sunnudagur, október 22

airwaves

Jæja þá er erveifs búið. Best að gera upp herlegheitin. Þið sem engan áhuga hafið getið þá bara hætt að lesa núna. Næs míting ja!

Allavega. Miðvikudagurinn var rólegur, sá Retro Stefson og Diktu. Retro voru skemmtileg og eiga örugglega eftir að batna. Diktu var ég ekkert að fíla of vel. Búinn að heyra aðeins of margar svona Coldplay/Muse/Radiohead hljómsveitir sem taka sig of alvarlega.

Fimmtudagurinn var öllu skemmtilegri. Byrjaði á Mates of State, þau voru fín svo langt sem það náði. Ég hef ekki hlustað mikið á þau, og þau voru ekki mikið að reyna að ná sambandi við áhorfendur. Samt er ég búinn að vera með Fraud in the 80's á heilanum eftir tónleikana.

Mates of State - Fraud in the 80's

Þaðan skaust ég á Nasa og náði Lay Low, sem var frábær. Hugsa að nýi diskurinn hennar lendi í safninu bráðum. Á leiðinni til baka á listasafnið skaust ég inn á Gaukinn og hlustaði á 2-3 lög með Skakkamanage. Þau voru ekki alveg að virka fyrir mig. Mér finnst diskurinn fínn, en þarna voru þau búin að bjóða einhverjum helling af vinum sínum upp á svið (m.a. Benna Hemm og Örvari í Múm) og þetta virkaði allt frekar of kaótískt. Kannski batnaði það þegar á leið, ég missti þá af því. Næst voru Tilly and the Wall sem voru ansi skemmtileg og skrýtin. Skrýtna elementið var steppdansarinn sem sló taktinn. Tónlistin er einfalt singalong-popp sem svo mjög er vinsælt um þessar mundir. Kannski ekkert sem snýr heiminum á hvolf, en skemmtilegt engu að síður. Og stelpurnar í bandinu voru sætar.

Tilly and the Wall - Sing Songs Along

Næst var það Nasa. Reykjavík! voru frábærir, hef aldrei séð þá læf fyrr en það var vel þess virði. Metric voru næst. Ég er ekkert of hrifinn af þeim en þau komu á óvart, voru mun rokkaðri en ég bjóst við. Reyndar voru þau alltof mikið að leika rokkstjörnur og Emily söng og pósaði mest fyrir ljósmyndarana framan af en reyndi ekkert að ná sambandi við áhorfendur. Svo gleymdu þau sér í lokalaginu, Dead Disco, og þá fór þetta að virka fyrir alvöru, fídbakk og læti. Love is All kláruðu, ég er frekar svag fyrir svona krúttpönki auk þess sem saxófónleikarinn er bráðfyndinn náungi. Nördalegur sláni, hann reyndi að kasta hristunni sinni tvisvar sinnum upp í loft og tókst í hvorugt skiptið að grípa hana, í fyrra skiptið lenti hún í ljósmyndaragryfjunni og í það seinna í hausnum á söngkonunni. Skemmti mér allavega vel.

Föstudagurinn var útpældur. Mætti snemma á Gaukinn og ætlaði aldeilis ekki að missa af Wolf Parade. En þegar á leið og staðurinn fór að fyllast gafst ég upp og fór yfir í Listasafn. Sem var ekkert verra. Apparat var að klára þegar ég kom, þeir eru alltaf flottir. Jakobínarína voru næstir. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé þá á tónleikum og þeir voru fáránlega skemmtilegir. Ekki veit ég hvernig þeir fara að þessu, tónlistin er frekar einhæf til lengdar, og söngvarinn getur varla talist lagvissasti maður í heimi. En það er eitthvað kaos, eitthvað ungæðislegur bjánagangur sem heldur þessu öllu saman. Minnir að ég hafi fengið sömu tilfinningu fyrir Botnleðju þegar ég sá þá einu sinni þegar þeir voru að byrja. Go! Team voru næst og ollu ekki vonbrigðum. Þau reyndu ekki að halda öllum sömplunum sínum til haga en bættu í hávaðann og úr varð einhvers konar blanda af Sonic Youth hávaðavegg og klappstýrusöng. Hið besta mál.

Eftir það kíktum við aðeins á Grand og náðum nokkrum lögum með Gavin Portland. Fór svo með ghostdog jr. og Hjálmari yfir á Þjóðleikhúskjallarann til að sjá Trost. Vissi ekki neitt um hana og því kom hún skemmtilega á óvart. Tónlistin einhvers konar blanda af þýskum kabarett, Morricone og Nick Cave og söngkonan, Trost, mætti á svið með rauðvínsflöskuna í hendi og drakk af stút. Hún prílaði upp á borðin og reyndi að draga míkrafóninn með sér sem hljóðmaðurinn var ekkert of hrifin af og toguðust þau á um míkrófónsnúruna áhorfendum til skemmtunar. Svo datt hún yfir hátalarana á sviðinu og þegar rauðvínið var búið rændi hún bjór af einum áhorfanda. Þess á milli söng hún lög og sagði undarlegar sögur á milli um presta og hunda í ástralíu sem standa á nestiboxum þar til þeir deyja. One classy lady.

Trost - I Was Wrong

Laugardagurinn byrjaði á íhugun og rólegheitum í Fríkirkjunni, þar sem Jóhann Jóhannsson flutti nokkur verk ásamt strengjakvartett. Magnaður flutningur í alla staði, en ég er líka mikill aðdáandi Jóhanns.

Jóhann Jóhannsson - The Sun's Gone Dim and the Sky's Turned Black

Um kvöldið staldraði ég við á Iðnó og náði nokkrum lögum með Sigga Ármanni. Hef ekki séð hann spila áður, hafði heyrt nokkur lög en að sjá hann flytja þau á sviði var frekar magnað, á afar lágstemmdan hátt. Úlpa var næst, þeir voru flottir að vanda (hvað sem greipvæn segir), reyndar mátti finna fyrir einhverju óöryggi hjá þeim. Walter Meego voru ekkert að heilla mig. Þeir reyna að vera einhvers konar blanda af Ratatat og Hot Chip, en tekst ekki alveg. Bestir voru þeir í síðasta laginu, þá gleymdu þeir sér og duttu í hreint teknó. Hefðu mátt gera meira af því. Benny Crespo's voru góð að vanda, verulega þétt og flott. Að vísu finnst mér þau detta aðeins of oft í eitthvað prog-dúllerí á milli laga og kaflaskiptingarnar oft óþarfar. Gætu alveg orðið besta band landsins ef þau þróast eins og ég vil að þau þróist ;) Og Lovísa má gera meira af því að syngja, flott söngkona. Eftir Benny stikuðum við Hjálmar upp í Þjóðleikhúskjallara og náðum í skottið á Hjaltalín. Þau voru býsna skemmtileg og verður gaman að sjá hvað kemur frá þeim. Einhver Þursa/Spilverksfílingur í gangi. Mr. Silla & Mongoose voru næst og satt að segja varð ég fyrir pínulitlum vonbrigðum, kannski vænti ég of mikils. Þessi blanda þeirra, elektrónískt grúf og blúsaður söngur, kemur oft mjög vel út og dæmið gengur t.d. algerlega upp í Ten Foot Bear. Hins vegar fór það oft svo í öðrum lögum að þau fundu gott grúv og Silla söng blúsaða melódíu yfir, en svo gerðist ekkert meir, eins og þau vissu ekki alveg hvert þau væru að fara með þessu. En þau eiga eflaust eftir að verða betri. Kannski er þetta angi af því sem er svolítið áberandi í íslensku indípoppi: það þykir ekki kúl að semja lög, heldur vera mínímalískur og grúví. Halda kúlinu en hafa svo ekkert að segja. Eða hvað?

Mr. Silla & Mongoose - Ten Foot Bear

Næstu tveir listamenn voru algjör andstæða við þetta: frábærir lagahöfundar og ófeimnir við að vera einlægir og hafa eitthvað að segja. Ég heyrði fyrst í Jens Lekman í vor og platan hans nýja er búin að vera að síga hægt og rólega í kollinn á mér. Fallegar melódíur og skemmtilegir textar. Hann mætti einn á sviðið með lítinn kassagítar og tók þetta með trompi. Hann var einlægur og fyndinn, mikið sjarmatröll, sagði fyndnar sögur á milli laga og hafði áhorfendur í hendi sér allan tímann. Ekki sakaði að Erlend Öye söng með og spilaði á feiktrompet í einu lagi og Benni Hemm Hemm spiluðu með í síðasta laginu, öllum að óvörum. Eftir Lekman var ég sannfærður um að þetta hefði verið hápunktur hátíðarinnar en það var nú öðru nær. Stígur á sviðið Patrick nokkur Watson og hljómsveit hans. Ekki vissi ég neitt um hann nema hvað hann væri frá Montreal, vinur Wolf Parade o.s.frv. Og hann átti kvöldið. Röddin ekki ósvipuð rödd Jeff Buckleys, en tónlistin ekki, sem performer er hann mjög innlifaður án þess að taka sig alvarlega og bandið var ótrúlega gott. Fyrir mér var Watson hápunkturinn, kannski voru aðrir tónleikar sem náðu sömu hæðum, en það er eitt að sjá hljómsveitir sem maður þekkir og annað að sjá hljómsveitir sem maður þekkir ekkert og ná samt að heilla mann.

Patrick Watson - Luscious Life

Allavega er ég mjög sáttur með Airwaves. Fyrir utan fíaskóið með Wolf Parade á Gauknum. Þvílíkt klúður var það.

Engin ummæli: