þriðjudagur, janúar 30

á laugardaginn verð ég 495 kr fátækari

Já, ekki félegt. Leti, andleysi og ofvirkni ytri tilveru veldur fálæti í bloggskrifum. Og þegar loks er pundað á lyklaborð er það um júróvisjón.

Ég horfði svona með öðru auga á síðustu tvö kvöld, aðallega af því að ég er með masókískan fetish fyrir aulahrolli. Leyfði svo syni mínum að kjósa Richard Scobie af því að kennarinn hans söng bakraddir. En nú er ljóst að ég kýs eins og vitlaus maður næsta laugardag. Besta íslenska júróvisjónlagið ever er nefnilega komið fram. Doktorinn á helvítis keppnina, fyrsta íslenska júróvisjónlagið sem hljómar eins og lag en ekki gaul. Segi og skrifa. Ef þetta vinnur ekki og fer til Helsinki þá bara... læt ég Lordi éta ykkur öll. Efast reyndar ekki um að það er fullt af plebbum sem finnst rosa sniðugt að senda Eirík Hauksson eða Friðrik Ómar. Allavega spandéra ég öllum mínum atkvæðum á þessa snilld. Ég veit að Trausti á sína aðdáendur þarna úti, en sorrý, þetta ber bara höfuð, herðar og hupp yfir öll önnur lög í blessaðri keppninni. Allavega, hér er það, ekki lítill Belle & Sebastian keimur (sem er hreint ekki verra):

Dr. Gunni - Ég og heilinn minn

mánudagur, janúar 29

What is also new and old is that MP3s return music to experience rather than being things, commodities. To some extent this technology also returns music to the social experience it always was, maybe not in the way Microsoft would like to link to in their ads for Zune, and not entirely about file sharing either, but somehow. It’s information, communication, as it once was.

Odd that the digitizing of audio was developed, I think, by Bell Labs, many years ago, as a way of squeezing more conversations over long distance cables. A telephone company, communication, service, not product, sort of. Seems we’re back to that. Music as conversations and communication.laugardagur, janúar 20

Sýnir sýnir

Þótt það sé gaman að bulla er kannski rétt að það komi fram hvaða fallega fólk er hér á ferð. Þetta er semsagt Leikfélagið Sýnir á Fiskideginum á Dalvík, 2005. Í blíðskaparveðri, eins og sést á myndunum.

Jamm. Fleiri vídeó. Þetta eru aflóga hippar að leika sér á Dalvík einhvern tímann í lok sjöunda áratugarins. Bjuggu saman í hinni frægu Fiskihjallakommúnu sem blífði í ein 2 ár, en eftir hneykslið í nornamessunni í Skíðadal hrökkluðust kommúnumeðlimirnir hver sína leið. Þetta er svo vitað sé eina myndefnið sem til er af þessu útúrreykta fólki.

(Tónlist: "Two birds" með Charalambides.)

miðvikudagur, janúar 17

Tímamót

Fátt annað kemst að þessa dagana en Tímamót. Semsagt heimildarmyndin mín. Við vinnum nú hörðum höndum..., tja, Hebbi vinnur hörðum höndum við að klippa og ég kíki á og segi nei svona, ekki svona og er bara almennt til leiðinda. Svona er þetta, þegar klippingin stendur yfir finnst manni maður eitthvað svo óþarfur. En allavega, tónlistin komin í hús, snilld frá Eyjólfi Þorleifsyni og félögum hans, og hér er kominn treiler. Jájá barasta.

mánudagur, janúar 15

bækur

Mér þykir vænt um bækur. Ég lít á bókahillurnar heima og fyllist öryggiskennd. Í hvert sinn sem ég kaupi bók, sama hversu ómerkileg hún er, geng ég heim með hana í höndunum í þeirri fullvissu að hún muni hugsanlega breyta lífi mínu á einhvern hátt. Stundum kaupi ég fleiri bækur en ég kemst yfir að lesa. Það er gott. Mér finnst gott að vita til þess að í bókaskápnum séu ókannaðar víddir. Innst inni trúi ég auk þess því að það sé hægt að læra allt af bókum. Þess vegna gladdist ég mjög í morgun þegar Amasónurnar sendu mér póst um það að nýjasta pöntunin mín væri lögð af stað. Það er nefnilega kennslubók í því hvernig á að smíða dúlsímer. Ég geri fastlega ráð fyrir því að sú bók breyti lífi mínu á einhvern hátt. Hvort eitthvað verði úr smíðum er annað mál. Tónlistarnördisminn tekur hér alltént nýja stefnu.

Annars hefur umfjöllun hvalveiðiskáldsins um heimspeki Ziseks yljað intelektúalískum taugaendum að undanförnu. Zisek er auðvitað séní og einhvers konar taugasjúklingur (ef marka má þessa lýsingu), sjálfsagt með túrett eða adhd eða álíka snilligáfuheilkenni. Mæli með því að hann fari að borða lífrænt, taki inn ómegasýrur og bætiefni og ættleiði barn frá malaví. Þá verður lífið betra, sanniði til.

Og svo er ég kolfallinn fyrir Miou Miou, tékkneskum söngfuglum sem syngja á frönsku. Sérstaklega er seinna lagið ávanabindandi (allavega fyrir mig):

Miou Miou - A l'étè de la Saint Martin '68
Miou Miou - Il y a des miracles

mánudagur, janúar 8

hurtadillasVar eiginlega búinn að gleyma að þetta væri til. Nefnilega gerði stuttmynd einu sinni sem hét Hurtadillas. Og beit það í mig að ekki nóg með að skrifa handrit og leikstýra skyldi ég líka semja tónlistina. Fékk lánaða kennslubók í hljómsveitarútsetningu hjá Heimi vini mínum og páraði niður einhvern mínímalískan óskapnað fyrir strengjakvartett, nokkurra ára streð í tónfræði kom að ágætum notum. En þar sem illa gekk að finna í tæka tíð strengjakvartett sem héldi nokkurn veginn lagi þurfti að útunga þessu með sampler. Fyrir vikið er skemmtarahljómurinn talsverður og þurfti að einfalda skorið mikið og taka út alla þessa fínu effekta sem ég hafði ætlað að þræla hljóðfæraleikurunum til að framkvæma (þetta átti að vera svona svolítið draugalegt og grúví). Þetta rifjaðist eitthvað upp fyrir mér í gær, kannski ég láti flakka hérna skásta "lagið", þ.e. það eina sem hægt er að kalla "lag", enda spilað yfir kreditlistanum í lokin. Þetta er blessunarlega stutt. Hlífi ykkur við stuttmyndinni.

Theme from Hurtadillas.

föstudagur, janúar 5

scala

Það hljóta að vera takmörk fyrir því hversu margar útgáfur er hægt að gera af einu lagi. Og belgískur stúlknakór hlýtur að vera algjört óverkill. En merkilegt nokk, þetta er bara nokkuð hjartnæmt.

Scala & Kolacny Brothers - Heartbeats
(upprunalega með Knife, þekktast með José Gonzáles)

fimmtudagur, janúar 4