laugardagur, júní 3

ertu klukkaður maður?!

Varríus klukkaði mig fyrir margt löngu, og ég ætla að ljúka því af hér.

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Úff púff, þessi er erfið. Held ég geti ekki nefnt bara eina bók, svo ég tel upp nokkrar (og er örugglega að gleyma einhverjum krúsjal bókum):

Thor Heyerdahl - Kon Tiki og Í brúðkaupsferð. Í kringum 1950 voru þýddar ferðasögur ansi vinsælar hér á landi. Afi átti ógrynnin öll af þessu og 10 ára gamall hámaði ég þær í mig, lá yfir landabréfabókum og lét mig dreyma um framandi slóðir. Þessar tvær las ég aftur og aftur og þær höfðu svo sterk áhrif á mig að enn á ég mér þann draum að heimsækja frönsku pólinesíu, klifra í pálmatrjám og kafa í tærum sjó. Skil ekki af hverju ég er ekki löngu búinn að því.

Búlgakov - Meistarinn og Margaríta. Þetta var eiginlega fyrsta heimsbókmenntið sem ég las. Dúndur.

Jón Guðmundsson Lærði - Spánverjavígin. Einhver magnaðasta bók sem hefur verið skrifuð á íslensku. Ég veit að margir eru hrifnir af Píslarsögunni, en þessi fær mitt atkvæði.

Haruki Murakami - Dance Dance Dance. Ekki besta bók Murakamis, svona bókmenntalega séð, en af einhverjum ástæðum hafði hún mikil áhrif á mig. Gekk í gegnum rosalegt Murakami-æði í kringum '95, gekk meir að segja svo langt að panta bækur frá Japan (á ensku reyndar). Þetta er eina bókin sem ég lét hann árita þegar hann kom hingað um árið.

2. Hvaða tegund bóka lestu helst? Skáldsögur, krimma, ævisögur, ljóð eða eitthvað annað?

Flest allt. Nenni reyndar voða lítið að lesa krimma (á Arnald t.d. alveg eftir), en les þá ef þeir bjóðast. Tek ljóðatarnir og á mín uppáhalds. Ef óperuaríur eru vel sungnar geta þær verið æðislegar. Ef ekki eru þær mann lifandi að drepa. Ljóð eru svipuð, nema maður þarf ekki að halda fyrir eyrun.

3. Hvaða bók lastu síðast?

Ég man það ekki. Er oft með 3-5 í gangi í einu. Er núna að lesa Rip it up and start again, Skugga vindsins, ¿Dónde estas, Ulalume, dónde estas? (spænskt leikrit um síðustu daga Edgars Allans Poe) og Children with Tourette. Jú, alveg rétt. Kláraði Angels and Demons e. Dan Brown um daginn. Fljótlesið helvítis bull það. En ágæt sem slík.

4. Hvurs kyns ert þú?

Piltur.

Og klukka já? Kristínu parísardömu, Ármann Jakobs, Sigguláru og Þórunni Gretzel.

Engin ummæli: