fimmtudagur, apríl 13

alein á Búðum

- Ég sá þig í blaðinu í morgun, sagði leikskólastjórinn.
Við sátum á kaffistofunni og stúlkan sem athyglin beindist að varð svolítið feimnisleg.
- Já...
- Já, bara að fara í sjónvarpið, sagði leikskólastjórinn.
- Já, einmitt, svaraði stúlkan. Hún útskýrði fyrir okkur hvernig þáttur þetta ætti að vera, svolítið feimnislega, eins og hún væri ekki viss hvað þessari kreðsu þætti um svona vitleysisgang.
- Þetta verður svona eins og Ali G, nema það er stelpa sem er að spyrja...

Og núna er liðið rúmt ár og Ágústa á leið til Aþenu. Og af hverju er ég að skrifa um þetta? O, engu sérstöku. Dæmigert að fara hreykja sér á einhverju bloggi að maður hafi hitt fræga fólkið, innit? Kannski ekki bara. Fór að rifja þetta upp á kaffihúsi í dag, þar sem ég gluggaði annars vegar í Sjónhverfingar Hermanns Stef og hins vegar í Hér og nú. Hermann er merkilegur gaur, en Hér og nú ómerkilegur snepill. Hermann rifjar upp í bókinni að Barthes hafi sagt að maður deyi smávegis þegar tekin er af manni ljósmynd (rímar auðvitað við sögur af frumbyggjum í suðurhöfum sem töldu ljósmyndavélar ræna þá sálinni). Í Hér og nú er reynt að gera sér mat úr því að Ágústa hafi verið í nokkurra daga afslöppun á Hótel Búðum og haldið sig út af fyrir sig. Og tvær ljósmyndir, önnur af Ágústu, í lopapeysu, þar sem hún horfir alvörugefin beint inn í ljósmyndavélina. Hin af Silvíu Nótt sem skáskýtur augunum glettnislega í linsuna með léttu ulli. Aðra þeirra hef ég hitt, hina ekki.

Hvernig upplifun ætli það sé að eiga sér alteregó? Og þegar alteregóið verður stærra en maður sjálfur? Silvía Nótt er í raun orðin sjálfstætt fyrirbæri. Framhaldið er nokkuð fyrirsjáanlegt, hún hættir að birtast í sjónvarpi eftir nokkra mánuði, kannski ár eða tvö, hættir að þroskast, stoppar, ný tíska tekur við, nýir karakterar, og Silvía verður hluti af poppkúltúrnum. Eftir 10-15 ár fer klámkynslóðin að nostalgíast og rifja upp gamlar minningar. Fólk rifjar upp Shrek og Incredibles og Silvíu Nótt og Birgittu Haukdal. En rifjar fólk upp Ágústu Evu? Ómögulegt að segja, kannski, kannski ekki. Kannski í einhverju allt öðru samhengi. Og kannski verður það líka óþarfi vegna þess að Ágústa verður áfram til, heldur áfram að þroskast og vaxa og dafna og velja sér þær leiðir sem henni gefast.

En tekur alteregóið eitthvað með sér? Kannski er þetta eins og með ljósmyndir. Ég sé ekki hvernig spegilmynd mín breytist frá degi til dags þó hún sé síbreytileg, þróunin er bara of hæg. Ljósmynd af mér frystir hins vegar eitt andartak: svona leit ég út á þessari stundu og breytist ekki. Kannski var það þetta sem Barthes var að meina. Ljósmyndin geymir eitthvað sem maður getur aldrei náð aftur. Og alteregóið geymir einhverja hlið manneskjunnar sem hún sýnir annars ekki. Þegar alteregóið hættir að vera til verður þessi hlið eftir og birtist ekki aftur. Kannski er það bara þessi ljósmynd sem er alltaf birt af Ágústu, alvörugefinni í lopapeysu, sem kveikir svona bullhugsanir. Þetta er auðvitað leikur að andstæðum, sveitastúlkan alvörugefna og feimna sem leikur Silvíu Nótt. En sú Ágústa sem ég kynntist er meira í ætt við þessa hér. Einhvers staðar mitt á milli. En samt í lopapeysu.

Engin ummæli: