þriðjudagur, október 4

bækur gefins bækur

Ferð í þjóðarbókhlöðuna getur margborgað sig því stundum eru einhverjar afdankaðar bækur settar fram á borð og fólki boðið að hirða það sem það vill. Ég gekk út með mikinn fjársjóð: Ástmey konungsins eftir Lion Feuchtwanger, "sem var einn bezti rithöfundur sinnar samtíðar, gerir efninu skil á snilldarlegan hátt, sem verður öllum ógleymanlegur" eins og segir á kápunni. Fjallar í stuttu máli um einhvern kristin kóng sem berst hetjulegri baráttu gegn "móhameðstrúarmönnum" á Spáni, en lætur glepjast af fegurð ungrar gyðingastúlku og gleymir ríki sínu og "skyldunum við hinn kristna heim". Á ekki von á neinu öðru en fáfengilegum kristilegum hroka og fordómum á hverri síðu.

Svo stóðst ég ekki einhverja bók um einhvern Hornblower skipstjóra, e. C.C. Forester sem "er allra skálda liprastur í frásögn, og kann jafnframt að lýsa persónum með þeim hætti að þær líða seint úr minni."

Og síðast en ekki síst Bítlar eða bláklukkureftir Jennu og Hreiðar Stefánsson. Er til flottari titill? "Unglingsstúlka flyzt með foreldrum sínum úr litlu þorpi til höfuðborgarinnar. Hún sér hættur borgarlífsins og kemst í þann vanda að velja sér nýja vini. Undirbúningurinn að fermingunni hjálpar henni og hún yfirstígur hættuna." Bojóboj á ég von á góðu. Eðvarð Ingólfs hvað, ha?

Engin ummæli: