mánudagur, október 30

afsakið á meðan ég æli

Já, ekki var lýsingin falleg. Strákur pissar á stelpu. Oj bara. Og þetta er alveg frétt svosem, hafi fólk smekk fyrir slíku. Þegar ég horfði á fréttina í sjónvarpinu varð ég hneykslaður, ég hló upphátt og varð svo reiður. Ekki út af efninu, heldur helvítis fréttamanninum. Hvers konar fífl er maðurinn (horfið á fréttina á rúv til að vita um hvern ég er að tala)?

Sko, í fyrsta lagi. Piss er frekar ógeðslegt, sérstaklega úr öðru fólki. Og mig langar ekkert til að láta pissa á mig. Sem kemur málinu nákvæmlega ekkert við. Greinilega var fréttamaðurinn yfir sig hneykslaður og fannst þetta ógeðslegt. Og ekkert að því. En hann gerði það sem hann á ekki að gera í sínu starfi: Hann ákvað að slá sig til riddara og hneykslast frammi fyrir alþjóð á kostnað fólks sem hann hefur aldrei séð og aldrei talað við.

Eins og ég segi, ef einhverjir vilja stunda sína list með þvagláti er það barasta allt í lagi. Mig langar að vísu ekki til að fylgjast með því, en það er líka mitt mál. Og fólkið (ég ætlaði að skrifa krakkarnir, en þetta eru nefnilega engir krakkar) gerði þetta heldur ekkert á almannafæri heldur í skólastofu og voru ekki að bögga neinn. Verri hlutir hafa eflaust gerst inni í svefnherbergjum góðborgara þessa lands. En fréttamaðurinn var hneykslaður, það var greinilegt. Að slíkt skuli viðhaft í skólum landsins og sem hluti af námi þótti honum greinilega ekki boðlegt. Svo hneykslaður að hann ákvað að hætta að vera hlutlaus fréttamaður að flytja frétt. Og þá kom að því þegar ég hló upphátt:

Í niðurlaginu sagði fréttamaðurinn eitthvað á þá leið að fréttastofan hefði rætt við tugi leikara og leikstjóra sem hefðu sagt að fólk á fyrsta ári í leiklistarnámi, hvorki persónulega né faglega, hefðu engar forsendur til að framkvæma slíkan gjörning. Halló?!! Er ekki allt í lagi með þetta fólk? Í fyrsta lagi: fólk í þessu námi (þetta var víst ekki leiklistarnám heldur leikhúsfræði, ef ég heyrði rétt) er fullorðið fólk. Það er eldra en tuttugu ára. Mörg eru nær þrítugu en tvítugu. Þau mega kjósa. Þau mega detta í það. Þau eru lögríða. Auðvitað geta þau tekið ákvörðun um það hvort á þau sé migið eða ekki í listrænni sköpun. Það kemur málinu ekkert við hvort þau séu á fyrsta ári í leiklist eða síðasta ári í myndlist eða bara alls ekkert í námi. Fólk fer ekki í leiklistarskólann til að læra "hvað megi ganga langt í list sinni". Til þess notar það heilbrigða skynsemi. Um leið og listamenn láta einhverja teprulega smáborgara segja sér hvað megi og megi ekki á það bara að hætta þessu brasi. Djöfuls bull. Get a life! Og fréttamaðurinn má gjarnan bara skrifa lesendabréf í moggann næst þegar honum verður svona mikið niðri fyrir. Ef hann vill að fólk taki mark á honum sem fréttamanni, þ.e.a.s.

Og ef þetta átti að vera einhvers konar áfellisdómur yfir leiklistarskólanum, þá má benda á að búningsklefar íþróttafélaganna hafa löngum verið gróðrarstía eineltis og ógeðs í gegnum tíðina. Sem er miklu verra en þetta, svona ef einhverjum dettur í hug að fara að hengja bakara fyrir smið. Og hana nú.

Engin ummæli: