laugardagur, september 24

five songs

Enginn ætlar að klukka mig, en þar sem ég er extra plebbi og vil vera með öllum hinum extra plebbunum þá ætla ég að taka almenna klukkið hennar Hugrúnar nágrönnu til mín og blaðra um fimm ætem um mig. Og til að standa við stóru orðin er best að hafa þetta sem vandræðalegast:
  1. Ég féll á bílprófinu þegar ég tók það fyrst. Reyndar náði ég bóklega hlutanum með glæsibrag, og verklega hlutanum reyndar líka. Nema einu smáatriði. Ég tók prófið á Ísafirði og þar eru (eða voru, allavega) svolítið lúmsk gatnamót. Þau líta út eins og aðalbraut með hliðargötu, en þar sem engin skilti voru gilti hægri réttur. Hins vegar keyrðu flestir þarna eins og um aðalgötu. Það gerði ég líka á ökuprófinu, en akkúrat þegar ég kem að gatnamótunum kemur aðvífandi bíll á hliðargötunni, frá hægri og því með réttinn. Hann hægir á sér og ég held hiklaust áfram. Þegar við beygjum inn á Aðalstræti segir prófdómarinn, eldri maður með yfirvaraskegg og gleraugu: "Æ æ, þarna lentirðu nú í því, þú svínaðir á bílinn þarna". Mér brá auðvitað og hann útskýrði fyrir mér hvers vegna og hélt svo áfram: "Ég hefði sleppt þér með þetta, en þetta var nú sýslumaðurinn sem þú svínaðir á svo mér er ekki stætt á öðru en að fella þig". Tók svo prófið nokkrum dögum seinna og náði.

  2. Ég er haldinn félagsfælni, sem lýsir sér helst í því að mér líður frekar illa í fólksfjölda þar sem hlutverk fólks er ekki afmarkað, t.d. á börum og partíum þar sem maður þarf að flakka á milli fólks og mingla, sem er m.a. ástæðan fyrir því að ég sést ekki oft á Ölstofunni. Mér finnst t.d. mjög óþægilegt að ganga að fólki sem ég þekki og heilsa því ef það er með öðrum sem ég þekki ekki (fer þó eftir dögum og ölvunarstigi). Þetta er auðvitað svolítið bagalegt (og barnalegt), og fólk hefur vænt um mig um hroka þar sem ég hef ekki komið blaðskellandi og heilsað því með látum. Þetta hefur reyndar farið skánandi með árunum. Þegar ég var unglingur kvað svo rammt að þessu að ég gat varla gengið niður Laugarveginn af því ég var svo sannfærður um að fólki sem gekk á eftir mér væri starsýnt á mig af því að því fyndist ég labba svo asnalega. Held samt að ég hafi labbað alveg eðlilega, en ég er þó úr sveit svo maður veit aldrei.

  3. Ég hef látið mig dreyma um að standa uppi á sviði og þakka öllu og öllum fyrir óskarsverðlaunin sem ég var nýbúinn að taka við. Reyndar svolítið langt síðan ég lét það eftir mér að fantasera um þetta. Reyndar hafa dagdraumar stundum hlaupið með mig í gönur, kannski ekki eins oft nú og áður. Svo lengist lærið sem lífið.

  4. Ég hræddist fyrst dauðann þegar ég var 10 ára. Ég var að lesa "Drengirnir í Mafeking" e. Baden Powell, bók um drengi í Suður-Afríku. Einn drengjanna deyr eftir byssuskot og ég man enn hvernig hræðsluhrollurinn læstist um mig þegar ég áttaði mig á því að ég ætti líka eftir að deyja. Ég gat ekki á heilum mér tekið í marga daga á eftir. Svo fattaði ég að líklega væri langt þangað til ég dræpist og þá hætti ég þessari vitleysu.

  5. Ég er haldinn óstjórnlegri frestunaráráttu. Sem fer alveg rosalega í taugarnar á mér.
Klukka þá bara Varríus og Siggu Árna, ég held að það sé ekki búið að klukka þau.

Engin ummæli: