sunnudagur, ágúst 27

þar stendur hnífurinn í svuntuþeysinumÉg kenni aðallega Human League og Depeche Mode um, en ég er alveg forfallinn tölvupoppfíkill (snemma beygist krókurinn og allt það). Tölvupopp er misgott, þegar vel tekst til er það krisp og kúl en í verstu tilfellunum er þetta versta tónlist í heimi. Þetta byrjaði auðvitað vel, Kraftwerk gáfu tóninn og bretarnir tóku svo örgjörvann upp á sína arma og náðu skrýtnum hljóðum út úr frumstæðum svuntuþeysum, en tókst samt einhvern veginn að setja þetta garg í óvænt poppsamhengi. Nægir þar að benda á téða Human League. Þegar lengra leið fóru svuntuþeysarnir að vera fullkomnari og hljóðin fágaðri og gátu hermt þokkalega eftir raunverulegum hljóðfærum, allavega nógu mikið til að maður gæti numið hvaða hljóðfæri væri verið herma eftir. Tónlistin hins vegar versnaði mikið við þetta. Hvað er hallærislegra en gervistrengir í popplagi? Eða gerviflauta? O.s.frv.

Gamla góða tölvupoppssándið hefur samt aldrei dáið, alltaf skotið upp kollinum af og til, í tekknóinu, drömmennbeisinu og öllu þessu sem ég man ekki einu sinni hvað heitir. Og elektróklassið sem nú þykir svalast af öllu svölu sækir mikið í þennan tíma. Nýjasta dellan hjá mér er sænska systkinadúóið The Knife, þau Olof Dreijer og Karin Dreijer Andersson. Það sem getur gert tölvupopp svo heillandi er samspil mannsraddarinnar og vélræns undirleiksins. Ég held að þessar andstæður hafi m.a. gert það að verkum að Human League varð svona vinsæl á sínum tíma, undirleikurinn var kuldalegur og framandi, en yfir krúnaði Phil Oakey með fagurlega farðað andlit hulið til hálfs af dökkum haddi. Allavega, The Knife. Þau systkyn leika sér talsvert með mannsröddina, Karin syngur og röddin er meðhöndluð eins og hvert annað hljóð, dimmar raddir eru t.d. hennar rödd í hægri spilun o.s.frv. Útkoman er heillandi. Þessi lög eru búin að vera á ripít hjá mér undanfarið. Þau koma öll af nýjustu plötu þeirra, Silent Shout.
The Knife - Silent Shout
The Knife - Marble House
The Knife - Forest Families
Þekktasta lagið þeirra (kannski ekki þekkt, en alveg séns að fólk hafi heyrt það) er þetta hér. Reyndar þekktast í flutningi José Gonzales, þess flinka trúbadúrs.
The Knife - Heartbeats
José González - Heartbeats

Engin ummæli: