laugardagur, febrúar 18

Af því ég hef ekkert betra að gera

Vincent og Marilyn
eftir Tom Robbins

I
Vincent van Gogh skar af sér eyrað og sendi það til Marilyn Monroe.

Marilyn Monroe varð svo snortin að hún yfirgaf allt - framann, sundlaugina sína, mjaðmahnykkinn, símann sinn, sjálfsmorðið, allt - og flutti til Suður-Frakklands til að búa með Vincent van Gogh.

Lifðu þau hamingjusöm upp frá því? Nei, það gerir enginn. En þau þóttust lifa hamingjusöm upp frá því. Og af því að allt verður sem við þykjumst vera, þá er fölsk hamingja alveg jafngóð og þessi raunverulega.

II
Vincent van Goch skar af sér eyrað og sendi það til Marilyn Monroe. Þegar Marilyn Monroe tók utan af pakkanum og sá eyrað brosti hún sínu fræga brosi, eins og kisan sem gleypti bananann. Marilyn Monroe setti eyrað í lítinn bleikan kistil á kommóðunni sinni. Hún tók eyrað stöku sinnum úr kistlinum, gældi við það, blés á það, klóraði því og brosti til þess. Einu sinni hengdi hún það í silfurkeðju og tók það með sér í veislu. Hún hafði alltaf ætlað að senda fallegt þakkarbréf til upphaflegs eiganda en aldrei varð neitt úr því.

Var Vincent van Gogh fífl?

Kannski var Marilyn Monroe fíflið. Þegar öllu er á botninn hvolft gerði Vincent van Gogh þetta af göfuglyndi en Marilyn Monroe fór með gjöfina af léttúð.

III
Vincent van Gogh skar af sér eyrað og sendi það til Marilyn Monroe. Paul Gauguin fannst það hryllilegt. "Þetta var afskaplega smekklaust, Vincent," sagði Gauguin. "Eftir nokkur ár, þegar þú ert dauður, man fólk frekar eftir þér fyrir að hafa skorið af þér eyrað heldur en fyrir fegurðina og sannleikann í list þinni."

Vincent van Gogh gægðist undan sárabindinu á Gauguin og brosti. "Hafðu ekki áhyggjur," sagði hann. "Listin sér um sig sjálf. Og það skiptir mig engu máli hvað heimurinn hugsar um mig þegar ég er dauður. Það sem máli skiptir er lífið. Það sem máli skiptir er ástin. Yeah!"

Daginn eftir losaði Gauguin sig við eiginkonuna og sendi sjálfan sig til Tahítí.

"Aumingja Gauguin," sagði Vincent van Gogh og andvarpaði. "Hann skildi bara helminginn af því sem ég sagði."

IV
Vincent van Gogh skar af sér eyrað og sendi það til Marilyn Monroe. Afskorna eyrað minnti Marilyn Monroe á vaxandi tungl og hún skoðaði það tímunum saman í tungljósinu.

Hún hringdi í Vincent van Gogh. "Hefur tunglið einhverja merkingu", spurði hún.

Vincent van Gogh íhugaði spurninguna. Síðan komst hann að þeirri niðurstöðu að spurningin væri heimskuleg.

Albert Camus skrifar að eina alvöru spurningin væri hvort tíminn hefði upphaf og endi.

Það er augljóst að Camus fór öfugu megin fram úr rúminu þann morguninn og að Robbins hefði átt að gleyma að stilla vekjaraklukkuna.

Það er einungis til ein alvöru spurning. Og spurningin er: Hver veit hvernig hægt er að láta ástina endast að eilífu?

Svarið mér þessu og ég segi ykkur hvort þið eigið að farga ykkur eða ekki.
Svarið mér þessu og ég mun róa ykkur niður við upphaf eða endalok tímans.
Svarið mér þessu og ég upplýsi ykkur um merkingu tunglsins.

V
Vincent van Gogh skar af sér eyrað og sendi það til Marilyn Monroe. Þá skar Marilyn Monroe af sér annað eyrað og sendi það til Vincent van Gogh. Vincent van Gogh skar af sér aðra litlu tána og sendi hana til Marilyn Monroe. Marilyn Monroe sendi honum í staðinn aðra litlu tána sína. Vincent van Gogh skar í framhaldi af því af sér annað augnlokið og sendi henni í pósti. Þegar hann fékk póst til baka fékk hann annað augnlok Marilyn Monroe. Vinátta þeirra varð sífellt heitari.

Þau skiptust á baugfingrum, tungum, nöflum og geirvörtum. Dag einn reif Vincent van Gogh úr sér hjartað og sendi það í hraðpósti til Hollywood... en þá var Marilyn Monroe orðin leið á þessu og stungin af til Tijuana með Warren Beaty.

Vincent van Gogh var eyðilagður. Þrátt fyrir það hefði þetta ekki átt að koma honum svo á óvart. Ástin tekur oft þessa stefnu.

VI
Vincent van Gogh skar af sér eyrað og sendi það til Marilyn Monroe. Þá hugsaði hann sig betur um og varð afar dapur.

"Æ, af hverju var ég með svona sýndarmennsku?", spurði hann. "Eyra er alltof persónuleg gjöf. Og hvað ef henni líkar ekki við eyru? Það hefði verið betra að senda henni fjólur eða eldspýtur. Ég hefði átt að senda henni kartöflur, tannkrem eða fremur breiðan tannbursta. Þetta eyra á eftir að hneyksla hana, það er ég viss um. Ó, ég hefði átt að vera skýrður Vincent van Gauche. Nú klúðra ég öllu aftur."

Mitt í öllum þessum hugleiðingum barst skeyti frá Ameríku: "Virðulegi herra," hófst það. "Kærar þakkir fyrir silkibudduna." Vincent van Gogh andaði léttar. Hann brosti eyrnanna á m... almáttugur!

VII
Vincent van Gogh skar af sér eyrað. Hann vildi senda það til Marilyn Monroe, en vissi ekki hvernig hann átti að fara að því.

Hann hafði ekki efni á því að fara með það í eigin persónu. Þau áttu enga sameiginlega vini. Og ef hann myndi senda það í kvikmyndaverið myndi einhver ritari í grárri dragt henda því í ruslið.
Ætti hann að treysta Railway Express fyrir því? United Parcel Service? Brink's?

Eyra Vincent van Gogh var ástin hans. Þar sem hann gat ekki sent það eftir venjulegum leiðum, fór hann út á akur og sendi það með kráku.

(stolið frá Lechón)

Engin ummæli: