laugardagur, júní 30

föstudagur, júní 29

hansi

Annars man ég eftir Hansa hundamorðingja. Reyndar var hann víst enginn hundamorðingi, hundurinn hans tók víst upp á því að stökkva fram af svölum óbeðinn og lifði ekki af. But the name stuck. Hljómsveitin Rotþróin samdi svo óð til hans með viðlaginu:
Hansi hundamorðingi,
hvað hefurðu gert?
Tekið flottasta hundinn minn
og troðið í gegnum trekt!
Það er reyndar ekki hlægjandi að þessu, morð á dýrum (og mönnum, ef út í það er farið) eru ógeðsleg.

Já, annars Ljótu hálfvitarnir á laugardaginn (sem sportar reyndar einum meðlimi Rotþróarinnar) og svo Cannibal Corpse á sunnudaginn. Þar held ég að verði nú sungið (eða þannig) um limlestingar og morð.

föstudagur, júní 8

lesbískar kýr

Við feðgar tókum vídjó í gær í tilefni síðasta skóladags og horfðum saman á þrívíddartölvumyndina Barnyard, þar sem fjallað er m.a. á nærfærinn hátt um ástarsamband tveggja lesbískra kúa. Allavega var allt kýrkyns í myndinni með júgur og spena, greinilega þykir ekki par písí í henni Ameríku að leyfa nautum að hafa sinn pung og sitt tippi. Annað hvort er þetta róttækt innlegg í cross-gender umræðuna eða þá að fólk þarna fyrir vestan er að farast úr vandræðagangi og heimsku. Svona svipað eins og þegar bókasöfn í Bandaríkjunum bönnuðu barnabók vegna þess að þar kom orðið "scrotum" fyrir í lýsingu á hundi.

fimmtudagur, júní 7

0-5

Ég ólst upp í sveit. Fótboltaáhugi var við frostmark á heimilinu og ekki voru neinir leikfélagar í nágrenninu sem hægt var að læra af. Man að ég sá ensku knattspyrnuna í sjónvarpinu og fannst þetta spennandi og reiknaði út að fyrst markmennirnir voru alltaf í grænni peysu væri alveg sama í hvaða mark maður skyti boltanum. Svo byrjaði ég í skóla. Einhvern tímann á fyrstu vikunum var hóað til bekkjarmóts í fótbolta og ég taldi mig nú kunna þetta. Þegar loks náði að sýna mér fram á hvað ég væri að gera vitlaust var það of seint: ég var búinn að skora nokkur sjálfsmörk og fagna þeim í barnslegri sjálfumgleði. Það getur verið harkalegt að reka sig á það sex ára að um suma hluti í lífinu gildi strangar reglur. Áfallið var þvílíkt að ég kom ekki nálægt fótbolta í mörg ár (áhuginn kviknaði aftur þegar ég sá Socrates og Zico). Ég hugsa að íslenska landsliðinu líði eitthvað svipað í dag. Ég hafði þá afsökun að vera bara sex ára. En þeir?