fimmtudagur, september 22

bíllaus

Ég er ekki alveg búinn að venjast því að eiga ekki bíl lengur. Case in point: fór eftir vinnu að sækja son minn og vin hans í fimleika. Til að nálgast heimili okkar þurftum við auðvitað að taka strætó, og eftir smá labb var komið í skýlið. Þar tók við bið í kulda og trekki, þar til piltarnir ákváðu að við skyldum nú bara labba af stað í áttina, það væri hvort sem er annað strætóskýli aðeins lengra. Ég benti þessum saklausu sálum á það, af bitri reynslu, að þegar maður gengur burt frá strætóskýli kemur strætó alltaf skömmu seinna. Þeir vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessu, en ákváðu samt að labba af stað. Örskömmu seinna kom strætó, en þá vorum við komnir of langt til að ná honum. Og fyrir vikið gengum við alla leið heim. Sem var ekkert óskaplega langt og bara frábær æfing fyrir okkur, en setti samt kvöldið nægilega mikið úr skorðum til að ég missti á endanum af aukaaðalfundi Hugleiks. Bráðum verður mér sparkað úr þessu leikfélagi. Sem hefði líklega ekki gerst ef ég hefði verið á bíl.

Engin ummæli: