sunnudagur, janúar 29

það var mikið!

Fékk eftirfarandi sms í gærkvöldi:
Fædd stelpa.
Tæpar 15 merkur og 49 sm.
Fæðing gekk ILLA. En er aflokið og allir á lífi.

Siggalára og Árni fá innilegar hamingjuóskir með dótturina og Róbert með litlu systur. Hún lét bíða eftir sér en væntanlega hefur þetta verið þess virði. Efast ekki um að einhver frásögn birtist á orðabókinni von bráðar. Og gaman að vita til þess að stúlkan á sama afmælisdag og Íris, búningameistari Hugleiks, sem ég var einmitt í afmæli hjá í gær. Ekki leiðum að líkjast þar.

laugardagur, janúar 28

glæpur...

Fór að sjá Glæp gegn diskóinu í gær með fríðu föruneyti. Og sýningin sú er í einu orði sagt frábær. Sýnir að það eina sem þarf til að búa til góða leiksýningu er einn leikari. Þrír einleikir, sem að lokum tengjast allir innbyrðis, frábærir leikarar, frábær leikstjórn. Engir leikmunir og engar aðrar persónur á sviðinu, bara einn leikari sem býr til allt umhverfi með látbragðinu, og það þarf ekki meira. Leikmyndin var í rauninni óþörf

Svo héldum við fríða föruneytið á Kringlukrána, þar sem íslenskur veruleiki birtist í allri sinni fegurð. Miðaldra söngvari með stóra bumbu söng íslensk dægurlög og sló á kúabjöllu og félagi hans raddaði og hamraði á skemmtara. Og fólkið söng og dansaði með. Næst þegar útlendingar koma í heimsókn ætla ég að fara með þau á Kringlukrána til að sjá íslenskt skemmtanalíf eins og það gerist best. Hrökkluðumst á endanum niður í bæ, drukkum og sumbluðum langt frameftir. 11 hefur tekið við af 22. Ölstofan jafntroðin og venjulega. En gaman var það.

mánudagur, janúar 23

trommarinn síkáti

Rakst á þetta fyrir tilviljun. Þeir sem séð hafa kannast við kauða:
They also put on a very good live show where the drummer claims the stage armed with a gong and cheek slapping bingo machine sound effects.
Meira hér (neðarlega á síðunni)

miðvikudagur, janúar 18

Helena og Kapítóla

Ég man eftir Leyndarmáli Helenu. Að vísu ekki því nafni, en lýsingin hljómar kunnuglega. Var þetta ekki einn af þessum þáttum sem Órator, félag laganema, gerði fyrir sjónvarpið á 9. áratugnum? Helena var grasekkja sem hélt partí (gott ef kallinn var ekki á sjónum), og hrinti einhverri stúlku niður af svölum. Verjandinn reyndi að fá dóminn mildaðan á þeim forsendum að þetta hefði verið gert í stundarbrjálæði. Meira man ég ekki.

Bætti við smá vídeói í YouTube. Þarf reyndar að laga það eitthvað til, þetta leit mun betur út í tölvunni minni heima. Tékka á því í kvöld.

föstudagur, janúar 13

gláp

Bloggleti og ekki bloggleti. Aðallega stafar þetta þó af nánum kynnum núðlusúpu með won ton bragði og fartölvunnar minnar, og núna virkar lyklaborðið ekki. Og ég kann ekki við að blogga mikið í vinnunni. Allavega, sé fram á að næsta helgi verði aldrei þessu vant algerlega laus við hvers kyns skyldur, og þess vegna ætla ég að leggjast í vídeógláp og gera helst ekki neitt annað. Samstarfsmaður minn kom færandi hendi með ýmsa DVD diska, eins og Alan Partridge og Singing Detective (þættina, ekki bíómyndina).

Annars er bloggið hans Bibba aðalbloggið þessa dagana, enda mikill snillingur á ferðinni. Mæli sérstaklega með þessari sögu hér.

sunnudagur, janúar 8

falsanir smjalsanir

Stóra málverkafölsunarmálið. Þessi nafngift er náttúrulega bara heimskuleg og gott dæmi um minnimáttarkennd íslendinga. Ég veit ekki hvað fór verr í fólk, að það hafi látið hafa sig að fíflum eða sú staðreynd að verkin hafi (líklega) verið fölsuð af dönum. Annars nennti ég ekki að setja mig inn í málið á sínum tíma, enda með lítinn áhuga á þessari snobbelítu sem verslar með málverk. En plottið í heimildarmyndinni á Rúv fannst mér eiginlega vera þetta: ungi, kappsami einfeldningurinn, íslenski sveitapilturinn sem stígur kannski ekki alveg í vitið en vill samt vera maður með mönnum (og passar sig ekki alltaf hvaða meðölum hann beitir) sigrar á endanum íslensku borgarastéttina sem vill koma honum fyrir kattarnef. Allavega kom Pétur Þór fyrir sem frekar geðugur og simpatískur maður, en kannski ekki alltof bræt (Jónas virkar öllu klikkaðri). Svo minnti hann svolítið á aðalpersónuna í F for Fake eftir Orson Welles (mæli með henni), sem var málverkafalsari sem gat hermt listilega eftir Picasso og Magritte, en gat engan vegið málað neitt sjálfstætt.

Og borgarastéttin. Það er frekar erfitt að hafa einhverja samúð með Kjartani Gunnarssyni og einhverjum snobbhænsnum í fínu sófunum sínum með málverkasafnið á bak við sig, að tala um að nota málverk sem keypt var fyrir hundruðir þúsunda sem samkvæmisleik. Og hvað í ósköpunum var Thor að þusa um gullbrúðkaup og sólargeisla og blablabla? Kannski er merkilegt við heimildarmyndina að hún veitti manni smá glimps af lífi íslensku borgarastéttarinnar (eða þeirra sem myndast við að vera það), sem sést annars aldrei. Það var eiginlega bara svolítið skerí.

Mórallinn er: ef ykkur langar að kaupa málverk skuluð kaupa það af því að ykkur finnst það flott, ekki af því að þau eigi að vera það. Og kaupið endilega af núlifandi listamönnum sem eru sjaldnast neitt voðalega vel stæðir. Þessir dauðu eru, ja, dauðir. Þeir sem græða á dauðum málverkum eru snobbhænsnin í fínu sófunum.