sunnudagur, ágúst 20

uppgötvanir á menningarnótt

  1. Það er betra að byrja daginn snemma. Við feðgar kíktum í bæinn upp úr kl. eitt og gengum upp og niður Laugaveginn. Villtumst óvart inn í glænýja mexíkóska búð, þar sem ég fékk tækifæri til að viðra spænskuna og keypti tortilla-mjöl og tortilla pressu. Þessi búð er æðisleg, frábærar vörur og vingjarnlegt starfsfólk, er á Laugavegi sjötíu og eitthvað, skáhalt á móti Landsbankanum. Drengurinn fékk Bionicle-kall og Gollum-brúðu (ekki þó í mexíkósku búðinni), og þegar klukkan var að verða fjögur var bærinn orðinn vel troðinn og okkur fannst fínt að fara þá bara heim. Nýbakaðar tortillapönnukökur í kvöldmatinn. Namminamm.
  2. Það eru svo mörg tónleikasvið í gangi og allir hækka í botn til að yfirgnæfa hina. Við héldum aftur í bæinn upp úr átta, hefðum betur mátt bíða með það. Tróðumst í gegnum miðbæinn með harmkvælum, tónlist að æra mann úr öllum áttum (kannski vantaði bara bjórinn til að deyfa skilningarvitin).
  3. Ég næ ekki hvað fólk sér við Baggalút. Þeir eru fyndnir á prenti (oft meira að segja mjög fyndnir), en sem tónlistarmenn eru þeir frekar leiðinlegir. Lögin óeftirminnileg og slöpp, þeir eru ekki góðir söngvarar, textarnir eru ekki eins fyndnir og þeir halda og það er hætt að vera fyndið að vera kántríhljómsveit (og ennþá ófyndnara að tönglast alltaf á "köntríi"). Ofmetin sveit, meira að segja ofmetnari en Sigur Rós.
  4. Flugeldar standa alltaf fyrir sínu. Það var líka gaman að sitja í rólegheitum á klöppunum við Sæbrautina og njóta herlegheitanna.

Engin ummæli: