sunnudagur, september 10

hvernig ætli það sé að drepa mann?

Er eitthvað óeðlilegt við þessa spurningu? Er eitthvað óeðlilegt við það að fólk velti dauðanum fyrir sér, sérstaklega ungt fólk sem er að uppgötva sjálft sig og lífið og allar þær sensasjónir sem því fylgir. Hvernig ætli það sé að deyja? Hvernig ætli það sé að drepa einhvern? Ég hef örugglega velt þessu einhvern tímann fyrir án þess að sú hugsun beinist að neinum sérstökum og ekkert óeðlilegt við það, hluti af því að vera lifandi og vita að maður sjálfur og aðrir í kringum mann eru dauðlegir og að markalínan á milli lífs og dauða er örmjó. Það er okkur eðlislægt að hugsa af og til um endimörk tilverunnar. Flestir hugsa þó ekkert frekar um þetta og snúa sér að öðru, aðrir skrifa kannski sögu eða ljóð eða leikrit út frá þessari hugsun. Svo er alltaf séns á að einhver stígi yfir markalínuna og ákveði að prófa þetta í reynd.

Samt fæ ég á tilfinninguna að fréttamönnum finnist það aðalmálið í fréttum um piltinn ógæfusama sem stakk annan mann í bakið, að honum skyldi hafa dottið þetta í hug. Að honum langaði að prófa að drepa mann, ekki það að hann hafi reynt það. Ekkert annað kemur fram um hvað í ósköpunum var í gangi. Og sálfræðingar, sem virðast hættir að vita nokkurn skapaðan hlut í sinn haus, blaðra um tölvuleiki og sjónvarp, án þess að nokkurn tímann komi fram hvort drengurinn spilaði tölvuleiki eða ekki. Aðalmálið virðist semsagt vera að pilturinn hugsaði þessa hugsun, að það sé óeðlilegt að unglingur hugsi um dauða sinn eða annarra. Hugsunin er lögð að jöfnu við verknaðinn. Ef þú hugsar um að drepa mann ertu morðingi. Ef þú hugsar um að sprengja hús ertu hryðjuverkamaður. Ekki hugsa, þá verður allt í lagi með þig. Fyrir vikið birtist pilturinn okkur sem einhliða skrýmsli, en við erum engu nær um hann sem manneskju.

Óhugnaðurinn birtist ekki í hugsuninni og ekki nema að hluta til í verknaðinum. Hann birtist fyrst og fremst í því að markalínan hefur verið rofin, í siðblindunni og skorti á samlíðan sem þarf til að fremja slíkt verk. Við erum minnt á að aðrir geti ákveðið að stíga yfir línuna af yfirlögðu ráði. Öryggi okkar er ógnað. En erum við virkilega orðin svo innilokuð í okkar verndaða hugmyndaheimi að við sjáum þetta ekki lengur sem öfgakennt og sjúklegt en í sjálfu sér mannlegt viðbragð við lífinu, heldur sem eitthvað ómannlegt eða dýrslegt? Ég finn þó mest til með foreldrum drengsins, sérstaklega þegar umræðan fer að snúast um skort á aga og slæmt uppeldi, án þess að nokkurn tímann komi fram hvernig uppeldi drengsins var háttað.

Engin ummæli: