mánudagur, janúar 15

bækur

Mér þykir vænt um bækur. Ég lít á bókahillurnar heima og fyllist öryggiskennd. Í hvert sinn sem ég kaupi bók, sama hversu ómerkileg hún er, geng ég heim með hana í höndunum í þeirri fullvissu að hún muni hugsanlega breyta lífi mínu á einhvern hátt. Stundum kaupi ég fleiri bækur en ég kemst yfir að lesa. Það er gott. Mér finnst gott að vita til þess að í bókaskápnum séu ókannaðar víddir. Innst inni trúi ég auk þess því að það sé hægt að læra allt af bókum. Þess vegna gladdist ég mjög í morgun þegar Amasónurnar sendu mér póst um það að nýjasta pöntunin mín væri lögð af stað. Það er nefnilega kennslubók í því hvernig á að smíða dúlsímer. Ég geri fastlega ráð fyrir því að sú bók breyti lífi mínu á einhvern hátt. Hvort eitthvað verði úr smíðum er annað mál. Tónlistarnördisminn tekur hér alltént nýja stefnu.

Annars hefur umfjöllun hvalveiðiskáldsins um heimspeki Ziseks yljað intelektúalískum taugaendum að undanförnu. Zisek er auðvitað séní og einhvers konar taugasjúklingur (ef marka má þessa lýsingu), sjálfsagt með túrett eða adhd eða álíka snilligáfuheilkenni. Mæli með því að hann fari að borða lífrænt, taki inn ómegasýrur og bætiefni og ættleiði barn frá malaví. Þá verður lífið betra, sanniði til.

Og svo er ég kolfallinn fyrir Miou Miou, tékkneskum söngfuglum sem syngja á frönsku. Sérstaklega er seinna lagið ávanabindandi (allavega fyrir mig):

Miou Miou - A l'étè de la Saint Martin '68
Miou Miou - Il y a des miracles

Engin ummæli: