sunnudagur, október 9

kvikmyndahátíð

Á endanum komst ég ekki á nema 4 myndir, en allar fínar. Við feðgar sáum Töfrakastala Howls í gær og var hún ekkert nema snilldin eins og búast mátti við úr þeirri áttinni. Hins vegar sá ég minnst af þessum myndum sem voru í keppninni svo ég get lítið sagt um úrslitin.

Þetta minnti mig samt á eitt sem mér var einu sinni bent á í náminu. Hver svo sem ástæðan er þá fúnkera kvikmyndahátíðir aldrei að því er virðist í höfuðborgum landa. Hefur einhver heyrt um kvikmyndahátíðina í London? Eða hátíðina í Róm, eða Madrid, eða Bonn? Af einhverjum ástæðum eru allar stærstu kvikmyndahátíðirnar haldnar utan höfuðborganna, jafnvel í litlum bæjum (eins og Cannes). Það er engin ein skýring á þessu en nokkrar tilgátur. Ein er sú að stærstu blöðin eru oft með aðsetur í höfuðborgum, því þar er pólítískur miðpunktur landsins. Þegar kvikmyndahátíð er í öðrum bæ eru blaðamenn sendir þangað og hafa því ekkert annað að gera en sækja hátíðina og skrifa um hana. Ef hún er hins vegar haldin á heimaslóðum hafa þeir um nóg annað að hugsa og hátíðin fær minni umfjöllun en ella. Hvort þetta eigi líka við um Reykjavík veit ég ekki, en mér fyndist það góð hugmynd að setja á stofn alþjóðlega kvikmyndahátíð á Akureyri. Nú eða Ísafirði. Spurning hvort það er nóg af bíóhúsum.

Engin ummæli: