þriðjudagur, desember 27

jólaskap

Það náðist ágætis jólastemning um jólin, þrátt fyrir grátt og guggið veður. Þorláksmessa var kannski einna jólalegust, við feðgar röltum niður í bæ í góða veðrinu og kíktum í Nexus þar sem pilturinn fékk forskot á sæluna með peningunum sem afi hans gaf honum. Og keypti auðvitað King Kong dót. Svo fórum við í friðargönguna og slettum á okkur vaxi (aðallega þó ég). Svo hittir maður alltaf fólk á Laugaveginum sem maður sér kannski ekki á hverjum degi, það var næstum fagnaðarfundur á hverju götuhorni. Keyptum okkur svo belgískar vöfflur á Lækjartorgi og röltum heim. Á meðan drengurinn sorteraði pakkana undir jólatrénu og lét King Kong lumbra á einhverri aumingjans risaeðlu, steikti ég laufabrauð og hlustaði á jólakveðjurnar á rás 1. Um kvöldið lásum við í bók Árna Björnssonar um jólin, m.a. kaflann um dauða Þorláks helga, sem drengurinn lét sig hafa að hlusta á.

Hafði hamborgarhrygg í matinn á aðfangadag sem bragðaðist hreint afbragðsvel. Barnsmóðir mín kom í mat til okkar, dauðfegin að sleppa við jólavesenið og lét mig stjana við sig. Pakkarnir rötuðu flestir til drengsins og ég fékk frekar fáa, þó fékk ég forláta geisladisk með kór eldri borgara á Hornafirði og kaffibrúsa. Barnsmóður minni gaf ég fávitafælu úr Nornabúðinni, af gefnum tilefnum. Það má auðvitað alltaf deila um hversu viðeigandi það var af mér að gefa minni fyrrverandi svona gjöf (fyrir nú utan það að með því er ég að útiloka með öllu að ég eigi nokkurn séns í hana aftur), en hún hafði alveg húmor fyrir því. Restinni af jólahelginni var eytt í afslappelsi. Sonurinn heimtaði að ég vekti sig eldsnemma alla daga til að sjá barnatímann, sem ég og gerði. Svo skreið ég aftur upp í rúm og hann kom af og til og kúrði hjá mér. Það fannst mér indælt. Svo dúlluðum við okkur, lékum okkur með dótið hans, borðuðum og höfðum það náðugt. Engin jólaboð, fórum ekkert í heimsóknir heldur slöppuðum af eins og við gátum. Já og kláruðum laufabrauðið. Dæs dæs dæs og klapp á bumbu. En mikið var erfitt að vakna í morgun.

laugardagur, desember 24

Limgerði 33

Bið eg yður, góð systkin, að ér þiggið vel áminning mína á hátíð þessi, er upphaf má kalla alls þrifnaðar vors og svo mikill kraftur veitist, að ótrúir geta iðrun, en grimmir vorkunnlæti, vættir líknar grátandi og heimkomu hertekinn, en sár fýsist lækningar.

Á þessi tíð var borinn sá Guðs gymbill, er á braut tók mein heimsins. Í þess burðartíð á að fagna, sá er hreinan hug hefir, en óast syndugur. Sá er góður er, biðji af öllum hug fyr sér og öðrum, en syndugur gerist þarflátur í bæn sinni. Blíður dagur og öllum iðröndum líknsamur. Heit eg yður, synir mínir, og víst veit eg, að á þessum degi mun þiggja það, er biður, sá er iðrast í hugnum og eigi hverfur allt til leiðinda syndarinnar og er efalaust í trúnni.

Í dag er á braut tekin örvilnun syndanna.
(Úr Íslenskri hómilíubók)


Gvendarbrunnur óskar yður öllum gleðilegra jóla, árs og friðar, magapínu og sykursjokks og langra vökunátta yfir ógrynni af skemmtilegum bókum. Megi vinnuveitendur yðar gefa yður frí á millum jóla og nýárs og einnig millum nýárs og þrettánda. Amen.

P.s. Og Ármann minn, það þýðir lítið að vera með getraun um Limgerði 33 þegar ekkert er kommentakerfið. En þetta var heimilisfangið sem Skrámur (as in: "æ æ, er Glámur með skrámur?") gaf jólasveininum, en sá taldi sig vera í Hellisgerði 3 (og hafði reyndar rétt fyrir sér því auðvitað var hann pantaður þangað).

miðvikudagur, desember 21

Varríus er með gáfaðri mönnum og hefur að auki skoðanir á mörgu. Umfjöllun hans um biffflíuna er alveg þess virði að lesa, og svo hefur hann ritað snilldarpistil um jólasveininn og Flóka.

Talandi um dv og jólasveininn. Leiðari Jónasar í gær var alveg ótrúlega hálfvitalegur. Alveg furðulegt að maðurinn skuli komast upp með að þykjast vera greindur. Hvernig hann kemst t.d. að þeirri niðurstöðu að þetta jólsveinaskógjafakjaftæði sé starfsfólki á leikskólum að kenna is beyond me. Og það er greinilegt að hann hefur eitthvað ruglast á fjölda jólasveinanna ef hann heldur að fólk gefi börnum í skóinn í heilar fjórar vikur. En alltaf gaman þegar menn gera sig að fífli út af einhverju jafn ómerkilegu.

sunnudagur, desember 18

bonnie lad


Færsla dagsins er tileinkuð manninum sem ég hitti inni á klósetti á Nasa í gærkvöldi. Hérna er lag með honum. Og hérna er vídeó með nýjasta prójektinu hans, Superwolf (svolítið stórt og lengi að hlaðast niður, en þess virði).

föstudagur, desember 16

jólin jólin bókstaflega alls staðar

Það eru ekki bara Hraun sem gefa út jólaplötur fyrir vini og vandamenn. Sufjan Stevens hefur bæst í hópinn og jólalagasafn hans má m.a. sækja hér. Og hér eru þrjú sýnishorn, tvö þeirra eru ægifögur jólalög með banjóundirleik. Einhvern veginn hef ég aldrei tengt banjó við jólin, en kannski verður nú breyting á. Síðasta lagið er lítill laglegur bjöllukór. Jájá, jólastemning, jólastuð. Þetta er nú engin hemja.
Sufjan Stevens - O Come O Come Emmanuel
Sufjan Stevens - O Holy Night
Sufjan Stevens - Angels We Have On High

fimmtudagur, desember 15

rulluf

Þetta léttir lundina í skammdeginu: Farið á Vef TV, og horfið á Ísland í bítið. Þegar þátturinn byrjar að spilast skuluð þið hægrismella á myndina og velja Play speed > Slow. (Biggi á heiðurinn að þessari uppgötvun)

... og brosi í gegnum tárin


Kannski það skemmtilegasta við þennan alheimsfegurðarkeppnissigur er að ólíklegustu bloggarar gripu andann á lofti og sömdu skemmtilega pistla. Mér dettur aldrei neitt í hug, þannig að ég linka bara á alla hina:

Parísardaman

Eyja
Málbeinið
El ojo eléctrico uno y dos

miðvikudagur, desember 14

sunrise

Var að fá þetta sent:

*Filmabend / Filmnight*

* *

Samstag, 17. Dezember 2005, 20.00 Uhr (Sat. Dec. 17; 8 pm)
Loftkastallinn, Seljavegur
Eintritt frei (Free admission)

Die deutsche und die französische Botschaft haben zwei Stummfilme ausgewählt (The German and the French Embassy selected two silent films):

Rien que des heures
Wurde 1926 von Alberto Cavalanti gedreht (Directed 1926 by A.C.) Er zeigt das Leben in der großen Stadt Paris (Shows life in a big city like Paris)

Sunrise
1927 gedreht von Friedrich Wilhelm Murnau in den USA
Eine Dreiecksgeschichte mit mörderischen Absichten.
(1927 - directed by F.W. Murnau in the US. Triangle storyline with dreadful intensions.)

Begleitet werden die Stummfilme von einem isländischen Quartett. Die Musik hat ANGIL aus Frankreich speziell für diese Aufführung komponiert.
(Silent films are accompanied by an Icelandic quartet. The music was composed by ANGIL from France especially for this performance.)

Anschließend sind Sie alle herzlich eingeladen zu französischem Wein sowie deutschem Wein und Bier.
(After the perfomance everybody is invited to French wine and German wine and beer.)


Nú veit ég ekkert um þessa frönsku mynd, en Sunrise er æði! Ef þið hafið einhvern snefil af áhuga á kvikmyndum þá megið þið ekki missa af þessu. Svo er hún líka eitthvað svo jólaleg. Og þetta er ekki einhver sérviskuleg mynd sem bara sérvitringar fíla, ónei. Hún er æði. Segi og skrifa. Og frítt inn og vín í lok sýningar. Verst að ég kemst ekki...

laugardagur, desember 10

dagurinn

Dagurinn hófst á snjórnarfundi Hugleiks. "Ert þú í stjórn Hugleiks?" spurði sonur minn þegar ég útskýrði fyrir honum hvert ég þyrfti að fara. "Er það svona eins og Jedi Council?" "Já, eiginlega eitthvað í þá áttina" svaraði ég. Annars var stjórnarfundurinn hinn skemmtilegasti, Silja útbjó bakkelsi af stakri snilld og líflegar umræður um framtíð og nútíð. Þetta verður allt alveg djöfull spennandi, hvað sem verður.

Og svo sýning. Ein sú besta hingað til, held ég bara. Kraftur í fólki og salurinn í góðu stuði. Og einhverjir gagnrýnendur, mér skilst að allavega einn þeirra hafi lyppast niður í gólfið af hlátri svo við eigum bara von á góðu. Og tónskáldið heilsaði upp á mig eftir sýningu, svona hitta-manneskjuna-á-bakvið-bloggið stund. Afar skemmtilegt. Hvet bloggvini eindregið til að heilsa ef þeir villast á sýningu.

miðvikudagur, desember 7

jájájá

Lasinn heima og nenni engu. Ekki einu sinni að blogga. Tók samt til í tenglunum hérna til hliðar, bætti við nokkrum snillingum, þeim Bibba, Nönnu og Jenný. Jájá, og svo má hér sjá myndir frá því strákgemlingurinn minn hélt upp á afmælið sitt fyrir réttum mánuði. Þetta myndarlega bakkelsi sem sjá má á einni myndinni bauk ég allt sjálfur og skreytti af mesta myndarskap. Þetta getur maður.

laugardagur, desember 3

3. vísbending

Smásagan (og myndin) er byggð á minni úr íslenskum þjóðsögum, en fært til stríðsáranna á Íslandi. Og nú hlýtur einhver að kveikja.

föstudagur, desember 2

2. vísbending

Myndin er byggð á smásögu eftir þekktan, núlifandi íslenskan höfund, sem er þekktur bæði fyrir smásögur sínar og ljóð.

fimmtudagur, desember 1

og sjöunda

Og yfir í eitthvað íslenskt. Í hvaða íslensku sjónvarpsmynd kemur þessi setning fyrir, hvaða persóna sagði hana og hver lék þessa persónu?
"You can put it in your pipe and smoke it."