fimmtudagur, júní 29

heinstrakettnin

Búinn að kíkja á nokkra leiki, samt ekkert of marga. Svona er að hafa ekki Sýn. Kannski eins gott. Annars er þetta að mörgu leyti skrýtin keppni, ekki kannski síst vegna þess að þjóðverjar og argentínumenn reynast vera einna simpatískustu liðin. Öðruvísi mér áður brá. Allavega, áttaliðaúrslitin framundan og ég ætla að reyna að sjá einhverja leiki. Og ólíkt öllum öðrum spái ég því að allir leikirnir verði leiðindajafnteflisleikir með enn leiðinlegri framlengingum og vottnott, nema hvað Ítalía-Úkraína verður óvænt mikil skemmtun og drama. Úkraínumenn komnir miklu lengra en búist var við og hafa engu að tapa og Ítalir hafa allt að vinna auk þess sem þessi áföll heimafyrir koma bara til með að sameina þá enn meir. Brasilíumenn koma enn meir á óvart með hverjum leik með því að spila leiðinlegan fótbolta og toppnum verður náð í úrslitaleiknum, sem ég spái að verði Brasilía á móti Argentínu (vonandi) eða Þýskalandi (eins og reyndar allir aðrir eru að spá). Ætli það verði ekki leiðinlegasti úrslitaleikur síðan í USA '94 (sem náði þó að toppa allt). Enda sami þjálfari með brassana núna og þá. Vona samt að ég verði ekki sannspár. Bind vonir við að Argentínumenn haldi merkinu uppi og spili skemmtilegan bolta. Riquelme (borið fram "ríkelme") er nú orðinn uppáhaldsleikmaðurinn. Eitthvað heillandi við þennan þunglyndislega sóknarmiðjumann og leikstjórnanda sem nennir varla að hlaupa. Tevéz er líka skemmtilegur, sprækur og ófríður. Og það er ólíkt skemmtilegra að sjá hann tæta sig í gegnum vörn með tveimur snertingum en Cristiano Ronaldo gera einhverjar endalausar slaufur sem ekkert verður úr. Allavega: ¡Viva Argentina!

miðvikudagur, júní 28

bílar og hjól

Hjólreiðatúr á sunnudaginn endaði í bíóferð. Sáum Bíla í Háskólabíó. Allt í lagi mynd, slakasta Pixar-myndin til þessa, en mér leiddist ekkert svo mikið. Samt verð ég að segja að talsetningin var ömurleg. Íslendingar eru alltaf að monta sig af því að Disney-myndirnar eru vel talsettar á Íslandi og hvað Disney er hrifið af íslensku talsetningunum, en mér finnst þetta bara vera bull. Það er ekki það að þýðingarnar séu slæmar, né heldur að raddirnar passi ekki við karakterana. Þvert á móti. Hins vegar reyna leikararnir alltaf, af einhverri óskiljanlegri ástæðu, að elta amerísku áherslurnar og ýkja þær ef eitthvað er. Fyrir vikið vingsast þeir áttundanna á milli í sömu setningunni í einhverjum undarlegum tónaröðum sem ættu betur heima í óperu eftir Atla Heimi. Hrollvekjandi.

laugardagur, júní 24

"Kraftaverk!"

... kallaði drengurinn úti í garði. "Pabbi, komdu og sjáðu, þetta er rosalega flott." Reykurinn steig upp af grillinu og fyllti eitt horn garðsins. Geislar kvöldsólarinnar tróðu sér í gegnum laufþykknið í garði nágrannans og þegar þeir smugu í gegnum reykinn mynduðust fallegir sólstafir yfir kvöldmatnum. "Það er eins og guð sé að brenna!", sagði pilturinn loksins. Now, there's a thought ...

súpermann

Sonur minn er á því stigi bernskunnar að þykja ofurhetjur rosalega merkilegar. Ég ákvað því að tími væri til kominn að kynna hann fyrir aðal, nubbnilega súpermanni og við leigðum gömlu myndina með Christopher Reeve. Almennileg ofurhetja sem getur allt, þá voru menn menn og hetjur riðu um héröð, duttu af baki og lömuðust. Æææ, þetta var nú ósmekklegt. En allavega, ekki fannst honum myndin skemmtileg, fannst vanta allt fútt í hana, lokabardaginn væri enginn lokabardagi (þarna kemur pleisteisjónsindrómið sterkt inn). Og ég er svosem sammála, hún hefur ekki elst sérstaklega vel. Nema hvað Reeve og Kidder eru sjarmerandi. Tæknibrellurnar barn síns tíma og inn á milli koma alltaf stórskrýtnar ljóðrænar senur sem gera kannski ekki alltof mikið fyrir myndina. En samt, gaman að rifja hana upp. En ég held ég sleppi II, III og IV.

mánudagur, júní 19

prototypes

Þetta band er drullukúlt. Og nei, ég keypti þetta ekki hjá Dr. Gunna, en fann það samt á blogginu hans. Mig langar til Parísar. Djöfull voru Ghanamenn flottir á því. Útvarpsútgáfan á blogginu hennar Þórdísar er mjög flott. Hún reynist líka vera með þessa fínu útvarpsrödd. Sem fer ekki alltaf saman. Eða kannski. Hvað veit ég. Ég er annars farinn að spá alvarlega í því hvort heimildarmyndin stefni í að verða eitthvað flopp. Sem gerir þetta kannski bara spennandi. Verst hvað maður er svo gjörsamlega ófær um að meta hvort sköpunarverk manns séu góð eða ekki.

föstudagur, júní 16

Eyddi alveg helling af peningum í að kaupa diska af Dr. Gunna. Held ég hafi keypt eitthvað um 20 stykki (ekki búinn að telja) og vildi kaupa helling í viðbót. Hefði tekið allt klabbið hefði ég getað. Og mörg er þar matarholan. Tók þann pólinn í hæðina að kaupa helst það sem ekki væri hægt að fá í búðum hér. Ekkert meinstrím drasl. Reyndist hafa mestan áhuga á japönsku poppi. Og svo læddist með hin og þessi snilldin. Kannski set ég eitthvað af því hérna inn á næstunni. Jamm.

sunnudagur, júní 4

laugardagur, júní 3

þau eiga ammælídag

Magnús Grímsson á afmæli í dag. Og Hulda Hákonar á líka afmæli í dag. Í tilefni af því er hér lag úr Bónorðsförinni, leikriti Magnúsar og fyrsta leikritinu sem Hugleikur setti upp. Lagið er eftir Eirík Árna Sigtryggsson. Upptakan gerð á tónlistardagskrá Hugleiks í maí síðastliðnum, Björn Thorarensen syngur.
Úr Bónorðsförinni - Bónorðsfararlok

ertu klukkaður maður?!

Varríus klukkaði mig fyrir margt löngu, og ég ætla að ljúka því af hér.

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Úff púff, þessi er erfið. Held ég geti ekki nefnt bara eina bók, svo ég tel upp nokkrar (og er örugglega að gleyma einhverjum krúsjal bókum):

Thor Heyerdahl - Kon Tiki og Í brúðkaupsferð. Í kringum 1950 voru þýddar ferðasögur ansi vinsælar hér á landi. Afi átti ógrynnin öll af þessu og 10 ára gamall hámaði ég þær í mig, lá yfir landabréfabókum og lét mig dreyma um framandi slóðir. Þessar tvær las ég aftur og aftur og þær höfðu svo sterk áhrif á mig að enn á ég mér þann draum að heimsækja frönsku pólinesíu, klifra í pálmatrjám og kafa í tærum sjó. Skil ekki af hverju ég er ekki löngu búinn að því.

Búlgakov - Meistarinn og Margaríta. Þetta var eiginlega fyrsta heimsbókmenntið sem ég las. Dúndur.

Jón Guðmundsson Lærði - Spánverjavígin. Einhver magnaðasta bók sem hefur verið skrifuð á íslensku. Ég veit að margir eru hrifnir af Píslarsögunni, en þessi fær mitt atkvæði.

Haruki Murakami - Dance Dance Dance. Ekki besta bók Murakamis, svona bókmenntalega séð, en af einhverjum ástæðum hafði hún mikil áhrif á mig. Gekk í gegnum rosalegt Murakami-æði í kringum '95, gekk meir að segja svo langt að panta bækur frá Japan (á ensku reyndar). Þetta er eina bókin sem ég lét hann árita þegar hann kom hingað um árið.

2. Hvaða tegund bóka lestu helst? Skáldsögur, krimma, ævisögur, ljóð eða eitthvað annað?

Flest allt. Nenni reyndar voða lítið að lesa krimma (á Arnald t.d. alveg eftir), en les þá ef þeir bjóðast. Tek ljóðatarnir og á mín uppáhalds. Ef óperuaríur eru vel sungnar geta þær verið æðislegar. Ef ekki eru þær mann lifandi að drepa. Ljóð eru svipuð, nema maður þarf ekki að halda fyrir eyrun.

3. Hvaða bók lastu síðast?

Ég man það ekki. Er oft með 3-5 í gangi í einu. Er núna að lesa Rip it up and start again, Skugga vindsins, ¿Dónde estas, Ulalume, dónde estas? (spænskt leikrit um síðustu daga Edgars Allans Poe) og Children with Tourette. Jú, alveg rétt. Kláraði Angels and Demons e. Dan Brown um daginn. Fljótlesið helvítis bull það. En ágæt sem slík.

4. Hvurs kyns ert þú?

Piltur.

Og klukka já? Kristínu parísardömu, Ármann Jakobs, Sigguláru og Þórunni Gretzel.