sunnudagur, janúar 8

falsanir smjalsanir

Stóra málverkafölsunarmálið. Þessi nafngift er náttúrulega bara heimskuleg og gott dæmi um minnimáttarkennd íslendinga. Ég veit ekki hvað fór verr í fólk, að það hafi látið hafa sig að fíflum eða sú staðreynd að verkin hafi (líklega) verið fölsuð af dönum. Annars nennti ég ekki að setja mig inn í málið á sínum tíma, enda með lítinn áhuga á þessari snobbelítu sem verslar með málverk. En plottið í heimildarmyndinni á Rúv fannst mér eiginlega vera þetta: ungi, kappsami einfeldningurinn, íslenski sveitapilturinn sem stígur kannski ekki alveg í vitið en vill samt vera maður með mönnum (og passar sig ekki alltaf hvaða meðölum hann beitir) sigrar á endanum íslensku borgarastéttina sem vill koma honum fyrir kattarnef. Allavega kom Pétur Þór fyrir sem frekar geðugur og simpatískur maður, en kannski ekki alltof bræt (Jónas virkar öllu klikkaðri). Svo minnti hann svolítið á aðalpersónuna í F for Fake eftir Orson Welles (mæli með henni), sem var málverkafalsari sem gat hermt listilega eftir Picasso og Magritte, en gat engan vegið málað neitt sjálfstætt.

Og borgarastéttin. Það er frekar erfitt að hafa einhverja samúð með Kjartani Gunnarssyni og einhverjum snobbhænsnum í fínu sófunum sínum með málverkasafnið á bak við sig, að tala um að nota málverk sem keypt var fyrir hundruðir þúsunda sem samkvæmisleik. Og hvað í ósköpunum var Thor að þusa um gullbrúðkaup og sólargeisla og blablabla? Kannski er merkilegt við heimildarmyndina að hún veitti manni smá glimps af lífi íslensku borgarastéttarinnar (eða þeirra sem myndast við að vera það), sem sést annars aldrei. Það var eiginlega bara svolítið skerí.

Mórallinn er: ef ykkur langar að kaupa málverk skuluð kaupa það af því að ykkur finnst það flott, ekki af því að þau eigi að vera það. Og kaupið endilega af núlifandi listamönnum sem eru sjaldnast neitt voðalega vel stæðir. Þessir dauðu eru, ja, dauðir. Þeir sem græða á dauðum málverkum eru snobbhænsnin í fínu sófunum.

Engin ummæli: