sunnudagur, mars 26

gleymi alveg að plögga...

Semsagt, Þetta mánaðarlega hjá Hugleik, 6 einþáttungar í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld, hver öðrum betri og skemmtilegri. Einn eftir mig, annar í minni leikstjórn, auk þess sem Siggi Páls debúterar sem leikskáld og Nanna sem leikstjóri. 1000kall inn og barinn opinn. Úrvals kvöldskemmtun.

laugardagur, mars 25

stjörnuryk

Sem kvikmyndadellukall og aðdáandi Neil Gaimans er ég mjög áfram um að Stardust verði tekin hér á Íslandi. En það er víst komið babb í bátinn: það má ekki flytja hesta inn til landsins, og hestar leika víst stórt hlutverk í myndinni:
Helga said that they had spoken to "relevant parties" but it appeared that the Icelandic horse was especially vulnerable to disease because it had been isolated for so many centuries and therefor people were afraid to import horses. (meira hér)
Ég er samt ekki alveg að fatta þetta. Hingað til hafa ekki borist neinar fréttir af því að íslenskir hestar hafi drepist unnvörpum þegar þeir eru fluttir til útlanda. Reyndar virðast þeir pluma sig ágætlega þar. Eru þeir eitthvað viðkvæmari hér á landi? Það er ekki eins og kvikmyndagerðarfólkið ætli að standa í kynbótum á íslenska hestakyninu. Gott dæmi um heimsku íslenskra yfirvalda, stóriðjan má útjaska íslenskri náttúru, en aðrir mega éta það sem úti frýs.

fimmtudagur, mars 23

baskar

Í gær lýsti ETA, aðskilnaðarhreyfing Baska, yfir einhliða vopnahléi í ótakmarkaðan tíma. Viðbrögð á Spáni voru varkár enda ekki í fyrsta skipti sem ETA hefur lýst yfir vopnahléi. Alls hefur það gerst tólf sinnum (skv. spænska dagblaðinu El mundo) og hafa vopnahléin staðið mislengi. Lengsta vopnahléið stóð í 439 daga, eða frá 18. september 1998 til 28. nóvember 1999. Ómögulegt er að segja hver árangurinn verður í þetta sinn, en þó verður að binda vonir við að ríkisstjórn Zapateros nái að taka skynsamlega á málunum.Yfirlýsingu ETA má t.d. hlusta á hérna.

Okkur Íslendingum er gjarnt að líta rómantískum augum á sjálfstæðisbaráttu þjóða, enda tiltölulega stutt síðan við náðum sjálf sjálfstæði. Í sumum tilvikum er liggur slík barátta nokkuð ljós fyrir, þjóðir sem eiga sér langa sögu og hafa búið á sama landssvæði í aldaraðir, eiga sérstaka tungu og menningu og hafa verið kúgaðar af annarri þjóð í langan tíma o.s.frv. Og í fljótu bragði virðist hið sama eiga við um Baska, en þegar grannt er skoðað reynist málið ögn flóknara.

Baskar eiga sér að vísu langa sögu. Elstu heimildir um þá höfum við frá Rómverjum. Rómverjar kölluðu landssvæðið sem nú er kallað Baskaland Akvitaníu og nöfn, örnefni og orðmyndir sem fundist hafa í heimildum frá þessum tíma koma heim og saman við orð í nútímabasknesku. Sumir vilja jafnvel teygja sig enn lengra aftur og benda á að á þessum slóðum sé að finna hellaristur Krómagnonmanna og halda því jafnvel fram að Baskar séu afkomendur þeirra. Auðvitað verður það seint sannað. Eitt er víst að tungumál þeirra, baskneska, er alls óskyld nokkru öðru máli og gjörólík að formgerð öllum öðrum evrópskum málum (málvísindin kenna okkur að baskneskan sé ergatíft tungumál, líkt og mörg kákasusmál og sum mál frumbyggja Ástralíu. Íslenska og önnur indóevrópsk mál teljast þá þolfallsmál, eða akkúsatíf). Baskar geyma því einu menningarlegu leifarnar af þeirri Evrópu sem var við lýði áður en Indóevrópskar þjóðir héldu innreið sína.

Um svipað leyti og Ísland var að finnast var konungsríkinu af Navarra komið á þar sem nú er Navarra hérað á Spáni. Gleymum ekki að Spánn var á þessum tíma ekki til. Konungsveldi Vísigota leið undir lok með innreið Márar árið 711 og á rústum þess birtust ný konungsríki og hurfu til skiptis. Konungsríkið af Navarra náði að brjóta márana á bak aftur og márarnir komust aldrei til áhrif í þeim hluta landsins. Konungsríkið af Navarra óx og náði að lokum yfir allan norðanverðan Spán, frá því sem nú er Galisía og til Barcelona. Það stóð þó ekki lengi og dróst veldið saman þar til lítið var orðið eftir þegar Fernando Spánarkonungur tók við því um 1515 (þetta er flókin saga og meira hægt að lesa t.d. hér). Baskar vísa oft til þessa veldis þegar þeir færa rök fyrir hugsanlegu sjálfstæði sínu. Navarra varð þó ekki obinberlega hluti af Spænska konungsveldinu fyrr en 1833.

Baskar gerðust snemma miklir sjómenn og fóru um allt Norður Atlantshaf við þorsk- og hvalveiðar, m.a. að Íslandsströndum. Við Íslendingar áttum einmitt snautlegan þátt í þessari útrás Baska, murkuðum lífið úr hópi þeirra á Vestfjörðum árið 1614 fyrir litlar sakir að áeggjan Ara sýslumanns í Ögri (sem ég er víst kominn af í beinan legg). Samskipti þjóðanna voru þó ekki alltaf svo fjandsamleg, t.a.m. er hér að finna þrjú basknesk-íslensk orðasöfn frá 17. öld í pappírshandriti, sem prófessor Helgi Guðmundsson hefur m.a. skrifað nokkuð um. Spænski flotinn var á þessum tíma að miklu leyti byggður upp á baskneskum skipum og sjómönnum og sem dæmi má nefna að þegar flotinn ósigrandi, Armadan spænska, beið afhroð í Ermarsundi 1588 hrundi baskneski hvalveiðiiðnaðurinn og tók nokkurn tíma að ná sér.

Þjóðernishugmynda fór ekki að gæta að neinu ráði meðal Baska fyrr en um aldamótin 1900. Þjóðernishugmyndir gengu á þeim tíma yfir Evrópu með tilheyrandi kynþáttahyggju. Auk þess var nokkurs konar iðnbylting að ganga í garð í Baskalandi. Þar var nóg járn í fjöllunum og námuvinnsla varð brátt mikilvægur iðnaður og laðaði að verkamenn af fátækari svæðum Spánar. Fyrir vikið fór sumum Böskum að finnast að sér og menningu sinni vegið, baskneska fór að hverfa í sumum bæjum og spænskan tók yfir. Þá birtist á sjónarsviðinu Sabino nokkur Arana. Arana var fæddur í Biskaia-héraða, þar sem spænskra áhrifa gætti hvað mest, og stofnaði baskneska þjóðernisflokkinn, PNV (Partido Nacionalista Vasca), árið 1894. Arana hafði drukkið í sig þjóðernis- og kynþáttahyggju þessara ára og trúði því að Baskar væru af göfugra blóði og barðist gegn blöndun af öllu tagi. Arana var í raun í engu frábrugðinn öðrum þjóðernissinnum þessa tíma og boðskapur hans var ljótur, fasismi og kynþáttahyggja af verstu sort. Arfleifð hans er þó enn við lýði í Baskalandi. Flokkurinn hans, PNV, hefur verið við völd í landinu frá því Franco féll frá auk þess sem Arana og bróðir hans hönnuðu fána Baskalands sem er notaður í dag og kallast Ikurriña, og forystumenn flokksins tala á hátíðisstundum enn um hið baskneska blóð og annað eftir því. Þeir eru þó hættir að gefa út rit Arana, þau þykja of svæsin fyrir nútímalesendur.

Arana horfði einmitt nokkuð til konunganna af Navarre og vildi reisa nýtt þjóðríki sem næði yfir öll baskahéruðin sem skv. hefð eru talin vera sjö: Bizkaia, Araba, Gipuzkoa og Nafarroa á Spáni og Lapurdi, Baxe Nafarroa og Zuberoa í Frakklandi (spænsku og frönsku heitin eru kannski þekktari: Vizcaya, Alaba, Guipúzcoa og Navarra á Spáni og Labourd, Basse-Navarre og Soule í Frakklandi. Til að nefna þekkta staði í þessum héruðum þá er Bilbao í Bizkaia, San Sebastian í Gipuzkoa og Biarritz í Lapurdi). Þar með lagði Arana grunninn að þjóðernishugmyndum Baska og þjóðernishreyfingar nútímans sækja sínar hugmyndir til hans, hvort sem um er að ræða hinn hægrisinnaða PNV eða byltingarsinnana í ETA og Batasuna.

Baskaland fékk töluverða sjálfsstjórn með nýrri stjórnarskrá sem tekin var upp á Spáni eftir kosningarnar 1931 og framtíðin var björt. En 1936 braust borgarastyrjöldin út, og Franco gerði sitt til að brjóta sjálfstæðishugmyndir í héruðum Spánar á bak aftur og árið 1937 ákvað hann að leyfa vinum sínum í Þýskalandi og Ítalíu prófa nýja flugherinn sinn með því að kasta sprengjum á smábæinn Gernika í Biskaia-héraði. Gernika var langt frá víglínunni og gegndi engu hlutverki í stríðinu. En valið á staðnum var líklega engin tilviljun. Gernika er böskum jafnhjartfólginn staður og Þingvellir Íslendingum. Í bænum stendur tré sem hefur nánast staðið um aldir (þ.e. þegar eitt tré deyr er græðlingi af því plantað á sama stað) og þar hafa Baskar komið saman um aldir, þegar nýr forseti (eða lehendakari, eins og það heitir á basknesku) tekur við í dag sver hann eið sinn undir trénu. Picasso gerði auðvitað hina blóðugu loftárás ódauðlega í verki sínu Guernica. Tilgangurinn með loftárásinni virtist fyrst og fremst vera að veikja mótstöðuafl lýðveldissinna og hræða alþýðuna, því hernaðarlegt mikilvægi borgarinnar var ekkert. Hins vegar má segja að Franco hafi skotið sig svolítið í fótinn með þessu, þar sem Baskar gleyma þessum gjörningi seint og var hann kannski rótin að því sem á eftir kom.

Meira seinna.

miðvikudagur, mars 22

Niðurstöðurnar eftir hlustun á Víðsjá:

Guðbergur talar af meira viti um bandaríska herinn en flestir aðrir.
Sigga Víðis er Thor Heyerdahl okkar Íslendinga (þetta er meint sem hrós, Heyerdahl var æskuhetjan mín).

Og nóta bene: í fréttum var talað um heimasíðu ETA. Sem er bull, því ETA er ekki með heimasíðu, en hins vegar var sýnd á skjánum tilkynning frá ETA sem birt var í dagblaðinu "Gara", sem er dagblað gefið út í Baskalandi, og er að hluta til á basknesku og að hluta til á spænsku. Og tengist ETA ekki neitt, enda væri þá búið að loka því fyrir löngu (spænsk stjórnvöld voru mjög dugleg í valdatíð Aznars að loka og banna allt sem mögulega gat tengst ETA á einhvern hátt (og merkilegt nokk, þá var dómarinn sem gekk harðast fram í því Baltazar nokkur Garzón, sá hinn sami og varð frægur fyrir að reyna að fá Pinochet framseldan frá Englandi um árið). Talandi um fréttamenn sem nenna ekki að vinna vinnuna sína. Kannski ætti ég að skrifa eitthvað um þetta...

þriðjudagur, mars 21

génération kleenex

Nafnið sem frönsk ungmenni hafa fundið sér. Kleenex-kynslóðin. Notuð til að þrífa skítinn og svo fleygt í ruslið. Þeir sem vilja fylgjast betur með því havaríi geta kíkt hingað. En ég ætla að nota tækifærið og kynna til sögunnar hina frábæru pönksveit Kleenex. Svissneskt stelpupönk af bestu sort. Minnir að Kurt Cobain hafi verið heitur aðdáandi. Og hugsiði nú fallega til krakkanna í Frakklandi (ætli íslenskum ungmennum finnist þau vera klínex? Eða eru þau meira í að kasta nærbuxum fram af svölunum (klámkynslóðin altso)?).

Kleenex - Ain't You
Kleenex - Split
Kleenex - Eisiger Wind

miðvikudagur, mars 15

Vatnalögin

Það hafa aldrei verið fleiri fjölmiðlar á Íslandi. Aldrei hafa fleiri borið starfstitilinn fréttamaður eða blaðamaður. Samt hefur umræðan um vatnalögin alræmdu fyrst og fremst afhjúpað eitt. Íslenskir fjölmiðlar eru bölvað helvítis drasl, hver og einn einasti.

Í síðustu viku fóru að berast fréttir af umræðuhiksta á Alþingi yfir einhverjum vatnalögum. Dag eftir dag birtust fréttir í blöðum, sjónvarpi og útvarpi um að stjórnarandstaðan væri að rífast og stjórnarliðar fúlir á móti. Þetta fannst blaðamönnum greinilega fyndið. Aldrei kom neitt fram um það út á hvað þessi umræða gekk, né út á hvað þessi lög gengu né hvaða tilgangi þau þjónuðu. Fréttirnar voru beisiklí: Í dag var rifist aftur um Vatnalögin. Hvaða vatnalög, hváði maður en var engu nær. Loks þegar málþófið fór að dragast á langinn sáu fjölmiðlar sig knúna til að gera eitthvað. Iðnaðarráðherra (eða einhverjum stjórnarliða) og einum stjórnarandstöðuþingmanni var hleypt í sjónvarpssal og leyft að rífast þar til tilbreytingar, en áhorfendur voru engu nær. Svo var reyndar stundum talað við hagfræðing eða umhverfisfræðing, en svo ekkert meir.

Ef Ömmi og kó hafa rétt fyrir sér er um mjög afdrifarík lög að ræða fyrir okkur. Hlutverk fjölmiðla er m.a. að líta gagnrýnum augum á það sem stjórnvöld og þingmenn eru að gera. Í þessu tilviki brugðust þeir algjörlega. Fjölmiðlamenn virtust hreinlega ekki hafa áhuga á því að skoða málið. Það var enginn áhugi fyrir því að bera saman gömlu og nýju lögin, hvaða breytingar þetta hefði í för með sér, setja það í stærra og alþjóðlegra samhengi, hvað þá að skoða hvað felst í þessum hugtökum "eignaréttur" og "nytjaréttur", hvort þau séu raunverulega svona klippt og skorin og hverju það breytir að tala um eitt frekar en annað.

Eins og Varríus benti á þá kastaði tólfunum þegar NFS fór út á götu og komst að því að fólk hafði ekki hugmynd út á hvað málið gekk. Það fannst þeim fyndið, en áttuðu sig ekki á því að þeir hefðu átt að koma þeim skilningi út til þjóðarinnar. Í öðrum hvorum ókeypissneplinum var hlakkað yfir því í dag að sumir þingmenn virtust ekki vita út á hvað þetta allt gekk. Só?! Ég er ekki að setja þetta hér fram vegna þess að ég sé á móti lögunum eða með lögunum eða stjórninni eða stjórnarandstöðunni eða einhverju allt öðru. Heldur einfaldlega vegna þess að ég vil vita meira, ég vil lesa um hluti og fá að velta sjálfur fyrir mér rökunum. Fjölmiðlamenn eru alltaf að básúna um það hvað þeir séu mikilvægir, en þeir eru eiginlega löngubúnir að afsanna það.

Nú er vandamálið ekki að það sé ekki hæft fólk að vinna í fjölmiðlum. Ég þekki nokkur sem eru frekar gáfað fólk og víðsýnt og vill sinna sínu starfi vel. En eitthvað er að. Eigendur og ritstjórar hafa bara ekki áhuga á að kafa eitt eða neitt. Íslenskir fjölmiðlar eru algjör eyðimörk. Það er engin gagnrýnin hugsun í gangi, enginn vilji til að kafa dýpra. Þess vegna segi ég: íslenskir fjölmiðlar eru drasl. Það er bókstaflega ekkert á þeim að græða. Ókeypissneplarnir, sem maður klárar á undan kaffibollanum, hrúgast upp og maður hefur ekki við að fara í Sorpu. Eða réttara sagt, ég er hættur að nenna í Sorpu, hendi þessu æ oftar í ruslafötuna og fæ þá sektarkennd ofan á allt saman.

Þess vegna lendir maður æ oftar í því að skoða blogg, eða Deigluna, Tíkin, Múrinn, Eggina, Kistuna, Hugsandi eða Silfur Egils til að finna snefil af einhverri hugsun. Sem er stundum asnalega sett fram og bjánalega rökstudd, en þó hugsun. Og ef einhver blaðamaður/fjölmiðlamaður er að lesa þetta: skammastu þín og reyndu að drullast til að vinna vinnuna þína!

sunnudagur, mars 12

sitt á hvað og sjipp og hoj

Jamm jamm. Þetta blogg er farið að verða eitthvað svo fátæklegt. Það er eiginlega um nóg annað að hugsa og enginn tími til að verða sjálfhverfur og þykjast merkilegur. Gefst samt ekki alveg upp strax. Skil í þetta sinn eftir hérna hina og þessa linka í hitt og þetta.

Þessi síða er stórkostleg. Það er fátt jafnfagurt og vond plötuumslög. Þetta er t.d. stórbrotið, og það fyndna er að ég sá einmitt þessa plötu í Kolaportinu í dag. Lét samt vera að kaupa hana.

Ef menn væru svona rytmískir í vinnunni minni væri dagurinn ekki lengi að líða. Þetta eru víst einhverjir starfsmenn á pósthúsi í Ghana að stimpla í takt.

Þessum gaurum fannst góð hugmynd að fara í leiktækjasali í byrjun níunda áratugarins og taka upp hljóð. Frekar tilgangslaust og heillandi í senn.

fimmtudagur, mars 9

alltaf í boltanum bara...

The sharpest expression of America's decline is the violent eruption of US militarism. The US has waged four wars - two in Iraq, one in the Balkans and one in Afghanistan - in just 15 years, and is threatening more. As its economic power declines, the US is compelled to increasingly rely on its military might to maintain its global hegemony. This course will inevitably lead the US into conflict with its competitors in Europe and Asia. (wsws.org 9. mars 2006)

"We may face no greater challenge from a single country than from Iran, whose policies are directed at developing a Middle East that would be 180 degrees different than the Middle East we would like to see developed." (Condoleezza Rice, 9. mars 2006)

miðvikudagur, mars 8

programme

Mér finnst þetta töff lag. Píanó er vannotað og misnotað hljóðfæri í rokki, það er helst gripið í það í væmnum ballöðum (og reyndar stundum ágætlega gert) en aðrir kostir þess ekkert kannaðir. Hér er því ekki að heilsa heldur hamrað á helvítið eins og lífið liggi við. Og ekkert verið að skipta neitt um hljóma, neinei, það er bara fyrir aumingja. Svo er þetta franskt, ég skil ekki mikið í textanum en þetta hljómar eins og verið sé að syngja um merkilega hluti.
Programme - Une vie

laugardagur, mars 4

Dr. Anne Luise Kirkengen

Mér finnst þetta svolítið skondinfrétt. Er þetta ekki nokkurn veginn það sama og ýmsir heilarar hafa verið að staglast á í gegnum árin? Eða er þetta einhvers konar ný-freudismi? Verða þá læknar (sem hata heilara) og sálfræðingar (sem hata Freud) að éta ofan í sig ferkantinn? Ég bíð spenntur.

Og af hverju er aumingja manneskjan á svipinn eins og hún sé að leika í B-hrollvekju frá 1950. Maður býst hálfpartinn við Vincent Price í næsta klippi.