkert óskaplega langt og bara frábær æfing fyrir okkur, en setti samt kvöldið nægilega mikið úr skorðum til að ég missti á endanum af aukaaðalfundi Hugleiks. Bráðum verður mér sparkað úr þessu leikfélagi. Sem hefði líklega ekki gerst ef ég hefði verið á bíl.

miðvikudagur, september 21

titlar eru fyrir aumingja...

Bætti við blogglinkum, á þær systur Lóu og Hryssu (sem heitir víst Maja), og svo hana Ljúfu. Þær eru bara svo skemmtilegar. Annars lítið í gangi nema vinna vinna vinna vinna. Leikskóli á daginn, þýðingar kvöld og helgar, og með einhverjum herkjum (og andvökum) hefur mér tekist að undirbúa kennslu einu sinni í viku. Varð meir að segja að sleppa stjórnarfundi hugleiks um daginn vegna anna og missti þar af leiðandi af fyrsta upplestri á Jólaævintýrinu. Sem mér þykir vel skítt. Og, jú, svo var Kvikmyndamiðstöðin að veita mér styrk. Hvernig svo sem ég á að fitta því inn í líka er annað mál. En það þýðir að ég verð að fara að betla pjening frá pétri og páli til að fá styrkinn í hendurnar.

Já og svo opnaði ég nýtt blogg. Einhvern veginn verður maður að fá útrás fyrir sýniþörfina. Þetta blogg verður reyndar á spænsku (öllu má nú nafn gefa), og ég ætla að kynna þar íslenska tónlist. Jámm. Ekkert komið inn ennþá (hvernig á ég að hafa tíma til þess annars?) en ef þið viljið kíkja þá er það hér. Sá/sú sem fattar tilvitnunina í titlinum, tja, kann líklega eitthvað í spænsku.

Og enginn búinn að klukka mig ennþá. Eins gott, ég væri vís til að setja inn vandræðalega persónulega hluti og sjá eftir því það sem eftir er ævinnar.

Annars finnst mér ansi skemmtilegt að geymslan mín er smátt og smátt að fyllast af hinu og þessu misnytsamlega dóti. Mest á ég það að þakka föður mínum sem er að taka til heima í sveitinni og kemur af og til færandi hendi með eitthvað sem hann telur mig geta notað. Mesti fengurinn var auðvitað heiðblátt Clairol fótanuddtæki. Now, that brought back some memories.

Úff, ég er alveg að sobbna. Kannski ætti maður að fara að sofa, þessar andvökunætur setja mann soldið úr skorðum...

laugardagur, september 17

þunnur

Ég er svo óskaplega þunnur í dag. Stóð ásamt tveimur dásemdarstúlkum fyrir óvissudegi fyrir samstarfsfólk á leikskólanum. Eða óvissukvöldi, þar sem þetta fór auðvitað allt fram að vinnu lokinni. Eldaði meir að segja matinn oní liðið og tók þar blaðsíðu úr kokkabók bandalagsins, kjúklingur í barbikjú. Og svo var drukkið. Mikið. Og ýmsar tegundir. Bíðum nú við, þetta var: slatti af bjór, mojito, tvö staup (minnir mig) af tekíla, jarðaberjamojito. Já, og nokkrir eplasnafsar. Góð æfing fyrir magann minn. Ef foreldrar hefðu séð til okkar hefðu runnið á þá nokkuð margar grímur. Eina sem skugga setur á þessa kvöldstund er að ég er svo óskaplega hrifinn af einni stúlku, sem virðist ekki hafa mikinn áhuga á mér. Oh well, you can't have it all, I guess...

miðvikudagur, september 14

ljóð

she arms filled bad
teach fascinate already
she fly thus explain sandwich is

You Are Fat! Reduce You Weiight now!
Fast Shiiping
Place 0rder Herre beautiful

Já, ruslpóstur lífgar upp á daginn.

þriðjudagur, september 13

á boltoninum, úa...

Yfirlýsing mín um að fara kannski á Boltoninn var tekið með algerri þögn. Þá eru þrír möguleikar: fólk var ekki að fatta hvað ég var að fara, því finnst bara allt í lagi að fara á Boltoninn eða því er slétt sama um sálarheill mína. Lýsi því yfir hér og nú að ég var að grínast (svona er nú minn húmor skrýtinn). Ég ætla ekki á Boltoninn. Og mér finnst fólk ekkert í lagi sem ætlar á Boltoninn, það er versta tegund tónlistar sem hugsast getur. Og svo maður opinberi fordóma sína í eitt skipti fyrir öll, Boltoninn er bara fyrir kellingar á Barnalandi.is. Og þá meina ég kellingar.

Og kennslan gengur alveg þokkalega, nema ég hef ekki talað spænsku núna í eitt ár og hálfskammast mín að standa þarna fyrir framan nemendurna og böggla út úr mér óhroðanum. Fyrir utan það að spænskan mín er óttalegt götumál, ég reyni mitt besta til að segja ekki joder, de putísima madre, hostia og coño í öðru hverju orði. En ef þau skilja mig þá er þetta nú í lagi kannski. Og ég hef ekki minnst aftur á Foucault, en því meira á Buñuel.

þriðjudagur, september 6

tjamm

Jæja, kenndi fyrsta tímann í kúrsinum mínum eldsnemma í morgun. Gekk bara vel, mér tókst að blaðra heilan helling og vitnaði meir að segja í Michel Foucault. Annars held ég að ég hljóti að vera fyrsti kennarinn við Háskóla Íslands sem jafnframt vinn á leikskóla. Þessi tvö skólastig eiga sitthvað sameiginlegt, nema hvað ég vitna ekki í Foucault í leikskólanum og stúdentar fara ekki út að róla í frímínútum. Og leikskólabörn er meiri krútt en stúdentar.

laugardagur, september 3

draumaborgin

New Orleans er ein af þessum draumaborgum sem mig hefur alltaf langað að heimsækja. Nú er það líklega of seint, í það minnsta ekki þeirri mynd sem hún er þekktust fyrir. Það veit auðvitað enginn hvernig borgin kemur til með að líta út eftir hreinsanir og enduruppbyggingu. En hér eru nokkrir linkar:

fimmtudagur, september 1

svei ... mér ... þá!

Já, svei mér þá. Ef hún Svandís hefur ekki bara gert útslagið hérna megin. Ég sem ætlaði ekki einu sinni að hugsa um borgarstjórnarkosningarnar eina agnarögn, en nú verð ég eiginlega að kjósa VG. Svandís er ekki bara frábær, heldur líka einhver skemmtilegasta og yndælasta manneskja sem ég man eftir að hafa kynnst. Svandísi sem borgarstjóra og hana nú!

---

Inngangurinn að kastljósi kvöldsins þrýsti ælunni upp í háls. "Börn eru vinnuafl framtíðarinnar." Já, við erum vinnuþrælar og útséð með að börnin okkar verði það líka. Kýlum þau endilega niður sem fyrst svo þau geri þetta almenninlega. Annars nennti ég ekki að horfa á umræðuna heldur leyfði syninum að kveikja á teiknimynd, það held ég komi okkur báðum að meira gagni en kallar að röfla. Og miklu skemmtilegra.

---

Svo er hellingur af linkum sem þarf að bæta hér inn til hliðar. En ég nenni því ekki núna. Og þið getið nagað neglur, þau ykkar sem ekki hafa enn ratað inn, og beðið þess í ofvæni að sjá hvort ég linka á ykkur eða ekki. Hinir síðustu verða frystir.

P.S. Efist nokkur um að forysta KSÍ sé alveg í lagi í kollinum ætti þetta að sannfæra þau. Og stóra spurningin: Ef Eiður verður maður leiksins gegn Króötum á laugardag, fær hann þá "forláta ryksugu"?
P.S.S. Og þó, svona til að hafa alla fyrirvara í lagi, kannski voru þetta svíadulurnar sem gáfu ryksuguna. Það kemur ekki fram í fréttinni. En ég mæli samt með því að Eiður fái ryksugu.