miðvikudagur, maí 31

Látið ganga til sem flestra

Nú skiptir máli að standa saman og senda skýr skilaboð til
ríkisstjórnarinnar varðandi framtíð álframleiðslu á Íslandi. Viðhengið er
bæklingur Íslandsvina - fulltrúi Alcoa hefur lýst því yfir að
ef 80% þjóðarinnar séu á móti veru þeirra hér muni þeir fara. 80%
Íslendinga eru 150.000 manns, svo ef Íslandsvinum tekst að safna
150.000 undirskriftum hlýtur Alcoa að þurfa að standa við orð sín. Leggið
málefninu lið, það er svo sannarlega þess virði!

http://www.islandsvinir.org/pet.asp

fimmtudagur, maí 25

been missing you

Ég veit ekki um ykkur, en ég sakna Silvíu Nóttar.

fögnuður

Fór á Fögnuð í kvöld. Það var enginn ófögnuður. Á eftir skeiðuðum við niður í Þjóðleikhúskjallara og horfðum á Pinter flytja Nóbelsverðlaunaávarpið sitt. Það var síst meiri ófögnuður.

... unas melonas de la hostia...

Miðvikudagskvöld á Laugarveginum í Reykjavík. Þrír útlendir karlmenn ganga á undan mér. Ungar stúlkur aka framhjá í bíl, hanga út um gluggann og gala eitthvað á þá. Þegar ég geng framhjá mönnunum segir einn þeirra akkúrat þetta: "Tenía unas melonas de la hostia!". Oft þegar ég heyri spænsku talaða langar mig til að stoppa fólkið og spjalla. En ekki í þetta sinn, var ekki alveg í stuði til að tala um íslenskar stelpur með melónur "de la hostia".

þriðjudagur, maí 23

Tommi orðinn öllu léttari

Sonur minn, Tommi litli, er orðinn léttari. Sem þýðir líklega að ég er orðinn afi. Kristján bóndi ætti kannski að mæta á fæðingardeildina og gefa litlu fjölskyldunni rúsínur? Svona fyrst það er í tísku að vera í þykjustuleik...

En svona í alvörunni, þá hafa þau eðalhjón Jón Geir og Nanna eignast stúlkubarnið Úlfhildi Stefaníu. Og eru þeim hérmeð sendar hjartanlegar hamingjuóskir.

mánudagur, maí 22

júró

Júró fór nokkurn veginn eins og það átti að fara. Gaman að sjá finnana uppskera eftir marga sultarvetur, hvað svo sem má segja um lagið sjálft. En eitt er mér fyrirmunað að skilja: Íslendingar gefa Dönum alltaf þetta 10-12 stig í hverri keppni. Samt finnst mér persónulega danska framlagið yfirleitt alltaf frekar vont og ekki stiganna virði. Eru þetta samantekin ráð?

föstudagur, maí 19

Nokkur lög. Fyrsta lagið tileinkað Ágústu/Silvíu, annað lagið í tilefni af því að þessi stórkostlegu skötuhjú eru að fara að spila á sveitaballi í Árseli í júní, og það síðasta af því að ég fór á magnaða tónleika með Joönnu Newsom á þriðjudaginn var, og þetta var uppklappslagið (sem ég valdi fyrir hana, hihi).
JF Sebastian - Where is my Mind
Ellen Allien & Apparat - Do Not Break
Joanna Newsom - Clam, Crab, Cockle, Cowrie

miðvikudagur, maí 17

jammjamm

Það eru voða margir eitthvað að dæsa yfir því hvað þessi SilvíuNóttbrandari sé orðinn þreyttur. Ekkert fyndið lengur. Við hverju bjóst fólk eiginlega? Síðan hvenær átti Silvía Nótt að vera fyndin og skemmtileg? Fyrst við kusum hana ber okkur eiginlega skylda til að fylgja henni alla leið. Enda er hún miklu frekar alteregó Íslands en alteregó Ágústu Evu. Og ég verð að segja, að þegar meir að segja Dr. Gunni segir að þetta sé þreytt, þá er eitthvað að virka.

Ég er eiginlega sammála Eiríki, og samlíkingin við Andy Kaufman er ekki svo galin. Sérstaklega núna þegar mörkin á milli Ágústu og Silvíu eru að verða óljósari. Sagði t.d. Silvía tæknimönnunum að fokka sér, því það var í samræmi við karakterinn? Eða leyfði Ágústa sér að segja þeim að fokka sér, því hún var þreytt og í fúlu skapi og gat skýlt sér á bakvið karakterinn? Og Silvía dregur sig í hlé af því að Ágústa verður veik. Eða var það öfugt? Það er auðvitað að renna upp fyrir fólki að fimmtudagskvöldið verður mögulega ekki fyndið og skemmtilegt, heldur óþægilegt og hrollvekjandi. En það verður ekki Íslandi til skammar. Óþægindin og "cringe"-faktorinn eru stór partur af Silvíu, rétt eins og með Ali G, The Office og þar áður Andy Kaufman. "This is carcrash Eurovision" var sagt á einhverri júró-heimasíðunni.

Það sem ég hins vegar sé eftir er allur fjárausturinn sem fer í þetta ævintýri. Það mætti gera margt og mikið í innlendri dagskrárgerð fyrir minni pening.

sunnudagur, maí 14

Ripp, Rapp og Garfunkel

Já, Hugleikur slúttaði vetrarstarfinu með glans, tónlistardagskrá í Þjóðleikhúskjallaranum á þriðjudag og fimmtudag í síðustu viku. Ég ætla að setja eitthvað af lögum úr dagskránni hérna næstu daga. Þetta held ég að gleðji marga, hin bráðskemmtilega sveit Ripp, Rapp og Garfunkel, sem skipuð er húsvíkingum að öllu leyti. Fyrra lagið er úr leikritinu Sálir Jónanna ganga aftur, lagið eftir Ármann Guðmundsson og textinn eftir Unni Gutt.
Ripp, Rapp og Garfunkel - Kotakot í Kotum
Seinna lagið er eftir Árna Hjartar og er úr leikritinu Ég bera menn sá (og birtist þar í talsvert ólíkri útgáfu).
Ripp, Rapp og Garfunkel - Sálmur Meyvants

þriðjudagur, maí 9

bjartsýnin í góða veðrinu

Alveg er ég viss um að það byrji að rigna 8. júlí og stytti ekki upp fyrr en 30. júlí. Þá er ég í sumarfríi.

mánudagur, maí 8

árbæjarsafn

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg að fatta þessa Árbæjarsafnsumræðu. Safnið er á fínum stað. Það er einmitt merkilegt að í umræðunni er enginn að gagnrýna staðsetningu safnsins. Það er vel sótt þar sem það er. Eina ástæðan fyrir flutningunum er að fólk virðist eitthvað sérstaklega áfram um að fylla upp í Viðey (eða Hljómskálagarðinn). En af hverju Árbæjarsafnið? Og af hverju bara nokkurn skapaðan hlut sem er ágætlega settur þar sem hann er? Og ef fólk vill fá líf í Viðey af hverju þá ekki bara að flytja, tja, Mosfellsbæinn út í Viðey, þá fylgir því allavega fólk? Annars legg ég til að Árbæjarlaugin verði flutt í Hljómskálagarðinn, orðinn hundleiður á því að taka alltaf strætó þarna uppeftir í hvert sinn sem soninn langar í sund.

miðvikudagur, maí 3

A.L.F.


Smekkvísi og vandvirkni háir oft íslensku leikhúsi. Á hinn bóginn eru smekkleysa, hryllingur, groddahúmor og líkamsvessar alltof sjaldgæf. En (S)Leikfélag Kópavogs bætir úr því. Nú er sýningin A.L.F. (sem stendur fyrir Andspyrnuhreyfingu Ljóta Fólksins) sýnd í félagsheimili Kópavogs, í sal leikfélagsins sem kallast Hjáleigan. Sýningin er urrandi skemmtileg og fyndin, miklir snillar þarna á ferðinni. Sýning í dag, fimmtudaginn 4. maí, kl. 21. Mæli með þessu. Eða eins og segir í leikskrá:

"Við Íslendingar erum falleg þjóð. Það er alkunna. Það veit hvert mannsbarn að þegar víkingarnir numu hér land voru þeir nýbúnir að henda þeim veiku, leiðinlegu og ljótu af í Færeyjum. En í hverju skipi leynast rottur. Og þær fjölga sér. Hratt. Ef ekki er gripið í taumana strax geta afleiðingarnar orðið hræðilegar. Hver ræður ljótt fólk í vinnu? Hver lánar ljótum manni pening? Hvað ef öll þjóðin verður ljót? Hvar stöndum við þá? Þá erum við strand. Strand í miðju Norður-Atlantshafi. Í ljótum málum, ef þið spyrjið mig. Lærum af Bretum. Eitt sinn heimsveldi, núna bara hlægilegir og ljótir..."

þriðjudagur, maí 2

óljóð og ljóð

Ljóðafélag var víst einu sinni starfandi sem hét Hugmyndir. Þetta var svona menntaskólafélag. Eða fjölbrautaskólafélag, þar sem þetta var á Akranesi (þar var reyndar líka starfandi á þeim tíma ljóðadúettinn Hjón og Slaghamar, skipaður þeim Bjarna Ármannssyni (já, þeim eina sanna) og Helga Steindal). Allavega, ég villtist inn í Hugmyndir, ekki af því að ég væri eitthvað mikið ljóðskáld, vildi meira vera svona memm. Vera menningarlegur. En þetta er langt síðan og ég fyrir löngu búinn að átta mig á því að ég er vont ljóðskáld. En viti menn, fór að gramsa í geymslunni um daginn og fann þá útgefið hefti með ljóðum meðlima Hugmynda. Ljóðin mín eru alveg jafn vond og mig minnti, ef ekki verri. Hérna er eitt:
Óp að vetri

Veturinn gægist á gluggann
líkt og nóttin
í huga mér.
Þú, hvar ert þú
sem kældir hjarta mitt?

Já, þarna er einhver angist á ferðinni, sjálfsagt ort í nóvember eða þaðan af kaldari mánuði. Og ég veit ekki einu sinni hvað í fjandanum ég var að fara hérna:
Blind ást

Í birtu örbylgjunnar
situr þú og dreymir.
Þínir menn voru ljóseindir
sprottnar í myrkri

Ef einhver finnur heila brú í þessu má hann/hún kommenta. Svo er eitt annað ljóð eftir mig í þessu hefti, en það er svo vandræðalega vont að mér dettur ekki í hug að setja það hérna. Ber bara öll merki þess að ég hafi hlustað yfir mig á Tom Waits, sándtrakkið úr Betty Blue og horft á of margar eitísmyndir með neonljósum.

En það eru samt fín ljóð þarna í þessu hefti eftir aðra. Hér er t.d. sýnishorn af verkum skáldkonunnar Testu, sem mætti nú alveg yrkja meira:
Sundsprettur

Með augu eins og útfjólubláir geislar
sem glóa.
Demantar í djúpri á
renna sem mjólk
inn í maga lítils unga
sem sýnist synda sakleysislega í syndandi tárum syndarinnarGeðveiki og gleði

Þá legg ég frá mér hnífinn
og hugsa.
En ekkert lengi
eða mikið
það er nefnilega svo ruglingslegt.
En so tek ég hnífinn og held áfram að skera.
Og mér er alveg sama um blóðið
enda segja þau að mér ætti að vera sama.
Þau segja nefnilega að ég sé geðveik.
En mér er alveg sama,
ég held bara áfram að skera.
Og ég brosi, af því að þau segja
að ég sé geðveik,
en ég segi að þau séu geðveik.
Þess vegna er ég að skera þennan,
mér fannst hann svo geðveikur.
Mér finnst það fyndið.

Testa mín, fyrirgefðu að ég sé að setja þetta hérna. Mér finnst þetta bara svo skemmtileg ljóð hjá þér :)

1. maí í Reykjavík 2006

Pólskir verkamenn unnu hörðum höndum við byggingarvinnu í Fischersundi. Á milli húsanna mátti sá mannfjölda og ómur af lúðrablæstri og ræðuhöldum íslensks millistéttarverkafólks barst með golunni. Og svo byrjaði að rigna.