mánudagur, október 31

hríðtepptur...

Mér finnst "hríðtepptur" skemmtilegt orð. Verður Siggalára þá kannski hríðteppt einhvern tímann í janúar?

sunnudagur, október 23

laugardagur, október 22

nagg og nöldur

RÚV var alveg að toppa það í kvöld með þessari fasísku áróðursmynd úr rassgati Disney. Meira helvítið sem þessir amríkanar geta blygðunarlaust borið svona áróður á borð, og það í líki barnamyndar! Æjá, það er svo frábært að fara í herinn og læra að hlýða og skjóta fólk.
---
Annars eru blöðin einhvern veginn að fyllast af fréttum af barnaníðingum og dómum yfir þeim. Þetta er nóg til að fyllast þunglyndi. Sérstaklega var ein frétt, af einhverjum dela sem hafði misnotað stjúpdóttur sína margoft á margra ára tímabili. Og hver haldið að hafi skilað séráliti í Hæstarétti og taldi málið ósannað? Eru hæstaréttardómarar nokkuð æviráðnir? Er ekki örugglega hægt að bola svona skoffíni burt einhvern tímann?
---
En líka jákvætt. Mér tókst að koma drengnum mínum á bragðið með Monty Python, einhvern tímann þegar hann fann ekkert til að horfa á sótti ég gamlar python-spólur upp í hillu og honum fannst þetta mikið fyndið. Sem er ekki skrýtið. Og við horfðum saman á Meaning of Life, sú mynd versnar ekkert með árunum, þvert á móti. Ég var samt búinn að gleyma því að hún er nú þokkalega gróf á köflum, en ég held að piltinum hafi ekki orðið neitt meint af (hann er níu ára). Og við hlógum mikið. Honum fannst gubbuatriðið sérstaklega fyndið.

föstudagur, október 21

jæja

Ekki mikið á mér að græða þessa dagana, allur tíminn fer í æfingar á Jólaævintýrinu og svo í hitt bloggið mitt. Svo fer ég ekki neitt á Airwaves, læt mig bara dreyma. Já og geri svo eitthvað svona:
You Should Get a MFA (Masters of Fine Arts)

You're a blooming artistic talent, even if you aren't quite convinced.
You'd make an incredible artist, photographer, or film maker.

mánudagur, október 17

15 ára

Ásamt þessari og þessari er IMDb sú vefþjónusta sem ég nota mest. Ég held ég fari örugglega a.m.k. einu sinni á dag þarna inn og leita upplýsinga. Hvar væri ég án þeirra? Og nú er IMDb 15 ára, eldri en
Veraldarvefurinn. Til hamingju segi ég nú barasta. Og takk fyrir mig.

sunnudagur, október 16

anna karina...

Anna Karina. Ædol ungra gáfumanna á sjöunda áratugnum. Fædd í Kaupmannahöfn en freistaði gæfunnar í París, þar sem hún kynntist Godard og þau urðu par. Hún lék í slatta af myndunum hans, m.a. annars þeirri sem ég er að horfa á núna í Rúv, Une femme est une femme. Reyndar segja margir að myndir Godard með Önnu Karinu séu að einhverju marki ástaróðar hans til hennar, og líklega má lýsa Une femme... þannig líka. Myndin er alveg fín, kannski ekki besta Godard-myndin en ein af þeim skemmtilegri. Sagan er óttalegt bull, myndin er aðallega Godard að leika sér með formið og myndmálið með aðstoð Raoul Coutards, kvikmyndatökumanns. Lúkkar æðislega, leikur sér mikið með grunnlitina, sérstaklega bláan og rauðan. Mjög sixtís. Og svo er hann að sýna kærustuna sína. Og Anna Karina stendur alveg undir því. Hún gerði reyndar fleira en að vera kærasta Godards, vann sem módel og söngkona, telst til hinna svokölluðu "ye-ye" söngkvenna. Hér er m.a. eitt lag þar sem Anna Karina syngur dúett með Jean Claude Rialy, sem leikur einmitt kærastann hennar í Une femme... Lagið er eftir Serge Gainsbourg.

Jean-Claude Brialy et Anna Karina - Ne dis rien

upprifjun

Upp skaltu á kjöl klífa,
köld er sjávar drífa,
kostaðu huginn að herða,
hér muntu lífið verða.
Skafl beygjattu skalli,
þótt skúr á þig falli.
Ást hafðir þú meyja.
Eitt sinn skal hver deyja.

föstudagur, október 14

hlandbrunnið helvíti

Þetta er andskotanum til skammar. Þessi fína spænska mynd í sjónrappinu og þá er eintakið rammfalskt. Svo falskt að Javier Bardem, sem hefur annars þessa líka fallegu djúpu rödd, talar eins og strumpur.

miðvikudagur, október 12

loveboat to china...Ég neyðist til að hryggja þau ykkar sem voruð að vonast til að sjá mig í Ástarfleyinu, því ég hef ákveðið að taka ekki þátt í því. Ástæðan er sú að í auglýsingunni segir að til að geta verið með þurfi maður að vera x) á lausu og 69) hress. Nú er ég á lausu, en mér leiðist yfirmáta hresst fólk. Því fer sem fer. I'm so sorry.

sunnudagur, október 9

kvikmyndahátíð

Á endanum komst ég ekki á nema 4 myndir, en allar fínar. Við feðgar sáum Töfrakastala Howls í gær og var hún ekkert nema snilldin eins og búast mátti við úr þeirri áttinni. Hins vegar sá ég minnst af þessum myndum sem voru í keppninni svo ég get lítið sagt um úrslitin.

Þetta minnti mig samt á eitt sem mér var einu sinni bent á í náminu. Hver svo sem ástæðan er þá fúnkera kvikmyndahátíðir aldrei að því er virðist í höfuðborgum landa. Hefur einhver heyrt um kvikmyndahátíðina í London? Eða hátíðina í Róm, eða Madrid, eða Bonn? Af einhverjum ástæðum eru allar stærstu kvikmyndahátíðirnar haldnar utan höfuðborganna, jafnvel í litlum bæjum (eins og Cannes). Það er engin ein skýring á þessu en nokkrar tilgátur. Ein er sú að stærstu blöðin eru oft með aðsetur í höfuðborgum, því þar er pólítískur miðpunktur landsins. Þegar kvikmyndahátíð er í öðrum bæ eru blaðamenn sendir þangað og hafa því ekkert annað að gera en sækja hátíðina og skrifa um hana. Ef hún er hins vegar haldin á heimaslóðum hafa þeir um nóg annað að hugsa og hátíðin fær minni umfjöllun en ella. Hvort þetta eigi líka við um Reykjavík veit ég ekki, en mér fyndist það góð hugmynd að setja á stofn alþjóðlega kvikmyndahátíð á Akureyri. Nú eða Ísafirði. Spurning hvort það er nóg af bíóhúsum.

laugardagur, október 8

djöfull gæti ég notað þetta

Ig Nóbellinn í Hagfræði fór til Gauri Nanda í MIT sem fann upp vekjaraklukku sem hleypur burt og felur sig til að tryggja að fólki drulli sér fram úr. Ég þarf virkilega á svona hlut að halda. Ég snúsa stundum í klukkutíma áður en ég ulla mér framúr.

föstudagur, október 7

gregeríur

Varríus bað (kurteislega?) um skýringar á þessum gregeríum um daginn. Þetta er bókmenntategund fundin upp af spænska rithöfundinum Ramón Gómez de la Serna. Fæddur í Madrid 1888, samtíðarmaður Dali, Buñuel og Lorca og flæktist í sömu kreðsum. Serna fann þetta upp í einhverju fikti snemma á síðustu öld og birti gregeríur m.a. í dagblöðum og bókum fram eftir öldinni. Oftast skilgreindar sem "húmorískar metafórur" og svipar oft til súrrealisma, t.d. í frjálslegum og óvæntum tengingum og myndmáli. Serna kom þó á undan súrrealismanum og hafði áhrif á m.a. Buñuel. Margar af þessum gregeríum byggja á orðaleikjum sem er ómögulegt að þýða.

Annars hafa hlið helvítis verið opnuð aftur, og fagna því allar góðar vættir.
Einn sit ég og baka
í litlu eldhúsi
ein gin kemur að sjá mig
og þá verður nú stuð


Þá er komið að því. Morgundagurinn verður síðasti vinnudagurinn á leikskólanum. Á mánudag tekst ég á við nýja vinnu. Þar verða engin börn. Hugurinn er blendinn, bæði saknar maður barnanna og svo er frábært starfsfólk að vinna þarna. Og þetta er djammglaðasti vinnustaður sem ég hef unnið á. Og skemmtileg djömm, mikið drukkið og skemmt sér, enginn fer á trúnó eða úthúðar neinum, bara stuð og læti. En af því að ég er að hætta sit ég sveittur og baka þetta gúmmelaði hér sem samstarfsfólkinu bráðum fyrrverandi verður boðið upp á á morgun. Eins óhollt, sykursýkishvetjandi, kólesterólaukandi og magapínuvaldandi og mögulegt er. Annars er magnað hvernig tvö fremur ógeðfelld element svona ein og sér verða bragðgóð þegar þeim er blandað saman. Eins og smjör og flórsykur. Það er nú heimspeki dagsins.

miðvikudagur, október 5

greguerías

Fiðluboginn saumar, eins og nál með tvinna, nótur og sálir, sálir og nótur

* * *

Skáldið nærir sig á tunglkökum

* * *

Hækur eru ljóðræn símskeyti

* * *

Það mikilvægasta við lífið er að hafa ekki dáið

* * *

Tunglið og sandurinn elskast af ofsa

* * *

Byggingarlist snævarins er alltaf í gotneskum stíl

* * *

Hjólreiðamaðurinn er blóðsuga hraðans

* * *

{}
Kossinn er ekkert innan slaufusviga

* * *

Skáldið horfði svo mikið í himininn að hann fékk ský í augað

* * *

Þetta var einn af þessum dögum þegar vindurinn vildi tala

* * *

Svefninn er lítið sýnishorn sem dauðinn gefur okkur svo við eigum auðveldara með að lifa

* * *

Óperan er sannleikur lyginnar og kvikmyndin lygi sannleikans

* * *

Gíraffinn er hestur sem lengdist af forvitni

* * *

Eru draumarnir nýir, eða höfum við átt þá frá fornu fari?

* * *

Feimnin er eins og illa saumuð jakkaföt

* * *

Hálft tungl setur nóttina innan sviga

* * *

Hann var bitinn af ufsagrýlu og dó í framhaldi af því

* * *

Síminn er vekjaraklukka hinna vakandi

* * *

Þegar við höfum dæmt fluguna til dauða er eins og hún taki eftir því og hverfi

* * *

Kvöldskýin nota tækifærið og þerra upp blóð sitt og detta eins og notaðir bómullarhnoðrar í ruslafötuna hinum megin á jarðarhvelinu

* * *

Súpan er bað lystarinnar

* * *

Blöðrur barnanna líða um göturnar dauðar úr hræðslu

* * *

Hart brauð er eins og nýfæddur steingerfingur

* * *

Skaparinn geymir lyklana að öllum nöflunum

* * *

Bensínið er reykelsi menningarinnar

* * *

Pannan er spegill spældra eggja

* * *

Læknisfræðin býðst til að finna lækningu innan tíu ára fyrir þá sem eru að deyja þessa stundina

* * *

Snjórinn slokknar í vatninu

* * *

Rykið er fullt af gömlum og gleymdum hnerrum

* * *

Að láta sér leiðast er að kyssa dauðann

* * *

Kossinn er hungur í ódauðleikann

* * *

Fiskurinn er alltaf séður frá hlið

* * *

Náttúran er sorgleg. Hefurðu séð einhvern hlægja að tré?

* * *

Sekkjapípan syngur með nefinu

* * *

Koss er aldrei í eintölu


(Ramón Gómez de la Serna)

þriðjudagur, október 4

bækur gefins bækur

Ferð í þjóðarbókhlöðuna getur margborgað sig því stundum eru einhverjar afdankaðar bækur settar fram á borð og fólki boðið að hirða það sem það vill. Ég gekk út með mikinn fjársjóð: Ástmey konungsins eftir Lion Feuchtwanger, "sem var einn bezti rithöfundur sinnar samtíðar, gerir efninu skil á snilldarlegan hátt, sem verður öllum ógleymanlegur" eins og segir á kápunni. Fjallar í stuttu máli um einhvern kristin kóng sem berst hetjulegri baráttu gegn "móhameðstrúarmönnum" á Spáni, en lætur glepjast af fegurð ungrar gyðingastúlku og gleymir ríki sínu og "skyldunum við hinn kristna heim". Á ekki von á neinu öðru en fáfengilegum kristilegum hroka og fordómum á hverri síðu.

Svo stóðst ég ekki einhverja bók um einhvern Hornblower skipstjóra, e. C.C. Forester sem "er allra skálda liprastur í frásögn, og kann jafnframt að lýsa persónum með þeim hætti að þær líða seint úr minni."

Og síðast en ekki síst Bítlar eða bláklukkureftir Jennu og Hreiðar Stefánsson. Er til flottari titill? "Unglingsstúlka flyzt með foreldrum sínum úr litlu þorpi til höfuðborgarinnar. Hún sér hættur borgarlífsins og kemst í þann vanda að velja sér nýja vini. Undirbúningurinn að fermingunni hjálpar henni og hún yfirstígur hættuna." Bojóboj á ég von á góðu. Eðvarð Ingólfs hvað, ha?

laugardagur, október 1

setning dagsins

"They're havin' a born-again bingo or somethin', so I tough' I migh' jus' bob ou'"
Fór semsagt í bíó í gær. "My Summer of Love", sem var sæt og skemmtileg mynd um ástarsamband tveggja unglingsstúlkna í Jórvíkurskíri. Bróðir annarrar þeirra er trúarnöttari og hefur breytt barnum sem þau erfðu eftir foreldra sína í "spiritual center", hence the sentence above. Fór líka á austurríska mynd um lúser með spilafíkn. Hún var ekkert að grípa mig neitt rosalega, en það voru samt góðir punktar. Já, kvikmyndahátíð í garð gengin og aldrei þessu vant á ég pjening til að eyða í hana. Gaman gaman. Í kvöld ætla ég á Tarnation, og svo reyni ég að mjatla mig inn á nokkrar í viðbót í vikunni, svona inn á milli jólaævintýrisæfinga og þýðinga.