fimmtudagur, mars 23

baskar

Í gær lýsti ETA, aðskilnaðarhreyfing Baska, yfir einhliða vopnahléi í ótakmarkaðan tíma. Viðbrögð á Spáni voru varkár enda ekki í fyrsta skipti sem ETA hefur lýst yfir vopnahléi. Alls hefur það gerst tólf sinnum (skv. spænska dagblaðinu El mundo) og hafa vopnahléin staðið mislengi. Lengsta vopnahléið stóð í 439 daga, eða frá 18. september 1998 til 28. nóvember 1999. Ómögulegt er að segja hver árangurinn verður í þetta sinn, en þó verður að binda vonir við að ríkisstjórn Zapateros nái að taka skynsamlega á málunum.Yfirlýsingu ETA má t.d. hlusta á hérna.

Okkur Íslendingum er gjarnt að líta rómantískum augum á sjálfstæðisbaráttu þjóða, enda tiltölulega stutt síðan við náðum sjálf sjálfstæði. Í sumum tilvikum er liggur slík barátta nokkuð ljós fyrir, þjóðir sem eiga sér langa sögu og hafa búið á sama landssvæði í aldaraðir, eiga sérstaka tungu og menningu og hafa verið kúgaðar af annarri þjóð í langan tíma o.s.frv. Og í fljótu bragði virðist hið sama eiga við um Baska, en þegar grannt er skoðað reynist málið ögn flóknara.

Baskar eiga sér að vísu langa sögu. Elstu heimildir um þá höfum við frá Rómverjum. Rómverjar kölluðu landssvæðið sem nú er kallað Baskaland Akvitaníu og nöfn, örnefni og orðmyndir sem fundist hafa í heimildum frá þessum tíma koma heim og saman við orð í nútímabasknesku. Sumir vilja jafnvel teygja sig enn lengra aftur og benda á að á þessum slóðum sé að finna hellaristur Krómagnonmanna og halda því jafnvel fram að Baskar séu afkomendur þeirra. Auðvitað verður það seint sannað. Eitt er víst að tungumál þeirra, baskneska, er alls óskyld nokkru öðru máli og gjörólík að formgerð öllum öðrum evrópskum málum (málvísindin kenna okkur að baskneskan sé ergatíft tungumál, líkt og mörg kákasusmál og sum mál frumbyggja Ástralíu. Íslenska og önnur indóevrópsk mál teljast þá þolfallsmál, eða akkúsatíf). Baskar geyma því einu menningarlegu leifarnar af þeirri Evrópu sem var við lýði áður en Indóevrópskar þjóðir héldu innreið sína.

Um svipað leyti og Ísland var að finnast var konungsríkinu af Navarra komið á þar sem nú er Navarra hérað á Spáni. Gleymum ekki að Spánn var á þessum tíma ekki til. Konungsveldi Vísigota leið undir lok með innreið Márar árið 711 og á rústum þess birtust ný konungsríki og hurfu til skiptis. Konungsríkið af Navarra náði að brjóta márana á bak aftur og márarnir komust aldrei til áhrif í þeim hluta landsins. Konungsríkið af Navarra óx og náði að lokum yfir allan norðanverðan Spán, frá því sem nú er Galisía og til Barcelona. Það stóð þó ekki lengi og dróst veldið saman þar til lítið var orðið eftir þegar Fernando Spánarkonungur tók við því um 1515 (þetta er flókin saga og meira hægt að lesa t.d. hér). Baskar vísa oft til þessa veldis þegar þeir færa rök fyrir hugsanlegu sjálfstæði sínu. Navarra varð þó ekki obinberlega hluti af Spænska konungsveldinu fyrr en 1833.

Baskar gerðust snemma miklir sjómenn og fóru um allt Norður Atlantshaf við þorsk- og hvalveiðar, m.a. að Íslandsströndum. Við Íslendingar áttum einmitt snautlegan þátt í þessari útrás Baska, murkuðum lífið úr hópi þeirra á Vestfjörðum árið 1614 fyrir litlar sakir að áeggjan Ara sýslumanns í Ögri (sem ég er víst kominn af í beinan legg). Samskipti þjóðanna voru þó ekki alltaf svo fjandsamleg, t.a.m. er hér að finna þrjú basknesk-íslensk orðasöfn frá 17. öld í pappírshandriti, sem prófessor Helgi Guðmundsson hefur m.a. skrifað nokkuð um. Spænski flotinn var á þessum tíma að miklu leyti byggður upp á baskneskum skipum og sjómönnum og sem dæmi má nefna að þegar flotinn ósigrandi, Armadan spænska, beið afhroð í Ermarsundi 1588 hrundi baskneski hvalveiðiiðnaðurinn og tók nokkurn tíma að ná sér.

Þjóðernishugmynda fór ekki að gæta að neinu ráði meðal Baska fyrr en um aldamótin 1900. Þjóðernishugmyndir gengu á þeim tíma yfir Evrópu með tilheyrandi kynþáttahyggju. Auk þess var nokkurs konar iðnbylting að ganga í garð í Baskalandi. Þar var nóg járn í fjöllunum og námuvinnsla varð brátt mikilvægur iðnaður og laðaði að verkamenn af fátækari svæðum Spánar. Fyrir vikið fór sumum Böskum að finnast að sér og menningu sinni vegið, baskneska fór að hverfa í sumum bæjum og spænskan tók yfir. Þá birtist á sjónarsviðinu Sabino nokkur Arana. Arana var fæddur í Biskaia-héraða, þar sem spænskra áhrifa gætti hvað mest, og stofnaði baskneska þjóðernisflokkinn, PNV (Partido Nacionalista Vasca), árið 1894. Arana hafði drukkið í sig þjóðernis- og kynþáttahyggju þessara ára og trúði því að Baskar væru af göfugra blóði og barðist gegn blöndun af öllu tagi. Arana var í raun í engu frábrugðinn öðrum þjóðernissinnum þessa tíma og boðskapur hans var ljótur, fasismi og kynþáttahyggja af verstu sort. Arfleifð hans er þó enn við lýði í Baskalandi. Flokkurinn hans, PNV, hefur verið við völd í landinu frá því Franco féll frá auk þess sem Arana og bróðir hans hönnuðu fána Baskalands sem er notaður í dag og kallast Ikurriña, og forystumenn flokksins tala á hátíðisstundum enn um hið baskneska blóð og annað eftir því. Þeir eru þó hættir að gefa út rit Arana, þau þykja of svæsin fyrir nútímalesendur.

Arana horfði einmitt nokkuð til konunganna af Navarre og vildi reisa nýtt þjóðríki sem næði yfir öll baskahéruðin sem skv. hefð eru talin vera sjö: Bizkaia, Araba, Gipuzkoa og Nafarroa á Spáni og Lapurdi, Baxe Nafarroa og Zuberoa í Frakklandi (spænsku og frönsku heitin eru kannski þekktari: Vizcaya, Alaba, Guipúzcoa og Navarra á Spáni og Labourd, Basse-Navarre og Soule í Frakklandi. Til að nefna þekkta staði í þessum héruðum þá er Bilbao í Bizkaia, San Sebastian í Gipuzkoa og Biarritz í Lapurdi). Þar með lagði Arana grunninn að þjóðernishugmyndum Baska og þjóðernishreyfingar nútímans sækja sínar hugmyndir til hans, hvort sem um er að ræða hinn hægrisinnaða PNV eða byltingarsinnana í ETA og Batasuna.

Baskaland fékk töluverða sjálfsstjórn með nýrri stjórnarskrá sem tekin var upp á Spáni eftir kosningarnar 1931 og framtíðin var björt. En 1936 braust borgarastyrjöldin út, og Franco gerði sitt til að brjóta sjálfstæðishugmyndir í héruðum Spánar á bak aftur og árið 1937 ákvað hann að leyfa vinum sínum í Þýskalandi og Ítalíu prófa nýja flugherinn sinn með því að kasta sprengjum á smábæinn Gernika í Biskaia-héraði. Gernika var langt frá víglínunni og gegndi engu hlutverki í stríðinu. En valið á staðnum var líklega engin tilviljun. Gernika er böskum jafnhjartfólginn staður og Þingvellir Íslendingum. Í bænum stendur tré sem hefur nánast staðið um aldir (þ.e. þegar eitt tré deyr er græðlingi af því plantað á sama stað) og þar hafa Baskar komið saman um aldir, þegar nýr forseti (eða lehendakari, eins og það heitir á basknesku) tekur við í dag sver hann eið sinn undir trénu. Picasso gerði auðvitað hina blóðugu loftárás ódauðlega í verki sínu Guernica. Tilgangurinn með loftárásinni virtist fyrst og fremst vera að veikja mótstöðuafl lýðveldissinna og hræða alþýðuna, því hernaðarlegt mikilvægi borgarinnar var ekkert. Hins vegar má segja að Franco hafi skotið sig svolítið í fótinn með þessu, þar sem Baskar gleyma þessum gjörningi seint og var hann kannski rótin að því sem á eftir kom.

Meira seinna.

Engin ummæli: