þriðjudagur, maí 2

óljóð og ljóð

Ljóðafélag var víst einu sinni starfandi sem hét Hugmyndir. Þetta var svona menntaskólafélag. Eða fjölbrautaskólafélag, þar sem þetta var á Akranesi (þar var reyndar líka starfandi á þeim tíma ljóðadúettinn Hjón og Slaghamar, skipaður þeim Bjarna Ármannssyni (já, þeim eina sanna) og Helga Steindal). Allavega, ég villtist inn í Hugmyndir, ekki af því að ég væri eitthvað mikið ljóðskáld, vildi meira vera svona memm. Vera menningarlegur. En þetta er langt síðan og ég fyrir löngu búinn að átta mig á því að ég er vont ljóðskáld. En viti menn, fór að gramsa í geymslunni um daginn og fann þá útgefið hefti með ljóðum meðlima Hugmynda. Ljóðin mín eru alveg jafn vond og mig minnti, ef ekki verri. Hérna er eitt:
Óp að vetri

Veturinn gægist á gluggann
líkt og nóttin
í huga mér.
Þú, hvar ert þú
sem kældir hjarta mitt?

Já, þarna er einhver angist á ferðinni, sjálfsagt ort í nóvember eða þaðan af kaldari mánuði. Og ég veit ekki einu sinni hvað í fjandanum ég var að fara hérna:
Blind ást

Í birtu örbylgjunnar
situr þú og dreymir.
Þínir menn voru ljóseindir
sprottnar í myrkri

Ef einhver finnur heila brú í þessu má hann/hún kommenta. Svo er eitt annað ljóð eftir mig í þessu hefti, en það er svo vandræðalega vont að mér dettur ekki í hug að setja það hérna. Ber bara öll merki þess að ég hafi hlustað yfir mig á Tom Waits, sándtrakkið úr Betty Blue og horft á of margar eitísmyndir með neonljósum.

En það eru samt fín ljóð þarna í þessu hefti eftir aðra. Hér er t.d. sýnishorn af verkum skáldkonunnar Testu, sem mætti nú alveg yrkja meira:
Sundsprettur

Með augu eins og útfjólubláir geislar
sem glóa.
Demantar í djúpri á
renna sem mjólk
inn í maga lítils unga
sem sýnist synda sakleysislega í syndandi tárum syndarinnarGeðveiki og gleði

Þá legg ég frá mér hnífinn
og hugsa.
En ekkert lengi
eða mikið
það er nefnilega svo ruglingslegt.
En so tek ég hnífinn og held áfram að skera.
Og mér er alveg sama um blóðið
enda segja þau að mér ætti að vera sama.
Þau segja nefnilega að ég sé geðveik.
En mér er alveg sama,
ég held bara áfram að skera.
Og ég brosi, af því að þau segja
að ég sé geðveik,
en ég segi að þau séu geðveik.
Þess vegna er ég að skera þennan,
mér fannst hann svo geðveikur.
Mér finnst það fyndið.

Testa mín, fyrirgefðu að ég sé að setja þetta hérna. Mér finnst þetta bara svo skemmtileg ljóð hjá þér :)

Engin ummæli: