þriðjudagur, desember 27

jólaskap

Það náðist ágætis jólastemning um jólin, þrátt fyrir grátt og guggið veður. Þorláksmessa var kannski einna jólalegust, við feðgar röltum niður í bæ í góða veðrinu og kíktum í Nexus þar sem pilturinn fékk forskot á sæluna með peningunum sem afi hans gaf honum. Og keypti auðvitað King Kong dót. Svo fórum við í friðargönguna og slettum á okkur vaxi (aðallega þó ég). Svo hittir maður alltaf fólk á Laugaveginum sem maður sér kannski ekki á hverjum degi, það var næstum fagnaðarfundur á hverju götuhorni. Keyptum okkur svo belgískar vöfflur á Lækjartorgi og röltum heim. Á meðan drengurinn sorteraði pakkana undir jólatrénu og lét King Kong lumbra á einhverri aumingjans risaeðlu, steikti ég laufabrauð og hlustaði á jólakveðjurnar á rás 1. Um kvöldið lásum við í bók Árna Björnssonar um jólin, m.a. kaflann um dauða Þorláks helga, sem drengurinn lét sig hafa að hlusta á.

Hafði hamborgarhrygg í matinn á aðfangadag sem bragðaðist hreint afbragðsvel. Barnsmóðir mín kom í mat til okkar, dauðfegin að sleppa við jólavesenið og lét mig stjana við sig. Pakkarnir rötuðu flestir til drengsins og ég fékk frekar fáa, þó fékk ég forláta geisladisk með kór eldri borgara á Hornafirði og kaffibrúsa. Barnsmóður minni gaf ég fávitafælu úr Nornabúðinni, af gefnum tilefnum. Það má auðvitað alltaf deila um hversu viðeigandi það var af mér að gefa minni fyrrverandi svona gjöf (fyrir nú utan það að með því er ég að útiloka með öllu að ég eigi nokkurn séns í hana aftur), en hún hafði alveg húmor fyrir því. Restinni af jólahelginni var eytt í afslappelsi. Sonurinn heimtaði að ég vekti sig eldsnemma alla daga til að sjá barnatímann, sem ég og gerði. Svo skreið ég aftur upp í rúm og hann kom af og til og kúrði hjá mér. Það fannst mér indælt. Svo dúlluðum við okkur, lékum okkur með dótið hans, borðuðum og höfðum það náðugt. Engin jólaboð, fórum ekkert í heimsóknir heldur slöppuðum af eins og við gátum. Já og kláruðum laufabrauðið. Dæs dæs dæs og klapp á bumbu. En mikið var erfitt að vakna í morgun.

1 ummæli:

eddyharolds06777834 sagði...

I read over your blog, and i found it inquisitive, you may find My Blog interesting. My blog is just about my day to day life, as a park ranger. So please Click Here To Read My Blog