miðvikudagur, mars 15

Vatnalögin

Það hafa aldrei verið fleiri fjölmiðlar á Íslandi. Aldrei hafa fleiri borið starfstitilinn fréttamaður eða blaðamaður. Samt hefur umræðan um vatnalögin alræmdu fyrst og fremst afhjúpað eitt. Íslenskir fjölmiðlar eru bölvað helvítis drasl, hver og einn einasti.

Í síðustu viku fóru að berast fréttir af umræðuhiksta á Alþingi yfir einhverjum vatnalögum. Dag eftir dag birtust fréttir í blöðum, sjónvarpi og útvarpi um að stjórnarandstaðan væri að rífast og stjórnarliðar fúlir á móti. Þetta fannst blaðamönnum greinilega fyndið. Aldrei kom neitt fram um það út á hvað þessi umræða gekk, né út á hvað þessi lög gengu né hvaða tilgangi þau þjónuðu. Fréttirnar voru beisiklí: Í dag var rifist aftur um Vatnalögin. Hvaða vatnalög, hváði maður en var engu nær. Loks þegar málþófið fór að dragast á langinn sáu fjölmiðlar sig knúna til að gera eitthvað. Iðnaðarráðherra (eða einhverjum stjórnarliða) og einum stjórnarandstöðuþingmanni var hleypt í sjónvarpssal og leyft að rífast þar til tilbreytingar, en áhorfendur voru engu nær. Svo var reyndar stundum talað við hagfræðing eða umhverfisfræðing, en svo ekkert meir.

Ef Ömmi og kó hafa rétt fyrir sér er um mjög afdrifarík lög að ræða fyrir okkur. Hlutverk fjölmiðla er m.a. að líta gagnrýnum augum á það sem stjórnvöld og þingmenn eru að gera. Í þessu tilviki brugðust þeir algjörlega. Fjölmiðlamenn virtust hreinlega ekki hafa áhuga á því að skoða málið. Það var enginn áhugi fyrir því að bera saman gömlu og nýju lögin, hvaða breytingar þetta hefði í för með sér, setja það í stærra og alþjóðlegra samhengi, hvað þá að skoða hvað felst í þessum hugtökum "eignaréttur" og "nytjaréttur", hvort þau séu raunverulega svona klippt og skorin og hverju það breytir að tala um eitt frekar en annað.

Eins og Varríus benti á þá kastaði tólfunum þegar NFS fór út á götu og komst að því að fólk hafði ekki hugmynd út á hvað málið gekk. Það fannst þeim fyndið, en áttuðu sig ekki á því að þeir hefðu átt að koma þeim skilningi út til þjóðarinnar. Í öðrum hvorum ókeypissneplinum var hlakkað yfir því í dag að sumir þingmenn virtust ekki vita út á hvað þetta allt gekk. Só?! Ég er ekki að setja þetta hér fram vegna þess að ég sé á móti lögunum eða með lögunum eða stjórninni eða stjórnarandstöðunni eða einhverju allt öðru. Heldur einfaldlega vegna þess að ég vil vita meira, ég vil lesa um hluti og fá að velta sjálfur fyrir mér rökunum. Fjölmiðlamenn eru alltaf að básúna um það hvað þeir séu mikilvægir, en þeir eru eiginlega löngubúnir að afsanna það.

Nú er vandamálið ekki að það sé ekki hæft fólk að vinna í fjölmiðlum. Ég þekki nokkur sem eru frekar gáfað fólk og víðsýnt og vill sinna sínu starfi vel. En eitthvað er að. Eigendur og ritstjórar hafa bara ekki áhuga á að kafa eitt eða neitt. Íslenskir fjölmiðlar eru algjör eyðimörk. Það er engin gagnrýnin hugsun í gangi, enginn vilji til að kafa dýpra. Þess vegna segi ég: íslenskir fjölmiðlar eru drasl. Það er bókstaflega ekkert á þeim að græða. Ókeypissneplarnir, sem maður klárar á undan kaffibollanum, hrúgast upp og maður hefur ekki við að fara í Sorpu. Eða réttara sagt, ég er hættur að nenna í Sorpu, hendi þessu æ oftar í ruslafötuna og fæ þá sektarkennd ofan á allt saman.

Þess vegna lendir maður æ oftar í því að skoða blogg, eða Deigluna, Tíkin, Múrinn, Eggina, Kistuna, Hugsandi eða Silfur Egils til að finna snefil af einhverri hugsun. Sem er stundum asnalega sett fram og bjánalega rökstudd, en þó hugsun. Og ef einhver blaðamaður/fjölmiðlamaður er að lesa þetta: skammastu þín og reyndu að drullast til að vinna vinnuna þína!

Engin ummæli: