fimmtudagur, júní 29

heinstrakettnin

Búinn að kíkja á nokkra leiki, samt ekkert of marga. Svona er að hafa ekki Sýn. Kannski eins gott. Annars er þetta að mörgu leyti skrýtin keppni, ekki kannski síst vegna þess að þjóðverjar og argentínumenn reynast vera einna simpatískustu liðin. Öðruvísi mér áður brá. Allavega, áttaliðaúrslitin framundan og ég ætla að reyna að sjá einhverja leiki. Og ólíkt öllum öðrum spái ég því að allir leikirnir verði leiðindajafnteflisleikir með enn leiðinlegri framlengingum og vottnott, nema hvað Ítalía-Úkraína verður óvænt mikil skemmtun og drama. Úkraínumenn komnir miklu lengra en búist var við og hafa engu að tapa og Ítalir hafa allt að vinna auk þess sem þessi áföll heimafyrir koma bara til með að sameina þá enn meir. Brasilíumenn koma enn meir á óvart með hverjum leik með því að spila leiðinlegan fótbolta og toppnum verður náð í úrslitaleiknum, sem ég spái að verði Brasilía á móti Argentínu (vonandi) eða Þýskalandi (eins og reyndar allir aðrir eru að spá). Ætli það verði ekki leiðinlegasti úrslitaleikur síðan í USA '94 (sem náði þó að toppa allt). Enda sami þjálfari með brassana núna og þá. Vona samt að ég verði ekki sannspár. Bind vonir við að Argentínumenn haldi merkinu uppi og spili skemmtilegan bolta. Riquelme (borið fram "ríkelme") er nú orðinn uppáhaldsleikmaðurinn. Eitthvað heillandi við þennan þunglyndislega sóknarmiðjumann og leikstjórnanda sem nennir varla að hlaupa. Tevéz er líka skemmtilegur, sprækur og ófríður. Og það er ólíkt skemmtilegra að sjá hann tæta sig í gegnum vörn með tveimur snertingum en Cristiano Ronaldo gera einhverjar endalausar slaufur sem ekkert verður úr. Allavega: ¡Viva Argentina!

Engin ummæli: